Fyrsta netprófkjör Íslandssögunnar

blog

Samfylkingin er lýðræðisafl. Við leggjum áherslu á að fólk geti haft bein áhrif á samfélagið, til dæmis í þjóðaratkvæðagreiðslum. Í þessum anda höfum við ákveðið að halda fyrsta prófkjörið sem haldið hefur verið á Internetinu. Þeir sem skrá sig í Samfylkinguna í dag föstudag eða á morgun laugardag ásamt þeim sem fyrir eru geta valið framboðslista flokksins í Reykjavík á vefnum 10. og 11. nóvember. Þeir fá sendan aðgangslykil í farsímann sinn og geta kosið í prófkjörinu á vefnum hvar sem þeir eru staddir.

Verkefni okkar er einfalt. Við þurfum ríkisstjórn fyrir venjulegt fólk á Íslandi. Til þess þurfa sem flestir að ganga til liðs við Samfylkinguna á næstu mánuðum. Ég hvet þig til að gera það og benda vinum þínum á þennan spennandi möguleika. Um leið býð ég þér að kynna þér stefnumál mín hér á síðunni. Þeir sem ekki skrá sig geta svo kosið með gamla laginu þann 11. nóvember með því að undirrita stuðningsyfirlýsingu við Samfylkinguna, en frá því segi ég nánar síðar.

Góða helgi, Helgi.

Fyrsta netprófkjörið

blog

Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík fer fram 11. nóvember.
Flokksbundið Samfylkingarfólk getur kosið á internetinu, hvar í
heiminum sem það er statt. Þetta er eftir því sem við best vitum fyrsta
netprófkjör í heiminum. Þeir flokksmenn sem eru skráðir rétthafar
gsm-síma fá þá send aðgangsorð í símann sinn.

Óflokksbundnir stuðningsmenn, sem orðnir verða 18 ára þann 11.
nóvember, geta einnig kosið en þá með því að mæta á kjörstaðinn í
Þróttarheimilinu í Laugardal og fylla út stuðningsyfirlýsingu við
stefnu Samfylkingarinnar.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla verður haldin á skrifstofu Samfylkingarinnar, Hallveigarstíg 1, frá og með 30. október.

Frá 30. október til 3. nóvember er opið á kjörstað frá kl. 10-17.

Frá og með laugardeginum 4. nóvember er opið sem hér segir:
4. og 5. nóvember kl. 12-16;
6.-9. nóvember kl. 10-18;
10. nóvember kl. 12-20;
11. nóvember fer fram prófkjör í félagsheimili Þróttar í Laugardal kl. 10-18.

Rétt til þátttöku í prófkjörinu hafa allir félagsmenn í Samfylkingunni
með lögheimili í Reykjavík. Félagar í Samfylkingunni sem eiga
lögheimili í Reykjavík en eru búsettir erlendis geta tekið þátt en
þurfa að skila beiðni um að fá sendan kjörseðil Slík beiðni þarf að
hafa borist eigi síðar en 4. nóvember nk.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Samfylkingarinnar, samfylking.is.

Við búum í samfélagi – ekki í banka

blog

Við búum í samfélagi en ekki í banka. Fyrir mér snúast stjórnmál ekki síst um það að tryggja öllum jöfn tækifæri í lífinu. Þegar við í Samfylkingunni tökum við forystu í landsstjórninni næsta vor verður eitt brýnasta viðfangsefni okkar að innleiða stjórnhætti þar sem virðing fyrir mannréttindum og raunverulegu lýðræði eru í hávegum höfð. Að mínu mati eru þessi verkefni efst á forgangslistanum:

1. Menntun er kjarni jafnaðarstefnunnar. Menntun er besta tækið til þess að skapa samfélag þar sem allir hafa sömu tækifæri. Menntun er fjárfesting í fólki – ekki bara einhver ríkisútgjöld. Nú þurfa námsmenn að greiða bönkunum skatt af námslánum. Ég vil breyta því og greiða námslánin fyrirfram. Ég vil að LÍN hætti að krefja námsmenn um ábyrgðarmenn vegna námslána. Það kemur í veg fyir að sumir geti stundað nám. Það eru mannréttindi að geta stundað nám. Ég styð einkaskóla sem valkost en grunnur okkar menntakerfis eiga að vera öflugir skólar á vegum hins opinbera þar sem velmenntaðir kennara fá laun í samræmi við ábyrgð. Ég vil gjaldfrjálsan leikskóla.

2. Enn í dag er fólki mismunað í launum eftir kynferði. Það er forgangsmál að útrýma kynbundnum launamun. Það er hægt, það sýndum við þegar Reykjavíkurlistinn tók við stjórn borgarinnar. Við einsettum okkur að vinna á kynbundnum launamun, unnum skipulega að því og náðum markmiðumokkar. Ríkisstjórnin hefur talað um að gera þetta en engin skref stigið. Við hefjumst handa næsta vor og um leið vil ég að launaleynd verði aflétt.

3. Aldraðir og fatlaðir, sem dveljast á stofnunum, njóta ekki fullra mannréttinda meðan þeir fá ekki að njóta einkalífs. Við erum ein ríkasta þjóð í heimi. Við höfum efni á að bjóða fötluðum og öldruðum einkaherbergi á stofnunum. Ég tel að þetta sé forgangsmál.

4. Rétt almennings til áhrifa tryggjum við með gagnsæi í öllum stjórnarháttum, aðgangi að upplýsingum, og almennum atkvæðagreiðslum um mikilsvægar stefnumarkandi ákvarðanir á öllum sviðum.

Ríkisstjórn fyrir venjulegt fólk

blog

Eftir 12 ára valdatíð framsóknar og Sjálfstæðisflokks er orðin gjá milli kjara fámennrar auðstéttar og venjulegs fólks. Við vorum áður á rétti leið en þessi ríkisstjórn hefur leitt okkur á villigötur frjálshyggjunnar. Við þurfum ríkisstjórn fyrir venjulegt fólk. Það verður verkefni nýrrar ríkisstjórnar undir forystu Samfylkingarinnar að endurreisa og efla norrænt velferðarkerfi á Íslandi . Varðandi almenn lífskjör tel ég að þessi atriði séu brýnust:

1. Tekjutengingar í lífeyriskerfinu festa í fátæktargildru þá sem hafa úr minnstu að spila. Það er óþolandi að refsa fátæku fólki fyrir að nýta litla starfsgetu til þess að sjá sér og sínum farborða. Ég vil draga stórlega úr tekjutengingum, hætta alveg að tengja lífeyri við tekjur maka og hrinda í framkvæmd tillögum Samfylkingarinnar um 75.000 frítekjumark til allra sem njóta lífeyris.

2. Tekjutengingar í skattkerfinu bitna verst á barnafólki og öllum sem þiggja venjuleg laun fyrir sína vinnu, okkur sem erum ekki háð lífeyrisgreiðslum og lifum ekki á ofurlaunum og fjármagnstekjum. Við lendum í hæsta skatthlutfalli, fáum hvorki afslætti né undanþágur. Ég vil endurskoða skattkerfið frá grunni, fækka undanþágum og lækka skattprósentuna. Ég er hlynntur hugmyndum um eina flata skattprósentu, þó þannig að það sé hátekjuskattur á raunverulegar ofurtekjur. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar mun auðvitað koma í framkvæmd tillögunni um afnám stimpilgjalda vegna íbúðakaupa.

3. Verð á mat og öðrum lífsnauðsynjum er allt of hátt á Íslandi. Loksins er búið að stíga einhver skref til að lækka matarverðið en ég vil ganga miklu lengra í þá átt að fella niður tolla og vörugjöld.

4. Ég vil taka upp evruna, hún er okkar besta vörn gegn okri og fákeppni. Við neytendur njótum kosta virkrar samkeppni í allt of litlum mæli og búum við tvíokun á flestum mörkuðum. Hér er hæsta vaxtastig í Evrópu. Það er vegna þess að við höldum úti krónunni. Okurvextirnir á krónunni standa svo undir ofsagróða braskaranna á á fjármálamarkaði. Verðtrygginguna þarf að afnema.

Friðum miðhálendið – nýjar lausnir í umhverfismálum

blog

Svona vil ég hefjast handa við að hrinda í framkvæmd nýrri umhverfisstefnu Samfylkingarinnar – Fagra Ísland:

1. Friðun miðhálendisins. Núverandi ríkisstjórn nálgast umhverfismál þannig að hún bútar landið niður í parta. Svo er ákveðið hvort spilla eigi einu svæði í einu eða ekki. Þetta er röng nálgun  og í andstöðu við þá ábyrgð sem við berum gagnvart umheiminum og framtíðinni. Ég hef alla tíð unnið gegn Kárahnjúkavirkjun og vil að miðhálendið verði friðað í heild sinni. Þannig sláum við virkjanakosti í Skagafirði, Skjálfanda, á Landmannalaugasvæðinu, í Kerlingarfjöllum og Langasjó út af teikniborðinu á einu bretti.

2. Mengunarkvótar. Það er frumskilyrði að Íslendingar haldi sig innan marka Kyoto-samkomulagsins í mengunarmálum. Við eigum að hætta að gefa mengunarkvótana. Þess í stað á að láta þann sem mengar borga fyrir kostnað umhverfisins af starfseminni.  Mengunarskattar hvetja atvinnulífið til að leita nýrra, umhverfisvænna lausna.

3. Bestu fréttirnar í umhverfismálum landsins undanfarin ár er frumkvæði Íslendinga í vetnisvæðingu. Reykjavíkurlistinn reið á vaðið með vetnisknúnum strætisvögnum en vetnisvæðingin hefur aðeins fengið hálfvolgan stuðning frá ríkinu þrátt fyrir eldmóð manna eins og Hjálmars Árnasonar. Þessu þarf að breyta. Ég vil setja vetnisvæðinguna og aðrar aðgerðir til þess að þróa nýja orkugjafa í forgang. Íslendingar eru forystuþjóð í nýtingu jarðhita. Við eigum að setja meira fé í djúpboranir á háhitasvæðum og þróa nýjar lausnir. Mikilvægasta framlag okkar til umhverfismála heimsins er að virkja íslenskt hugvit til útrásar í orkugeiranum.

Þjóðaratkvæði um miðhálendið

blog

Þessi grein mín birtist í Morgunblaðinu 10. okt. 2006

 

Þjóðaratkvæði um miðhálendið

Í ÁGÆTU Reykjavíkurbréfi leggur ritstj. Mbl. til að þau deilumál sem nú rísa hæst, þ.e. um virkjanir og stóriðju, verði leyst í almennum atkvæðagreiðslum. M.a. hafa forseti Íslands og formaður Samfylkingarinnar nýlega varað við að þessi mál megi ekki kljúfa þjóðina og mikilvægt að við leitum lausna. Áhersla blaðsins á beint lýðræði er lofsverð sem fyrr, en aðferðafræðin sem lögð er til er hæpin.

Það er sjálfsagt lágmarksskilyrði að framkvæmdir sem þessar fari í almenna atkvæðagreiðslu, en það er ekki nægjanlegt. Því slíkar atkvæðagreiðslur eru í sjálfu sér atkvæðagreiðslur um eyðileggingu og hætt er við að smátt og smátt spillum við með afmörkuðum ákvörðunum heildarmynd landsins og atvinnustefnu þess. Vænlegra sýnist mér að hafa slíkar atkvæðagreiðslur um friðun en framkvæmdir og þó einkum um hinar stóru línur, því allsherjaratkvæðagreiðslur eiga helst að varða stórmál og framtíðarsýn.

Þannig ættum við að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um friðlýsingu miðhálendisins og ákveða í henni að þar rísi ekki virkjanir né háspennulínur. Miðhálendið eigum við öll, hvort sem við búum á Húsavík eða í 101 og saman eigum við að móta framtíðarsýn fyrir svæðið allt. Hið sama gæti átt við eldfjallafriðlandið sem Landvernd hefur lagt til. Í slíkum atkvæðagreiðslum gætum við tekið grundvallarákvarðanir um framtíð náttúru landsins, atvinnustefnu okkar og þjóðfélagsgerð. Slíkar atkvæðagreiðslur hefðu mikla kosti umfram einangraða bardaga við fjársterk stóiðjufyrirtæki sem hætt er við að verði fremur varnarbarátta en lýðræðislegar tímamótaákvarðanir. Morgunblaðið gerði snemma á þessu ári góða grein fyrir hugmynd minni um friðlýsingu miðhálendisins og ég hvet blaðið og lesendur þess til að íhuga hvort þar sé ekki að finna verðugasta atkvæðagreiðsluefnið.

Stefnuleysisræðan

blog

Þessi grein birtist í Blaðinu 10. október 2006.

Stefnuleysisræðan

Jæja. Jólin að nálgast og við alþingismenn komnir til byggða. Fyrsta vika þings liðin og harður kosningavetur framundan.  Kosningahitann var þó ekki að finna í stefnuræðu forsætisráðherra né umræðum um hana sem voru venju fremur bæði lélegar og leiðinlegar og hefur maður þó ýmsu kynnst. Við hljótum að þurfa að endurskoða þá innrás í kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins sem stefnuræðan er ef hún á að vera svona slöpp. Nú er líka bein útsending frá öllum þingfundum bæði í sjónvarpi og á netinu og þannig hafa allir sem vilja ógrynni af tækifærum til að fylgjast með umræðum og allt aðrar aðstæður en var þegar ákveðið var að leggja tvö sjónvarpskvöld undir Alþingi.

Vandi þingmanna við umræðurnar á þriðjudagskvöld var að stefnuræða forsætisráðherra var, eins og ríkisstjórnin, tíðinda- og innihaldslítil. Nýr forsætisráðherra í sinni fyrstu stefnuræðu hafði engan afdráttarlausan pólitískan boðskap að flytja, enga framtíðarsýn að færa og engar fréttir að segja. Enda lítið að frétta af því sem ekkert er. Stefnuræðan hefur raunar verið trúnaðarmál og dreift þannig til þingmanna eins og frægt er. En í þessari fyrstu stefnuræðu Geirs Haarde var trúnaður óþarfur því þar var ekkert sem vert var að segja frá.

Umræður í vikunni um tekjuskiptingu, efnahagsmál og varnarmál afhjúpuðu líka að stjórnarflokkarnir koma til þings með allt á hælunum. Nýtt fjárlagafrumvarp var kynnt í byrjun vikunnar í prófkjörsbaráttu Árna Mathiesen á Selfossi. Það sýnir að björtustu vonir stjórnarflokkanna um ástandið á næsta ári eru að hér verði áfram bullandi verðbólga og gríðarháir vextir. Þess vegna hafa þeir ákveðið að hætta við framkvæmdastopp sem þeir ákváðu fyrir nokkrum vikum!?!  Það sýnir auðvitað betur en flest annað að þeim er einfaldlega sama um verðbólguna og ofurvextina sem fólk er nú að borga, eða skortir a.m.k. þann vilja og stefnufestu sem til þarf til að koma á stöðugleika. Það þarf þess vegna nýja ríkisstjórn til að gera það.

Ný ríkisstjórn mun ekki síður þurfa að taka á skatta- og bótakerfinu sem notað hefur verið til að auka skipulega á misskiptingu í samfélaginu, þannig að við nú stefnum hraðbyri í átt frá norræna velferðarsamféalginu. Skattbyrðin hefur verið flutt af efnaliðinu á millitekjufólk og verr setta, ekki síst með alls kyns aukasköttum eins og stimpilgjaldi, gjöldum í velferðarkerfinu og menntakerfi og svo tekjutengingunum. Þær hafa ólað fólk svo hraustlega niður í fátæktina að þegar nú ríkisstjórnin hefur misst tökin á verðbólgunni þá hækka innistæður á sparireikningum aldraðra svo eignir þeirra rýrni ekki, en þær vaxtatekjur skerða svo lífeyrisgreiðslurnar til þeirra! Þannig blæða aldraðir fyrir verðbólguóstjórnina. Og það er auðvitað ótrúlegt að smá aukatekjur lífeyrisþega séu skattlagðar um meira en helming meðan braskararnir borga tíu prósent af ofsagróða. Þannig er það venjulegt fólk með meðaltekjur og minni sem standa undir lunganum af skattheimtunni, sem náði nýju Íslandsmeti í fyrra. Og það var lýsandi að ungu sjálfstæðismennirnir sem kjörnir voru á þing út á skattamálin voru hvergi sjáanlegir við umræðuna, enda hefur Heimdallur aldrei haldið skattadaginn seinna á árinu en nú en það er sá dagur sem við erum búin að vinna fyrir sköttunum okkar fyrir árið.  Vonandi tekst okkur þó að píska þá til að lækka loksins matarskattinn, en aftur og aftur hafa þeir fellt það mál frá okkur.

Það var svo viðeigandi að undirstrika enn frekar stefnuleysi og doðann sem einkennir stjórnina með því að forsætisráðherra gerði grein fyrir varnarleysi landsins. Þar hafa þeir hrakist undan og meira að segja atað hendur okkar blóði til að reyna að fá að halda einhverjum her, en fá svo ekki að halda öðru en menguninni. Ætli Íraksmálið, innistæðulausar hótanir um uppsögn varnarsamningsins og þessi lélegasti viðskilnaðarsamningur sem hugsast gat séu ekki skýrustu dæmin um nauðsyn þess að skipta um forystu fyrir landinu.

Þjóðaratkvæði um miðhálendið

blog

Þessi grein mín birtist í Morgunblaðinu 10. okt. 2006

 

Þjóðaratkvæði um miðhálendið

Í ÁGÆTU Reykjavíkurbréfi leggur ritstj. Mbl. til að þau deilumál sem nú rísa hæst, þ.e. um virkjanir og stóriðju, verði leyst í almennum atkvæðagreiðslum. M.a. hafa forseti Íslands og formaður Samfylkingarinnar nýlega varað við að þessi mál megi ekki kljúfa þjóðina og mikilvægt að við leitum lausna. Áhersla blaðsins á beint lýðræði er lofsverð sem fyrr, en aðferðafræðin sem lögð er til er hæpin.

Það er sjálfsagt lágmarksskilyrði að framkvæmdir sem þessar fari í almenna atkvæðagreiðslu, en það er ekki nægjanlegt. Því slíkar atkvæðagreiðslur eru í sjálfu sér atkvæðagreiðslur um eyðileggingu og hætt er við að smátt og smátt spillum við með afmörkuðum ákvörðunum heildarmynd landsins og atvinnustefnu þess. Vænlegra sýnist mér að hafa slíkar atkvæðagreiðslur um friðun en framkvæmdir og þó einkum um hinar stóru línur, því allsherjaratkvæðagreiðslur eiga helst að varða stórmál og framtíðarsýn.

Þannig ættum við að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um friðlýsingu miðhálendisins og ákveða í henni að þar rísi ekki virkjanir né háspennulínur. Miðhálendið eigum við öll, hvort sem við búum á Húsavík eða í 101 og saman eigum við að móta framtíðarsýn fyrir svæðið allt. Hið sama gæti átt við eldfjallafriðlandið sem Landvernd hefur lagt til. Í slíkum atkvæðagreiðslum gætum við tekið grundvallarákvarðanir um framtíð náttúru landsins, atvinnustefnu okkar og þjóðfélagsgerð. Slíkar atkvæðagreiðslur hefðu mikla kosti umfram einangraða bardaga við fjársterk stóiðjufyrirtæki sem hætt er við að verði fremur varnarbarátta en lýðræðislegar tímamótaákvarðanir. Morgunblaðið gerði snemma á þessu ári góða grein fyrir hugmynd minni um friðlýsingu miðhálendisins og ég hvet blaðið og lesendur þess til að íhuga hvort þar sé ekki að finna verðugasta atkvæðagreiðsluefnið.

Stefnuleysisræðan

blog

Þessi grein birtist í Blaðinu 10. október 2006.

Stefnuleysisræðan

Jæja. Jólin að nálgast og við alþingismenn komnir til byggða. Fyrsta vika þings liðin og harður kosningavetur framundan.  Kosningahitann var þó ekki að finna í stefnuræðu forsætisráðherra né umræðum um hana sem voru venju fremur bæði lélegar og leiðinlegar og hefur maður þó ýmsu kynnst. Við hljótum að þurfa að endurskoða þá innrás í kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins sem stefnuræðan er ef hún á að vera svona slöpp. Nú er líka bein útsending frá öllum þingfundum bæði í sjónvarpi og á netinu og þannig hafa allir sem vilja ógrynni af tækifærum til að fylgjast með umræðum og allt aðrar aðstæður en var þegar ákveðið var að leggja tvö sjónvarpskvöld undir Alþingi.

Vandi þingmanna við umræðurnar á þriðjudagskvöld var að stefnuræða forsætisráðherra var, eins og ríkisstjórnin, tíðinda- og innihaldslítil. Nýr forsætisráðherra í sinni fyrstu stefnuræðu hafði engan afdráttarlausan pólitískan boðskap að flytja, enga framtíðarsýn að færa og engar fréttir að segja. Enda lítið að frétta af því sem ekkert er. Stefnuræðan hefur raunar verið trúnaðarmál og dreift þannig til þingmanna eins og frægt er. En í þessari fyrstu stefnuræðu Geirs Haarde var trúnaður óþarfur því þar var ekkert sem vert var að segja frá.

Umræður í vikunni um tekjuskiptingu, efnahagsmál og varnarmál afhjúpuðu líka að stjórnarflokkarnir koma til þings með allt á hælunum. Nýtt fjárlagafrumvarp var kynnt í byrjun vikunnar í prófkjörsbaráttu Árna Mathiesen á Selfossi. Það sýnir að björtustu vonir stjórnarflokkanna um ástandið á næsta ári eru að hér verði áfram bullandi verðbólga og gríðarháir vextir. Þess vegna hafa þeir ákveðið að hætta við framkvæmdastopp sem þeir ákváðu fyrir nokkrum vikum!?!  Það sýnir auðvitað betur en flest annað að þeim er einfaldlega sama um verðbólguna og ofurvextina sem fólk er nú að borga, eða skortir a.m.k. þann vilja og stefnufestu sem til þarf til að koma á stöðugleika. Það þarf þess vegna nýja ríkisstjórn til að gera það.

Ný ríkisstjórn mun ekki síður þurfa að taka á skatta- og bótakerfinu sem notað hefur verið til að auka skipulega á misskiptingu í samfélaginu, þannig að við nú stefnum hraðbyri í átt frá norræna velferðarsamféalginu. Skattbyrðin hefur verið flutt af efnaliðinu á millitekjufólk og verr setta, ekki síst með alls kyns aukasköttum eins og stimpilgjaldi, gjöldum í velferðarkerfinu og menntakerfi og svo tekjutengingunum. Þær hafa ólað fólk svo hraustlega niður í fátæktina að þegar nú ríkisstjórnin hefur misst tökin á verðbólgunni þá hækka innistæður á sparireikningum aldraðra svo eignir þeirra rýrni ekki, en þær vaxtatekjur skerða svo lífeyrisgreiðslurnar til þeirra! Þannig blæða aldraðir fyrir verðbólguóstjórnina. Og það er auðvitað ótrúlegt að smá aukatekjur lífeyrisþega séu skattlagðar um meira en helming meðan braskararnir borga tíu prósent af ofsagróða. Þannig er það venjulegt fólk með meðaltekjur og minni sem standa undir lunganum af skattheimtunni, sem náði nýju Íslandsmeti í fyrra. Og það var lýsandi að ungu sjálfstæðismennirnir sem kjörnir voru á þing út á skattamálin voru hvergi sjáanlegir við umræðuna, enda hefur Heimdallur aldrei haldið skattadaginn seinna á árinu en nú en það er sá dagur sem við erum búin að vinna fyrir sköttunum okkar fyrir árið.  Vonandi tekst okkur þó að píska þá til að lækka loksins matarskattinn, en aftur og aftur hafa þeir fellt það mál frá okkur.

Það var svo viðeigandi að undirstrika enn frekar stefnuleysi og doðann sem einkennir stjórnina með því að forsætisráðherra gerði grein fyrir varnarleysi landsins. Þar hafa þeir hrakist undan og meira að segja atað hendur okkar blóði til að reyna að fá að halda einhverjum her, en fá svo ekki að halda öðru en menguninni. Ætli Íraksmálið, innistæðulausar hótanir um uppsögn varnarsamningsins og þessi lélegasti viðskilnaðarsamningur sem hugsast gat séu ekki skýrustu dæmin um nauðsyn þess að skipta um forystu fyrir landinu.