Þessa dagana er ég í fæðingarorlofi en Ellert Schram situr inni fyrir mig, eins og það er kallað í þinginu. Það kom þó ekki í veg fyrir að ég mætti í Kastljós í gærkvöldi til að ræða við Sigríði Andersen, frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins, um fjárreiður stjórnmálaflokkanna.
Einn helsti ljóður á ráði stjórnmálaflokkanna á Íslandi hefur verið sá að hér hafa ekki gilt neinar reglur um fjármál flokkanna. Ísland hefur að þessu leyti skilið sig frá öðrum siðmenntuðum löndum. Helsta andstaðan við reglur í þessu efni hefur komið frá öfgaöflum á hægri væng stjórnmálanna, sem hafa viljað halda flokkunum utan við lög og rétt einkum með þeim rökum að hægt sé að fara framhjá öllum reglum. Það er út af fyrir sig rétt, en hér hefur staðan verið sú að hneyksli í fjármálum flokkanna hefur verið útilokað því það hafa engar reglur verið til að brjóta. Það er auðvitað algjörlega nauðsynlegt að stjórnmálaflokkarnir sem höndla með hundruði milljarða af almannafé á ári hverju og útdeila gæðum eins og auðlindaaðgangi o.fl. hafi skýrar reglur um fjármál og að eftirlit með að þeim sé framfylgt.
Nú verður væntanlegt lagafrumvarp auðvitað ekki gallalaust enda málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða. Þannig hefði auðvitað verið nóg að krefja um gagnsæi framlaga, þ.e. að skylt væri að birta þau öll en ekki þörf á að setja þak á þau miðað við áherslur okkar í Samfylkingunni. En a.m.k. einn flokkanna taldi að banna ætti styrki frá fyrirtækjum og þetta er þá málamiðlun milli þeirra sjónarmiða að setja þak. Það kostar ríkissjóð rúmar 100 milljónir og sjá margir eðlilega eftir þeim framlögum til flokkanna. En þegar hagsmunirnir af því að koma á lögum og reglu í fjármálum flokkanna eru annars vegar, þá er þetta ekki há fjárhæð. Slík löggjöf hefur verið baráttumál Samfylkingarinnar frá upphafi og ástæða til að hrósa forystu stjórnmálaflokkanna fyrir að hafa tekið af skarið í þessu brýna framfaramáli.