Stórkostlegur árangur

Blaðagreinar

Þegar við fyrir átta árum gengum í þingsal að hlusta á stefnuræðu Geirs Haarde var dökkt og dimmt úti. Þegar við gengum svo út aftur í skugga hrunsins hafði snjór lagst eins og teppi yfir allt og kominn hvítur kaldur vetur.

Olíuskipið í Stavanger fékkst ekki afgreitt, lyfjaskammtar voru afhentir til skemmri tíma í senn, Íslendingar erlendis áttu í erfiðleikum með framfærslueyri, Seðlabankinn tæknilega gjaldþrota, bankakerfið hrunið og enginn vildi lána Íslandi. Í kjölfarið annað hvert fyrirtæki landsins gjaldþrota og tugþúsundir heimila í uppnámi. Atvinnuleysi. Hættan stærst sú að ekkert byðist annað en okurvextir sem jafnharðan ætu þau verðmæti sem við sköpuðum. Fátæktargildra.

Þúsundir þrekvirkja

Aðeins átta árum síðar hefur vinnuafl skort lengi, Ísland er að verða nettó eignaland sem á meira í útlöndum en það skuldar, staða heimila og fyrirtækja gjörbreytt og vöxtur verið viðvarandi um árabil. Svolítið skemmtilegt að hugsa um að við sem oft belgjum okkur yfir litlu höfum enn ekki metið að verðleikum þann gríðarlega árangur sem við höfum náð.

Um allt land unnu fólk og fyrirtæki þúsundir þrekvirkja. Greiðslumiðlun varin, viðskiptasamböndum haldið opnum, fyrirgreiðslu aflað, velferðarþjónustu haldið uppi gegnum erfiðan niðurskurð, fjárhagur fjölda fyrirtækja og heimila endurreistur o.s.frv. Á spítölum, leikskólum, fyrirtækjum, heimilum voru tugþúsundir að vinna hvert þrekvirkið af öðru sem saman skópu árangurinn. Og þó við hefðum öll viljað gera betur og hraðar er þrekvirkið samt.

Í minn hlut kom að flytja frumvarp til síðari neyðarlaganna, lög sem læstu erlenda kröfuhafa inni. Það tókst á einu kvöldi með samstilltu átaki fjölda fólks. Það byggði á vinnu enn fleiri við undirbúning, en skilaði fyrst árangri eftir þrotlausa vinnu stórra hópa við framkvæmd laganna. Þar er kominn tími til að segja sem er að rétt eins og fólk í fjármálakerfinu gerði mörg mistök fyrir hrun gerði það margt mjög vel  eftir það.

Nýtt upphaf

Hægri öflunum tókst ekki að einkavæða bankana á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka, þrátt fyrir stóran þingmeirihluta. Heldur ekki spilla aðildarviðræðum, eyðileggja rammaáætlun um náttúruvernd né afhenda kvótann um alla framtíð í samningum við sægreifana. Þess vegna höfum við tækifæri í kosningunum til að leggja stóru línurnar um framtíðina. Öllu skiptir að efnahagslegur árangur okkar verði ekki aftur eyðilagður með nýfrjálshyggju og skammsýni ört vaxandi misskiptingar eins og 2007. Efnahagslegan árangur okkar treystum við best með varanlegum, róttækum kerfisbreytingum um aukið lýðræði, heilbrigðara bankakerfi, aukinn jöfnuð og opinbert velferðarkerfi. Aldrei aftur 2007.

 

Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 9. september 2016.

Húsnæðismál ungs fólks í forgang

Myndbönd


 

Unga fólkið núna er fyrsta kynslóðin sem býr við lakari kjör en kynslóðirnar á undan.

Ástandið á húsnæðismarkaðnum og kjör þeirra á vinnumarkaði eru að skapa þeim erfiðari skilyrði heldur en við sem á undan vorum höfðum.

Sem jafnaðarmenn þá þurfum við að taka á þessu og ekki síst húsnæðismál unga fólksins verða að vera í algjörum forgangi á nýju kjörtímabili.

Sækist eftir 1. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík

Samfylkingin

Með bréfinu sem hér fer á eftir gerði ég völdum félögum í Samfylkingunni grein fyrir framboði mínu í 1. sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík þann 10. september næstkomandi:

Kæri félagi!

Kjör aldraðra og öryrkja, heilbrigðismálin og húsnæðismál ungu kynslóðarinnar verða kjarnamál í komandi kosningum. Þau eru jafnframt þungamiðjan í stjórnmálaþátttöku minni frá upphafi. Ég hef þess vegna ákveðið að sækjast eftir 1. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar sem fer fram nú fimmtudag til laugardags og leiða þannig annað kjördæmið í Reykjavík.

Ég þakka þann góða stuðning sem ég naut í formannskjöri í vor. Þó öðrum hafi verið falið það vandasama verkefni var mér heiður að hátt í þúsund flokksmenn skyldu vilja treysta mér fyrir því. Nú skiptir miklu að við stöndum öll að baki nýrri forystu því samstaða er lykill að árangri fyrir Samfylkinguna.

Samstaða okkar í stjórnarandstöðunni skapar sterka stöðu og sóknarfæri á nýju kjörtímabili. Hægri stjórnin hefur engum verulegum kerfisbreytingum náð fram og hrökklast nú frá að eigin ósk áður en kjörtímabilinu er lokið. Fjölmörg baráttumál okkar eru líka hugsjónamál annarra í stjórnarandstöðunni og flest sem bendir til að saman getum við náð meirihluta til að gera þau að veruleika.

Ég hef kosið að opna ekki prófkjörsskrifstofu, úthringiver eða annað þess háttar til að gefa nýju fólki svigrúm til að kynna sig og sjónarmið sín, því þó reynsla sé nauðsynleg er nýliðun það líka. Sjálfur bið ég um stuðning þinn til að leiða í fyrsta sinn framboð Samfylkingarinnar í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Ég heiti þér því að gera allt sem í mínu valdi stendur til að hér taki við stjórn landsins ríkisstjórn um jöfnuð og velferð með aðild okkar.

Bréf þetta sendi ég völdum hópi Samfylkingarfólks. Ég minni okkur á að ítrekað höfum við bætt við okkur á annan tug prósentustiga frá könnunum til kosninga. Aðeins tvö ár eru síðan 32% Reykvíkinga settu x við S. Það var fólkið í Samfylkingunni sem náði þeim árangri með samstilltu átaki.

Með baráttukveðju,

Helgi Hjörvar

Ríkisstjórn góða fólksins

Blaðagreinar

Merkileg tímamót hafa orðið í stjórnmálum í sumar. Stór þingmeirihluti hægri manna hefur sjálfur gefist upp, stytt eigið kjörtímabil og boðað til kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur klofnað því kjósendur hans og þungavigtarfólk unir ekki afturhaldssemi og einangrunarhyggju sem þar hefur orðið ofan á og kallar á Viðreisn. Forystukonur þriggja flokka, Samfylkingar, Pírata og VG, hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðis­flokkinn að loknum kosningum. VG hefur tekið vel í uppboðsleið í kvótamálum, sem verið hefur stefna Samfylkingarinnar og nú einnig Pírata.

Tækifæri
Í þessu felast gríðarleg tækifæri til málefnalegra framfara í landinu. Fyrst og fremst felast þau í kosningunum sjálfum og þeim skýru valkostum sem þar verða. Annars vegar framhald núverandi stjórnarstefnu með ríkisstjórnarflokkunum, hins vegar öfl sem eiga sameiginleg fjölmörg hugsjónamál um gjörbreyttar áherslur. Þó flokkar í framboði geti orðið margir og stjórn fjölflokka skrifar málefnaskráin sig nánast sjálf.

Stóru málin
Efling Landspítala og annarrar opinberrar heilbrigðisþjónustu, ásamt takmörkunum á kostnaði sjúklinga, verður stærsta málið. Stóraukið framboð af góðu húsnæði á sanngjörnum kjörum fyrir ungt fólk kemur þar næst og knýjandi þörf er á ný fyrir félagslegar lausnir í húsnæðismálum. Þriðja stóra velferðarverkefnið verður einföldun almannatrygginga og trygging fyrir því að öryrkjar og aldraðir njóti sömu kjarabóta og aðrir á sama tíma.

Þetta eru fjárfrek verkefni og þess vegna sérstakt fagnaðarefni ef samstaða er að takast milli stjórnarandstöðuflokka um að ríkið fái eðlilegar tekjur af auðlindum landsins með uppboðum, því auknar tekjur þar geta staðið undir miklu. Auk þess er augljós tekjuöflun af ferðamönnum og allra ríkasta fólkinu í landinu svo misskipting hætti að aukast.

Góðu málin
Fleiri mál eru hins vegar mikilvæg en þau fjárfreku. Stjórnarskráin, friðlýsing miðhálendisins, bætt samkeppnisstaða skapandi greina, græna hagkerfisins og annarra vaxtarsprota atvinnulífs, þjóðar­atkvæðagreiðslur, fullgilding mannréttindasáttmála, afnám málþófs á Alþingi, o.s.frv. o.s.frv. Hér verður listin sú að takmarka sig því það er grundvallaratriði ef við náum saman meirihluta að hann ætli sér ekki um of.

Til þess að fullkomna trúverðugan valkost við núverandi stjórn væri brýnt að segja fólki sem fyrst hvaða verkefni önnur en stóru velferðarmálin verða í forgangi. Að önnur mál séu ekki í forgangi þýðir ekki að þeim verði ekki hreyft. Fjölmörg mál eru einfaldlega þannig að ekkert veitir af heilu kjörtímabili til að undirbúa þau. Enda löngu tímabært að við hugsum til lengri tíma en eins kjörtímabils í senn.

Skýrir valkostir
Þó ég vilji sameina flokka þarf það ekkert að vera verra að hafa þriggja eða fjögurra flokka stjórn en tveggja. Undanfarin kjörtímabil hefur sýnt sig að stórir þingflokkar eru margklofnir, húsbóndavald lítið og ráðherrar valdaminni en var. Tal um einingu tveggja flokka stjórna er í besta falli lélegur brandari eftir tvö síðustu kjörtímabil. Hitt væri eftirsóknarvert ef Píratar, Samfylking, VG og jafnvel fleiri framboð gætu haft sameiginlegar áherslur fyrir kosningar um verkefnaskrá næsta kjörtímabils. Því kjósendur eiga skilið skýrari valkosti.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu 1. september 2016.

Til hamingju, Oddný

blog

Oddný Harðardóttir hlaut góða kosningu sem formaður Samfylkingarinnar í dag. Ég óska henni innilega til hamingju með kjörið og alls velfarnaðar í verkefninu. Öllum þeim sem studdu mig í framboðinu með ráðum og dáð í stóru og smáu þakka ég af öllu hjarta.

Sýnum í verki

Blaðagreinar

Þegar þrír af fjórum kjósendum flokks hætta að styðja hann snýst það ekki um umbúðir heldur innihald, um stefnu og trúverðugleika. Til að snúa vörn í sókn dugar ekki að tala. Samfylkingin þarf að gera.

Við þurfum að skapa traust með því að segja afdráttarlaust að við munum ekki mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum bak kosningum. Hann er ósamstarfshæfur vegna spillingarmála og hefur heitið því að standa gegn öllum kerfisbreytingum. Það er þess vegna sjálfsagt að eyða efasemdunum sem urðu til 2007 með því að ákveða strax að kjósi fólk okkur fær það ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Stjórnarskrármálið er líka stórt trúverðugleikamál. Við eigum strax að semja við aðra stjórnarandstöðuflokka um hvernig það verði klárað að kosningum loknum. Svo við getum með sanni sagt að við höfum fylgt þessu lykilmáli í baráttunni gegn spillingu og fyrir lýðræði alla leið. Það sé þegar umsamið og lýst því með hvaða hætti því verði lokið.

Þá eigum við að ná stjórnarandstöðunni saman um fá en skýr sameiginleg loforð sem verði að veruleika fáum við til þess meirihluta. Fá en skýr – til að skapa traust á því að þeim megi ná.

Við þurfum líka að henda ýmsum áherslum sem urðu til í bólunni. Sækja nýjan kraft í grunngildi jafnaðarstefnunnar. Almennt opinbert heilsugæslukerfi og opinber spítali sem ekki sligar fólk með gjöldum. Félagslegar lausnir í húsnæðismálum eins og við byggðum upp á síðustu öld, svo sem verkamannabústaðir, kaupleiga og húsnæðissamvinnufélög. Evran er besta langtímalausnin en við verðum að horfast í augu við að hún er ekki jafn nærtæk og áður var. Þess vegna þurfum við að kynna miklu eindregnari stefnu gegn óhóflegum bankakostnaði og okurvöxtum þangað til evran fæst.

(meira…)

Framtíðarstjórnin

Blaðagreinar

Samfylkingin var stofnuð til þess að hugsjónin um jöfnuð, frelsi og samábyrgð yrði sterkt afl í íslensku samfélagi. Hvort sem flokkurinn hefur mælst stór eða lítill hef ég talað fyrir samstarfi við önnur félagshyggjuöfl. Því að það þarf meirihluta til að stjórna.

Til að kjósendur hafi skýran valkost er samstaða stjórnarandstöðuflokkanna mikilvæg fyrir komandi kosningar. Það á ekki að bjóða kjósendum upp á baktjaldamakk eftir kjördag. Samfylkingin á að segja skýrt að atkvæði greitt flokknum sé atkvæði með samstarfi við félagshyggjuflokka en ekki við Sjálfstæðisflokkinn sem er ósamstarfshæfur vegna spillingarmála. Þá þurfum við að ná saman við aðra fyrir kosningar um hvernig stjórnarskrármálinu verði komið í heila höfn, svo að því megi treysta að ný ríkisstjórn ljúki því lykilverkefni.

(meira…)

Athugasemd á þingi: Upp komast svik um síðir

Þingræða

Virðulegur forseti. Upp komast svik um síðir. Umboðsmaður Alþingis var á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun og upplýsti um að fram kynnu að vera komin gögn sem færðu okkur heim sanninn um það með hvaða hætti staðið var að aðkomu þýsks banka að einkavæðingu íslensku bankanna. Þegar fjárlaganefnd þingsins rannsakaði þetta fyrir um tíu árum síðan voru það þær upplýsingar sem helst skorti til að hægt væri að afhjúpa það svindl og svínarí sem þar var á ferðinni.

Það er þess vegna grundvallaratriði og mikilvægasta mál fyrir þingið til að afgreiða nú, ný löggjöf um rannsóknarnefndir og að skipa í kjölfarið rannsóknarnefnd til að fara yfir hvaða hlutverk Hauck & Aufhäuser bankinn þýski gegndi við einkavæðinguna. Það er auðvitað of snemmt að fullyrða um hvaða upplýsingar það eru eða til hvers þær munu leiða okkur. En við höfum mörg haldið því fram að ástæða sé til að ætla að þessi þýski einkabanki hafi ekki verið raunverulegur kaupandi að hlut í Búnaðarbankanum heldur hafi hann verið leppur fyrir íslenska aðila og að þessi erlenda fjárfesting sem svo var kölluRð og notuð til að réttlæta að menn gengu að tilboði þessa hóps í bankann hafi ekkert verið erlend fjárfesting heldur íslenskir peningar og jafnvel bara fengnir að láni úr sömu ríkisbönkum og verið var að afhenda þeim aðilum. Það er grundvallaratriði að kostað verði kapps um að upplýsa eins fljótt og verða má allan almenning í landinu um hvernig þessu var háttað og að sá sem fer í þá rannsókn fái alla fjármuni og starfsmenn sem hann þarf til að þær (Forseti hringir.) upplýsingar megi liggja hér á borðum landsmanna sem allra fyrst því að þarna er kjarnann í samsærinu um einkavæðingu bankanna að finna.


Ræða í umræðum um störf þingsins 24. maí 2016

Umræður á þingi: Verða kosningar í haust?

Þingræða

Í tíma fyrir óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi 23. maí 2016 tók ég umræðu við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, um hvort ætlunin væri að efna fyrirheit um þingkosningar í haust. Tilefni fyrirspurnarinnar voru óvæntar yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins. Öll umræðan er hér en texti með mínu framlagi til hennar er hér að neðan:

Fyrri ræðan:

Virðulegur forseti. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa ítrekað gefið út um það yfirlýsingar að gengið verði til kosninga í haust. Síðari hluti októbermánaðar hefur þar verið nefndur, en nú spyr ég: Má treysta því að þær yfirlýsingar standi? Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að formaður Framsóknarflokksins, sem nýkominn er úr leyfi, gaf út opinberar yfirlýsingar um það í gær að ekki væri nauðsynlegt að ganga til kosninga í haust. Nú hafa þær yfirlýsingar bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra verið nokkuð afdráttarlausar. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að þetta kjörtímabil verði stytt um eitt þing og meðan formaður Framsóknarflokksins var í leyfi hefur hér verið afgreitt stærsta húsnæðismálið, sem var mál sem brann mjög á Framsóknarflokknum að þyrfti að ljúka. Í gær lukum við aflandskrónumálinu sem fjármálaráðherra hafði lagt ríka áherslu á.

Ég spyr þess vegna hvort við megum ekki treysta því að sú starfsáætlun sem lögð hefur verið og þau áform að efna til kosninga í haust standist. Það er mikilvægt fyrir starfið í þinginu en það er líka mikilvægt fyrir lýðræðislegt starf utan þingsins og undirbúning flokka, bæði sem eru á þingi og eru utan þings, um framboð og aðra slíka hluti og nauðsynlegt er að hæstv. fjármálaráðherra taki af öll tvímæli um hvaða fyrirætlanir eru uppi.

(meira…)