Nefndanefndanefndin

blog

 

Það er merkilegt þetta með nefndirnar. Ég sat í einni slíkri hjá menntamálaráðherra sem skilaði niðurstöðu 2004 um að langvarandi skort á stuðningi við blind og sjónskert skólabörn þyrfti að bæta. Einkum skyldi það gert með því að stofna þekkingarmiðstöð sem hjálpað geti skólum og kennurum að kenna þessum nemendum. Síðan þetta var eru liðin þrjú skólaár. Hingað hafa komið erlendir sérfræðingar og staðfest mikla þörf fyrir þjónustuna og viðtöl hafa birst við foreldra sem tekið hafa sig upp með rótum og flutt til annarra landa til að fá viðunandi þjónustu við börnin sín. Blindrafélagið var farið að spyrja hvort blindir þurfi menntun og ég ákvað því að inna hæstvirtan menntamálaráðherra eftir því hvað þekkingarmiðstöð liði.

 

Og viti menn! Ráðherra upplýsti að nærri þremur árum eftir að hennar eigin nefnd skilaði tillögunni hafi hún skipað aðra nefnd! Síðast þegar fréttist voru 246 nefndir starfandi á vegum menntamálaráðuneytisins og í þeim sátu 2052 nefndamenn, eða um 1% af vinnuafla á Íslandi.

 

Nú skortir hvorki góð orð, fundi, skýrslur, nefndir og velvilja menntamálayfirvalda í þessu máli. Það skortir bara aðgerðir. Enda um smámál að ræða fyrir menntamálaráðherra en stórmál fyrir þá sem þjónustuna þurfa. Þetta er eitt af þessum málum þar sem kerfin benda hvert á annað og þrátt fyrir hverja nefndina á fætur annarri gerist ekkert nema ráðherra taki sjálf af skarið. Það mun sú ágæta kona eflaust gera og vonandi fyrir kosningar enda þverpólitísk samstaða um þetta litla mál. Það er þó umhugsunarefni hve langan tíma það hefur tekið og var afhjúpandi í svari ráðherra að hún tók skýrt fram að nýja nefndin sem hún væri að skipa væri ekki bara enn ein nefndin, svo notuð séu hennar eigin orð, heldur ætti þessi sem sagt að gera eitthvað í málinu!

 

Vestfjarðanefndanefndin

 

Enn ein nefndin, af þeirri gerð sem ekkert gerir og eiga bara að svæfa málin var svar ríkisstjórnarinnar við ákalli almennings á Vestfjörðum. Ráðþrota stjórnvöld sem gáfu vinum sínum fiskinn á Vestfjarðamiðum skipa nefnd um vandann. Ég er löngu hættur að muna hvað þeir hafa skipað margar nefndir um vanda Vestfjarða en það voru bara enn einar nefndirnar. Enn einu nefndirnar virðast vera skipaðar til að láta líta út fyrir að menn séu að gera eitthvað en þeir gera svo ekki neitt.

 

Þannig hefur ríkisstjórninni ekki ennþá tekist árið 2007 að malbika veg til Ísafjarðar frá Reykjavík. Má það þó heita mannréttindamál að byggðakjarninn í heilum landshluta sé í vegasambandi við höfuðborgina og hefði átt að vera langt á undan ýmissi gangnagerð í forgangi. En ríkisstjórnin brást í þessu því hún taldi mikilvægast að slá á þenslu með því að fresta framkvæmdum á samdráttarsvæðum.

 

Stjórnarskrárnefndin

 

Nýr formaður Framsóknarflokksins féll svo á fyrsta vorprófinu sínu hér við þinglokin með fráleitri framgöngu í stjórnarskrármálum. Það gönuhlaup allt í stjórnarskrárnefndunum sýnir kannski betur en nokkrar aðrar nefndir uppdráttarsýkina í stjórnarsamstarfinu og hversu erindi þeirra við þjóðina er þrotið. Þegar Geir og Jón voru algjörlega hættir að geta varið eigið frumvarp og ekki síður virðingarleysi sitt við stjórnarskrána þá vísuðu þeir sínu eigin frumvarpi út úr þinginu án afgreiðslu og í enn eina nefndina. Nefnilega stjórnarskrárnefndina sem starfaði lengi og hafði undirbúið vandaða breytingu á stjórnarskrá um eignarhald á auðlindum sem aldrei verður flutt. Enda var það bara enn ein nefndin. Hún lagði að vísu samhljóða til að ákvæði um þjóðaratkvæði við breytingar á stjórnarskrá ætti að setja inn. En það verður ekki einu sinni gert. Enda er ríkisstjórn Geirs og Jóns löngu hætt að gera neitt, nema auðvitað í nefndum.

(Pistill þessi birtist einnig í Blaðinu 17. mars 2007)

Ókeypis

blog

Það er skemmtilega lýsandi um hve miklir umhverfissóðar við Íslendingar erum að við höfum sama orð um kjána og umhverfisverndarmann: græningi. Þó brá mörgum í brún að sjá loftmengun hér borna saman við það sem gerist á meginlandi Evrópu í iðnaðarhaugnum sjálfum. Tala nú ekki um þegar við erum jafn rík af tuttugu metrum á sekúndu og raun ber vitni. En það er ekki alltaf rok og æ oftar er loftmengun hér yfir heilsuverndarmörkum með alvarlegum afleiðingum, ekki síst fyrir börn og ungmenni.

Samt höfum við lítið sem ekkert hafst að. Í raun hafa flestir ekki fyrr en síðustu ár áttað sig á því hve alvarleg mengunin er og eitthvað eru göturnar vonandi bleyttar meira en áður var. En við höfum frekar horft á mengunina en að grípa til áhrifaríkustu aðgerðanna sem er að hreyfa við nagladekkjunum. Það er nefnilega, þrátt fyrir vitneskju okkar um mengunina og afleiðingar hennar, ennþá ókeypis að menga með nagladekkjum og öllum frjálst. Þó vitum við að fyrir aldamótin ákváðu þeir í Osló að setja mengunarskatt á naglana og minnkuðu mengun í borginni mælanlega með því einu. En þó margt sé dýrara á Íslandi en annars staðar er þó oftast ókeypis að menga.

Loftmengun með tollafsláttum

Það er oft áhugavert að fylgjast með umræðum okkar um loftmengun. Við erum þannig oft ákaflega áhugasöm um nýja tækni í bílaiðnaði. Einhverja nýja tækni sem ef til vill og kannski geta orðið til þess að draga úr mengun eftir þrjátíu ár en þangað til munum við menga heiminn jafn mikið eða meira og síðustu tvær aldir. Við höfum hins vegar engan áhuga á því sem hægt er að gera til að draga úr mengun bifreiða núna. Þannig hafa stjórnvöld beinlínis lækkað álögur á eyðslufreka bíla frá því sem áður var, enda á að vera ókeypis að menga. Af mjög eyðslufrekum bílum eru svo veittir sérstakir tollaafslættir í nafni landbúnaðar. Síðasta aðgerð ríkisstjórnarinnar til að minnka mengun bílaflotans voru breytingar á olíugjaldi til að hvetja fólk til að skipta úr bensínbílum yfir í dýrari en umhverfisvænni díselbíla. Það er gert með því að láta díselolíuna vera dýrari en bensínið!

En þetta eru auðvitað smámunir hjá mengandi stóriðju. Einhvern veginn höfum við haft þetta tuttugu metra á sekúndu viðhorf til hennar og látið okkur loftmengun í léttu rúmi liggja enda blási það allt burt.  En nú þegar við erum orðin einhver stærsti málmbræðir heims dugir það viðhorf ekki lengur. Við þurfum einfaldlega að hafa raunverulegar áhyggjur af mengun stóriðjunnar og taka þá afstöðu að það sé ekki æskilegt að menga og spilla meiru ókeypis í hennar þágu. Já ókeypis, því alla þá mengun og náttúrufórnir sem þessu hafa fylgt hafa verið ókeypis.

Slegist um ókeypis mengun

Nú höfum við bætt um betur með því að fá sérstök heimildarákvæði til að menga um 1,6 milljón tonna meira árlega en ella og sú mengunarheimild veldur því að helstu álfyrirtæki heims slást um að fá að stækka, byggja við og byggja nýjar mengandi bræðslur því það er ókeypis. Við setjum verðmiða á það sem máli skiptir og í því kerfi okkar skipta náttúrugæði ekki máli því þeim fórnum við fyrir ekki neitt. Það er umhugsunarvert verðmætamat sem minnir á frumbyggja.

Vont en það versnar. Því nú hefur umhverfisráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp um að þegar við verðum búin að gefa alþjóðafyrirtækjunum leyfin til að auka mengun á Íslandi þá geti þau keypt sér mengun í útlöndum, eða skógrækt og mengað í krafti þess enn meir á Íslandi. Ætli það verði ekki bæði tollfrjálst og skattfrjálst að flytja inn erlenda mengun? Hvað sem því líður hvet ég alla til að koma á morgun klukkan tvö í Háskólabíó og sjá í boði okkar í Samfylkingunni brýna heimildarmynd Al Gore um stærsta viðfangsefni samtímans loftslagsmálin. Ókeypis.

(Þessi pistill birtist í Blaðinu 03. mars 2007)

Enginn Reykvíkingur í Sjálfstæðisflokknum?

blog

Það er rétt svo að maður fylgist með pólitíkinni með öðru auganu heima í fæðingarorlofi. En út um það sá ég í vikunni Sturlu Böðvarsson, sverð Sjálfstæðisflokksins sóma og skjöld í samgöngumálum, kynna framtíðaráætlanir sínar. Ekki hélt ég að fyrir okkur Reykvíkinga gæti vont versnað í þeim efnum, enda erum við vondu vön af samgönguráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Þeir láta okkur greiða langstærsta hluta bensíngjaldanna en verja aðeins einum þriðja þeirra til samgöngubóta hjá okkur. Í nýrri samgönguáætlun versnar þetta enn og er engu líkara en að í þingflokki Sjálfstæðismanna sé enginn Reykvíkingur svo algjörlega eru verkefnin hér hundsuð.

       
Yfirbyggðar kappakstursbrautir

Sem kunnugt er hefur mikill áhugi verið í tíð þessarar ríkisstjórnar á jarðgangagerð milli fáfarinna staða. Svo fáfarinna raunar að fréttir herma að þau nýjustu séu notuð til kappakstursæfinga, enda ótrúleg framför á snjóþungum svæðum að fá yfirbyggðar kappakstursbrautir með þessum hætti án nokkurs tilkostnaðar. Á þessum sama tíma er þessi sami Sjálfstæðisflokkur að leggja fram áætlun sem á kjörtímabili borgarstjórnar  gerir ekki ráð fyrir göngum við Mýrargötu og á Miklubraut, fjölförnum þjóðleiðum sem vegna byggðaþróunar þurfa að grafast í jörð að hluta. Hún gerir alls ekki ráð fyrir Öskuhlíðargöngum eða Kópavogsgöngum til að auðvelda samgöngur milli miðborgarinnar og Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar þó þar á milli séu farnar tugþúsundir ferða daglega. Hún gerir aðeins ráð fyrir hálfum mislægum gatnamótum á Miklubraut og Kringlumýrarbraut, hvernig sem það nú er hægt. Hins vegar fullri kostun mislægra gatnamóta í Elliðaárdal sem borgaryfirvöld hafa hafnað! Þá hefur flokkurinn eftir 16 ára samfellda setu í samgönguráðuneytinu ekki enn gert upp við sig hvaða leið eigi að fara með Sundabraut og hefur aðeins fundið fjármagn fyrir henni hálfa leið. Að Sundabrautin verði aðeins lögð hálfa leið fyrst um sinn hefur valdið íbúum Grafarvogs verulegum áhyggjum því þannig mun umferð til og frá borginni að verulegum hluta fara um hverfið. Er nema von að sagt sé að Reykvíkingar eigi enga stjórnarþingmenn? Og augljóslega er orðið brýnt hagsmunamál vegfarenda í Reykjavík að skipta um samgönguyfirvöld.

Almenningssamgöngur og loftslagsmál

Eitt síðasta verkið mitt á þinginu áður en ég fór  aftur í fæðingarorlof var að innan umhverfisráðherra eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Því miður var hún ekki tilbúin en hefur nú litið dagsins ljós með markmiði um helmings samdrátt loftmengunar á næstu 43 árum. Það er útaf fyrir sig lofsvert en ég spurði ráðherrann um afstöðu ríkisstjórnarinnar til yfirlýsinga Evrópusambandsins sem snúa að því að minnka mengun mun fyrr. Þar hafa menn sagt að þeir séu tilbúnir í 20% samdrátt innan 13 ára og 30% ef önnur iðnríki eru tilbúin til hins sama. Og eðlilegt er að spurt sé hvort við séum tilbúin í það. Og þá hvernig stjórnvöld hyggist gera það því aðgerðir ríkisstjórnarinnar virðast flestar vera í allt aðra átt eins og stóriðjupólitíkin, ofurgjöldin á díselolíu og tollaafslættir fyrir mest mengandi bílana eru allt dæmi um.

Og þegar við erum að ræða um samgönguáætlun sömu dagana er umhugsunarefni að í henni ætlum við að verja nærri 400 þúsund milljónum króna án þess að vart sé nokkurrar áherslu á almenningssamgöngur. Áhugi ríkisins á almenningssamgöngum hefur aðallega falist í að leggja skatta og gjöld á þær. Strætó borgar 300 milljónir í ár fyrir að fá að veita almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu! Og þó almenningssamgöngur verði aldrei nema lítill hluti lausnarinnar þá er hægt að efla þær. Það sýnir nýji meirihlutinn á Akureyri t.d. með því að hafa frítt í strætó og fjölga farþegum um helming með litlum tilkostnaði.

Grein þessi birtist í Blaðinu 17.02.2007.

Fátækt barna

blog

Vaxandi umræða er um fátækt og tekjuskiptingu. Á mánudag ræddum við skýrslu um fátækt barna sem forsætisráðherra lagði fram vegna beiðni minnar og nokkurra annarra þingmanna Samfylkingar. Á miðvikudag sótti ég svo fyrirlestur Hannesar Hólmsteins og skömmu áður Ragnars Árnasonar, en þeir félagar reyna nú að afsanna það að ójöfnuður fari vaxandi og að fátækt sé áhyggjuefni. Fyrir vikið stangast yfirlýsingar á og mikilvægt er að átta sig á hvað er rétt og hvað rangt, en yfirgripsmiklar rannsóknir Stefáns Ólafssonar eru sérhagsmunahópum greinilega áhyggjuefni.

Ríkisstjórnin vandamálið

Það er umhugsunarefni að hingað til hafi ekki verið fylgst með fátækt barna. Forsætisráðherra varð því að láta frumvinna upplýsingar til að geta svarað spurningum okkar og tók það nærri tvö ár því engar tölur um kjör barna þjóðarinnar voru til í samanburði OECD. Niðurstaðan hlýtur að vera okkur öllum áhyggjuefni því hún er sú að nær fimmþúsund börn á Íslandi hafi búið við fátækt árið 2004. Skilgreining Efnahags- og framfarastofnunarinnar miðar við þær barnafjölskyldur sem hafa eftir skatta innan við helming miðtekna. Þessi alþjóðlega viðurkennda skilgreining er auðvitað ekki algild, heldur fyrst og fremst vísbending og gefur okkur færi á samanburði við aðrar þjóðir því þó gallar geti verið á skilgreiningunni eru þeir í öllum löndunum og tölurnar því sambærilegar.

           

Á mánudag kom loks svar við spurningu okkar um hve mörg börn alist upp á heimilum sem hafa innan við 40% miðtekna, en það mætti kalla að vera undir neyðarmörkum. Það eru 2.300 börn eða um 3,3% samkvæmt svari Geirs Haarde. Afsökun forsætisráðherra var sú að fátækt væri yfirleitt tímabundið ástand, en sú kenning mun eflaust færa Geir Nóbelsverðlaun í hagfræði ef sannast. Það er auðvitað rétt að talsverður hluti hópsins getur verið á víxl yfir og undir mörkunum milli ára og sem betur fer vænkast hagur margra. En því miður er verulegur hluti þessara fimmþúsund barna sem býr við varanlega fátækt.

                       

Athyglisverðastur er þó samanburðurinn milli landa en þar ber Geir okkur saman við Mexíkó og Tyrkland og segir fátækt hér hvað minnsta í heiminum.En þegar við berum okkur saman við hin Norðurlöndin kemur í ljós að við stöndum verst því hér eru yfir tvöþúsund fleiri börn undir fátæktarmörkum en ef hér væri norrænt velferðarkerfi. Tekjudreifingin er hér ekki ójafnari en á Norðurlöndum en skatta- og bótakerfið er hér miklu lélegra. Með skatta- og bótakerfinu ná Norðurlöndin þremur af hverjum fjórum börnum yfir fátæktarmörk, en við aðeins öðru hverju barni. Það eru þannig hvorki atvinnulífið né verkalýðshreyfingin sem eru að bregðast heldur ríkisvaldið.

Ójöfnuður vex

Þetta kemur heim og saman við rannsóknir Ragnars Árnasonar sem benda til þess að þó bilið í tekjuskiptingu á vinnumarkaði hafi breikkað þá sé það ekki verulegt ef litið er framhjá fjármagnstekjum. Og eins og rannsóknir Stefáns Ólafssonar sýna þá er það einkum vegna aðgerða ríkisstjórnar sem misskiptingin hefur verið að aukast. Þar þyngist sífellt skattbyrði hinna lægstu vegna lágra skattleysismarka á meðan skattbyrði hinna hæstu lækkar. Þá er hæpið hjá Hannesi Hólmsteini og Ragnari að líta með öllu framhjá fjármagnstekjum, enda skattkerfið þannig uppbyggt að fjöldi manna tekur atvinnutekjur sínar út sem arðgreiðslur.

Afsakanir eins og þær að kjör hinna verst settu hafi samt batnað bíta í skottið á sér því þær vekja athygli á verðmætaaukningunni og þeirri staðreynd að okkur hefur mistekist að nota tekjuaukningu til að draga úr fátækt. Þessu  verðum við að breyta með nýrri ríkisstjórn sem leggur áherslu á að sem flestar barnafjölskyldur séu yfir fátæktarmörkum. Því þó mikilvægt sé að auka viðskiptafrelsi og ofskatta ekki aflaklærnar má auðlegðin ekki auka á misskiptinguna. Þá endum við með samfélagsgerð sem við viljum ekki sjá.

(Þessi grein birtist einnig í Blaðinu)

 

 

 

 

Breytum Alþingi

blog

Þá eru jólin loks liðin og við alþingismenn komnir aftur til byggða. Í þetta sinn á þing að standa í tvo mánuði en eftir það verður hlé á þinghaldi í rúmlega 6 mánuði. Því valda auðvitað kosningarnar að hluta en það vekur líka athygli á fráleitum starfstíma Alþingis. Sagt er að fjórar góðar ástæður séu fyrir því að vera á þingi: júní, júlí, ágúst og september.

           

Þó starfar Alþingi í álíka margar klukkustundir á ári og þingin í nágrannalöndunum og afgreiðir jafn mörg mál.  Hér er það bara gert á miklu færri mánuðum, með handarbökunum í törnum og tímapressu í stað þess að vinna eins og fólk. Enda er ríkisstjórninni umhugað um að losna við þingið heim eins fljótt og hægt er á hverju ári svo hún geti haft sína hentisemi. Þegar ég lenti í fyrstu þingskorpunni fyrir þremur árum í fjárlaganefnd var maður að heiman meira og minna, en til að slá á samviskubitið sagði ég elstu stelpunni okkar að svo yrði jólaleyfi og var spurður hve langt það væri. Þegar ég svaraði að það væri fram í lok janúar spurði grunnskólabarnið hvenær við hættum í vor og þegar ég svaraði fyrri hluta maí gall í henni: Og eru þið þá í páskafríi þarna á milli! Bragð er að þá barnið finnur.

Málþóf og meirihlutaofbeldi

Þetta vitlausa verklag leiðir auðvitað af sér mistök við lagasetningu og skortur á samfellu í störfum þings bitnar á gæðum stefnumörkunar. Það leiðir líka til þess að ofbjóði minnihlutanum meirihlutaofbeldi getur hann með umfjöllun sinni um mál dregið mjög úr skilvirkni þingsins og jafnvel varnað stöku máli framgöngu.

           

Með þróaðri þjóðum eru oft skorður við þessum möguleikum, þannig að ræðutími er takmarkaður. Enda augljóslega tóm vitleysa að tala í fimm tíma um eitt mál. En hjá nágrönnum okkar er þetta líka unnt vegna þess að meirihluti á hverjum tíma reynir í stórum málum að skapa sem víðtækasta samstöðu og er tilbúinn til málamiðlana í þessu skyni. En hér er hefðin fremur sú að naumur meirihluti reynir að keyra sitt fram hvað sem tautar og raular og lætur sig lítt varða um fulltrúa tæplega helmings kjósenda. Slíkt gagnkvæmt ofbeldi getur svo endað í vondum lagafrumvörpum og löngum umræðum á Alþingi sem enginn skilur neitt í.

Úrelt þing

Starfstími Alþingis heyrir til liðinni öld. Það gerir líka virðingarleysi fyrir sjónarmiðum minnihlutans og næturlangar neftóbaksræður. Þessu verður að breyta en til þess að um það geti tekist samstaða þarf ekki bara breytt viðhorf við gerð stjórnarfrumvarpa heldur þarf að sýna þingmönnum þá lágmarksvirðingu að mál þeirra komist til afgreiðslu.

           

Í dag hefur ríkisstjórnin þingið nefnilega í rassvasanum því þingmál þingmanna, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, komast aldrei til atkvæðagreiðslu í þinginu heldur er bara vísað til nefnda og svæfð þar. Þannig kemst ríkisstjórnarmeirihlutinn hjá því að þurfa að taka málefnalega afstöðu til tillagna þingmanna. Þetta fráleita ofbeldi verður til þess að þingmenn vita að tillögur þeirra munu aldrei koma til afgreiðslu og því lítil hvatning fyrir þá að verja tíma í framgang eigin tillagna. Hlutskipti okkar er þess í stað miklu fremur að ræða stjórnarfrumvörpin. Og kannski einhverjum þyki ekkert að því þó stjórnarfrumvörp fái ekki afgreiðslu þegar þeirra eigin frumvörp hafa aldrei komist til atkvæða.

Það er aðkallandi verkefni þeirra sem veljast á Alþingi í vor að breyta þinginu til nútímahorfs í vinnutíma, vinnubrögðum og virðingu meirihluta og minnihluta hvorra fyrir öðrum. Enda verður virðing þingsins aldrei meiri en virðing þingmanna hvers fyrir öðrum.

(Þessi grein birtist í Blaðinu 20.01.2007)

 

 

 

 

 

Tvíokun

blog

Ó, dýra Ísland, kvað við í fréttum liðinnar viku. Í ljós er komið að matur er ekki aðeins helmingi dýrari hér en í Evrópusambandinu eins og við héldum, heldur er munurinn orðinn 62%.  Enn eitt dæmið um að hagsmunir almennings hafa ekki verið í öndvegi hjá ríkisstjórninni.

Við vitum hvað þarf til þess að breyta þessu en ríkisstjórnin er ekki tilbúin í þær aðgerðir því hjá henni eru þröngir sérhagsmunir flokksgæðinga mikilvægari. Þó er ánægjulegt að stjórnin lét undan miklum þrýstingi og lækkar nokkuð gjöld á matvöru 1. mars nk. Því miður duga þær aðgerðir aðeins til að lækka matarverð um 10% þannig að eftir verður matvara hér áfram tæplega helmingi dýrari en í ESB og umtalsvert dýrari en t.d. í Svíþjóð og Finnlandi.

Stækkum markaðinn

Fákeppni ræður hér auðvitað einhverju um matvöruverðið, en hún hefur þó mun meiri áhrif á hátt vöruverð í öðrum greinum. Í stað einokunarverslunarinnar sem við eitt sinn bjuggum við þekkjum við nú best tvíokun, sem einkennist af því að tvö fyrirtæki skipta með sér markaðnum og ganga ekki lengra í samkeppni sinni en svo að gróði sé nægur af rekstri beggja. Þetta sjáum við í lyfjaverslun, byggingarvörum, tryggingum, bensíni, símaþjónustu, o.s.frv.           

Ísland er lítið land og oft ber markaðurinn hér einfaldlega ekki mörg fyrirtæki. Þess vegna er ein skilvirkasta leiðin til að vinna gegn tvíokun sú að verða virkur hluti af stærri markaði. Það munum við gera með því að verða hluti af evrunni og evrópska myntbandalaginu. Þannig gerum við hvoru tveggja í senn að auðvelda erlendum fyrirtækjum að veita samkeppni á Íslandi í vöru og þjónustu, því hin erlendu fyrirtæki geta gert það í þeirri mynt sem þau starfa þegar í og við sama lagaumhverfi og þau þekkja á heimamarkaði sínum. Og um leið auðveldum við okkur sjálfum að kaupa vörur og þjónustu erlendis frá, því nú getum við átt viðskiptin í sömu mynt og launin okkar eru og án tollahindrana. Íslenska krónan er nefnilega viðskiptahindrun rétt eins og tollar. Og besta leiðin til að auka samkeppni eru frjáls viðskipti og afnám viðskiptahindrana því það skilar okkur neytendum ódýrara Íslandi.

Kjánaleg umræða

Stærsta ávinninginn munum við neytendur þó sækja í samkeppni á fjármálamarkaði og aðgangi að lánsfé á boðlegum kjörum. Hjá venjulegu nútímafólki er vaxtakostnaður orðinn svo snar þáttur útgjalda að almenningur, eins og atvinnulífið, mun í vaxandi mæli krefja um mynt í landinu sem ekki er sú dýrasta í heimi. Þeirri breytingu mun fylgja það óhagræði að ekki verður hægt að keyra upp og niður íslensku hagsveifluna eins og við þekkjum undanfarna áratugi, sem er kannski bara eins gott þegar heimilin og fyrirtækin eru orðin eins skuldsett og raun ber vitni.        

Atvinnulífið sækir svo í vaxandi mæli fjármögnun sína á alþjóðavettvang og þó það hafi aðgang að erlendu lánsfé er erfiðara að laða hingað erlenda fjárfestingu með þessa skrítilegu mynt.

           

Í sjálfu sér er hér bara heimurinn að minnka, myntsvæðunum að fækka, afköst að batna og samkeppni aukast. Það er oft kallað alþjóðavæðing og á sér líka neikvæðar hliðar. Heimurinn mun ekki skiptast í dollarann, evruna, jenið og krónuna og því augljóst að hér verður evran lögeyrir í fyrirsjáanlegri framtíð. Spurningin er bara hvort við ætlum að móta þá stefnu sjálf og velja hvenær og hvernig, eins og Samfylkingin hefur löngu lagt til, eða hvort við ætlum að hrekjast undan veðri og vindum eins og í hermálinu og sitja loks uppi með það sem aðrir ákveða fyrir okkur.

(Þessi grein birtist í Blaðinu 16.01.2006)

Fátækt barna

blog

Um helgina fékk ég loks skýrslu forsætisráðherra sem við óskuðum eftir, nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, fyrir nær tveimur árum síðan eða 4. apríl 2005. Það kom mér á óvart þegar ég grennslaðist fyrst fyrir um málið að þessar upplýsingar lægju ekki á lausu því OECD hefur mælikvarða um fátækt barna og Evrópusambandið líka. Við mælum þau viðfangsefni sem við höfum áhuga á en einu tölurnar sem ég fann um efnið voru úr skýrslu Stefáns Ólafssonar frá því á síðasta áratug. Vonandi verður skýrslubeiðni okkar til þess að hér eftir verði fátækt barna mæld reglulega og með henni fylgst.

Skýrslan var tilbúin sl. vor en þá var ákveðið í forsætisráðuneytinu að stinga henni undir stól. Við lögðum svo beiðnina fram í þriðja sinn á þessu þingi og fengum skýrsluna ekki í hendur fyrr en síðasta dag þingsins en þá týnast nú mörg athyglisverð mál í flóðinu.

Skýrsluhöfundar leitast við að draga úr vandanum og af lestri hennar mætti ráða að hér væri allt með ágætum. En þegar rýnt er í samanburð við hin Norðurlöndin kemur í ljós hve miklu algengari fátækt er hér en þar. Athylgisverðast er þó að bera skýrslubeiðni okkar saman við skýrsluna því í henni eru fjölmargar spurningar sniðgengnar. Sumar kannski vegna skorts á göngum eða rannsóknum, einsog um hlutfall barna innflytjenda í þessum hópi eða menntun foreldra. Sama kann að eiga við um dreifingu um landið og eru þetta þó allt upplýsingar sem afla hefði mátt á tveimur árum tæpum. En beinni spurningu um samanburð við Norðurlönd er ekki svarað vegna þess að forsætisráðherra veit að það er mjög óhagstæður samanburður. Spurningum um fjárhagsstuðning við barnafólk er ekki svarað af sömu ástæðu, þeirri að forsætisráðherra veit að hann er hér mun minni en í nágrannalöndunum og það skýrir að stórum hluta fátækt barna á íslandi, hún er einfaldlega afleiðing af rangri pólitískri forgangsröð. Þó má lesa með talsverðri fyrirhöfn óbein svör við þessu úr töflu yfir alþjóðlegan samanburð. Auk þess er spurningum um áhrif fátæktar á heilsu, tómstundaiðkun og íþróttastarf ósvarað, einsog mörgu öðru.

Óskandi er að skýrslan verði til þess að fleiri leiti svara og reyni að greina hag barna á Íslandi frekar. En svör Geirs Haarde við spurningum sem fyrir hann eru lagðar getur hver dæmt fyrir sig með því að lesa skýrslubeiðnina sem hér fylgir og svo skýrsluna sjálfa. Þannig væri t.d. athyglisvert að sjá hver staða okkar er í þessum efnum miðað við skilgreiningu ESB. Það er þó ekki aðalatriðið, heldur hitt að auka fjárhagsstuðning við fátækar barnafjölskyldur á Íslandi.
Við getum fækkað fátækum börnum á Íslandi um a.m.k. 2000. Við sjáum það um aldamót var hlutfall fátækra barna á hinum Norðurlöndunum frá 2,4%-3,6%. Í okkar litla samfélagi þar sem við höfum betri yfirsýn og búum við sterkan efnahag getum við gert betur en þau eða a.m.k. jafn vel. Það gerum við einfaldlega með því að beita pólitískri forgangsröðun í sköttum og bótum þannig að hún þjóni frekar því markmiði að fækka fátækum börnum en létta byrði þeirra sem best hafa það.

Hér má sjá skýrsluna sjálfa (PDF form)
Hér má sjá upphaflegu beiðnina

Styrk stjórnarandstaða

blog

Helgi Hjörvar

Undarleg umræða

Þá er ég kominn á ný til þings að loknu stuttu fæðingarorlofi, en Ellert B. Schram sat inni fyrir mig á meðan. Þeir sögðu um þingsetu Ellerts að á honum hafi sést að þegar maður hefur einu sinni lært að hjóla kann maður það alla ævi. Ellert hefur nefnilega áður setið á þingi en þá fyrir snarvitlausan flokk.

Sá flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, fór einmitt mikinn í byrjun viku undir forystu Guðjóns Ólafs úr Framsóknarflokki. Þar héldu þeir því fram að formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún, hefði í Keflavík lýst vantrausti á þingflokk Samfylkingarinnar. Guðjón taldi þess fá dæmi að flokksformaður hefði niðurlægt þingflokk sinn svo og væru það skýr skilaboð til frambjóðenda Samfylkingar um að fólk treysti þeim ekki. Félagi hans, Sigurður Kári, sá í senn á lofti kaldar kveðjur, blautar tuskur, sögulega yfirlýsingu og ekki björgulega byrjun á kosningabaráttu. En hann kvaðst ekki skilja hvað snéri upp eða niður í Samfylkingunni. Guðlaugur Þór taldi að vonin væri engin því sá þingflokkur sem Ingibjörg hefði dæmt væri jafnframt framboðslistar flokksins í vor, meðan Guðni fagnaði því að það væri þá brennimerkt á enni þeirra og brjóst vantraustið.

Félagi Mörður bjargaði deginum með hárbeittum svörum fyrir þingflokkinn. Hann sagði að sjálfstæðismenn skildu auðvitað ekki hvernig við í Samfylkingunni færum að því að styrkja okkur, nefnilega með sjálfsgagnrýni og einlægum skömmum og svívirðingum sem við hreinsuðum okkur með og stigjum svo fram einsog goðin eftir Ragnarök að lokum!!!

Öflugur þingflokkur

Mörður hefur af sömu snilld stýrt málatilbúnaði okkar um Ríkisútvarpið og um miðja viku varð ljóst að stjórnin yrði að ganga til samninga við þingflokka stjórnarandstöðu. Formaður okkar, félagi Össur, var langt fram eftir aðfaranótt fimmtudags að ganga frá samningum. Enn eitt árið var Þorgerður Katrín, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, send heim með RÚV frumvarpið sitt. Þetta er þriðja árið í röð sem það gerist og sýnir auðvitað hve frumvarpið er vont en líka hve lítinn stuðning hún hefur af flokksformanni sínum, Geir Harde, og hve sterk stjórnarandstaðan er.

Það er ekki bara að stjórnin nái ekki fram vondum málum einsog RÚV ár eftir ár heldur var það auðvitað á þessu tímabili sem málefnaleg gagnrýni á fjölmiðlafrumvarpið varð, með öðru, til að stjórnin þorði ekki með málið fyrir þjóðina eftir synjun forseta á staðfestingu. En mikilvægari hafa þó verið jákvæð áhrif á mál svo sem mikilvægar breytingar á vatnalögum o.fl. Forysta Guðrúnar Ögmundsdóttur um þverpólitíska vinnu í réttindamálum samkynhneigðra var glæsilegur sigur fyrir lýðræði í landinu og til fyrirmyndar í framtíðinni.

Af mýmörgum dæmum um sterk áhrif stjórnarandstöðu eru minni tekjutengingar hjá öldruðum og öryrkjum og lækkun á sköttum og gjöldum á matvöru nú nýjasta og fallegasta dæmið. Við höfum í Samfylkingunni flutt tillögu um þetta árlega í fjárlögunum og Rannveig Guðmundsdóttir hefur sýnt óíslenskt þolgæði í því að halda uppi umræðu um matarverð á Íslandi með fyrirspurnum, skýrslubeiðnum og margvíslegri umfjöllun. Tillaga okkar var alltaf felld en átti þó stuðning í Sjáflstæðisflokknum og þó að í Framsóknarflokknum hafi verið mikil andstaða treystu þeir sér ekki til annars en fara að tillögum Samfylkingarinnar um matarskatt kortéri fyrir kosningar. Fyrir vikið lækkar matarverð og dregur úr verðbólgu í mars og held ég að þegar saman er lagt sé leitun að stjórnarandstöðu sem haft hefur jafn mikil áhrif á stjórnarstefnu og á þessu kjörtíambili. Vonandi er það til vitnis um að lýrðæði okkar sé almennt að þroskast frá hinu frumstæða alærði hins einfalda meirihluta.

(Blaðið, 9. desember, 2006.

Stórkostlegt framfaraskref

blog

Þessa dagana er ég í fæðingarorlofi en Ellert Schram situr inni fyrir mig, eins og það er kallað í þinginu. Það kom þó ekki í veg fyrir að ég mætti í Kastljós í gærkvöldi til að ræða við Sigríði Andersen, frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, um fjárreiður stjórnmálaflokkanna. 

           

Einn helsti ljóður á ráði stjórnmálaflokkanna á Íslandi hefur verið sá að hér hafa ekki gilt neinar reglur um fjármál flokkanna. Ísland hefur að þessu leyti skilið sig frá öðrum siðmenntuðum löndum. Helsta andstaðan við reglur í þessu efni hefur komið frá öfgaöflum á hægri væng stjórnmálanna, sem hafa viljað halda flokkunum utan við lög og rétt einkum með þeim rökum að hægt sé að fara framhjá öllum reglum. Það er út af fyrir sig rétt, en hér hefur staðan verið sú að hneyksli í fjármálum flokkanna hefur verið útilokað því það hafa engar reglur verið til að brjóta. Það er auðvitað algjörlega nauðsynlegt að stjórnmálaflokkarnir sem höndla með hundruði milljarða af almannafé á ári hverju og útdeila gæðum eins og auðlindaaðgangi o.fl. hafi skýrar reglur um fjármál og að eftirlit með að þeim sé framfylgt.

           

Nú verður væntanlegt lagafrumvarp auðvitað ekki gallalaust enda málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða. Þannig hefði auðvitað verið nóg að krefja um gagnsæi framlaga, þ.e. að skylt væri að birta þau öll en ekki þörf á að setja þak á þau miðað við áherslur okkar í Samfylkingunni. En a.m.k. einn flokkanna taldi að banna ætti styrki frá fyrirtækjum og þetta er þá málamiðlun milli þeirra sjónarmiða að setja þak. Það kostar ríkissjóð rúmar 100 milljónir og sjá margir eðlilega eftir þeim framlögum til flokkanna. En þegar hagsmunirnir af því að koma á lögum og reglu í fjármálum flokkanna eru annars vegar, þá er þetta ekki há fjárhæð. Slík löggjöf hefur verið baráttumál Samfylkingarinnar frá upphafi og ástæða til að hrósa forystu stjórnmálaflokkanna fyrir að hafa tekið af skarið í þessu brýna framfaramáli. 

Geir og Árni

blog

Þó ég hafi verið mjög ánægður með árangurinn í prófkjöri Samfylkingarinnar um helgina þá er hástökkvari í prófkjörum helgarinnar þó Árni Johnsen. Innkoma hans hefur líka verið mjög umtöluð og sýnist sitt hverjum.

                          

Augljóst er að Árni hefur notið talsverðs persónufylgis en jafn ljóst að úrslitum hefur ráðið um kjör hans stuðningur formanns Sjálfstæðisflokksins, Geirs H. Haarde. Þeir Geir og Árni eru sem kunnugt er nánir vinir og samstarfsmenn til margra ára, ef ekki áratuga, og Geir söng m.a. á hljómplötu Árna eins og heyra má hér á síðunni (með góðfúslegu leyfi Árna Johnsen). Þá annaðist Geir um uppreisn æru Árna sem handhafi forsetavalds í fjarveru forseta Íslands. Til þess að ná eins afgerandi kosningu og Árni Johnsen hlaut í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi vita allir sem eldri eru en tvævetur í stjórnmálum að nauðsynlegt er að njóta stuðnings forystu flokksins. Enda var hann eindreginn og afdráttarlaus í yfirlýsingum Geirs og félaga í gær. Bráðum getur Geir sett sinn mann aftur í fjárlaganefndina og þá fá allir hangikjöt og konfekt.