Harður leikur

blog

Stundum verða stjórnmálin okkur öllum sem við þau störfum til minnkunar. Þá er eins og síðri hvatir okkar verði alsráðandi, s.s. hégómleiki, hefnigirni, sviksemi og græðgi. Rógsherferðir og persónuníð skreyta svo drullukökuna.

Það var annarskonar og betri kaka í boði þegar Davíð Oddsson hélt hátíð sína í Tjarnarsal ráðhússins á fimmtudag í síðustu viku. Þar á hann að hafa þakkað þáverandi forseta borgarstjórnar, Ólafi F. Magnússyni, fyrir að veita sér og sínum afnot af ráðhúsinu á afmælinu, enda gott að eiga góða að. Bankastjórinn hefur nokkrum dögum síðar orðið jafn hissa og aðrir þegar í ljós kom hver áhrínsorð þetta voru. Dramatískur fyrirboði í anda Íslendingasagnanna eins og annað þessa dagana. 

Það þarf ástæðu

Viku síðar gekk reiðialda yfir ráðhúsið og um kvöldið komst ég að því að dóttir mín hafði með menntaskólafélögum sínum farið þangað að mótmæla. Hún vildi að ég setti lög um það að menn þyrftu að hafa ástæðu til að rjúfa stjórnarsamstarf. Hún er föðurbetrungur, því sjálfur hafði ég verið upptekinn af ýmsum aukaatriðum málsins. Því þó á slíkri lagasetningu séu augljós vandkvæði er mergurinn málsins sá að Ólafur F. Magnússon, læknir og borgarstjóri, hefur ekki með sannfærandi hætti fært fram neinar gildar ástæður fyrir því að svíkja samstarfsmenn sína. Fyrirvaralaust og án þess að gera grein fyrir alvarlegum málefnaágreiningi eða úrbótum sem hann krefðist, sveik hann sitt heit. Það verður ekki réttlætt með því að kannski hafi aðrir ætlað að svíkja.  Og samábyrgir þessu urðu sjálfstæðismenn með því að launa honum brest sinn með æðsta og mikilvægasta embætti Reykjavíkurborgar, óverðskuldað.

Það var gott að eiga Dag að oddvita þegar óheilindin voru afhjúpuð, svo saklaus sem hann augljóslega var af þeim. Það gaf ungu fólki einhver ærlegheit að trúa á mitt í ruglinu og það er mikilvægt. Alvarleiki málsins er nefnilega trúnaðarbrestur stjórnmála við almenning sem enn rýrir tiltrú á stjórnmálum og var ekki á bætandi.

Við þurfum að hafa í huga að í löndum þar sem traust á stjórnmálin hverfur fylgir almennt siðferði og traust manna á meðal fljótt á eftir. Mestu forréttindin við að vera Íslendingur er einmitt það traust, gagnkvæm virðing, umburðarlyndi og samkennd sem þetta litla samfélag á og um það þurfum við að standa vörð.

Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var mynduð bundu margir vonir við að nýtt skeið væri runnið upp í íslenskum stjórnmálum. Breiður og sterkur meirihluti styrkti miðjuna í stjórnmálunum og starfað að hagsmunum venjulegs fólks. En víkjandi yrðu gömlu átakastjórnmálin og sérhagsmunabröltið.

Bingi

Á hinum sögulega borgarstjórnarfundi axlaði Björn Ingi Hrafnsson, Framsóknarflokki, skinn sín og hætti í borgarstjórn. Í stuttri viðdvöl hans þar hefur ítrekað verið rætt um óheilindi, refskap, spillingu o.þ.h. þegar hann hefur verið annarsvegar. Það hefur þó farið nokkuð eftir því með hverjum hann hefur starfað hverju sinni, hvernig menn í öllum flokkum hafa um hann talað og oft ótrúlegur viðsnúningur hjá sama fólkinu í ummælum eftir því hvort hann var að vinna með þeim eða ekki. Ræður sjálfstæðismanna á fundinum voru þannig næsta ótrúlegt lof eftir lastið síðustu 100 daga. Kannski brottför Binga eigi að verða okkur stjórnmálamönnum nokkur lærdómur um að af meiri hófsemi og stillingu megum við stundum fjalla hver um annan. Það yrði kannski til að auka eitthvað tiltrú þá sem brýnast er að reisa.

Pistillinn birtist í 24 stundum 26. janúar

Vaxandi ójöfnuður

blog

Engum blöðum er um það að fletta að ein helsta ástæða þess að kjósendur höfnuðu áframhaldandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var óánægja með vaxandi ójöfnuð og kjör hinna verst settu. Um það vitnar pólitísk umræða undanfarinna ára og margháttaðar upplýsingar sem staðfest hafa það.

Það var þess vegna mjög mikilvægt fyrir nýja ríkisstjórn að leggja strax í stjórnarsáttmálanum áherslu á bætt kjör lífeyrishafa, sem sannarlega var ekki vanþörf á. Enn betra var að því skyldi fylgt eftir með jafn myndarlegum hætti og raun ber vitni strax í fyrstu fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar. Og það eru ekki aðeins fjármunirnir sem þar skipta máli heldur líka brýn mannréttindamál, eins og afnám tenginga við tekjur maka og aukið frelsi til sjálfsbjargar. Báðir stjórnarflokkarnir lögðu áherslu á kjör lífeyrisþega í kosningabaráttunni og því mikilvægt fyrir trúverðugleika þeirra að láta verkin sýna merkin, þó þetta séu auðvitað bara fyrstu skrefin.

Kjarasamningar

En það er miklu fleira fólk en lífeyrishafar sem býr við kröpp kjör og þarf að rétta sinn hlut. Það kemur auðvitað glöggt fram þessa daga í tengslum við kjarasamninga. Bæði lágtekju- og meðaltekjufólk hefur þurft að horfa uppá vaxandi tekjumun og breytingar á skattkerfi hafa miðað að því að létta sköttum af hátekjufólki og eignamönnum. Skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun sem leitt hefur til þess að fólk með mjög lágar tekjur greiðir talsvert í skatta. Þá dró bæði úr vaxta- og barnabótum á síðustu kjörtímabilum. Á þetta höfum við í Samfylkingunni  lagt áherslu í okkar málflutningi.

Í stjórnarsáttmálanum hafa flokkarnir náð saman um að stefnt skuli að skattalækkunum á kjörtímabilinu, en það mun auðvitað að miklu leyti ráðast af því svigrúmi sem verður í ríkisfjármálum til þess. Sérstaklega er þar vísað m.a. til hækkunar persónuafsláttar og aukinna barnabóta til hinna tekjulægstu, o.fl. Það verður spennandi að sjá hve mikið svigrúm við munum hafa til að fylgja þessum viljayfirlýsingum eftir og hvernig til tekst almennt.

Barnabæturnar eru hér ekki síst mikilvægar því í skýrslu sem ég kallaði eftir frá forsætisráðherra árið 2006, kom fram að um fimm þúsund börn ælust upp á heimilum sem væru undir fátæktarmörkum. Þetta kom okkur mörgum á óvart og ég held að það sé þverpólitísk samstaða um að huga þurfi sérstaklega að þessum hópi. Það athyglisverða í skýrslu forsætisráðherra var að á hinum Norðurlöndunum var ekki mikill munur á stöðu fátækra barnafjölskylda fyrir skatta. En þegar skattar og bætur voru teknar með tókst hinum Norðurlöndunum að draga mun meira úr fátækt barna en okkur, svo munaði allt að helmingi. þannig eigum við augljóslega sóknarfæri í skatta- og bótakerfinu að þessu leyti.

Tillögur ASÍ

Eins og kunnugt er hefur ASÍ sett fram tillögur um skattalækkanir fyrir meðal- og lágtekjufólk. Þær miða að því að mæta einmitt þeim hópum sem við í Samfylkingunni höfum lagt áherslu á og eru allrar athygli verðar. Tillagan er um barnabætur og auka persónuafslátt fyrir lágtekjufólk uppá 20 þúsund á mánuði, sem muna myndi verulega um. Slík tillaga hefur þann kost að vegna þess að hún nær ekki til allra eins og almenni persónuafslátturinn, þá verður hún ekki eins dýr. Gallinn er hins vegar sá að það flækir skattkerfið, sem er umdeilt og því geta fylgt talsverð jaðaráhrif. Þó ekki hafi verið fallist á tillögurnar eins og þær voru fram settar, er það eftir sem áður brýnasta verkefnið næstu vikur að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Því þurfa að nást samningar um kjarabætur hinna lægst launuðu og auðvitað mun ríkisstjórnin vilja greiða fyrir því eins og kostur er.

Ár Samfylkingarinnar

blog

Fyrir rúmum áratug fór ný kynslóð að knýja á um sameiningu jafnaðarmanna. Margir höfðu reynt það á undan henni og alla síðustu öld beið draumurinn á rauðu ljósi en brast hvað eftir annað. Birtar voru auglýsingar í blöðunum undir yfirskriftinni „Ungt fólk krefst árangurs“. Í borginni var fyrirstaðan lítil. Eftir áratuga áhrifaleysi var vilji almennings ljós og knúði loks fram stofnun Reykjavíkurlistans. Um aldamótin var Samfylkingin svo stofnuð úr fjórum flokkum, ekki síst á þeirri röksemd að sundrung jafnaðarmanna hefði leitt til viðvarandi áhrifaleysis þeirra.

Nú, sjö árum síðar, er flokkurinn kominn í ríkisstjórn, leiðir höfuðborgina, hefur hreinan meirihluta í Hafnarfirði, á aðild að meirihluta á Akureyri, o.s.frv. Samfylkingin er ekki aðeins orðin burðarflokkur í ríkisstjórn, eins og formaðurinn hét, heldur í íslenskum stjórnmálum. Það var einmitt á þessu ári sem Samfylkingin naut ávaxtanna af starfi undanfarinna ára með myndun ríkisstjórnar og yfirtöku borgarinnar. Eftir að hafa átt á brattan að sækja snéri flokkurinn vörn í sókn með nýrri umhverfisstefnu, fagra Íslandi. Í kjölfarið fylgdi þung áhersla á jöfnuð, málefni barna og lífeyrishafa og jafnrétti kynjanna, sem saman gerðu Samfylkinguna að trúverðugri breiðfylkingu jafnaðarmanna. Þó að á móti blési stóðu flokksmenn og forysta saman og gengu jafnvel hús úr húsi til að sannfæra kjósendur um erindi sitt.

Nýr Sjálfstæðisflokkur

Með myndun Þingvallastjórnarinnar á vordögum sýndi nýr formaður Sjálfstæðisflokksins sterka forystu og pólitískan kjark. Hinn frjálslyndi armur flokksins réði nú ferð en ekki afturhaldsöflin. Sú stjórn sem var mynduð er fyrst og fremst miðjustjórn um hagsmuni venjulegs fólks og fyrirtækja. Ósætti gömlu afturhaldsaflanna við þróunina braust svo út með sérkennilegum hætti í innri uppreisn þeirra í eigin borgarstjórnarflokki og bræðravígum í beinni útsendingu. En tilveran er gædd ríkri kímnigáfu og þeir uppskáru ekki annað en að leiða Samfylkinguna til forystu í borginni.

Hin nýja miðjustjórn nýtur víðtæks stuðnings og hefur gríðarstóran meirihluta á þingi. Áhyggjuefni er hve stjórnarandstaðan er veikburða, bæði sögulega og þá sérstaklega nú. Þrátt fyrir að vera fáliðaðri en nokkru sinni fyrr, finnur hún sér ekkert betra að gera en berjast innbyrðis. Þannig skamma framsóknarmenn Frjálsynda flokkinn, Frjálslyndir skamma VG sem svo aftur skamma Framsókn þegar þeir eru ekki að skamma Frjálslynda flokkinn. Á meðan skortir ríkisstjórnina eðlilegt aðhald.

Nóg að gera

En þó allt gangi ljómandi vel eru verkefnin næg. Mikilvægar kjara- og mannréttindabætur hafa náðst fyrir lífeyrishafa en mikilvægt er að fleiri skref verði stigin í átt til aukins jöfnuðar. Og þá ekki síst fyrir lág- og meðaltekjufólk og barnafjölskyldur. Það geysar 6% verðbólga í landinu, auk hæstu raunvaxta í heimi, og því er mikilvægt að ríkisstjórnin sé enn betur á verði, m.a. í komandi kjarasamningum. Óvissuástand á mörkuðum kallar á að allir sýni aðhald og vekur áhyggjur um stöðu ungs fólks sem ráðist hefur í íbúðakaup á yfirspenntum markaði, í háum vöxtum og verðbólgu. Mest væri auðvitað um vert ef framsækin öfl í stjórnarflokkunum gætu stigið einhver skref í átt til Evrópu og þá einkanlega evrunnar. Í viðsjám á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er erfitt að finna trúverðugleika þess að ætla að halda áfram úti minnstu flotmynt í heimi, sem hoppar og skoppar sem kunnugt er. Almenningur og fyrirtæki þurfa stöðugra umhverfi og vaxtastig líkt og í samkeppnislöndunum. Við þurfum að lækka vöruverð, auka framboð og samkeppni innanlands og efla útflutning. Upptaka evrunnar myndi auðvelda það, þó að hún leysi ekki skammtíma vanda okkar. Og þó nýtt ár verði ekki ár evrunnar er óskandi að við hefjum raunverulega umræðu um þá brýnu almannahagsmuni sem í þeim leiðangri felast.

Pistillinn birtist í 24 stundum 29.12.2007

Landsvirkjun Power

blog

Síðastliðinn þriðjudag var ég gestur í Kastljósinu, þar sem ég ræddi málefni Landsvirkjunar Power ásamt Álfheiði Ingadóttur. Þessar umræður er hægt að sjá hér.

Til upprifjunar og fróðleiks varðandi orkumálin, fylgir hér grein sem ég birti í Fréttablaðinu þann 10. október sl. Næsta dag var nýr meirihluti myndaður í borgarstjórn Reykjavíkur.

Hraðsala á almannaeign

Samfylkingin ræðir í kvöld á opnum fundi orkumálin, enda sýna atburðir síðustu mánaða að boðskapur okkar jafnaðarmanna um opinbera eign veitukerfa og almannaeign auðlinda var framsýnn og er réttur. Hættuástand hefur nú skapast þegar borgarstjórnarmeirihlutinn reynir í örvæntingu að klóra yfir klúður sitt í Reykjavík Energy Invest með því að efna til hraðsölu á hlut almennings í fyrirtækinu.

Þó rétt sé að selja hlutinn og hætta að koma óorði á útrásina er ekki sama hvernig og hvenær. Í fyrsta lagi er fráleitt að selja einkaaðilum meira en orðið er fyrr en Alþingi hefur afgreitt lög sem tryggja almannahagsmuni varðandi veitustarfsemi og eignarhald orkuauðlinda en þess er að vænta í vetur. Í öðru lagi er rangt að veita litlum hópi fjárfesta forkaupsrétt að þekkingu OR og viðskiptatækifærum erlendis. Í þriðja lagi er hætt við að í hraðsölu fái almenningur ekki sannvirði fyrir eignir sínar eins og varð við sölu bankanna, enda ekkert óháð verðmat farið fram.

Ef sátt á að takast um málið er nauðsynlegt að bíða lagasetningar og þess að forkaupsréttur falli úr gildi. Þegar því er náð þarf svo að tryggja aðkomu eigendanna, almennings, að sölunni. Það mætti gera með því að tryggja forkaupsrétt almennings. Eða einfaldlega með því að senda íbúum Reykjavíkur, Akraness og Borgarbyggðar sín hlutabréf sem fólk getur þá sjálft selt eða haldið. Eða efna mætti til atkvæðagreiðslu meðfram kosningum um ráðstöfun sölutekna til góðra verkefna. Með svipuðum hætti mætti einnig fara með gagnaveituna, ef vilji er til að selja hana.

Það hefur verið eftirtektarvert að í umróti síðustu daga hefur það verið minnihlutinn í borgarstjórn sem haldið hefur ró sinni, meðan meirihlutinn hefur hoppað um af hræðslu við eigin mistök. Vonandi tekst minnihlutanum með festu sinni að varna því að meirihlutinn fórni frekar en orðið er almannahagsmunum í angist sinni og innbyrðis átökum.

(Birtist í Fréttablaðinu 10. október sl.)

Sjálfstæðir einstaklingar

blog

Í þessari lokaviku þingsins var afgreitt margt þjóðþrifamálið. Auk löngu tímabærra breytinga á starfsháttum þingsins bar sjálft fjárlagafrumvarpið auðvitað hæst. Í því er ekki síst ástæða til að fagna mikilvægum áföngum í kjarabaráttu aldraðra og öryrkja.

Einna mikilvægast í því er að með fjárlögunum er tryggt fé til að uppfylla afnám tengingar lífeyris við tekjur maka en kostnaður við það er tæpir tveir milljarðar á ári. Þessi stefna var mörkuð í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og með samþykkt fjárlaganna er tíu ára einbeittri baráttu Öryrkjabandalagsins og samtaka aldraðra loksins lokið.

Fyrir tíu árum bjuggu öryrkjar við það að væru þeir giftir eða í sambúð með manneskju með meðaltekjur voru þeim skammtaðar um tuttugu þúsund krónur á mánuði af ríkinu. Þeir voru þannig dæmdir til að biðja ástvin sinn um vasapeninga og grunnframfærslu. Eftir að hafa árum saman rætt við stjórnvöld um sjálfsagaðar lagfæringar á þessu, stefndi Öryrkjabandalagið ríkinu.

Sá sögulegi dómur Hæstaréttar að ríkisstjórnin hafi, með því að svipta þetta fólk nær öllum bótarétti, brotið á grundvallarmannréttindum þeirra verður lengi í minnum hafður.  Málatilbúnaður ÖBÍ og Ragnars Aðalsteinssonar var vandaður en það sýndi sjálfstæði hæstaréttar og kjark að kveða upp dóm í svo pólitísku máli.

Dabbía

Viðbrögð Davíðs Oddssonar og Framsóknarflokksins létu ekki á sér standa. Jón Steinar Gunnlaugsson var látinn semja nýtt fyrirkomulag svo áfram væri hægt að skerða tekjur fólks vegna tekna maka þeirra, þó ekki með jafn ósanngjörnum hætti og áður. Á næsta ári verða þær tengingar semsagt úr sögunni

Þegar maður lítur nú til baka er óskiljanlegt hvers vegna Davíð Oddssyni var svona mikið kappsmál að geta skert greiðslur lífeyrirsþega með tekjum maka þeirra. Málið er  augljóst mannréttindamál og snýst um það grundvallaratriði að vera sjálfstæður einstaklingur. Tekjutenging við maka leiddi einnig til þess að fólk í erfiðum félagslegum aðstæðum skráði ekki sambúð sína og giftist ekki. Þannig var óréttlætið jafnvel andstætt hjónabandinu og sjálf Þjóðkirkjan lét það til sín taka þess vegna. Þetta er líka brýnt jafnréttismál, því auðvitað voru það oftar konur sem þurftu að gjalda tekna maka sinna. Þetta er nú öllum augljóst en hitt furðulegt, hve langt stjórnvöld sukku í þá dabbíu sem málaferlin við öryrkja voru.

Sjálfsbjargarviðleitni

Annar mjög mikilvægur þáttur í þeim breytingum sem við gerum á næsta ári er að draga verulega úr öðrum tekjutengingum, þ.e. við atvinnutekjur. Það er skrýtið hvað löggjafinn gekk langt í að refsa fólki fyrir sjálfsbjargarviðleitni. Svo langt var gengið að tekjutengingar eru næstum orðnar skammaryrði. Eru þær þó hugsaðar til þess að eyða ekki dýrmætu skattfé í aðstoð við þá sem ekki þurfa. Þar að auki hefur reglufrumskógur og hans óréttlæti hvatt til undanskota og rangrar upplýsingagjafar.

Í tilfelli öryrkja hefur þetta verið jafnvel enn fráleitara, því fyrir mörg okkar sem fötluð eru, er það mikilvæg endurhæfing og félagslegur stuðningur að vinna. Það ætti þess vegna að vera sérstakt keppikefli samfélagsins að hvetja öryrkja á vinnumarkað en ekki refsa þeim. Sömu sjónarmið geta líka átt við um suma aldraða en síðar á kjörtímabilinu verður líka hætt að refsa þeim fyrir ráðdeildarsemi, með því að hætta að skerða lífeyri ef þeir taka út séreignasparnað. Enda eru það í hæsta máta einkennileg skilaboð til fólks að refsa því fyrir að leggja til hliðar fyrir elliárin. Þó það kosti mikið á pappírunum að hætta að refsa fólki fyrir allt að 100 þúsund krónu atvinnutekjur á mánuði og fyrir sparnaðinn, er ég sannfærður um að þegar dæmið er gert upp mun samfélagið hagnast á þessum breytingum. Því þegar við hvetjum fólk til sjálfshjálpar og ráðdeildarsemi skilar það sér í sköttum, betra heilsufari og sterkara samfélagi.

(Pistillinn birtist í 24 stundum 15.12)

Raflínur í jörð

blog

Á Alþingi hefur verið lögð fram tillaga til þingsályktunar um lagningu raflína í jörð og er ég fyrsti flutningsmaður hennar. Gagnrýni á sjónmengun af völdum háspennulína hefur vaxið samhliða aukinni raforkuframleiðslu. Það er því mikilvægt að fyrir liggi pólitísk stefnumörkun og að um hana náist góð sátt.

Þingmenn úr öllum flokkum eru meðflutningsmenn og stendur t.a.m. öll umhverfisnefnd þingsins að tillögunni. Verkefni eins og lagning raflína í jörð ætti að vera þverpólitískt og vænti ég þess að málið njóti víðtæks stuðnings í þinginu. Tillagan gerir ráð fyrir að nefnd hagsmunaaðila móti stefnu um hvernig leggja megi raflínur, sem nú eru ofan jarðar, í jörð á komandi árum og áratugum.

Tillöguna og greinargerð með henni má sjá hér.

FÁTÆKT BARNA Á ÍSLANDI

blog

Í apríl 2005 lagði ég ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingar fram beiðni um skýrslu frá forsætisráðherra er fjallaði um fátækt barna á Íslandi. Samkvæmt skýrslunni, sem lögð var fram á Alþingi í desember á síðasta ári, kom fram að 6,6% íslenskra barna töldust búa við fátækt árið 2004, miðað við skilgreiningu OECD. Í ljós kom að staða Íslands hvað þetta varðar var góð miðað við önnur OECD ríki. Þegar kom að samanburði við hin Norðurlöndin, reyndist fátækt barna hins vegar vera mest á Íslandi.  Til að fylgja þessu máli eftir sendi ég fyrirspurn til Geirs H. Haarde forsætisráðherra, um fátækt barna og hvernig þróunin hafi verið hér á landi síðan 2004. Hér fylgir fyrirspurnin og svar forsætisráðherra.

LANGAR OG LEIÐINLEGAR RÆÐUR

blog

Forseti Alþingis og formenn fjögurra af fimm þingflokkum hafa lagt fram löngu tímabærar tillögur að breytingum á starfsháttum Alþingis. Einbjörn, Tvíbjörn og Þríbjörn, sem lengstar ræður halda á þingi, telja að með þessu sé vegið að málfrelsi í landinu og undirstöðum lýðræðis. Þetta er augljóslega misskilningur, því langar og leiðinlegar ræður eru hvorki forsenda málfrelsis né lýðræðis í landinu.

Þær takmarkanir á ræðutíma sem VG hrópar nú um eru þær að framsögumaður tali bara í hálftíma, en aðrir í 15 mínútur og svo eins oft og þeir vilja í 5 mínútur í senn! Sá sem ekki getur sagt skoðun sína á máli á 15 mínútum á að vera á endurmenntunarnámskeiði en ekki á Alþingi Íslendinga. Óheppilegt er þó að fimmti flokkurinn, VG, standi ekki að flutningi málsins, því löng hefð er fyrir samstöðu um breytingar á þingsköpum. En það er ekki bara meirihlutinn sem flytur það, heldur líka meirihluti stjórnarandstöðunnar. Óskandi er að við vandaða og málefnalega umfjöllun um málið á Alþingi takist á endanum full samstaða um það, enda brýnt framfaramál á ferðinni, sem eflaust má enn bæta í meðförum þingsins.

Neftóbakið kvatt

Það kemur nýju fólki alltaf jafn mikið á óvart hve úreltir starfshættir þingsins eru. Jafnvel neftóbakið er þar enn í hávegum haft. En með hinu nýja frumvarpi á loksins að leggja af ýmsa verstu lestina í starfsháttum.

Kvöldfundi á bara að vera hægt að halda á þriðjudögum, en næturfundir leggjast alveg af. Undrum hefur sætt það furðulega verkskipulag að verið sé að fjalla um mikilvæg löggjafarmálefni um miðjar nætur og ótvírætt að ýmis mistök má rekja til  óvandaðrar málsmeðferðar sem því fylgir. Með þessu verður vinnustaðurinn líka fjölskylduvænni en sá vinnutími sem hentaði miðaldra karlmönnum um miðja síðustu öld hentar illa fjölskyldufólki í dag, ekki síst einstæðum foreldrum.

Kvöld- og næturfundir hafa líka verið notaðir í óþolandi meirihlutaofbeldi þegar keyra á í gegn mál. Þá er fundum fram haldið út yfir öll skynsamleg mörk og stjórnarandstaðan grípur til þess að beita til varnar löngum og leiðinlegum ræðuhöldum. Þetta skipulag hefur hvorki gagnast meirihluta né minnihluta, heldur verið fremur tilgangslaust gagnkvæmt ofbeldi sem dregið hefur mjög úr virðingu þingsins. Um leið og horfið er frá því að beita kvöld- og næturfundum er þess vegna sjálfsagt að takmarka ræðutíma. Þó er gert ráð fyrir að flokkar geti farið fram á lengri tíma í stærri málum     

Breytt sumarleyfi

Í frumvarpinu eru líka ánægjulegar nýjungar, eins og aukin áhersla á snarpar óundirbúnar umræður þingmanna við ráðherra og stjórnarandstöðu gefið tækifæri til að kalla ráðherra fyrir þingnefndir.

Þá er gert ráð fyrir að breyta þinghaldinu þannig að fundað sé dreifðar yfir árið og sumarleyfi sé frá 1. júlí til 10. ágúst. Hið úrelta skipulag á starfsárinu hef ég oft gagnrýnt, bæði í þessum pistlum og umræðum á þingi og fagnaðarefni að nú sé að verða breyting á því. Alþingi fundar álíka lengi og afgreiðir svipaðan málafjölda og þekkist í löndunum í kringum okkur en þetta höfum við gert á maraþonfundum fyrir jól og á vorin en haft fáránlega langt sumarleyfi. Eftir þessar breytingar er starfstími þingsins orðin líkur því sem við þekkjum í nágrannalöndunum og á að leiða til bættrar lagasetningar.

Áhyggjuefni hefur verið hve alþingi hefur veikst frá því Davíð Oddsson varð forsætisráðherra 1991. Mikilvægt er að efla löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdavaldinu og að auka virðingu þingsins. Við þurfum að þróa lýðræði okkar frá hinu hráa meirihlutaofbeldi til gagnkvæmrar virðingar stjórnar og stjórnarandstöðu, m.a. með því að styrkja sérstaklega hina veiku stjórnarandstöðu. Sturla Böðvarsson á hrós skilið fyrir frumkvæði sitt í þá átt.

(Þessi pistill birtist í 24 stundum 1.12.07)

fagra ísland

blog

í draumi sérhvers manns er fall hans falið. þetta á ekki síður við um stjórnmálaflokka og sannaðist eftirminnilega á framsóknarflokknum. barnaleg oftrú þeirra á álbræðslum sem takmarki í sjálfu sér varð til þess að einangra flokkinn frá þjóðinni og hraða uppdráttarsýki hans og innra hruni. þeirri fráleitu virkjana- og stóriðjupólitík, sem engu skyldi eira og reisa álver við hvern vog, höfnuðu kjósendur í tvígang.

í lok stóriðjuáratugar framsóknar, fyrir ári síðan, virtust í burðarliðnum ný álver hvert sem litið var og gríðarlegar virkjanaframkvæmdir vegna þeirra; álver í helguvík, keilisnesi, húsavík, þorlákshöfn, húnavatnssýsla, eyjafjörður og tvöföldun í straumsvík. meirihluti landsins virtist undir en á undraskömmum tíma hafa horfur í þessum efnum breyst. það er fagnaðarefni, bæði af umhverfisástæðum og vegna þess að áliðnaður er orðinn heldur stór hluti af efnahag okkar og óheppilegt að hafa svo mörg egg í sömu körfu.

straumsvíkurhvörf

eins og rafvæðingin hófust breytingarnar í stóriðjupólitíkinni í hafnarfirði. straumhvörfin urðu í straumsvík. forysta samfylkingar í bæjarmálum í hafnarfirði tryggði að umdeild ákvörðun um stórfellda stækkun álversins var ekki tekin af fáum heldur borin undir alla íbúa. þó finna megi ýmislegt að þeim kosningum, einsog öllum lýðræðislegum kosningum, voru þær farsælar. þær sýndu að gríðarleg andstaða var meðal bæjarbúa við fyrirætlanirnar og engin ástæða að heimila stækkun.

önnur hvörf urðu þegar samfylkingin settist í ríkisstjórn, eftir að hafa endurskoðað virkjana- og stóriðjustefnu sína og farið fram í kosningum undir kjörorðinu fagra ísland. í stjórnarsáttmálanum er ákveðið að hætta leyfisveitingum þar til áætlun um þau landsvæði sem friða skal er tilbúin. iðnaðarráðherra endurskoðar vatnalög og aðra löggjöf um virkjanir og mun ekki fara fram með yfirgangi í þágu virkjana og stóriðju einsog áður var. umhverfisráðherra lýsir svo þeirri stefnubreytingu að mengandi stóriðja fái ekki fríar heimildir í framtíðinni og ísland  muni ekki leita eftir sérstökum ókeypis heimildum fyrir þau. allt hefur þetta orðið til að hægja á ferðinni, draga úr áhuga álfyrirtækja og á álfyrirtækjum.

í þriðja lagi gerðist það á árinu að landsvirkjun lýsti yfir að hún seldi ekki orku til nýrra álvera á suðvesturlandi. þessi stefnubreyting er mjög lofsverð. hún þýðir að ekki er útlit fyrir ný álver á suðvesturlandi á næstu árum nema e.t.v. í helguvík. þar virðist hinsvegar óvissa aukast vegna hræringa í hitaveitu suðurnesja, orkuöflunar, andstöðu við línulagnir, óvissu um mengunarheimildir og forystuskipti í orkuveitu reykjavíkur.

spennandi tímar

hið fjórða sem gerst hefur í ár er að samfylkingin er komin í meirihlutasamstarf í reykjavík. spennandi er að fylgjast með þeim áherslubreytingum sem eru að verða í orkumálum hjá borginni og hver afdrif umdeildra virkjanaáforma á hellisheiði og hálendinu verða. margt bendir til að farsælla að fara hægar í nýtingu jarðhita en ítrustu hugmyndir gerðu ráð fyrir. er það bæði vegna þess að við erum enn að læra mikið um jarðhita og að nýjar aðferðir og tækni geta fært okkur miklu öflugri virkjanir með minni umhverfisáhrifum innan fárra ára.

þó fagra ísland sé enn ekki í hendi og mikilvægt að halda vöku sinni sýna þó þessi dæmi að við getum leyft okkur að vona og vinna áfram að því. því breytingarnar sem orðið hafa geta leitt til þess að við fáum betri orkuvinnslutækni með minni umhverfisáhrifum í þágu síður mengandi starfsemi en álbræðslu. það er háð því að við missum okkur ekki aftur í græðgina og skammtímasjónarmiðin, því sá kann allt sem bíða kann.

(Pistill þessi birtist í 24 stundum 17.11.07)

Stjórnmál og viðskipti

blog

atburðir undanfarinna vikna í orkuiðnaðinum á íslandi sýna okkur enn einu sinni fram á það sem eru að verða viðtekin sannindi, að stjórnmál og viðskipti eiga ámóta vel saman og olía og eldur. gagnast vel ef brenna á eitthvað til grunna, en síður til uppbyggingar. fall hins ólánlega borgarstjórnarflokks sjálfstæðisflokksins er gott dæmi um það.

en hverju sætir þetta? á síðustu öld drottnuðu stjórnmálin yfir viðskiptunum, réðu því hverjir fengu landsfé, leyfi til starfsemi og réðu öllu öðru sem máli skipti.  en á nýrri öld unum við einfaldlega ekki samkrulli stjórnmála og viðskipta. sem betur fer.

menntaskólafrjálshyggja

þessari viðhorfsbreytingu ræður ekki menntaskólafrjálshyggja eins og einkennir þá sem til voru í allt með eða án villa. það er trúaratriði hjá fáum að hið opinbera geti ekki staðið fyrir atvinnustarfsemi. þannig getur hið opinbera rekið orkuiðnaðinn eða falið það einkaaðilum og hið sama gildir um margar aðrar greinar í samfélaginu. en á hinu fer illa að hið opinbera og einkaaðilar starfi á sama markaði. það skapar viðvarandi átök, deilur um jafnræði, samkeppnisstöðu o.s.frv.

enn verr virðist gefast að blanda eignarhaldi opinberra aðila og einkaaðila í fyrirtækjum, eins og dæmið um reykjavík energy invest sýnir. ástæðan er augljós, það eru einfaldlega allt aðrar kröfur gerðar til hins opinbera en einkafyrirtækja og því hætt við að sameiginlegt eignarhald gangi illa. þannig þarf í viðskiptum að taka skjótar ákvarðanir, meðan hið opinbera á að leggja áherslu á vandaða málsmeðferð og ítarlega umræðu. í viðskiptum er leynd stundum nauðsynleg, meðan hið opinbera þarf að leggja áherslu á gagnsæi og hefur upplýsingaskyldu. í viðskiptum þarf að ívilna viðskiptavinum og starfsmönnum, meðan jafnræðis er krafist af hinu opinbera.

það er þess vegna engin tilviljun að samkrull einkafyrirtækja og hins opinbera í fyrirtækjum valdi deilum, tortryggni og úlfúð. annað dótturfyrirtæki orkuveitunnar, lína.net, sýndi okkur þetta líka. eftir viðvarandi deilur um samkeppnisrekstur og samstarf við einkaaðila var ljósleiðaralagningin flutt inn í orkuveituna. við það varð sátt um starfsemina og í dag er helst deilt um hvort ljósleiðarinn sé 10 eða 20 milljarða virði. norðmenn, sem gengið hafa nokkuð langt í samstarfi hins opinbera við einkafyrirtæki, virðast líka finna fyrir breyttu umhverfi þar sem deilur í tengslum við kaupréttarsamninga, mútugreiðslur o.fl.  hafa skekið fyrirtæki með aðild hins opinbera. allt virðist þannig bera að sama brunni, að í nútímasamfélagi fari blandað eignarhald hins opinbera og einkafyrirtækja illa saman.

ábyrgð stjórnvalda

stjórnmálin eiga hins vegar að greiða atvinnulífinu leið, ekki síst inn á nýja markaði eins og iðnaðarráðherra hefur gert með ágætum síðustu daga í indónesíu. það á líka að styðja við nýsköpun og hið opinbera mun trúlega enn um hríð styðja nýsköpunarfyrirtæki með hlutafjárframlögum, en það er mikilvægt að sá stuðningur sé alfarið byggður á faglegum sjónarmiðum og laus við pólitísk afskipti. sú reynsla sem verið hefur af slíkri starfsemi hlýtur þó líka að vekja vaxandi efasemdir um að rétt sé af hinu opinbera að styrkja fyrirtæki með þeim hætti. skýrara og farsælla virðist að veita fremur beina styrki til rannsókna og þróunar, enda vandséð hvað hið opinbera á að fá út úr eignaraðild í nýsköpunarfyrirtækjum. því þegar allt kemur til alls á hið opinbera að einbeita sér að hinu opinbera:  að því að veita almannaþjónustu og sinna rekstri í almannþágu og veita fólki og fyrirtækjum þjónustu.