Í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslands, 17. júní, bað ég Gallup að kanna afstöðu þjóðarinnar til uppsagnar hins svokallaða „varnarsamnings“ við Bandaríkin. Mér hefur þótt lítill mannsbragur að framgöngu Geirs Haarde í viðræðum við Bandaríkin, fumkennt og fálmkennt allt og búið að kokgleypa stóru yfirlýsingarnar um uppsögn samningsins sem fyrirrennari hans Davíð Oddsson gaf út. Því lék mér forvitni á að vita hver afstaða þjóðarinnar væri í málinu og er skemmst frá því að segja að afgerandi meirihluti er fyrir uppsögn samningsins, en 53,8% eru frekar eða mjög hlynnt uppsögn, en aðeins 24,8% voru frekar eða mjög andvíg uppsögn eða ríflega tveir á móti einum. Þegar skoðaðir eru þeir sem eru mjög hlynntir eða mjög andvígir uppsögn eru skilin enn skarpari því þriðjungur svarenda er mjög hlynntur uppsögn meðan innan við tíundi hver er mjög andvígur. Þá vekur athygli að fleiri sjálfstæðismenn eru hlynntir uppsögn samningsins en andvígir, eða 41,5% meðan 37,8% eru andvíg. Eru þar með fleiri hlynntir uppsögn en andvígir í öllum flokkum þó sá munur sé trúlega innan skekkjumarka í Sjálfstæðisflokknum. Það var IMG Gallup sem framkvæmdi könnunina fyrir mig og var fjöldi svarenda 802, svörin voru greind eftir kyni, aldri, búsetu, fjölskyldutekjum, menntun og stjórnmálaskoðun. Til að skoða könnunina nánar geturðu smellt á hlekkinn hér að neðan. En meginniðurstöður voru þessar mjög hlynnt því að Íslendingar segi upp varnarsamningi við Bandaríkin voru 33,2%, frekar hlynnt voru 20,6%, hvorki né voru 21,3%, frekar andvíg voru 15,4% og mjög andvíg voru 9,4%.
Samfylkingin hefur kallað eftir því að virkjuð sé 7. grein samningsins sem setur í gang formlegt málamiðlunarferli sem lyktað getur með formlegri uppsögn samningsins. Það er auðvitað löngu tímabært að taka það skref enda ljóst að enginn áhugi er á því hjá þjóðinni að framlengja varnarsamningnum við Bandaríkin. Það er nauðsynlegt fyrir forsætisráðherra að vita þegar hann hittir fulltrúa bandaríska hersins hinn 7. júlí næstkomandi að þjóðin vill einfaldlega segja þessum samningi upp.
7. gr. Varnarsamningsins hljóðar svo:
Hvor ríkisstjórnin getur, hvenær sem er, að undanfarinni tilkynningu til hinnar ríkisstjórnarinnar, farið þess á leit við ráð Norður-Atlantshafsbandalagsins, að það endurskoði, hvort lengur þurfi á að halda framangreindri aðstöðu, og geri tillögur til beggja ríkisstjórnanna um það, hvort samningur þessi skuli gilda áfram. Ef slík málaleitan um endurskoðun leiðir ekki til þess, að ríkisstjórnirnar verði ásáttar innan sex mánaða, frá því að málaleitunin var borin fram, getur hvor ríkisstjórnin, hvenær sem er eftir það, sagt samningnum upp, og skal hann þá falla úr gildi tólf mánuðum síðar. Hvenær sem atburðir þeir verða, sem 5. og 6. gr. Norður-Atlantshafssamningsins tekur til, skal aðstaða sú, sem veitt er með samningi þessum, látin í té á sama hátt. Meðan aðstaðan er eigi notuð til hernaðarþarfa, mun Ísland annað hvort sjálft sjá um nauðsynlegt viðhald á mannvirkjum og útbúnaði eða heimila Bandaríkjunum að annast það