Við búum í samfélagi – ekki í banka

blog

Við búum í samfélagi en ekki í banka. Fyrir mér snúast stjórnmál ekki síst um það að tryggja öllum jöfn tækifæri í lífinu. Þegar við í Samfylkingunni tökum við forystu í landsstjórninni næsta vor verður eitt brýnasta viðfangsefni okkar að innleiða stjórnhætti þar sem virðing fyrir mannréttindum og raunverulegu lýðræði eru í hávegum höfð. Að mínu mati eru þessi verkefni efst á forgangslistanum:

1. Menntun er kjarni jafnaðarstefnunnar. Menntun er besta tækið til þess að skapa samfélag þar sem allir hafa sömu tækifæri. Menntun er fjárfesting í fólki – ekki bara einhver ríkisútgjöld. Nú þurfa námsmenn að greiða bönkunum skatt af námslánum. Ég vil breyta því og greiða námslánin fyrirfram. Ég vil að LÍN hætti að krefja námsmenn um ábyrgðarmenn vegna námslána. Það kemur í veg fyir að sumir geti stundað nám. Það eru mannréttindi að geta stundað nám. Ég styð einkaskóla sem valkost en grunnur okkar menntakerfis eiga að vera öflugir skólar á vegum hins opinbera þar sem velmenntaðir kennara fá laun í samræmi við ábyrgð. Ég vil gjaldfrjálsan leikskóla.

2. Enn í dag er fólki mismunað í launum eftir kynferði. Það er forgangsmál að útrýma kynbundnum launamun. Það er hægt, það sýndum við þegar Reykjavíkurlistinn tók við stjórn borgarinnar. Við einsettum okkur að vinna á kynbundnum launamun, unnum skipulega að því og náðum markmiðumokkar. Ríkisstjórnin hefur talað um að gera þetta en engin skref stigið. Við hefjumst handa næsta vor og um leið vil ég að launaleynd verði aflétt.

3. Aldraðir og fatlaðir, sem dveljast á stofnunum, njóta ekki fullra mannréttinda meðan þeir fá ekki að njóta einkalífs. Við erum ein ríkasta þjóð í heimi. Við höfum efni á að bjóða fötluðum og öldruðum einkaherbergi á stofnunum. Ég tel að þetta sé forgangsmál.

4. Rétt almennings til áhrifa tryggjum við með gagnsæi í öllum stjórnarháttum, aðgangi að upplýsingum, og almennum atkvæðagreiðslum um mikilsvægar stefnumarkandi ákvarðanir á öllum sviðum.