Játningar í ríkisfjármálum

blog

LÍKT og á vakningarsamkomu hafa forystumenn ríkisstjórnarinnar fallið fram síðustu vikur og játað mistök sín í ríkisfjármálum, aga og aðhaldsleysi og að hafa gripið allt of seint til aðgerða vegna þenslunnar. Hið síðasttalda kenndi fjármálaráðherra þó Hagstofunni því hún hafi ekki reiknað þensluna rétt! Blasti hún þó við hverjum manni og hirti ríkisstjórnin í engu um gagnrýni innlendra og erlendra greiningardeilda fremur en ábendingar okkar í stjórnarandstöðunni.

Þegar nú venjulegt fólk og fyrirtæki þurfa að þola hæstu vexti í heimi og verðbólgu margfalt hærri en jafnvel eigin markmið stjórnvalda þá er auðvitað gott að játningarnar liggi fyrir. Þær munu eflaust hjálpa kjósendum við að fella dóm í vor.

Árum saman hafa fjárlög verið notuð meira til áróðurs um góðæri en til fjárstýringar ríkisins og er munurinn á glansmynd frumvarpsins og niðurstöðu tugir milljarða og ýmis van- eða ofáætlað verulega á helming fjárlagaliða. Þetta virðingarleysi fyrir fjárlögum hefur leitt af sér lausagöngu í ríkissjóð og sjálfvirkan vöxt útgjalda meiri en nokkru sinni fyrr.

 

Þegar aðhalds var þörf dældi ríkisstjórnin fjármagni inn í hagkerfið, þegar aga var þörf þverbraut hún fjárlögin, þegar draga þurfti úr væntingum talaði hún um góðærið og þegar minnka þurfti neyslu og bruðl lækkaði hún skatta eigna- og hátekjufólks. Hún hefur skellt skollaeyrum við ábendingum okkar og annarra og látið Seðlabankann að mestu einan um árarnar í efnahagsstjórninni. Enda kalla þeir verðbólgu og vexti eins og nú geisa „mjúka lendingu“. Eftir tólf ára stjórnarsetu er fullseint að iðrast korteri fyrir kosningar. Það er einfaldlega komið nóg af þessari óstjórn.