Í dag tilkynnti ég um framboð mitt með eftirfarandi tilkynningu:
Fréttatilkynning til fjölmiðla.
Í tilefni af prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík hef ég, Helgi Hjörvar alþingismaður, ákveðið að sækjast eftir fjórða sæti í sameiginlegu prófkjöri fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmin, sem þýðir annað sæti framboðslistans í öðru Reykjavíkurkjördæmanna.
Fyrir liggur að í prófkjörinu sem fram fer hinn 11. nóvember nk. munu þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir gefa kost á sér til endurkjörs og ákjósanlegt að með þeim veljist fulltrúi nýrrar kynslóðar í forystu íslenskra stjórnmála.
Þá er mikilvægt í kosningunum í vor að í forystusveitinni séu fulltrúar þeirra sem lögðust gegn Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma til að undirstrika áherslu flokksins á hina nýju umhverfisstefnu Samfylkingarinnar.
Þá væri lögð áhersla á stefnu Samfylkingarinnar um jöfnuð og eflingu velferðarsamfélagsins með því að velja talsmann úr röðum öryrkja í framvarðarsveitina. Við þurfum ríkisstjórn fyrir venjulegt fólk á Íslandi, ekki síst fjölskyldufólk, og áríðandi er að Samfylkingin leggi þunga áherslu á reynslu þess og lífskjör í kosningabaráttunni, í umræðum um okurvexti, verðtryggingu og matvælaverð. Um leið er brýnt að Samfylkingin hafi í þeirri baráttu á að skipa reyndum og öflugum talsmönnum úr fjárlagaumræðunni á Alþingi og í efnahagsmálum yfirleitt.
Prófkjörið verður opið öllum stuðningsmönnum Samfylkingarinnar og mun skarta óvenju breiðum og öflugum hópi frambjóðenda úr röðum samþingmanna minna, úr sveitarstjórn, verkalýðshreyfingu, kvennabaráttu o.s.frv. Endurspeglar það ekki aðeins þann þrótt sem í flokknum býr heldur einnig þau sóknarfæri sem jafnaðarmenn sjá í kosningunum í vor. Ég skipaði við síðustu alþingiskosningar fjórða sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður og hef á Alþingi setið í fjárlaganefnd, félagsmálanefnd og iðnaðarnefnd f.h. flokksins og er þakklátur fyrir þá dýrmætu reynslu sem þetta kjörtímabil hefur fært mér.