Uncategorized

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna loksins lögfestur

Uncategorized

Stórt skref var stigið á Alþingi í gær í að tryggja með fullnægjandi hætti réttindi barna á Íslandi. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var loksins lögfestur þegar frumvarp mitt og fleiri þingmanna þess efnis var samþykkt með 46 samhljóða atkvæðum. Lögfesting sáttmálans hefur verið lengi til umræðu og margir aðilar komið að málinu á síðustu árum. Meðflutningsmönnum frumvarpsins nú og fyrri flutningsmönnum sams konar mála ber að þakka fyrir þeirra framlag. Sú samstaða sem náðist um málið er afar ánægjuleg og vonandi fyrirheit um það sem koma skal við löggildingu annarra mikilvægra mannréttindasáttmála, svo sem Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Lögfesting barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Uncategorized

Ég mælti í gær fyrir frumvarpi þess efnis að barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna verði lögfestur á Íslandi. Alþingi samþykkti árið 2009 þingsályktunartillögu þess efnis en lögfestingin hefur enn ekki komið til framkvæmdar en sáttmálinn var staðfestur af Íslands hálfu 1992. Þó svo að börn á Íslandi búi við betri mannréttindi en gerist víðast hvar í heiminum teljum við flutningsmenn frumvarpsins, sem eru auk mín þingmennirnir Ólöf Nordal, Birkir Jón Jónsson, Margrét Tryggvadóttir og Álfheiður Ingadóttir, að mikilvægt sé að tryggja þann lagalega grundvöll sem sem mannréttindi þeirra hvíla á. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er grundvallargagn í því efni.

Vaxtakjör á láni Norðurlandanna

Uncategorized

Ég hef í dag beint fyrirspurn norrænu ríkisstjórnanna um vaxtakjör á láni Norðurlandanna til Íslands.

Vaxtakjörin á láninu til Íslands eru 3 mánaða EURIBOR vextir að viðbættu 2,75 prósentu álagi. Danmörk og Svíþjóð gerðu bæði tvíhliða lánasamninga við Írland þar sem vaxtakjörin eru 3 mánaða EURIBOR vextir að viðbættu 1 prósentu álagi.

Ég spyr ríkisstjórnirnar hvers vegna Íslandi bjóðist lakari vaxtakjör en Írlandi og hvort þær hyggist endurskoða vaxtakjörin á láni Íslands, sérstaklega í ljósi þess að skuldatryggingarálag Íslands sé lægra en Írlands.

Málið verður rætt á þingi Norðurlandaráðs, sem haldið verður í Finnlandi um mánaðamótin.

Hér má lesa fyrirspurnina, sem er lögð fram á sænsku. Smella hér

Löngu tímabær gæludýravegabréf

Uncategorized

Á síðasta þingi lögðum við greinarhöfundar fram öðru sinni frumvarp á Alþingi þess efnis að tekin yrðu upp gæludýravegabréf í stað þess að dýrin þurfi að dvelja í einangrunarstöð í fjórar vikur eftir komuna til landsins. Slíkt verklag er viðhaft í löndum Evrópusambandsins og gerir hundaeigendum kleift að ferðast óhindrað með hunda sína milli landa ESB, að uppfylltum skilyrðum um bólusetningar. Við teljum löngu tímabært að slíkt skref verði stigið á Íslandi enda hefur reynslan af þessu fyrirkomulagi verið góð. 

Afar strangar reglur hafa gilt um innflutning dýra til landsins og ekki að ástæðulausu. Hins vegar er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að tækniframfarir hafa stórbætt gæði bólusetninga, sníkjudýralyfja og mælinga á blóðsýnum. Þá er óvíða í heiminum hugað betur að eftirliti, skráningu og heilbrigði gæludýra en hérlendis. Við teljum því að með upptöku gæludýravegabréfa og öflugu eftirliti sé ekki verið að veikja sjúkdómavarnir landsins. Gerð verður krafa um að heilbrigðis- og upprunavottorð fylgi dýrum sem staðfesti nauðsynlegar bólusetningar. Dýrin verða merkt með sérstakri örflögu sem er tengd við vegabréfið og allar upplýsingar þannig skráðar rafrænt. Þar að auki gerir fyrrnefnt frumvarp ráð fyrir því að hundar sem koma frá löndum þar sem hundaæði fyrirfinnst þurfi áður en þeir koma til landsins að hafa verið bólusettir og það staðfest með blóðsýnatöku að dýrið hafi myndað mótefni gegn hundaæði.

Um síðustu áramót var fyrirkomulagi innflutnings gæludýra til Bretlands breytt, þannig að þar gilda nú sömu reglur og í öðrum ríkjum Evrópusambandsins. Þar var í lok 19. aldar komið á reglum um sex mánaða einangrun fyrir hunda. Árið 2000 var fallið frá þeim ströngu kröfum ef um var að ræða dýr sem kom frá landi innan ESB og krafa um bólusetningu gegn hundaæði uppfyllt. Breytingarnar síðustu áramót þýða að nú er nóg að hundur hafi verið bólusettur gegn hundaæði og er þá heimilt að ferðast með dýrið eftir 21 dags bið. Í aðdraganda þessara breytinga var unnin skýrsla fyrir bresk stjórnvöld þar sem hættan á að hundaæði bærist til Bretlands var metin. Niðurstöðurnar voru þær að búast mætti við einu tilfelli á hverjar 9,8 milljónir innfluttra dýra eða einu tilfelli á hverjum 211 árum. Miðað við reglurnar sem giltu áður mætti búast við einu tilfelli á hverjar 617 milljónir innfluttra dýra eða eitt tilfelli á hverjum 13.272 árum. Þar sem ákvæði frumvarps okkar gera ráð fyrir fyrirkomulagi líku því sem gilti í Bretlandi fyrir breytingarnar, má slá því föstu að hættan á að hundaæði berist til Íslands sé afar hverfandi.

Hér er um mikið réttlætismál að ræða fyrir alla hundaeigendur en núgildandi lög og reglur koma t.a.m. í veg fyrir að þeir sem njóta aðstoðar hjálparhunda geti ferðast óhindrað til og frá Íslandi. Þá hefur íslenska rústabjörgunarsveitin ekki getað farið með sérþjálfaða leitarhunda sína á hamfarasvæði þar sem dvöl í einangrunarstöð hefði mikil áhrif á þjálfun þeirra. Fjölmargir hundaeigendur hafa haft samband frá því að frumvarpið var lagt fram og spurt hvenær þetta geti orðið að lögum. Í mörgum tilvikum er um að ræða Íslendinga sem búa erlendis og huga að flutningum heim til Íslands og eru jafnvel vanir því að geta ferðast með hunda sína allt frá strönd Miðjarðarhafs til Norðurlandanna. Fyrir þessa hundaeigendur sem og fjölskyldur sem vilja taka hundinn með í frí erlendis sparar afnám einangrunar líka töluverðar fjárhæðir en dvöl í einangrunarstöð getur kostað um og yfir 200 þúsund krónur. Þetta er einnig mikið hagsmunamál fyrir innflytjendur hunda en núverandi fyrirkomulag takmarkar mjög möguleika á innflutningi þar sem einangrunarstöðvarnar taka aðeins við dýrum nokkra daga í mánuði.

Nú hafa frumvörp um gæludýravegabréf dagað uppi inn í þingnefnd í tvígang. Það er nauðsynlegt að færa þessa umræðu upp á hærra plan en verið hefur en gamaldags hræðsluáróður hefur einkennt málflutning ýmissa andstæðinga málsins. Má í því sambandi benda á áhættugreiningu vegna innflutnings hunda sem unnin var 2002 og vísað hefur verið til. Þar eru aðeins bornar saman tvær leiðir; annars vegar óbreytt ástand með tilheyrandi einangrun og hins vegar alls engar sjúkdómavarnir. Þar er að finna upptalningu á sjúkdómum sem gætu borist til landsins ef engar varnaðaraðgerðir væru viðhafðar. Sé horft framhjá þeim sjúkdómum sem berast til landsins þrátt fyrir fjögurra vikna einangrun sitja eftir sjúkdómar sem ýmist má fyrirbyggja með bólusetningum eða meðferðum við sníkjudýrum. Það er því nauðsynlegt að ráðst í gerð nýs áhættumats þar sem skoðaðir verða raunverulegir valkostir. Í þessum efnum þurfum við Íslendingar að verða samferða nágrönnum okkar í Evrópu inn í 21. öldina.

Þessi grein sem ég skrifaði með Magnúsi Orra Schram og Ólínu Þorvarðardóttur birtist í Sámi, tímariti Hundaræktarfélags Íslands.

Veiðigjöldin

Uncategorized

Önnur umræða um veiðigjaldafrumvarpið hófst loksins fyrir helgi. Það er löngu orðið tímabært að taka efnislega umræðu um málið og því læt ég ræðu mína úr þinginu fylgja hér:

Virðulegur forseti. Okkur Íslendingum eru gjafir gefnar. Þeirra stærst er trúlegast náttúruauðlindin sem fólgin er í fiskinum í sjónum umhverfis landið. Fyrir fámenna þjóð eins og okkur er hún svo gríðarleg, það lætur nærri að á hverjum einasta degi sé veitt úr þeirri auðlind sem nemur 10 kílóum fyrir hvert mannsbarn í landinu. Það er augljóslega miklu meira en við þurfum sjálf til matar. Hún leggur þann gríðarlega sterka grunn sem er undir íslensku efnahagslífi og tryggir okkur velferð umfram þær þjóðir sem ekki búa að slíkum auðlindum.

Einmitt þess vegna voru það hræðileg mistök að einkavæða þessa auðlind okkar og það hvernig að því var farið eru sennilega einhver stærstu pólitísku mistök sem gerð hafa verið síðustu áratugi á Íslandi. Kvótabraskið, sú auðlegð sem tekin var út úr greininni með því að skuldsetja hana, sá skyndigróði sem fór tilviljanakennt hingað og þangað og á endanum inn í Kauphöllina og varð trúlega forsmekkurinn að því braski og þeim óeðlilegu viðskiptaháttum sem enduðu með því að íslenska efnahagskerfið kollsigldi, voru mistök sem voru afdrifarík og það hefur verið mikilvægt verkefni að leiðrétta þau alla tíð síðan. Það hefur gengið vonum seinna, það hefur tekið hátt í þrjá áratugi að koma því almennilega á dagskrá hér, stundum vegna þess að ekki hefur verið nægilegur pólitískur vilji til að taka á brýnum úrlausnarefnum til úrbóta á kvótakerfinu — sem hefur raunar ýmsa kosti sem fiskveiðistjórnarkerfi — sem sannarlega hefur þurft að taka á, en stundum hefur það stafað af því að menn hafa leitast við að leysa úr mörgum stórum úrlausnarefnum í einu til úrbóta á þessu kerfi.

Þar á ég einkum við að menn hafa gert atrennur að því að leysa það augljósa vandamál sem er að almenningur á Íslandi nýtur ekki eðlilegs arðs af auðlind sinni og leysa fiskveiðistjórnarþátt málsins á sama tíma. Hvort þessara verkefna um sig er gríðarstórt og bæði eru afar mikilvæg. Til þessa hefur ekki tekist að reyna að leysa þau bæði í einu. Ég hef þess vegna verið þeirrar skoðunar um nokkurt skeið að rétt væri að skilja að þessi úrlausnarefni og fást við þau hvort í sínu lagi, meðal annars vegna þess að ég hef verið þeirrar sannfæringar að mikill meiri hluti íslensku þjóðarinnar, fólk í öllum stjórnmálaflokkum, væri í raun sammála um að það væri hverjum manni augljóst að almenningur nyti ekki eðlilegs arðs af auðlindinni, að sá einkaréttur sem ákveðnir aðilar njóti í aðgangi að auðlindinni skapi, ekki síst nú á allra síðustu árum, svo gríðarlega mikinn arð að það sé fullkomlega óeðlilegt annað en að fólkið í landinu, sem hefur þurft að axla verulega miklar byrðar í kjölfar hrunsins, mátt þola kaupmáttarrýrnun o.s.frv., fái að njóta góðs af þeim gríðarlega gróða sem er sem betur fer í þessari undirstöðuatvinnugrein.

Hitt er síðan flóknara úrlausnarefni og kannski ólíkt fleiri sjónarmiðum, það er hvernig best sé að haga fiskveiðistjórnarþætti málsins. Þess vegna beitti ég mér fyrir því þegar hér var lagt fram frumvarp í sjávarútvegsráðherratíð Jóns Bjarnasonar að þar var sett inn sérstakt bráðabirgðaákvæði, ég hygg að það hafi verið nr. 8, sem laut einmitt að því að skipa skyldi nefnd í því skyni að gera tillögur um með hvaða hætti skattleggja mætti umframhagnað í sjávarútvegi, auðlindarentuna. Og þó að það frumvarp yrði ekki að lögum varð það eigi að síður úr að skipuð var nefnd til að fara yfir það viðfangsefni. Ég sat í þeirri nefnd sem fulltrúi forsætisráðherra ásamt Indriða H. Þorlákssyni, fulltrúa þáverandi fjármálaráðherra sem nú er efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ásamt hagfræðingi úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

Það er fagnaðarefni að mínu viti að við höfum núna fengið inn í þingið, ólíkt því sem var í fyrra sinnið, tvö þingmál til að fást við, annars vegar það sem hér liggur fyrir og snýr að veiðigjaldinu og byggir að hluta til á vinnu þeirrar nefndar sem ég vísaði til áðan. Hins vegar er til meðhöndlunar í þinginu frumvarp til laga um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þetta eru tvö úrlausnarmál og ég held að það hafi verið farsælt að leggja þau fram sem tvö aðskilin mál vegna þess að þetta eru aðskilin viðfangsefni. Ég fullyrði að þrátt fyrir langar ræður í dag sé meira og minna samhljómur í þinginu um það mál sem er til umfjöllunar núna, þ.e. veiðigjaldamálið. Eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið á því í hv. atvinnuveganefnd þar sem gjaldið hefur verið lækkað um 6–7 milljarða kr. á ársgrundvelli, í það mesta kannski fyrir minn smekk, niður í 15 milljarða, séu þau sjónarmið sem uppi eru í þinginu í öllum aðalatriðum nokkuð samhljóða.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað um að þeir teldu eðlilegt að veiðigjöld næmu um 10–12 milljörðum kr. og hver er þá ágreiningurinn í þessu máli? Hann er ekki um það hvort það eigi að greiða veiðigjöld, nei, sá ágreiningur er ekki fyrir hendi. Hann er ekki um það hvort greiða eigi umtalsverð veiðigjöld, nei. Menn eru sammála um að miðað við þá gríðarlega sterku afkomu sem er í sjávarútveginum núna, nærfellt 80 milljarða framlegð á ári eða sem nemur hátt í einni millj. kr. á hvert heimili í landinu, sé sjálfsagt og eðlilegt að sjávarútvegurinn leggi ríkulega til til að létta byrðarnar í samfélaginu og koma í veg fyrir að fólkið í landinu þurfi að greiða meiri skatta en þegar er orðið, enda er nóg orðið. Það er í sjálfu sér ekki nýmæli að stjórnarandstaðan hafi hugmyndir um að gjaldið ætti kannski að vera eilítið lægra en stjórnarmeirihlutinn telur, það er ekki ágreiningur um nein grundvallaratriði. Menn eru sammála um grundvallaratriðin, það á að greiða umtalsvert veiðigjald og það er bara eðli lýðræðisins að stjórnarmeirihluti fái því framgengt að það sé ívið meira en minna sem tekið er í gjöld af einni atvinnugrein. Meðan þessi meiri hluti er í þinginu er eðlilegt að minni hlutinn hér láti stjórnarmeirihlutanum það eftir að leggja á gjöld meðan þau eru ekki út úr öllu korti eða setja atvinnuveginn á hausinn eða annað þess háttar. Og þegar ekki er meiri munur en hér um ræðir, 10–12 milljarðar á aðra höndina hjá stjórnarandstöðunni og um 15 milljarðar hjá stjórnarmeirihlutanum, er augljóslega um að ræða bitamun en ekki fjár. Þess vegna segi ég að það er í öllum aðalatriðum samhljómur í þinginu um meginatriðin í þessu máli, um veiðigjaldið.

Það er erfitt að tala um milljarða og það er flókið að tala um prósentur. Ég held þess vegna að við eigum að einfalda umræðuna og tala bara um kíló. Við vitum öll hvað kíló er, það hafa allir farið út í fiskbúð og keypt sér kíló af fiski. Hvað er þetta ógurlega veiðigjald sem sumir hafa með himinskautum farið um og lýst yfir að það muni setja sjávarútveginn á hausinn? Jú, það er fast veiðigjald annars vegar sem nemur tæpum 10 krónum fyrir hvert kíló sem veitt er, það er nú allt og sumt, nánar tiltekið 9,50 kr. Það er það gjald sem sjávarútvegurinn mun greiða óháð afkomu fyrir aðganginn að auðlindinni. Ég held að allir geti verið sammála um að enginn mun setja fyrir sig gjald upp á 9,50 kr. á hvert kíló sem sækja á í sjó. Það munu allir útgerðarmenn í landinu vera tilbúnir til þess að sækja sjó á þeim kjörum og það munu fleiri til vilja komast í þau forréttindi að hafa þann aðgang að auðlindinni fyrir 9,50 kr.

Hvað er það svo sem bætist við með sérstöku veiðigjaldi nú þegar árferði í sjávarútveginum er með eindæmum? Nú þegar tunnan af norðursjávarolíu er sem betur fer komin undir 100 dollara? Nú þegar yfir 100 þúsund tonn af makríl hafa synt inn í lögsöguna og orðið okkur gríðarlega mikill fengur? Nú þegar við sjáum fram á aflaaukningu í haust í þorski ef að líkum lætur, jafnvel 20 þúsund tonn? Nú þegar gengi íslensku krónunnar er í sögulegu lágmarki sem hefur gríðarleg áhrif á afkomu í sjávarútveginum? Jú, þá er til þess ætlast að greinin skili rétt liðlega 20 krónum í viðbót fyrir hvert kíló, (Gripið fram í.) kannski 22. (Gripið fram í.) 15 milljarðar, virðulegur þingmaður Einar K. Guðfinnsson, deilt með um 450 þorskígildistonnum mundi nema svo sem eins og 33 kr. samanlagt úr fasta veiðigjaldinu og hinu sérstaka. Látum það liggja á milli hluta, þó að það væru 40 kr.

Ef við auglýstum nú á sunnudaginn í Morgunblaðinu, sem ég veit að hv. þingmanni þykir vænt um, eftir aðilum sem væru tilbúnir til að sækja sjó upp á þau býtti að greiða 40 kr. fyrir hvert þorskkíló sem þeir draga að landi yrðu umsóknirnar margfalt fleiri en heimildirnar sem við gætum boðið þeim. Markaðurinn mundi verðleggja þetta miklu hærra. Fyrir þessar heimildir hafa menn greitt til eignar í aðdraganda hrunsins allt að 4.200 kr. Leiguverð hefur jafnvel hlaupið á hundruðum króna og verið algjörlega óhæfilegt. Ég gæti aldrei mælt með því að slík gjöld yrðu innheimt í ríkissjóð af þeim sem stunda sjóinn. Það verður auðvitað að gæta að því að í sjávarútvegi sé góð afkoma, mikill hagnaður og að þar sé aukin hagkvæmni með fjárfestingu o.s.frv. En þegar framlegðin er nærfellt 80 milljarðar eru 15 milljarðar í veiðigjöld alls ekki óhófleg. Það sér það hver maður í hendi sér að það mun enginn fúlsa við því við þær aðstæður sem nú eru í genginu, í aflabrögðum, í olíuverðinu, að fá að veiða fisk upp á þau býtti.

Þess vegna er auðvitað enginn raunverulegur ágreiningur um þetta efni í þinginu. Við heyrum hins vegar frá stjórnarandstöðunni að þetta gæti verið næstum því í lagi ef ekki yrðu gerðar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Hvað eru menn þá að segja? Þá eru menn að segja að í því kerfi sem við rekum í dag sé mikil hagkvæmni, þar sé mikill arður og það sé sjálfsagt og eðlilegt að greiddar séu verulegar fjárhæðir af þeim arði inn í sameiginlega sjóði landsmanna sem geta dugað okkur til að reka heilu spítalana, heilu skólastofnanirnar í samfélaginu og stutt við þróun og fjölgun starfa í samfélaginu, ekki veitir af, og fjölmörg önnur þörf verkefni. Þeir leggja áherslu á að til þess að það sé hægt sé gríðarlega mikilvægt að ekki sé dregið úr hagkvæmninni í greininni.

Því sjónarmiði deili ég með hv. þingmönnum. Ég held að þingið verði að ganga mjög varlega fram í þeim breytingum sem það gerir á fiskveiðistjórnarkerfinu einmitt til þess að draga ekki úr hagkvæmni þess, til þess að draga ekki úr arðinum í sjávarútveginum, til þess að þar sé nóg til skiptanna. Ef við stöndum rétt að málum er nóg til skiptanna fyrir alla. Sjómenn búa sem betur fer við miklu betri kjör en þeir gerðu um langt árabil. Útgerðarmenn hafa verið að græða á tá og fingri og almenningur getur sannarlega notið ríkulegra ávaxta af þessari undirstöðuatvinnugrein ef við stöndum vörð um arðsemina. Ég hvet hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar til að gera þá frekar ágreining um hitt þingmálið, um fiskveiðistjórnarmálið, og setja fram sjónarmið sín um með hvaða hætti megi tryggja sem best hagkvæmnina í fiskveiðistjórninni, en láta af þeirri uppgerðarandstöðu sem ég vil segja að sé við þetta mál.

Það er eðlilegt að hreyfa sjónarmiðum um að menn telji að veiðigjöld eigi að vera nokkrum milljörðum lægri, 10–12 milljarðar í stað 15, eins og þingmennirnir hafa haldið fram, en það er ekki neitt meginmál. Það er ekki mál til þess að halda þinginu í gíslingu eða stunda málþóf um í marga daga út af. Það er heldur ekki svo að þetta frumvarp, jafnvel í sinni fyrri gerð, hefði sett hér allt á hliðina. Það tók þó því miður ekki tillit til krókaaflamarkskerfisins, litla kerfisins sem kallað er, þar sem kaup og sala á aflaheimildum hófst ekki fyrir alvöru fyrr en eftir 2004. Það þýðir að mörg smærri fyrirtæki eru skuldsett af kvótakaupum og við verðum að horfast í augu við það, Íslendingar, að það tekur tíma að vinda ofan af því sem hefur verið að byggjast upp eftir einkavæðingu kvótakerfisins. Við verðum að horfast í augu við að ýmsir einstaklingar réðust í fjárfestingar nýverið og eru enn skuldsettir vegna þeirra. Það er þess vegna fagnaðarefni að atvinnuveganefndin hefur tryggt að tekið verður tillit til skulda sem menn hafa stofnað til á þessari öld vegna kvótakaupa og verður gjaldið aðlagað að því.

Hvað varðar áhrif þessa á það að gera fyrirtæki ógreiðslufær eða að mikið tjón verði í viðskiptabönkunum vegna frumvarpsins hefur í fyrsta lagi farið fram fjárhagsleg endurskipulagning í bönkunum á fjölmörgum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Það þýðir að þau hafa verið núllstillt sem kallað er, þ.e. skuldir þeirra hafa verið lækkaðar í fjárhæð sem talið er að þau geti ráðið við við óbreyttar aðstæður, muni rétt merja það. Hvað þýðir það? Það þýðir að ef eitthvað breytist í þeim forsendum eru þau fyrirtæki ógjaldfær. Ef veiðigjaldið væri hækkað um 1 milljarð eða 2 milljarða eða upp í 10 eða 12, eins og minni hlutinn í þinginu hefur léð máls á, væru þessi fyrirtæki ógjaldfær af því að þau voru endurskipulögð miðað við miklu lægra veiðigjald.

Hvað gerist þá? Fara þessi fyrirtæki á hausinn? Í langfæstum tilfellum. Í langflestum tilfellum eru það hagsmunir lánardrottnanna að taka fyrirtækin aftur til fjárhagslegrar endurskipulagningar, færa skuldir þeirra niður og þar með yrðu áhrifin af frumvarpinu til þess að lækka skuldir sjávarútvegsins, sem er í sjálfu sér jákvætt fyrir sjávarútveginn. Það þýðir að kröfuhafarnir — auðvitað eru það að verulegu leyti erlendir aðilar — í viðskiptabankana þurfa að sætta sig við eitthvað minni endurheimtur. Þeir verða að sætta sig við að þeir geta ekki skuldsett íslenska sjávarútveginn jafngríðarlega og þeir höfðu áður ætlað, en ástæðan fyrir því er að þeir hafa skuldsett hann ótæpilega.

Þessar fjárhæðir eru ekki af neinum þeim stærðargráðum að þær ógni viðskiptabönkunum eða stöðugleika fjármálakerfisins. Við í efnahags- og viðskiptanefnd fengum gesti frá bönkunum til að fara yfir þetta með okkur á meðan frumvarpið var í sinni upprunalegu mynd. Þá var þegar ljóst að það mundi kalla á umtalsverða endurskipulagningu hjá fjölmörgum fyrirtækjum en mundi sannarlega ekki ríða bönkunum á slig, fjarri því. Og nú, eftir að gjaldið hefur verið lækkað verulega á milli umræðna, er ljóst að áhrifin verða enn þá minni.

Rætt hefur verið um hversu lengi við eigum að halda áfram inn í sumarið hér í þinginu. Það er einlæg sannfæring mín að við eigum að ljúka því máli sem hér er fyrir. (Gripið fram í.) Sú staðreynd að íslenskur almenningur hefur ekki fengið eðlilegt endurgjald af meginauðlind sinni og að gróðinn í greininni og stundum sóunin í meðferð þeirra auðæfa sem tekin hafa verið út úr greininni og hún skuldsett fyrir, hefur verið með þeim hætti að meðan við tökum ekki á því verður aldrei friður um starfsskilyrði sjávarútvegsins. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt og ég held að útvegsmenn um land allt séu sér vel meðvitaðir um mikilvægi þess að hér fáist sæmileg sátt um greinina. Sú sátt fæst með því að almenningur fái eðlilega hlutdeild í arðinum.

Það var að minnsta kosti reynsla mín af viðbrögðum Útvegsmannafélags Reykjavíkur við hinu fyrra frumvarpi að það var ekki það að ætlast væri til þess að þeir legðu meira í sameiginlega sjóði sem truflaði þá útvegsmenn. Það sem truflaði þá útvegsmenn var að ætlunin var að taka af þeim veiðiheimildir, að þá áttu einhverjir aðrir að veiða fiskinn sem þeir hafa veitt hingað til, það var þeirra hjartans mál. Það eru auðvitað gild sjónarmið og þau sjónarmið hljóta að koma til umræðu við umfjöllunina um fiskveiðistjórnarfrumvarpið. En ég hvet til þess að við ljúkum umræðu um þetta mál og tökum stærra málið á dagskrá og kappkostum að ganga þannig frá því að áfram verði tryggð eðlileg arðsemi og hagkvæmni í sjávarútvegi.

Framsóknarflokkurinn í málþófi gegn eigin kosningaloforðum!

Uncategorized

Ég átti orðastað við formann Framsóknarflokksins á Alþingi í gær um þá stöðu sem flokkur hans er kominn í. Ný stjórnarskrá frá sérstöku stjórnlagaþingi, auknar þjóðaratkvæðagreiðslur og jöfnun vægis atkvæða voru meðal kosningaloforða Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar. Nú er flokkurinn lagstur í málþóf gegn þessum loforðum sínum! Þegar sjálfstæðismenn héldu þinginu í gíslingu með málþófi sínu fyrir kosningarnar 2009 var annað hljóð í framsóknarmönnum. Þá sagði Framsókn að Sjálfstæðisflokkurinn stæði í málþófi í stjórnarskrármálinu því að hann óttaðist það eins og pestina að fólkið fengi valdið. Hver er það sem óttast vald fólksins nú?

Hægt er að sjá þessi orðaskipti okkar Sigmundar Davíðs á YouTube með því að smella hér.

Framtíðarskipan fjármálakerfisins

Uncategorized

Efnahags- og viðskiptaráðherra kynnti í mars skýrsluna Framtíðarskipan fjármálakerfisins. Umræður um hana fóru fram á Alþingi í gær og talaði ég þar fyrir hönd Samfylkingarinnar. Skýrslan er mjög þarft og gott innlegg í umræðuna um hvernig fjármálakerfi við viljum byggja á Íslandi til framtíðar. Hér fylgir ræða mín úr umræðunum:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir skýrsluna og þá greinargerð sem hann flutti fyrir henni hér. Ég fagna því að hún er komin fram og hlakka til sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar að fá að taka hana á dagskrá nefndarinnar og til umfjöllunar í framhaldi af þeirri umræðu sem verður hér í dag.

Það er mikilvægasta verkefni Alþingis eftir hrun að girða sem best fyrir að hér verði viðlíka efnahagshamfarir og urðu haustið 2008. Það verður ekki gert nema taka með heildstæðum og vönduðum hætti á fjármálastöðugleika og stöðugleika í efnahagsmálum okkar á fjölmörgum sviðum. Sú skýrsla sem við höfum hér til umfjöllunar er góður grunnur fyrir þá umræðu og fyrir frekari vinnu í þessum efnum.

Þar þurfum við Íslendingar auðvitað að taka kannski fyrst ákvörðun um hvort ætlun okkar er að hafa hér íslenskt bankakerfi eða hvort við ætlum að vera hluti af hinum evrópska fjármálamarkaði. Það er eindregin skoðun mín að ef við Íslendingar ætlum að taka virkan þátt í hinum evrópska fjármálamarkaði sýni reynsla okkar og lærdómur okkar af því sem gerst hefur, að við verðum þá jafnframt að vera virkir þátttakendur í því eftirlitskerfi, stjórnkerfi og stjórnmálakerfi sem er yfir þeim markaði.

Það að ætla að tefla á tvær hættur á 500 milljóna manna markaði fyrir 300 þús. manna samfélag með banka sem geta hæglega vaxið því langt yfir höfuð og ala í brjósti sér þá draumsýn að hér geti einhvern tímann verið eftirlitsstofnanir sem geti haft nægilegt aðhald og eftirlit með risastórum fjármálastofnunum á hundraða milljóna manna markaði, er uppskrift að sömu ógæfunni og við áður rötuðum í. Þess vegna er mikilvægt að við ákveðum að hafa annaðhvort lítið íslenskt bankakerfi og eftirlit í samræmi við það eða að við verðum hluti af hinum evrópska markaði og aðilar að þeim eftirlitsstofnunum sem þar er verið að setja upp og þróa. Eins og svo glögglega kemur fram af þessari góðu skýrslu er það sannarlega ekki séríslenskt verkefni. Þó að okkar verkefni sé kannski stærst vegna þess hversu hrikalega illa við fórum að ráði okkar er það engu að síður alþjóðlegt verkefni að efla og treysta fjármálastöðugleika. Þess vegna hafa menn þróað Basel III reglurnar og vinna að innleiðingu þeirra um heim allan, meðal annars hér.

Aðrar þjóðir urðu líka fyrir því að vátryggingarsjóðir tryggingafélaganna voru tæmdir. Þess vegna er það sem menn hafa þróað Solvency II reglurnar um tryggingamarkaði til að reyna að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig. Auðvitað er þetta alþjóðleg viðleitni. Markaðirnir sem menn starfa á eru sífellt að verða alþjóðlegri og ef við ætlum að vera hluti af þeim verðum við að vera hluti af þeim eftirlitsstofnunum sem þar eru.

Við hljótum líka, við endurskipulagningu fjármálamarkaðar okkar, að leita leiða til að tryggja einhverja fjölbreytni og sem mesta samkeppni. Það er algerlega óviðunandi hversu dýrt fjármálakerfi okkar er, það hefur ekki bara verið ógæfusamt heldur líka dýrt fyrir neytendur. Það hefur verið dýrt í rekstri og haldið uppi miklum vaxtamun og það er mikilvægt fyrir okkur, fyrir neytendur í landinu, að ná niður þessum vaxtamun. Það gerum við best með því að reyna að glæða samkeppni. Þegar aðeins eru þrír bankar í landinu sem halda um 97% innstæðnanna er ekki auðvelt um vik.

Þess vegna er líka mikilvægt að efla aðhald Samkeppniseftirlits að þessari starfsemi og skapa skilyrði fyrir ný fjármálafyrirtæki og minni fjármálafyrirtæki til að starfa til hliðar við hin stóru.

Við þurfum sannarlega að endurskipuleggja eftirlit okkar og það er býsna góð umfjöllun í skýrslunni um hlutverk seðlabanka, fjármálaeftirlits og þá vinnu sem hefur farið fram alþjóðlega í því. Þar höfum við Íslendingar líka unnið talsvert mikla vinnu við að fara í gegnum það að hvaða leyti við í okkar fjármálaeftirliti uppfyllum hin alþjóðlegu viðmið. Gerð hefur verið áætlun um hvernig eigi að ljúka við að uppfylla þau viðmið sem ekki eru uppfyllt. Ég er almennt þeirrar skoðunar að affarasælast sé að við höfum eftirlit með kerfisáhættunni í Seðlabankanum en leggjum þeim mun ríkari áherslu á neytendavernd á fjármálamarkaði í starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Því miður hefur verið pottur brotinn í neytendavernd á fjármálamarkaði og það dreifst víða og ábyrgðarskipting allt of óljós og það er sannarlega eitt af því sem við þurfum að taka á því að hér hefur því miður margvíslegt verið gert á fjármálamarkaðnum, m.a. í erlendu lánunum, sem hefur reynst ólöglegt og gengið gróflega gegn hagsmunum neytenda án þess að nokkurt eftirlit hafi sinnt skyldu sinni í þeim efnum.

Það er ekki aðeins eftirlitið sem við þurfum að huga að, við þurfum kannski fyrst og síðast í þessari umræðu að huga að því hvernig við getum reglað markaðinn og reynt að koma í veg fyrir að á eftirlitið reyni. Það verður auðvitað aldrei að fullu gert því að fjármálakreppur koma og fara og þær koma aftur. Það má ganga að því nokkuð vísu, en vonandi koma þær aldrei í neinni viðlíka stærðargráðu og bankahrunið mikla á Íslandi 2008 því að það verður ekki aðeins stórt í sögulegu samhengi okkar heldur verður það alla tíð gríðarlegt í alþjóðlegu samhengi líka.

Hvernig getum við gert það? Jú, við getum gert það með því að koma sem mest í veg fyrir að það reyni á eftirlitið, að það reyni á stjórnmálin og inngrip á fjármálamarkaðinn. Það gerum við best með því að setja leikreglur fyrir fram, einmitt núna áður en fjárfestingarbankastarfsemin byrjar að vaxa, áður en ofvöxtur hleypur í einstakar greinar. Við verðum að setja reglur, lausafjárreglur, lánsfjárreglur og fjármögnunarreglur sem bæði tryggja eðlilegt eigið fé í verkefnum og tryggja hámark á hinum ýmsu sviðum sem varna því að hagkerfið ofhitni og komi í veg fyrir bólur og þau hrun sem þeim fylgja.

Það er trúlega eitt af mikilvægustu verkefnunum okkar ásamt með því að skilja á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi og tryggja dreift eignarhald í bönkum og fjármálastofnunum þannig að það gerist aldrei aftur að örfáir menn geti leikið sér að viðskiptabönkum þjóðarinnar eins og þeir væru þeirra einkamál með þeim skelfilegu afleiðingum fyrir fjármálastöðugleika og almannahagsmuni sem það hafði.