Ríkisstjórn fyrir venjulegt fólk

blog

Eftir 12 ára valdatíð framsóknar og Sjálfstæðisflokks er orðin gjá milli kjara fámennrar auðstéttar og venjulegs fólks. Við vorum áður á rétti leið en þessi ríkisstjórn hefur leitt okkur á villigötur frjálshyggjunnar. Við þurfum ríkisstjórn fyrir venjulegt fólk. Það verður verkefni nýrrar ríkisstjórnar undir forystu Samfylkingarinnar að endurreisa og efla norrænt velferðarkerfi á Íslandi . Varðandi almenn lífskjör tel ég að þessi atriði séu brýnust:

1. Tekjutengingar í lífeyriskerfinu festa í fátæktargildru þá sem hafa úr minnstu að spila. Það er óþolandi að refsa fátæku fólki fyrir að nýta litla starfsgetu til þess að sjá sér og sínum farborða. Ég vil draga stórlega úr tekjutengingum, hætta alveg að tengja lífeyri við tekjur maka og hrinda í framkvæmd tillögum Samfylkingarinnar um 75.000 frítekjumark til allra sem njóta lífeyris.

2. Tekjutengingar í skattkerfinu bitna verst á barnafólki og öllum sem þiggja venjuleg laun fyrir sína vinnu, okkur sem erum ekki háð lífeyrisgreiðslum og lifum ekki á ofurlaunum og fjármagnstekjum. Við lendum í hæsta skatthlutfalli, fáum hvorki afslætti né undanþágur. Ég vil endurskoða skattkerfið frá grunni, fækka undanþágum og lækka skattprósentuna. Ég er hlynntur hugmyndum um eina flata skattprósentu, þó þannig að það sé hátekjuskattur á raunverulegar ofurtekjur. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar mun auðvitað koma í framkvæmd tillögunni um afnám stimpilgjalda vegna íbúðakaupa.

3. Verð á mat og öðrum lífsnauðsynjum er allt of hátt á Íslandi. Loksins er búið að stíga einhver skref til að lækka matarverðið en ég vil ganga miklu lengra í þá átt að fella niður tolla og vörugjöld.

4. Ég vil taka upp evruna, hún er okkar besta vörn gegn okri og fákeppni. Við neytendur njótum kosta virkrar samkeppni í allt of litlum mæli og búum við tvíokun á flestum mörkuðum. Hér er hæsta vaxtastig í Evrópu. Það er vegna þess að við höldum úti krónunni. Okurvextirnir á krónunni standa svo undir ofsagróða braskaranna á á fjármálamarkaði. Verðtrygginguna þarf að afnema.