Þá er prófkjöri Samfylkingarinnar lokið og hér geta menn séð atkvæðatölurnar sundurliðaðar á hvern frambjóðanda og hvert sæti. Ég hafnaði í fimmta sæti með fjórðu flestu atkvæðin í heild og er himinlifandi með útkomuna. 159 atkvæði skildu mig og varaformann flokksins og má kannski segja að það væri verra ef það væri betra.
Ég var með Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni í Bítinu í morgun að fara yfir ýmis mál, m.a. prófkjörið, og þar reyndi Guðlaugur að gera 69% fylgi Ingibjargar Sólrúnar í fyrsta sæti að ósigri. Ég benti honum góðfúslega á að árangur Geirs Haarde og Ingibjargar réðist auðvitað af styrk frambjóðenda og allir vita að framboðslisti Sjálfstæðisflokksins er fremur veikur. Hjá okkur eru hins vegar tveir fv. formenn, Össur og Jóhanna, sem eru leiðtogar við hlið Ingibjargar og fá eðlilega dálítið í fyrsta sæti. Ef þeir Davíð Oddsson og Þorsteinn Pálsson hefðu verið í prófkjöri Sjálfstæðismanna hefði Geir aldrei náð 69% fylgi. Það varð lítið um svör hjá Guðlaugi. Eini skugginn er fall Guðrúnar Ögmundsdóttur, en við vissum að einhver þingmaður hlyti að falla þegar svo margir sterkir frambjóðendur væru og hefði getað orðið hvert okkar sem er.
Gærdagurinn var einstaklega ljúfur, byrjaði með kveðjukaffi fyrir pabba og mömmu sem voru mér stoð og stytta alla prófkjörsbaráttuna. Svo fórum við með stelpurnar að gefa öndunum og á róló, en þær hafa ekki séð mikið af pabba sínum undanfarið. Seinni partinn fórum við Hildur svo heim á Hólavallagötu og þrifum eftir byggingarframkvæmdirnar svo við gætum flutt aftur inn. Það er fátt eins gott eftir góða törn en að þrífa. Ég þakka öllum þeim sem hjálpuðu okkur að gera þessa góðu kosningu að veruleika innilega fyrir hjálpina.