ágúst, 2006

Sáttmálinn styrkir stöðu fatlaðra

blog

Mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi öryrkja

Sáttmálinn styrkir stöðu fatlaðra

MANNRÉTTINDASÁTTMÁLI Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi öryrkja mun styrkja réttarstöðu öryrkja hér á landi þó að Ísland þurfi ekki að breyta lögum eða reglum vegna gildistöku hans.

Sáttmálinn styrkir stöðu fatlaðra - mynd
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Helgi Hjörvar

MANNRÉTTINDASÁTTMÁLI Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um réttindi öryrkja mun styrkja réttarstöðu öryrkja hér á landi þó að Ísland þurfi ekki að breyta lögum eða reglum vegna gildistöku hans. Þetta segir Helgi Hjörvar alþingismaður en hann var í sendinefnd Íslands sem tók þátt í samningaviðræðum um sáttmálann.

Um er að ræða fyrsta mannréttindasáttmála 21. aldarinnar og tekur hann til 650 milljóna öryrkja um allan heim.

Í samtali við Morgunblaðið benti Helgi á að í hagsmunabaráttu fatlaðra hér á landi, m.a. í einstaka málaferlum, hefðu þeir haft stuðning af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

Lagalega skuldbindandi

„Fram að þessu höfum við getað vísað í meginreglur Sameinuðu þjóðanna í málefnum fatlaðra sem hafa verið leiðbeinandi en ekki skuldbindandi. Að tveimur eða þremur árum liðnum mun þessi sáttmáli hafa lagalega skuldbindingu fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og þar með eru vísanir í reglurnar sterkari en áður hefur verið. En langmesta réttarbótin er auðvitað fyrir íbúa þróunarlandanna því við Íslendingar erum að sjálfsögðu lánsamir að því leyti að við erum í hópi fremstu þjóða, hvað stöðu fatlaðra varðar,“ sagði hann.

Þá væru í sáttmálanum ákvæði um skýrslugjöf um stöðu mála í hverju landi og sérfræðingar færu yfir málin, gerðu athugasemdir og bentu á það sem betur mætti fara. „Við getum auðvitað fengið bæði gott aðhald og gagnlegar ábendingar í gegnum slíkt eftirlit eins og við höfum fengið í öðrum málaflokkum, svo sem varðandi stöðu barna og stöðu fangelsismála,“ bætti Helgi við.

Langur aðdragandi

Samþykkt sáttmálans hefur átt sér langan aðdraganda en að sögn Helga var það Bengt Lindqvist sem hafði frumkvæði að honum. Lindqvist var forystumaður í Sænska blindrafélaginu, þingmaður, um tíma félagsmálaráðherra Svía og umboðsmaður fatlaðra hjá SÞ. Árið 1994 hóf hann baráttu fyrir því að SÞ setti leiðbeinandi reglur um málefni fatlaðra með það takmark að þær yrðu að skuldbindandi sáttmála.

„Nú hillir undir að það takist. Það hefur verið mikið starf og flókið viðfangsefni að samræma skilning ólíkra þjóða og menningarheima á því hver staða fatlaðra á að vera,“ sagði Helgi. Hann telur sáttmálann ótrúlega framsækinn í því að tryggja fötluðum jafnrétti á við aðra og gangi í raun og veru lengra en hann hafði búist við. Það hafi líka komið honum á óvart að sáttmálinn var samþykktur samhljóða í nefndinni sem fjallaði um hann.

Sáttmálinn fer fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í október og hann öðlast gildi þegar 2/3 hlutar aðildarþjóða hafa staðfest hann.

Vissu ekki um greinargerðina

blog

GREINARGERÐ Gríms Björnssonar, jarðeðlisfræðings, um Kárahnjúkavirkjun hefur vakið töluverða athygli að undanförnu, sérstaklega þar sem komið hefur í ljós að hún var merkt sem trúnaðarskjal þegar fjallað var um virkjunina á Alþingi – og var ekki tekin fyrir í umræðunni. Grímur sendi orkumálastjóra skýrslu sína í febrúar árið 2002 en hún var ekki gerð opinber fyrr en í janúar 2003 þegar Orkustofnun sendi náttúruverndarsamtökum og fjölmiðlum upplýsingarnar.

 

Eins og fram hefur komið hafði stjórn Landsvirkjunar ekki upplýsingar um greinargerðina þegar málið var til umfjöllunar á Alþingi og segir Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sem sat í stjórn Landsvirkjunar á þeim tíma, að stjórnarmeðlimum hafi ekki verið kunnugt um greinargerðina fyrr en í nóvember árið 2002.

 

Þá hafði Helgi spurnir af því að fundað hafði verið um greinargerðina hjá Landsvirkjun með fulltrúum Orkustofnunar. Í kjölfarið óskaði hann eftir upplýsingum um fundinn og þau gögn sem honum tengdust. „Ég fékk þau gögn í lok nóvember en engin fundargerð hafði verið færð á fundinum. Ég gerði grein fyrir því á næsta stjórnarfundi Landsvirkjunar í desember að ég hefði spurst fyrir um fundinn og gerði athugasemdir við að ekki hefði verið gerð fundargerð,“ segir Helgi en nokkrum vikum síðar var greinargerðin send fjölmiðlum og varð hún hluti af opinberri umfjöllun.

 

Helgi sem sat í stjórn Landsvirkjunar sem fulltrúi Reykjavíkurlistans, segir að til hans kasta hafi komið að taka afstöðu til raforkusamningsins við Alcoa en þar hafi hann greitt atkvæði gegn samningnum, m.a. vegna þess að um hafi verið að ræða of litla arðsemi miðað við áhættuna sem í verkinu er fólgin.

 

Gerði forystumönnum R-lista grein fyrir niðurstöðu sinni

 

Spurður um hvort hann hafi látið forystumenn R-listans skýrsluna í té segir Helgi svo ekki vera. „En ég gerði auðvitað grein fyrir því að það væri mín niðurstaða, eftir að hafa kynnt mér öll gögn málsins, bæði um arðsemi og um framkvæmdina sjálfa, að ekki væri rétt að ráðast í þessa framkvæmd. Sem fulltrúi borgarinnar í stjórn Landsvirkjunar greiddi ég því atkvæði gegn framkvæmdinni og þegar þar var komið voru upplýsingarnar þegar orðnar opinberar,“ segir Helgi Hjörvar.

Erindislaus Sjálfstæðisflokkur

blog

Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn stýrt Reykjavíkurborg um skeið eftir tólf ára samfellt áhrifaleysi í borgarmálum. Við þær aðstæður er nýr meirihluti oftast aðsópsmikill og kappsfullur að koma í framkvæmd þeim veigamiklu breytingum sem hann hefur svo lengi þráð. En það er ekki að sjá að hinn nýja meirihluta hafi langað til að gera neitt því hann hefur einfaldlega haldið áfram þá leið sem Reykjavíkurlistinn markaði.

 

Nýi meirihlutinn hefur að vísu týnt rusl í Breiðholtinu, skotið nokkra máva og horfið aftur til fortíðar með stofnun Leikskólaráðs, í algjörri andstöðu við hið góða starfsfólk leikskóla og að því er virðist til þess eins að fjölga bitlingum borgarfulltrúa. En þá er afrekaskráin líka upptalin.

 

Þetta dugleysi er ekki tilviljun. Það endurspeglar einfaldlega að hið samgróna bandalag afturhaldsaflanna í Framsóknar- og Sjálfstæðis-flokki hefur ekkert erindi lengur í íslenskum stjórnmálum, ekki einu sinni þar sem þeir um árabil hafa engu ráðið. Ennþá átakanlegra er þetta erindisleysi þó orðið eftir tólf ára valdasetu í landsstjórninni þar sem mörg ár eru liðin síðan einhverjum datt síðast í hug eitthvert framfaramál.

 

Varnarlaus Sjálfstæðisflokkur

 

Þetta dáðleysi sjáum við kannski best í varnarmálunum. Þar urðu stjórnarflokkarnir svo hræddir við breytingar að þeir ákváðu að leyna þjóðina því fyrir síðustu kosningar að herinn væri á förum. Samkvæmt yfirlýsingum þingflokksformanns Framsóknarflokksin var svo þetta ráðaleysi helsta ástæða þess að ríkisstjórnin lýsti yfir stuðningi við innrásarstríð í Írak, einhverja verstu ákvörðun sem tekin hefur verið í utanríkismálum í okkar nafni og þvert á sérstöðu okkar sem herlausrar friðsamrar þjóðar. Íraksmálið var dæmigert um mistök sem stefnulaus stjórnvöld gera þegar þau rekur undan veðri og vindum. Hlýtur að vera enn sárara þegar í ljós kemur að Bandaríkjamenn meta þann stuðning í engu og fara bara samt.

 

Og nú er landið okkar loftvarnarlaust því þoturnar eru farnar. Og samkvæmt yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar átti þá varnarsamstarfinu við Bandaríkin að vera lokið. En sú yfirlýsing er fokin út í vindinn og enn er haldið áfram einhverjum viðræðum sem enginn veit að hverju eiga að stefna, nema kannski að biðja Bandaríkin að skilja nú eitthvað eftir eða halda áfram að borga eitthvað svolítið.

 

Eftir nokkrar vikur verður herinn farinn og enginn veit hvað Sjálfstæðis-flokkurinn hyggst fyrir í öryggismálum þjóðarinnar.

 

Agalaus Sjálfstæðisflokkur

 

Rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir því að halda í her sem er farinn  virðist erindi hans helst vera orðið einmitt það að halda í það sem farið er eða fara ber, eins og verðtryggingin, krónan og landbúnaðarkerfið eru góð dæmi um. Eftir að hafa setið lengi að völdum hefur hann snúist í vörn fyrir fortíðina og boðar ekki lengur nýjungar fyrir framtíðina.

 

Ein sterkasta birtingarmynd erindisleysis er agaleysið því þegar menn hafa setið of lengi að völdum glata þeir viljanum sem þarf til aðhalds. Efnahagsmálin vitna um agaleysið í gengissveiflunum, ofurvöxtunum og verðbólgunni. Ríkisendurskoðun og stjórnarþingmenn játa agaleysið í ríkisfjármálunum þessa dagana þar sem keyrt er framúr lögum um átta þúsund milljónir á ári hverju. Sú lausaganga í ríkissjóð hefur með öðru leitt til sjálfvirkrar þenslu ríkisútgjalda einmitt þegar aðhalds var þörf. Þegar draga þurfti úr neyslu jós Sjálfstæðisflokkurinn út skattalækkunum fyrir eigna- og hátekjufólk og þegar draga þurfti úr væntingum talaði hann um góðæri.

 

Það er löngu tímabært að binda endi á þetta erindis- og agaleysi og fela sterkri stjórn undir forystu jafnaðarmanna að endurheimta hér stöðugleika efnahagslega og félagslega. Sá nýi meirihluti í ríkisstjórn verður ólíkt starfsamari en íhaldsmeirihlutinn í borginni, enda blasa verkefnin við í daglegu lífi venjulegs fólks sem taka þarf á allt frá vöxtum að vöruverði.

Játningar í ríkisfjármálum

blog

LÍKT og á vakningarsamkomu hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar fallið fram síðustu vikur og játað mistök sín í ríkisfjármálum, aga og aðhaldsleysi og að hafa gripið allt of seint til aðgerða vegna þenslunnar. Hið síðasttalda kenndi fjármálaráðherra þó Hagstofunni því hún hafi ekki reiknað þensluna rétt! Blasti hún þó við hverjum manni og hirti ríkisstjórnin í engu um gagnrýni innlendra og erlendra greiningardeilda fremur en ábendingar okkar í stjórnarandstöðunni.

Þegar nú venjulegt fólk og fyrirtæki þurfa að þola hæstu vexti í heimi og verðbólgu margfalt hærri en jafnvel eigin markmið stjórnvalda þá er auðvitað gott að játningarnar liggi fyrir. Þær munu eflaust hjálpa kjósendum við að fella dóm í vor.

Árum saman hafa fjárlög verið notuð meira til áróðurs um góðæri en til fjárstýringar ríkisins og er munurinn á glansmynd frumvarpsins og niðurstöðu tugir milljarða og ýmis van- eða ofáætlað verulega á helming fjárlagaliða. Þetta virðingarleysi fyrir fjárlögum hefur leitt af sér lausagöngu í ríkissjóð og sjálfvirkan vöxt útgjalda meiri en nokkru sinni fyrr.

 

Þegar aðhalds var þörf dældi ríkisstjórnin fjármagni inn í hagkerfið, þegar aga var þörf þverbraut hún fjárlögin, þegar draga þurfti úr væntingum talaði hún um góðærið og þegar minnka þurfti neyslu og bruðl lækkaði hún skatta eigna- og hátekjufólks. Hún hefur skellt skollaeyrum við ábendingum okkar og annarra og látið Seðlabankann að mestu einan um árarnar í efnahagsstjórninni. Enda kalla þeir verðbólgu og vexti eins og nú geisa „mjúka lendingu“. Eftir tólf ára stjórnarsetu er fullseint að iðrast korteri fyrir kosningar. Það er einfaldlega komið nóg af þessari óstjórn.

Milljarðar á milljarða ofan

blog

Þessar vikurnar leik ég Mörð Árnason í morgunsjónvarpinu á fimmtudögum í fjarveru hins eina sanna og í gærmorgun ræddum við Pétur Blöndal m.a. um ofurlaun, réttinn til að mótmæla og agaleysið í ríkisfjármálunum. Eins og lesendur þessarar síðu þekkja höfum við ítrekað bent á heimildarlausar framúrkeyrslur ráðuneyta og stofnanna sem brjóta einfaldlega í bága við stjórnarskránna og góða venju í opinberum rekstri, enda þekkist svona háttalag ekki í löndunum í kringum okkur. Þetta agaleysi hefur líka leitt til þess að fjárlagagerðin er óvönduð og stofnanir taka ekki mark á heimildum sínum og fara ýmist framúr, eða nýta ekki heimildir til að ráðast í verkefni sem Alþingi hefur falið þeim.

Við sjáum líka pólitískar áherslur í því hvar er vanáætlað og hvar ofáætlað, því það eru velferðarmálin sem vanáætlað er í en menn hafa ekki undan að eyða heimildunum í verklegum framkvæmdum s.s. vegagerð.

Hvimleiðast er þó að sjá ár eftir ár sömu aðilana í framúrkeyrslum, því það sýnir virðingarleysi gagnvart skattpeningum almennings og að ráðherrarnir eru ekki að taka alvarlega stjórnskipunarlög og heimildir Alþingis. Það er óhjákvæmilegt að fjárlaganefndin grípi hér inní og leiðrétti tillögur ríkisstjórnar til fjárlaga mun meir en verið hefur og geri kröfu um að þeir ráðherrar sem ekki virða lögin axli ábyrgð. Öðruvísi mun þetta ráðslag bara versna og versna. Við fulltrúar Samfylkingar í fjárlaganefnd höfum farið fram á sérstakan aukafund í fjárlaganefnd vegna þessara mála og verður hann haldinn á mánudag. Ég fékk gerða samantekt um frávik frá heimildum sl. fimm ár og það má sjá hér. Þar sést svart á hvítu að þessi stjórn er búin að sitja allt of lengi.

Hljóðbækur á netinu

Sumarið hefur annars ýmist farið í byggingarframkvæmdir vegna ómegðarinnar eða ýmsa stefnumörkunarvinnu sem Ingibjörg Sólrún hefur haft forystu um í sumar. Í tíu daga fórum við svo með stelpurnar í íbúð foreldra minna á Vesterbrogötu í Kaupmannahöfn, en þaðan er jafn stutt að ganga í Dýragarðinn og Tívolí og það leiddist stelpunum okkar ekki. Þegar ég hef lausa stund hef ég mikla unun af því að hlusta á bækur og í sumar fékk ég stafrænt tæki, lítið stærra en greiðslukort sem hægt er að hlaða bókum inná af netinu og hlusta á. Þar fer hljóðbókum ört fjölgandi og t.d. geturðu farið á edda.is og náð í nýjustu bók Steinunnar Sigurðardóttur eða á audible.com og valið úr úrvali erlendra bóka. Ég hvet alla til að prófa hljóðbækur því þó við sem ekki sjáum til lestrar notum þær af nauðsyn þá geta sjáandi haft mikið yndi af að hlusta á góðar bækur í bílnum, baðinu, þvottahúsinu eða í göngutúrnum því þessi aðferð hentar uppteknu nútímafólki mjög vel bæði til þess að njóta bókmennta og eins sem athvarf úr önnum dagsins.

Sáttmáli í málefnum fatlaðra

Í rúman áratug hefur verið unnið ötullega að réttindabaráttu fatlaðra á vettvagni Sameinuðu þjóðanna. 1994 gerðist Bengt Lindkvist, sem ég kynntist í norrænu samstarfi blindra, umboðsmaður fatlaðra hjá SÞ og þá voru samþykktar meginreglur í málefnum fatlaðra sem þjóðir heims eiga að taka mið af. Bengt var þingmaður og ráðherra í Svíþjóð og í forystu sænsku blindrasamtakanna. Í framhaldi af þessari vinnu hefur síðan verið unnið að samningum um sáttmála í málefnum fatlaðra sem hefði þá sambærilegt gildi og aðrir sáttmálar og mun án efa tryggja fötluðum víða um lönd verulegar réttarbætur ef af verður. Mér gefst kostur á því að sækja það sem við vonumst til að verði síðasta samningalotan nú í lok mánaðarins og ætla að reyna að miðla upplýsingum um viðræðurnar hér á síðunni.