Með eftirfarandi bréfi kynnti ég Samfylkingarfólki í síðustu viku formannsframboð mitt:
Kæri félagi,
Samfylkingin þarfnast breytinga. Samfylkingarfólk hefur krafist landsfundar og formannskjörs sem framkvæmdastjórn hefur ákveðið að flýta til vors. Formaðurinn sendi flokksmönnum bréf þar sem hann segir að þessi alvarlega staða hafi skapast á löngum tíma og sé á sameiginlega ábyrgð okkar. Þar er tæpt á mistökum sem við getum verið sammála eða ósammála um í einstökum atriðum en ég fagna því tækifæri sem skapast hefur til opinnar umræðu í flokknum um þessi mál og mörg fleiri.
Mistök eru til þess að læra af. Kreppa stjórnmála og ekki síst okkar jafnaðarmanna er ekki séríslensk þótt hún djúp sé hér. Hún er sprottin af þeirri tilfinningu fólks að peningaöflin ráði, stjórnmálamenn séu í stjórnmálum bara sjálfs sín vegna og flokkarnir svíki gefin loforð.
Pólitísk forysta
Fjármálakerfið styður ekki við almannahag. Ekki voru gerðar nægilegar breytingar á því í kjölfar hrunsins. Það dugar ekki að bíða eftir evrunni heldur þarf Samfylkingin skýra stefnubreytingu. Við eigum að halda aðildarumsókninni að ESB á lofti en hætta að segja allt sé ósanngjarnt og verði áfram óhóflega dýrt á meðan við höfum okkar veikburða gjaldmiðil. Við megum ekki fresta því að breyta kerfinu þangað til við fáum alvöru gjaldmiðil. Fjármálakerfið afneitar orsökum hrunsins og er á fullri ferð við að endurreisa sig óbreytt.
Vextir eru of háir enda fjármálakerfið of dýrt. Brjóta þarf upp fákeppni á bankamarkaði, aðgreina fjárfestingar- og viðskiptabanka og kveðja séríslenskar lausnir eins og verðtryggingu neytendalána. Við þurfum að vera gagnrýnin á raunávöxtunarkröfuna og skapa aðrar og viðráðanlegri húsnæðislausnir fyrir ungt fólk, setja skorður við þjónustugjöldum banka, tryggja dreift eignarhald þeirra o.s.frv. Vaxandi spilling og þenslumerki eru hvarvetna. Við verðum að koma í veg fyrir að sömu hóparnir eignist bankana aftur og endurheimti ofurvald sitt yfir hverju einasta heimili og fyrirtæki í landinu.
Breytingar á bankakerfinu eru stærsta verkefni stjórnmálanna hér á landi. Þó að Íslandi vegni vel um stund geta ytri skilyrði breyst hratt og kreppur koma aftur og aftur. Núgildandi reglur auka á sjálfkrafa ójöfnuð og sóun, fyrir auðsöfnun örfárra.
Grunngildin
Þó að við höfum ekki náð landi í nægilega mörgum málum á einu kjörtímabili á það fyrst og fremst að vera okkur hvatning til að herða róðurinn. Við þurfum að hverfa aftur til grunngilda jafnaðarstefnunnar og skerpa pólitík okkar. Verkefnin framundan lúta ekki síst að húsnæðismálum, heilbrigðismálum og arðinum af auðlindum landsins.
Félagslegt eignaríbúðakerfi hér á landi var lagt niður um aldamótin og kaupleigukerfi varð ekki að veruleika. Efla þarf leigumarkað en á sama tíma auðvelda launafólki að eignast húsnæði eins og var í verkamannabústaðakerfinu og við þekkjum úr húsnæðissamvinnufélögum á hinum Norðurlöndunum. Það er einfaldlega vond pólitík að eina leiðin fyrir fólk með takmörkuð fjárráð sé annað hvort leigumarkaðurinn eða ævilangt verðtryggt hávaxtalán.
Undirskriftasöfnunin sem tugþúsundir Íslendinga hafa tekið þátt í um heilbrigðiskerfið sýnir okkur líka skýrt hvað er þjóðinni efst í huga. Það er með öllu ólíðandi að skortur hrjái almenna heilsugæslu og spítala á sama tíma og opinbert fjármagn rennur í auknum mæli til einkareksturs. Við þurfum að endurskoða lög um sjúkratryggingar, ræða tilvísanakerfi og aðrar leiðir til að tryggja að almenn heilsugæsla og Landspítalinn fari ekki halloka í samkeppni við einkarekstur um skattpeninga.
Það er fagnaðarefni að við erum ekki lengur eini flokkurinn sem vill að arðurinn af auðlindunum skili sér til þjóðarinnar með markaðslausnum. Við eigum að reka það baráttumál af meira kappi en fyrr, því einkavæðing auðlindanna er ógn við almannahagsmuni og komandi kynslóðir á Íslandi.
Mikilvægasti lærdómurinn
Lengi framan af var Samfylkingin leiðandi í lýðræðisvinnu og hugmyndum um beint lýðræði. Ekki bara í stjórnarskránni heldur líka í íbúalýðræði og beinum áhrifum flokksmanna á stefnuna. Þannig mótuðum við Evrópustefnu okkar fyrir rúmum áratug í allsherjaratkvæðagreiðslu. Við þurfum að opna á ný leiðir fyrir tugþúsundir íslenskra jafnaðarmanna til að hafa bein áhrif á störf og stefnu Samfylkingarinnar. Við vorum fyrst með netprófkjörin en hvernig stendur á því að við höfum ekki þróað leiðir fyrir fólk til að hafa bein áhrif á milli prófkjara?
Fortíðin
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vann einstakt afrek í að snúa hruni í sókn og samkvæmt nýlegri könnun telja flestir hana hafi staðið sig best af forsætisráðherrum síðustu áratuga. Við verðum að nýta bæði reynslu okkar og mistök til að sækja fram með breyttum áherslum. Við verðum að muna að við eigum að vera stór flokkur fólks með svipaða lífssýn en margar ólíkar skoðanir, jafnt á framtíð sem fortíð.
Verkefnið
Örlög okkar eru enn þau sömu og við höfum svo oft glímt við: sundraðir félagshyggjumenn í fjórum flokkum. Rétt eins og þegar við bjuggum til Reykjavíkurlistann og síðar Samfylkinguna, þá er verkefnið nú ekki að takast á um það hvernig það gerðist heldur að breyta því. Við þurfum að vera samfylkingin með litlu s-i því það sem skiptir máli er jafnaðarstefnan en ekki nafn eða skipulag flokks. Þess vegna eigum við að taka fagnandi hugmyndum Pírata um stutt kjörtímabil með vel afmörkuðum verkefnum. Með því lærum við af fyrri reynslu okkar og setjum raunhæf markmið. Við eigum líka að vera tilbúin til hvers konar samstarfs fyrir kosningar, hvort sem það er formlegt eða óformlegt, undir forystu okkar eða annarra og vera tilbúin til að sameinast, skipta um nafn, breyta áherslum, ef það þjónar því markmiði að skapa á ný trúverðugan valkost fyrir jafnaðarmenn.
Formennskan
Í bréfi sínu sagðist formaður flokksins ætla að hugsa hvort hann gæfi kost á sér til áframhaldandi formennsku. Í framhaldi af því lýsti svo varaformaðurinn okkar yfir að hún hygðist ekki gefa kost á sér áfram. Framundan er skemmtileg kosningabarátta um þessi tvö embætti þar sem félagar í Samfylkingunni taka þátt í málefnalegum umræðum og skoðanaskiptum um sameiginleg baráttumál okkar.
Ég hef ákveðið að sækjast eftir því að leiða flokkinn frá landsfundi í vor. Ég skora á alla sem treysta sér í það verkefni og telja sig hafa erindi að gefa kost á sér því mikilvægt er að að fjölbreytt sjónarmið og valkostir verði í boði. Ég gef kost á mér til að breyta áherslum, endurskoða starfshætti, virkja krafta nýrrar kynslóðar og ná sem mestri samstöðu um sameiginlegar hugsjónir við hina í stjórnarandstöðunni.
Baráttukveðja,
Helgi