Símhleranir íslenskra stjórnvalda á tímum kalda stríðsins

blog

Símhleranir íslenskra stjórnvalda á tímum kalda stríðsins eru nú aftur
komnar inn í umræðuna. Tilefnið er grein sem Kjartan Ólafsson,
fyrrverandi alþingismaður og ritstjóri Þjóðviljans, skrifaði í
Morgunblaðið á dögunum. Í greininni eru nafngreindir 32 einstaklingar
sem þola máttu að sími heimilis þeirra væri hleraður. Af þessu tilefni
óskaði ég eftir utandagskrárumræðum um málið á Alþingi. Við þeirri
beiðni var orðið og var Björn Bjarnason dómsmálaráðherra til andsvara.
Hér fylgja ræðurnar sem ég flutti við umræðurnar á þinginu í gær.

Fyrri ræðan: 

Virðulegur forseti. Það er grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi að
heiðarlegt fólk þurfi ekki að sæta símhlerunum yfirvalda vegna
stjórnmálaskoðana sinna. Það gerðist þó ítrekað á Íslandi í kalda
stríðinu og er nú fullupplýst. Það er því mikilvægt að hæstv.
dómsmálaráðherra ítreki að viðhorf dómsmálayfirvalda til símhlerana séu
breytt frá því sem þá var. Mikilvægt vegna þess að við sem sitjum í
þessum sal höfum undirritað drengskaparheit að stjórnarskránni og
ákvæðum hennar um friðhelgi einkalífsins. Stjórnarskrá lýðveldisins
Íslands er æðsta stofnun okkar og það er skylda okkar að standa vörð um
mannréttindaákvæði hennar.

Á miðopnu Morgunblaðsins í vikunni rekur Kjartan Ólafsson þær hleranir
sem sneru að 32 heimilum á árum kalda stríðsins. Þar var aðeins einu
sinni vitnað til beiðni lögreglunnar, aðeins tvisvar sinnum vitnað til
lagaheimilda. Enginn rökstuddur grunur um saknæmt athæfi þeirra sem í
hlut áttu var fram færður. Engin gögn eru til um hleranirnar.

Enn alvarlegra verður málið fyrir það að 12 alþingismenn og ráðherrar
sættu þessu sem þó eiga að njóta sérstakrar friðhelgi af hálfu
yfirvalda og hafa sérstakt svigrúm til stjórnmálalegra athafna. Kallað
er eftir afsökunarbeiðni. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur sagt að hann
sjái ekki efni til þess og við hljótum að spyrja hvort hann sjái aðra
leið til að ljúka þessu máli gagnvart þeim sem í hlut áttu?

Kalda stríðinu er lokið og hér er ekki verið að leita að sökudólgum. En
það þarf að ljúka þessum málum gagnvart þeim sem á var brotið.
Dómsmálaráðherra segir að þetta fólk hafi átt góð samskipti á eftir. Nú
auðvitað, þeir sem hleraðir voru vissu ekki af því. Hann vísar til þess
að menn geti leitað réttar síns. En hvernig mega þeir gera það þegar
þeir eru fyrst upplýstir um málið þegar þau eru fyrnd?

Hann segir að sagan hafi fellt sinn dóm. Já. Að heiðarlegt fólk sem
barðist fyrir þjóðfrelsi og jöfnuði í samfélagi sínu sætti því að
friðhelgi einkalífs þess var rofin án þess að rökstuddur grunur væri um
saknæmt athæfi af þess hálfu. Dómsmálayfirvöld hljóta því með
einhverjum hætti að þurfa að jafna þá reikninga.

En við hljótum líka að spyrja hvort hleranir hafi farið fram eftir 1991
því að þá lauk rannsókninni. Hvort þeim hafi verið beitt í svipuðum
tilfellum eins og í Falun Gong málinu, vegna náttúruverndarmótmæla og
annarra slíkra hluta. Líka hvort vísbendingar séu um að hleranir hafi
farið fram án dómsúrskurðar. Kastljós Ríkissjónvarpsins upplýsti t.a.m.
að ólögmætum eftirfararbúnaði hafi verið beitt af hálfu lögreglu
nýverið og það gefur auðvitað tilefni til þess að spyrja hvort
ólögmætum aðferðum hafi verið beitt án dómsúrskurðar. Við hljótum að
inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig aðhald og eftirlit með þessari
starfsemi sé tryggt. Hvernig lögum sé nú skipað. Þar sem ráðherrann
hefur iðulega lýst því yfir að hann telji efni til að standa betur að
löggjöf um þessa þætti í starfsemi lögreglunnar vil ég inna hann eftir
því hvað líði hugmyndum hans um slíka löggjöf.

Um allt þetta hljótum við að spyrja vegna þess að það er ekki bara á
tímum kalda stríðsins nauðsynlegt að standa vörð um friðhelgi
einkalífsins. Okkur er það líka mikilvægt og nauðsynlegt í dag. Það er
mikilvægt að við sendum skýr skilaboð, þó að þetta mál varði fortíðina,
inn í framtíðina um að við tökum það grafalvarlega, Íslendingar, ef
friðhelgi einkalífs heiðarlegs fólks er rofin af stjórnvöldum. Það eru
þau skilaboð sem stjórnvöld morgundagsins þurfa að hafa alveg klár frá
okkur sem erum uppi nú á dögum.

Seinni ræðan: 

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. dómsmálaráðherra vekur mig til
umhugsunar og veldur mér vonbrigðum og áhyggjum í senn. Ég hélt að
kalda stríðinu væri lokið þar til ég heyrði ræðu hæstv.
dómsmálaráðherra.

Ég hóf þessa umræðu á því að segja að við hefðum ekki þörf fyrir að
leita uppi sökudólga frá liðinni tíð. En að ráðherrann vegi hér að
nafngreindu látnu fólki og fjarstöddu, fyrrverandi alþingismönnum og
ráðherrum, sem þingmenn úr öllum flokkum hafa risið úr sætum fyrir, til
að þakka þeim störf hér á þessum vettvangi – ja, um það verður að segja
að ráðherrann verður að ráða sóma sínum sjálfur.

Þetta er lítill bær, við erum öll frændur og vinir. Að draga upp þá
mynd af þessu fólki að þar hafi farið glæpa- og ofbeldissamtök er
fjarri öllu lagi. Hér fóru heiðarlegir Íslendingar sem á hverjum tíma
reyndu að berjast fyrir betri heimi eftir sannfæringu sinni eins og hún
var, rétt eins og við öll í þessum sal og hæstv. dómsmálaráðherra
meðtalinn. Ráðherrann vísar til þess að þetta hafi verið gert að ósk
lögreglu. Þess sér ekki stað í gögnum málsins og þeim orðum sínum
verður hann að finna stað því aðeins í einu tilviki er vísað til óska
lögreglunnar. Ég held að þessi umræða kalli því miður á það að við
vinnum málið áfram. Ég held að rannsóknin og nefndarskipunin hafi verið
farsæl skref en eftir á að hyggja er það kannski rangt og ósanngjarnt
að ætlast til þess að hæstv. dómsmálaráðherra hafi fyrirsvar fyrir
þessum gögnum.

Fagra Bitra

blog

Á þriðjudaginn (20. maí) fengum við fulltrúa Skipulagsstofnunar á fund umhverfisnefndar þingsins til að segja frá álitsgerð þeirra um Bitruvirkjun. Sú álitsgerð markar tímamót í umhverfismálum og sama dag samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að falla frá áformum um virkjunina og borgarstjórnin fagnaði ákvörðuninni í framhaldinu.

Þetta er sérstaklega athyglisvert fyrir okkur í Samfylkingunni. Fyrir tveimur árum síðan lögðum við nýjar áherslur í umhverfismálum undir fyrirsögninni: „Fagra Ísland“. Sú stefnubreyting varð til þess að við snérum vörn í sókn og í kjölfarið náðum við góðum árangri í kosningum og mynduðum ríkisstjórn. Eftir myndun hennar hafa pólitískir andstæðingar okkar reynt af veikum mætti að draga upp þá mynd að við höfum brugðist „Fagra Íslandi“.

Þetta var ekki síst áberandi eftir úrskurð umhverfisráðherra um álver í Helguvík. Þá töldu sumir að ráðherrann hefði átt að setja þá framkvæmd í nýtt umhverfismat, sem Þórunn Sveinbjarnardóttir taldi að væri ekki í samræmi við lög. Því fylgdu furðulegar upphrópanir um að hér væru að rísa á vegum Samfylkingarinnar ný álver við hvern fjörð.

Staðreyndin er hins vegar sú að á þessu kjörtímabili er ekki að rísa neitt álver nema hugsanlega í Helguvík. Stjórnarflokakarnir höfðu sem kunnugt er ólíka stefnu í umhverfismálum og því var í stjórnarsáttmálanum samið um að ráðast í „Fagra Ísland“ en að þau leyfi sem búið var að gefa út af fyrri ríkisstjórn yrðu ekki afturkölluð. Það þýðir að ríkisstjórnin mun gera áætlun fyrir landið allt um það hvaða svæði við viljum vernda í náttúrunni en hugsanlega getur risið álver í Helguvík ef það nær samningum um orku, raflínur, losunarheimildir o.s.fr.

Vaxandi mikilvægi náttúrunnar

Álit Skipulagsstofnunar á Bitruvirkjun mun hafa veruleg áhrif á áætlun okkar um vernd náttúru Íslands. Í fyrsta áfanga rammaáætlunar sem kynntur var fyrir nokkrum árum komu jarðvarmavirkjanir vel út. Tíðarandinn þá var sumpart sá að vatnsaflsvirkjanir væru ómögulegar en jarðvarmavirkjanir mjög jákvæðar. Náttúruvendarfólk gagnrýndi hins vegar niðurstöðurnar og taldi þær ekki taka nægjanlegt tillit til náttúru og landslags. Eins sættu þær gagnrýni útivistar- og ferðaþjónustufólks.

Álitið um Bitruvirkjun bendir til þess að sú gagnrýni hafi átt við rök að styðjast því þar er einmitt meiri áhersla en áður lögð á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Kannski Hellisheiðarvirkjun hafi átt þátt í þessari viðhorfsbreytingu, enda er hún í alfaraleið og afhjúpar að jarðvarmavirkjanir eru ekki litlar og krúttlegar heldur verulegt lýti á náttúrunni. Auðvitað hefur líka áhrif að eftir því sem við tæknivæðumst meira þess mikilvægara verður að standa vörð um náttúruna.

Óþolandi umhverfi

Áætlun okkar um verndun náttúru landsins snýst ekki bara um náttúruna. Um leið og við verndum hana tökum við afstöðu til þess hvað ekki á að vernda og þar með nýta til orkuvinnslu. Það er óþolandi umhverfi fyrir orkufyrirtækin að fá ekki skýr skilaboð um það hvar má virkja og hvar ekki.

Orkuiðnaður er ein mikilvægasta atvinnugrein okkar Íslendinga og nú þegar kreppir að í efnahags- og atvinnumálum er brýnt að honum séu búin skilyrði til að nýta sóknarfæri sín. Það er auðvitað enn mikilvægara nú þegar við erum að fást við hrikalegar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar að þessi fyrirtæki okkar geti virkjað endurnýjanlegar auðlindir.

Pólitíkin hefur brugðist orkuiðnaðinum. Ef undan er skilinn iðnaðarráðherrann hafa pólitíkusarnir klúðrað útrásinni með staðfestuleysi og stefnuleysi í náttúruverndarmálum um árabil sem bitnar nú á virkjunum hér heima. Það eru nefnilega sameiginlegir hagsmunir náttúruverndar og orkuiðnaðar að við drögum skýrar línur um „Fagra Ísland“ og sú áætlun verður lögð fram á næsta ári. Umhverfismatið vegna Bitruvirkjunar mun sem betur fer stuðla að því að þar njóti náttúran vafans.

Pistillinn birtist í 24 stundum 24. maí sl.

Frelsi til sjálfsbjargar

blog

Sómi okkar jafnaðarmanna í Samfylkingunni, sverð og skjöldur, Jóhanna Sigurðardóttir félags- og tryggingamálaráðherra mælti í vikunni fyrir enn einu framfaramálinu á Alþingi. Hér er um að ræða afgerandi hækkun á svokölluðu frítekjumarki örorkulífeyristaka, eða upp í eitthundrað þúsund krónur á mánuði. Frítekjumark er sú upphæð sem öryrki má hafa í tekjur án þess að tekjurnar fari að skerða lífeyrisgreiðslur hans frá tryggingastofnun. Með þessu frumvarpi erum við að stíga enn eitt skref til þess að uppfylla kosningaloforð okkar við öryrkja.

Það er furðulegt til þess að hugsa nú hve langt hefur verið gengið í tekjutengingum gagnvart lífeyrishöfum, bæði öryrkjum og öldruðum. Eitt af því sérkennilegasta í þeim tekjutengingafrumskógi öllum hefur verið sú hugmynd að refsa þeim grimmilega sem orðið hafa fyrir örorku fyrir að vinna. Enda hafa báðir stjórnarflokkarnir haft það á stefnuskrá sinni um árabil að létta tekjutengingarnar, þó það sé fyrst nú að komast verulega til framkvæmda 1. apríl sl. og 1. júlí nk. Og fjárhæð frítekjumarksins er sambærileg við ítrustu kröfur stjórnarandstöðunnar á síðasta kjörtímabili og mun bæta kjör fjölda fólks verulega.

Sóun á öryrkjaauðnum

Hver maður sér hve óskynsamlegt það hefur verið að letja öryrkja til vinnu. Í fyrsta lagi er greiddur skattur af tekjunum og ríkið hefur því haft beinan ávinning af tekjuöflun öryrkja án þess að nota tekjurnar sem tilefni til að skerða bætur. Í öðru lagi er sérstaklega mikilvægt að hvetja öryrkja til aukinnar atvinnuþátttöku þar sem hún getur beinlínis haft jákvæð áhrif á heilsufar fólks. Í þriðja lagi er vinnan leið til að rjúfa félagslega einangrun sem oft er fylgifiskur örorku sem eykur vandann og dregur úr lífsgæðum.

Við höfum uppskorið eins og við höfum sáð. Á hinum Norðurlöndunum er atvinnuþátttaka öryrkja helmingi meiri en hér og hefur þar þó ekki verið jafn gott atvinnuástand. Meðan hér er aðeins um þriðjungur öryrkja í einhverri vinnu er það yfir helmingur í grannlöndunum. Þannig höfum við með því að vanrækja endurhæfingu og með tekjutengingunum sóað þeim mannauði sem öryrkjar eru. Það er þess vegna líka fagnaðarefni að í nýgerðum kjarasamningum voru tekin mikilvæg skref til að efla starfsendurhæfingu og annan stuðning við fólk á vinnumarkaði sem misst hefur starfsorku. Ef við getum með markvissum aðgerðum hjálpað fleirum út á vinnumarkaðinn aukast lífsgæði mjög margra verulega.

Skipulögð fátækt

Óhóflegar tekjutengingar skemmdu mikið fyrir annars ágætu almannatryggingakerfi. Með þeim vék nefnilega hugmyndin um almannatryggingar sem styðja áttu fólk til sjálfshjálpar, fyrir þeirri hugsun að allir yrðu að vera jafn fátækir í kerfinu. Það var þannig orðið að skipulagðri fátækt engum til ávinnings. Því er fagnaðarefni að tekjutengingar vegna lífeyrisgreiðslna hafa verið minnkaðar. Líka að horfið hafi verið frá því að refsa fólki fyrir séreignasparnað en það segir nú allt sem segja þarf um vitleysuna sem viðgekkst að fólki var skipulega refsað fyrir að spara. Þá er ónefnt það mikla mannréttindamál sem afnám tenginga við tekjur maka var. Þá kemur fyrirhuguð hækkun skattleysismarka ekki síst þessum hópum til góða.

En þó margt hafi þegar áunnist  má ekki slá slöku við. Verðlag hækkar mikið og nýlega hafa hinir lægst launuðu fengið talsverðar kjarabætur. Mikilvægt er að lífeyrishafar fái sambærilegar hækkanir, enda áríðandi að aldrei dragi aftur í sundur með þeim lægst launuðu og öldruðum og öryrkjum, eins og gerðist á tryggingavakt Framsóknarflokksins. Það verður því spennandi að fá tillögur að breyttu og bættu almannatryggingakerfi síðar í sumar og mikilvægt að það takist sátt um fyrirkomulagið eftir þær jákvæðu breytingar sem gerðar hafa verið síðustu mánuði.

Pistillinn birtist í 24 stundum 10. maí

Aðgerða er þörf

blog

Í dag á baráttudegi verkalýðsins er ánægjulegt að minnast þess að nýfrjálshyggjunni hefur í vetur verið útrýmt úr íslensku samfélagi. Það þurfti ekki annað til en örlítið gæfi á bátinn í efnahagsmálum til að allt frjálshyggjukvakið viki fyrir áköllum um að ríkið komi strax öllu til bjargar. Kaffihúsaspekingar sem fyrir nokkrum misserum töldu stjórnmálamenn óþarfa eiga nú ekki orð yfir því að pólitíkusarnir beiti ekki valdi sínu af meiri hörku. Svona er nú skoðanahringekjan skemmtileg og frítt um borð fyrir alla. Afhjúpar auðvitað að þessi viðhorf byggðust á lífsreynsluskorti fyrst og fremst og hverfa því einsog dögg fyrir sólu þegar alvara lífsins blasir við.

Þegar á bjátar verður nefnilega svo augljóst, ekki síst í litlu samfélagi einsog okkar, að við erum öll á sama báti. Við köllum það meira að segja „Þjóðarskútuna“ því hvað sem öllu hjali líður erum við á hvers annars ábyrgð og þörfnumst samfélagslegra aðgerða til að halda sjó. Og nú mæna menn á forsætisráðherrann og bíða þeirra aðgerða sem boðaðar hafa verið.

Mikilvægast er auðvitað efling gjaldeyrisvarasjóðs sem legið hefur fyrir í nokkra mánuði að verður efldur. Það er skiljanlegt að ýmsa lengi eftir því en um leið einnig það sjónarmið að rétt sé að bíða betri kjara á lánum en buðust í vetur. Áhættuálag á bankana hefur farið hratt lækkandi sem skapar betri skilyrði fyrir lántökur. Efling verðlagseftirlits og virkt samráð við verkalýðshreyfingu og vinnuveitendur er líka mikilvægt þegar verðbólga geysar til að ná megi henni hratt niður. Mótvægisaðgerðir til að auka framkvæmdir hins opinbera á samdráttartímum eru líka mikilvægar, sem og aðgerðir í húsnæðismálum. Ábyrgðarlaus árás Seðlabankans á fasteignamarkaðinn vekur áhyggjur um óhóflegan samdrátt sem mæta þurfi. Vaxtalækkun Íbúðalánasjóðs nýlega var góðs viti og afnám stimpilgjalda og fleiri úrræði eru ríkinu nærtæk.

En um leið og aðgerða er þörf er yfirvegun nauðsynleg og mikilvægt að muna að þótt tímabundið hægi á eru undirstöður lífskjara í landinu traustar.

Birtist í 24 stundum 1. maí sl.

Evrópa og eggjakast

blog

Mörgum brá í brún í vikunni að heyra sjónvarpsfréttamann ræða hvort hægt væri að sviðsetja eggjakast fyrir myndavélarnar vegna útsendingar frá mótmælaaðgerðum vörubílstjóra við Rauðavatn. En þetta hald manna var auðvitað úr lausu lofti gripið. Eftir að samtal fréttamannsins við starfsfélaga sína varð almælt sendi hann út leiðréttingu þess efnis að þetta hafi aldrei staðið til, heldur verið í kaldhæðni sagt milli kollega, en ekki ætlast til að það væri tekið alvarlega.

Fréttamaðurinn var ekki eini fulltrúi trúverðugleikans í heiminum sem þurfti að leiðrétta sig í fyrradag. Þess þurfti líka breska forsætisráðuneytið sem til þessa hefur verið orðlagt fyrir varfærni og nákvæmni í sínu starfi. Sem kunnugt er hittust þeir Geir Haarde og Gordon Brown á sumardaginn fyrsta og ræddu alvarleg mál meðan við hin vorum í skrúðgöngum og hoppuköstulum. Og eftir fundinn tilkynnti Downingstræti 10 að þeir hefðu m.a. rætt strategískar viðræður æðstu embættismanna vegna þess að sívaxandi líkur væru á inngöngu Íslands í ESB.

Sitthvað ESB og Evrópumál

Þó sumum hafi þótt þetta hljóma líklega var það strax borið til baka af okkar ráðuneyti. Þannig segir aðstoðarkona ráðherra í Morgunblaðinu í gær „að Evrópusambandið hafi ekkert verið rætt“.  Þó sagði í tilkynningu forsætisráðuneytis okkar að þeir Geir og Gordon hefðu rætt Evrópumálin, en það er auðvitað sitthvað ESB og Evrópumál.

Þó hefði ekkert verið eðlilegra en að ræða Evrópusambandið og sívaxandi líkur á inngöngu Íslands á fundi þeirra Gordons og Geirs. Þeir voru sannanlega að ræða hinar gerbreyttu forsendur í bæði öryggis- og efnahagsmálum okkar sem nú eru og auðvitað liggur fyrir að mikill meirihluti þjóðarinnar vill hefja undirbúning að aðild að ESB. Ekki kannski af því að við séum svo hrifin af skrifræðinu í Brussel eða langi svo mikið að senda þingmenn á Evrópuþingið, heldur fyrst og fremst vegna þess öryggis og stöðugleika sem er að sækja í ESB og ekki síst myntbandalag þess.

Einnig liggur fyrir að landsmálaforysta Íslands, jafnt fagleg sem flokkspólitísk, hefur ekki verið með eða á móti aðild að ESB af trúarástæðum. Þar ræður víðast kalt hagsmunamat. Forsendur þess hagsmunamats hafa breyst hratt og því miður ekki örugglega á síðustu misserum. Vaxandi krafa er úr atvinnulífinu um að látið verði reyna á hvaða kjör bjóðist við aðild, en þegar hefur verkalýðshreyfingin tekið þá afstöðu. Þá hafa æ fleiri stjórnmálamenn sett málið á dagskrá með hugmyndum um vegvísa, breytingar á stjórnarskrá, tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu o.s.frv. Einnig hafa kynslóðabreytingar áhrif en í pólitík, á hinum félagslega vettvangi og í fjölmiðlum er yngra fólk, hlynnt ESB-aðild, að taka sæti kynslóðar sem hafði meiri efasemdir.

Göngum upprétt inn

Við sem lengi höfum talað fyrir aðild höfum lagt áherslu á m.a. mikilvægi þess að ráða sjálf för okkar inn í ESB, fremur en hrekjast þangað undan veðri og vindum. Erfiðleikar á fjármálamarkaði gætu leitt til þess að við teljum ekki aðrar leiðir færar og leitum eftir aðildarviðræðum á þeim forsendum. Það er mikilvægt að með andvaraleysi komum við okkur ekki í þá stöðu, heldur hefjumst strax handa og setjum fram eigin forsendur og skilyrði fyrir inngöngu. Við eigum að ganga styrk til samninga og þó nú séu blikur á lofti byggir sterkur efnahagur okkar ekki síst á mat og orku, en verðhækkanir á þessu tvennu eru ekki síst sá vandi sem þjóðirnar glíma við.  Kröfum okkar um forræði auðlindanna eigum við að halda á lofti því aðild að ESB á ekki að vera af neyð, heldur vegna þeirra stóru tækifæra sem í því felast til að bæta lífskjör almennings á Íslandi.

Pistillinn birtist í 24 stundum 26. apríl sl.

Best að menga á Íslandi?

blog

Það var gefandi að hlýða á fyrirlestur Al Gore um loftslagsmál í háskólabíói á þriðjudaginn. Þrátt fyrir að hafa farið á myndina um óhentugan sannleika er fyrirlesturinn enn áhrifameiri í lifandi flutningi. Ekki spillti að hann var sniðinn að stað og stund og kryddaður þekkingu fyrirlesarans á Íslandi. það yljar alltaf landanum að frægir menn frá útlöndum viti að við séum til.

Með einurð sinni og þolgæði hefur Al Gore valdið viðhorfsbreytingum um heim allan. Það sem var óljóst og umdeilt fyrir aðeins fáum árum viðurkenna nú allir sem staðreynd;  stærsta og mikilvægasta verkefni samtímans. Það er ótrúlegt fordæmi og mikil hvatning öllum þeim sem tala fyrir mikilvægum úrbótum í samfélaginu að unnt sé að ná jafn miklum árangri og  Al Gore.

Tvískinnungur

Nú skildi maður ætla að talsmenn loftslagsmengunar létu lítið fyrir sér fara þegar staðreyndir málsins liggja fyrir í niðurstöðum færustu vísindamanna sem rannsakað hafa áhrif loftslagsbreytinga fyrir Sameinuðu þjóðirnar. En fjandinn deyr ekki ráðalaus og nú eru stjórnmálamenn, sem fyrir skemmstu boðuðu að það væru engar loftslagsbreytingar, farnir að nota þær til að réttlæta aukna loftslagsmengun á Íslandi! Þeir segja nú sem svo að betra sé að álver mengi á Íslandi knúið grænni orku, en að það  mengi í Kína knúið kolaorku því þá mengi það meira „hnattrænt“ eins og það heitir svo fínt.

Sumum þykir hér örlátt viðhorf á ferðinni sem sé reiðubúið að fórna að mestu  náttúrugæðum Íslands til að draga pínulítið úr aukningu loftmengunar í Kína.  En trúlega helgast viðhorfið oftar af skeytingarleysi um náttúruna en örlæti. Hverjum manni ætti að vera ljóst að það er fáránlegt að fórna náttúrugæðum Íslands til þess eins að draga ofurlítið úr aukningu mengunar hjá annarri þjóð. En jafnvel þó það væri réttlætanlegt á það ekki við því dæmi mengunarsinnanna er ímyndun ein.

Valkostirnir eru einfaldlega ekki að knýja álver grænni orku hér eða kolum annarsstaðar. Meirihluti álvera heimsins er knúinn endurnýjanlegri orku, en ekki bara á Íslandi. Ábyrg alþjóðafyrirtæki einsog Alcoa eru ekki að fara að reisa ný álver árið 2008 sem knúin eru kolaorku. Valkostir okkar hafa því lítið með kolaorkuver í Kína að gera. Annaðhvort byggir Alcoa álver á Bakka sem knúið er endurnýjanlegri orku, eða það byggir álver annarsstaðar í heiminum sem líka yrði knúið endurnýjanlegri orku. Loftfimleikarnir um að betra sé að álver mengi hér eru þessvegna einkum ímyndunarleikur.

Verkefnið

Þessir rökfimleikar hafa verið nýttir til að krefjast áfram sérstakra aukaheimilda fyrir okkur Íslendinga til að menga loftslag jarðar meira en loftslagssamningar almennt heimila. Það er ógæfuleg nálgun að stærsta verkefni samtímans, minnkun loftslagsmengunar, að hugsa fyrst og fremst um hvernig við sjálf getum fengið undanþágu frá takmörkunum. Stundum erum við svo sjálfsupptekin að við höldum að aðeins Ísland hafi sérstöðu í heiminum. Staðreyndin er auðvitað sú að allar þjóðir hafa sérstöðu og ef 200 þjóðir ætla að leggja áherslu á undanþágur sínar er hætt við að þær nái aldrei saman um aðalatriðið, að draga úr loftslagsmengun.

Við drögum heldur ekki úr loftslagsmengun með því að leita eftir mengandi starfsemi. Við eigum þvert á móti að nýta okkar grænu orku í starfsemi sem ekki mengar s.s. netþjónabú, kísilflögur o.s.frv. Auðvitað eigum við ekki síst að hjálpa öðrum þjóðum að framleiða græna orku. Þannig vinnum við trúlega mest gagn í loftslagsmálum fyrir nú utan að skapa með því miklu áhugaverðari störf og viðskiptatækifæri en mengandi stóriðja býður.

Pistillinn birtist í 24 stundum 12. apríl sl.

Þörf nýrrar þjóðarsáttar

blog

Þrátt fyrir aðvaranir, alþjóðlega fjármálakreppu og himinháa vexti var eyðsla okkar enn að aukast í síðasta mánuði. Umhugsunarefni er að ekkert nema neyðarhemillinn virðist hemja neyslugleði Íslendinga. Það sýnir líka vel hve bitlaus og mótsagnakennd hagstjórnartæki okkar eru meðan við búum við krónuna. Háir vextir áttu að slá á eyðslu en styrktu gengi krónunnar svo að hagstætt varð að halda áfram að eyða í utanlandsferðir, bíla, o.s.frv.  Vextirnir höfðu svo lítil áhrif því ýmist fjármögnuðum við okkur í erlendri mynt, eða verðtryggðum lánum sem voru áfram á sömu gömlu vöxtunum. Þess vegna eru nú flestir sammála um að skipta um gjaldmiðil.

En við skiptum ekki um mynt á morgun og því kalla aðstæður okkar á aðrar aðgerðir. Ef krónan hefur einhvern kost þá er hann sá að eiga gott með hraða aðlögun. Það þýðir eilífar sveiflur sem ekki eru farsælar til langframa en getur komið sér vel nú þegar kreppir að. Sagan sýnir að ítrekað höfum við náð að rétta fljótt úr kútnum en það er fjarri því að vera sjálfgefið, ekki síst í miðri alþjóðlegri fjármálakreppu.

Að mjólka neytendur

Atvinnulíf okkar hefur safnað gríðarlegum skuldum síðustu ár. Það hefur verið rökstutt með aukinni framleiðni og hagræðingu. Furðu lítið virðist hins vegar mega útaf bregða til þess að fyrirtæki sjái sig knúin til að hækka verð á vöru og þjónustu. Og það er alveg ótrúlegt hvað verðið er fljótt að hækka þegar gengið lækkar, eins og verður lítið vart við að verðið hafi lækkað þegar aðstæður bötnuðu. Þó allir geti unnt bændum góðrar afkomu er 15% verðhækkun að nokkru réttlætt með vaxtahækkunum sem vekur áhyggjur um að verið sé að senda neytendum reikninginn fyrir skuldsetningu kúabúa sl. ár. Vaxandi áhyggjuefni er það viðhorf sem gætir hér og hvar í viðskiptalífi að auðveldlega megi senda íslenskum neytendum reikninginn fyrir skuldsettum yfirtökum með verðhækkunum á vöru og þjónustu.

Mjólkurhækkunin er ágætt dæmi um það sem ekki er hægt að gera við núverandi aðstæður. Ráðist allir sem réttlætt geta hækkanir í þær með afgerandi hætti erum við einfaldlega komin á bólakaf í verðbólgu og víxlverkanir síðustu aldar. Þá hugsar hver um sig og hækkar sitt með tilvísun til hinna þar til verðlag og skuldir hafa hækkað svo að launafólk þarf að rétta hlut sinn með kauphækkunum sem aftur auka kostnað og leiða til hækkana o.s.frv.

Strax

Á þeirri hringavitleysu tapa allir. Fyrir 20 árum komumst við útúr slíku ástandi en það var í lokaðra hagkerfi en nú er. Þá tóku allir höndum saman í Þjóðarsáttinni og launafólk lagði verulega á sig til að ná fram stöðugleika og í nýgerðum kjarasamningum stóð ekki á verkalýðshreyfingunni. Þeir kjarasamningar voru virðingarverð tilraun til að ná stöðugleika og tryggja kjarabætur til hinna lægst launuðu. Það sem síðan hefur gerst og virðist yfirvofandi í verðhækkunum kallar á nýja þjóðarsátt. Og nú er það ekki launafólkið heldur atvinnulífið sem halda verður aftur af hækkunarkröfum sínum. Þar verður ríkisstjórnin auðvitað líka að koma að með þeim aðgerðum sem á hennar færi eru, s.s. auka fjármálastöðugleika, lækka tolla, halda uppi framkvæmdastigi, o.s.frv. Mikilvægt er að slík samstaða náist áður en víxlhækkanir hefjast fyrir alvöru því þá eru þær illviðráðanlegar.  En til þess að það megi takast verða allir að vera með og axla ábyrgð á viðsjárverðum tímum í stað þess að senda neytendum bara reikninginn.

Talsmenn aðhaldsleysis

blog

Það hefur tekið sig upp gamall söngur í efnahagsmálum. Fellum gengið og leyfum verðbólgunni að ganga yfir, en hverfum frá háum vöxtum. Og þó það hljómi vel að gagnrýna háa vexti Seðlabankans er í því fólgið að senda eigi almenningi reikninginn í formi verðbólgu.

Enn einn grátkórinn

Á síðum blaðanna hafa sumir framámenn í stjórnmálum og viðskiptum þannig verið að segja okkur að vegna alþjóðlegrar lausafjárkreppu eigi Seðlabankinn að endurskoða vaxtastefnu sína, m.ö.o. að lækka stýrivexti. Þó blasir það við hverjum manni að ef lausafjárskortur er vandamálið þá er vaxtalækkun ekki svarið.

Á viðsjártímum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er trúverðugleiki mikilvægur. Hringlandaháttur með peningamálastefnu er við þær aðstæður fráleitur. Talsmenn aðhaldsleysis hafa því þurft hugmyndaauðgi til að renna rökum undir mál sitt. Þannig kom í vikunni fram hagfræðingur sem taldi að Seðlabankinn ætti að byggja ákvarðanir sínar um vaxtalækkanir á sömu sjónarmiðum og sá bandaríski. Brosleg hugmynd í besta falli, því þó við Íslendingar séum mestu snillingar veraldar í viðskiptum þá telur þjóðin enn aðeins 0,3 milljónir manna. Vaxtaákvarðanir bandaríska bankans taka auðvitað mið af því að þær hafa áhrif á aflvél heimsviðskiptanna, bandarískt atvinnulíf, en 0,75% vaxtalækkun Seðlabanka Íslands mun seint verða talið svar við fjármálavanda þeim sem heimurinn glímir við. Auk þess var yfirlýst forsenda lækkunar vestra trúverðugleiki sem agalausir Íslendingar hafa ekki.

Hin ósýnilega hönd

Það er út af fyrir sig eðlilegt að nú þegar þrengir að brjótist menn um og biðji um öðruvísi veruleika. Hér varð gríðarleg auðmyndun þegar fjármálafyrirtækin fengu lán á lágum vöxtum til fjárfestinga í áhættu- og ábatasömum verkefnum, en nú eru lágu vextirnir ekki lengur í boði, hvorki á heimsmarkaði né í Seðlabankanum. Af þessu breiðstræti brostinna vona hrópa sumir að Seðlabankinn sé í öngstræti. En hann gerir ekki annað en það sem hann boðaði og allir vissu að yrði og er bráðum að fara að bíta. Og það er mikilvægt að við hægjum á.

Við þurfum að draga úr neyslu okkar og fyrirtækin þurfa að leyfa hinni ósýnilegu hönd markaðarins að taka til áður en hlaupið er undir pilsfald ríksins. Því við vitum öll að það er allskonar rugl í gangi í neyslu og stöku fjárfestingum og því þarf að vinda ofan af með aðhaldi til þess að við getum svo aftur hafið uppgangstímabil. Suðaustur-Asía var ágætt dæmi um hvernig fer ef það er ekki gert.

Hvernig sem menn berja höfðinu við Arnarhólinn komast þeir ekki framhjá því að í áratugi hafa sveiflur, mikil verðbólga og háir vextir einkennt íslensku krónuna. Á því er engin skyndilausn til og síst sú að hækka skuldir heimilanna með verðbólgu. Verðtryggingin hefur líka gert krónuna að lélegu hagstjórnartæki. Ef við viljum breytingar til framtíðar er augljóslega líklegra að við náum stöðugleika og lágum vöxtum í Evrópusamvinnu og með þeim aga sem þarf að fylgja upptöku evru, fremur en með aðferðum og aðhaldsleysi gærdagsins. Bara yfirlýsingin um að við ætluðum í evrópska myntbandalagið myndi strax auka trúverðugleika okkar á alþjóðamörkuðum.

Sterkar stoðir

Í öllu krepputalinu eigum við að hafa í huga að Ísland er ótrúlega auðugt samfélag og sterkt. Mannauður okkar, auðlindir og sterkt atvinnulíf eru stoðir undir lífskjörum okkar sem ekki á að örvænta um. Þeir erfiðleikar sem við fáumst við eru tímabundnir og sagan sýnir að við erum fljót að ná okkur aftur á strik. Og þegar samdráttur verður munu ríki og Seðlabanki  auðvitað með aðgerðum milda lendinguna svo sem kostur er. En allt hefur sinn tíma.

Jafnaðarstjórn og mannréttindasigrar

blog

Sá trúnaður sem kjósendur sýndu okkur í Samfylkingunni sl. vor var af ýmsum ástæðum og væntingar jafn fjölbreytilegar og stuðningsfólkið var margt. Þar réði þó miklu hjá stórum hópi sú stefnubreyting flokksins í umhverfismálum sem varð við útgáfu hins „Fagra Íslands“ Samfylkingarinnar. Þó var það langsamlega stærsti hópurinn sem lagði höfuðáherslu á mikilvægi þess að fá að landsstjórninni flokk sem legði höfuðáherslu á að auka jöfnuð í samfélaginu. Lykillinn að velgengni okkar í farsælu stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn verður því augljóslega að vel takist að uppfylla væntingar um aukinn jöfnuð.

Stórt skref

Nú ræðst jöfnuður ekki af ríkisstjórninni einni en hún þarf sannarlega ekki að kvarta undan framlagi atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar í þeim kjarasamningum sem nú hafa náðst. Þar á bæ hafa menn líka skynjað þá þungu kröfu frá fólkinu í landinu að eftir launaskrið og kaupréttarsamninga síðustu ára þurfi að rétta hlut venjulegs fólks. Og forysta SA og ASÍ hefur með eftirtektarverðum hætti gert það að aðalatriði samninga, þó auðvitað megi alltaf um það deila hvort nógu langt sé gengið.

Í upphafi viðræðna kynnti verkalýðshreyfingin áherslur sínar í skattamálum. Þær voru ótvírætt hugsaðar með hag lág- og meðaltekjufólks að leiðarljósi en sættu nokkurri gagnrýni á þeim forsendum að þær flæktu skattkerfið og ykju svokölluð jaðaráhrif. Auðvitað olli það ákveðnum vonbrigðum að ríkisstjórnin var ekki tilbúin til viðræðna þá en lýsti sig reiðubúna til að gera það síðar í ferlinu. Allt hefur sinn tíma.

Það samkomulag um skattalækkanir sem náðist í lok kjarasamninganna milli ríkisstjórnar, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar er til fyrirmyndar og áherslurnar mjög ánægjulegar þó auðvitað megi alltaf gera betur. Þar er í fyrsta lagi verið að verja lang mestu fé til að hækka persónuafslátt sérstaklega á næstu þremur árum. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun lengi og því hafa tekjulægstu hóparnir í vaxandi mæli verið að greiða skatta. Þetta á ekki bara við um launafólk heldur líka aldraða og öryrkja. Með því að hækka persónuafsláttinn er verið að tryggja venjulegu fólki sömu krónutölu í skattalækkunum og öðrum, án þess þó að flækja skattkerfið og því ber að fagna.

Þá er ekki síður ánægjulegt að verið er að hækka umtalsvert skerðingarmörk bæði í barnabótakerfinu og í vaxtabótakerfinu, þannig að fleiri njóti þeirra. Í skýrslu sem við kölluðum eftir fyrir tveimur árum kom fram að á Íslandi eru umtalsvert fleiri börn sem alast upp við fátækt en á hinum Norðurlöndunum, þó við stöndum sem betur fer vel gagnvart öðrum þjóðum. Af henni sést að frændur okkar á Norðurlöndunum skiptu tekjum ekki jafnar milli barnafjölskyldna, en skatta- og bótakerfi þeirra hjálpuðu fleiri barnafjölskyldum yfir lágtekjumörkin. Með því að leggja áherslu á barna-, húsaleigu- og vaxtabætur eigum við að geta gert svipaða hluti, þó við samningana nú sé bara stigið lítið skref í þessu. Þá eru fleiri jákvæðir þættir í skattalækkununum, m.a. lækkun til fyrirtækja, afnám stimpilgjalda að hluta og hvatning til ungs fólks um sparnað.

Kjaramál eru mannréttindamál

Fyrr í vetur voru kynnt mikilvæg skref í kjaramálum aldraðra og öryrkja sem Jóhanna Sigurðardóttir, félags og tryggingamálaráðherra, hefur verið að útfæra. Þar er að finna kjarabætur sem eru hrein og klár mannréttindamál eins og afnám tenginga við tekjur maka. Þar með lýkur mannréttindabaráttu um að hver manneskja sé sjálfstæður einstaklingur sem staðið hefur í á annan áratug. Þar eru líka stigin veigamikil skref í að hvetja lífeyrisþega til atvinnuþátttöku og hætta að refsa fólki fyrir að bjarga sér.

Þegar allt þetta er lagt saman held ég að óhætt sé að fullyrða að á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar hafi náðst mikilvægir áfangar í átt til þess að auka jöfnuð. En kjörtímabil er fjögur ár og betur má ef duga skal.

Örlítið meira lýðræði, takk

blog

Stjórnarkreppan í Reykjavíkurborg er engan endi að taka. Hægri
glundroðinn er svo gagnger að í kjölfar klofnings F-listans gefa
borgarfulltúar Sjálfstæðisflokksins út skýrslu með minnihlutanum um
framgöngu eigin oddvita og um að borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins í
Reykjavík hafi skort pólitískt, siðferðilegt og lagalegt umboð til
stórra og óvenjulegra ákvarðanna!

Sú veika borgarstjórn sem þetta afhjúpar er afleiðing af umboðsskorti
og skorti á lýðræði. Frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hætti sem
borgarstjóri í Reykjavík hefur enginn borgarstjóri haft atkvæði
meirihluta borgarbúa og með svo takmarkað umboð hafa þeir komið og
farið hver á fætur öðrum. Því forsendan fyrir sterkum borgarstjóra í
Reykjavík er beint umboð frá borgarbúum. Við þetta bætist að meirihluti
Framsóknar og Sjálfstæðisflokks var byggður á minnihluta atkvæða
borgarbúa og völd Framsóknar í því samstarfi langt umfram það sem
þeirra lýðræðislega umboð fól í sér.

Nú er svo kominn borgarstjóri sem enginn myndi kjósa og meirihluti sem
lítill hluti borgarbúa styður. Og þessi meirihluti er myndaður um tvö
mál sem kjósendur höfðu ekki hugmynd um að stærsti stjórnmálaflokkurinn
í Reykjavík myndi setja á oddinn eftir kosningar, þ.e. friðun Laugavegar 4 og 6 og votlendisins í Vatnsmýri.

Þó Reykjavíkurlistinn hafi gengið sér til húðar var það rétt sem lagt
var upp með. Nauðsyn þess að Reykvíkingar hefðu skýra valkosti og kysu
meirihluta og borgarstjóra beint í kosningum en þyrftu ekki að sitja
uppi með niðurstöður úr vafasömu baktjaldamakki eftir kosningar. Á
þarsíðasta kjörtímabili settum við líka ákvæði um að íbúar gætu krafist
atkvæðagreiðslu um stórframkvæmdir og gerðum ýmsar tilraunir með beint
lýðræði. Þeirri þróun er mikilvægt að halda áfram og augljóslega
nauðsynlegt að borgarbúar geti knúið fram kosningar ef meirihlutinn
bregst algjörlega trausti.

Íhaldssamari en Norðmenn

Sumir segja að lýðræði okkar sé enn að slíta barnsskónum, enda Ísland
ungt lýðveldi og við til þessa ekki véfengt umboð sterka borgarstjórans
fremur en kóngsins áður, heldur bara hlýtt hans ráðstöfunum. Það er
ekki bundið við borgarmálin heldur á það ekki síður við í landsmálum.
Það er ótrúlegt að í sextíu ára sögu lýðveldisins hafi þjóðin aldrei
nokkru sinni knúið fram eða fengið að taka sjálf ákvörðun um eitt
einasta atriði er máli skipti. Aldrei. Og hvaða rugl er það? Hefur á
heilum mannsaldri ekkert það álitamál verið uppi á Íslandi að
almenningur ætti að taka afstöðu til þess fremur en ríkisstjórnin?

Í vikunni fengum við sem fyrr fréttir af því að árið 2006 hefði
matvöruverð enn verið tveimur þriðjuhlutum hærra á Íslandi en að
meðaltali í Evrópu. Við vitum að svipað á við um marga aðra vöru s.s.
lyf, barnavörur og ýmsar nauðsynjar fyrir alþýðu manna. Þetta er
auðvitað sérstaklega íþyngjandi fyrir venjulegt fólk með lágar og
meðaltekjur og þá ekki síst barnafjölskyldur. Miklu alvarlegri eru þó
þau erfiðu skilyrði sem hið séríslenska vaxtaokur skapar almenningi og
venjulegum fyrirtækjum. En stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 10% hærri
en evrópska bankans.

Af þessum ástæðum og ýmsum öðrum, ekki síst menningarlegum, hafa æ
fleiri hallast að því að við eigum að bindast bandalagi við aðrar
evrópskar þjóðir og sækjast eftir þeim vöru- og vaxtakjörum sem þar
tíðkast og efla evrópsk menningaráhrif á Íslandi um leið.

Aldrei hefur þjóðin staðið frammi fyrir stærri ákvörðun en þessari.
Alþingi hefur enga burði til að taka á málinu. Umræðan sem þarf að fara
fram verður ekki fyrr en við tökum afstöðu til aðildar. En ennþá árið
2008 bíðum við og frestum ákvörðunum og ólíkt nær öllum þjóðum í Evrópu
höfum við ekki tekið afstöðu til Evrópusamvinnunar. Jafnvel Norðmenn
hafa ekki sjaldnar en tvívegis gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um
stefnu sína í málinu. Við aldrei. Ekki fyrr en við neyðumst til þess og
höfum glatað allri samningsstöðu. Svolítið eins og sveitamaðurinn sem
aldrei skal flytja á mölina nema nauðbeygður.

Pistillinn birtist í 24 Stundum 9. febrúar