Styrk stjórnarandstaða

blog

Helgi Hjörvar

Undarleg umræða

Þá er ég kominn á ný til þings að loknu stuttu fæðingarorlofi, en Ellert B. Schram sat inni fyrir mig á meðan. Þeir sögðu um þingsetu Ellerts að á honum hafi sést að þegar maður hefur einu sinni lært að hjóla kann maður það alla ævi. Ellert hefur nefnilega áður setið á þingi en þá fyrir snarvitlausan flokk.

Sá flokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, fór einmitt mikinn í byrjun viku undir forystu Guðjóns Ólafs úr Framsóknarflokki. Þar héldu þeir því fram að formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún, hefði í Keflavík lýst vantrausti á þingflokk Samfylkingarinnar. Guðjón taldi þess fá dæmi að flokksformaður hefði niðurlægt þingflokk sinn svo og væru það skýr skilaboð til frambjóðenda Samfylkingar um að fólk treysti þeim ekki. Félagi hans, Sigurður Kári, sá í senn á lofti kaldar kveðjur, blautar tuskur, sögulega yfirlýsingu og ekki björgulega byrjun á kosningabaráttu. En hann kvaðst ekki skilja hvað snéri upp eða niður í Samfylkingunni. Guðlaugur Þór taldi að vonin væri engin því sá þingflokkur sem Ingibjörg hefði dæmt væri jafnframt framboðslistar flokksins í vor, meðan Guðni fagnaði því að það væri þá brennimerkt á enni þeirra og brjóst vantraustið.

Félagi Mörður bjargaði deginum með hárbeittum svörum fyrir þingflokkinn. Hann sagði að sjálfstæðismenn skildu auðvitað ekki hvernig við í Samfylkingunni færum að því að styrkja okkur, nefnilega með sjálfsgagnrýni og einlægum skömmum og svívirðingum sem við hreinsuðum okkur með og stigjum svo fram einsog goðin eftir Ragnarök að lokum!!!

Öflugur þingflokkur

Mörður hefur af sömu snilld stýrt málatilbúnaði okkar um Ríkisútvarpið og um miðja viku varð ljóst að stjórnin yrði að ganga til samninga við þingflokka stjórnarandstöðu. Formaður okkar, félagi Össur, var langt fram eftir aðfaranótt fimmtudags að ganga frá samningum. Enn eitt árið var Þorgerður Katrín, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, send heim með RÚV frumvarpið sitt. Þetta er þriðja árið í röð sem það gerist og sýnir auðvitað hve frumvarpið er vont en líka hve lítinn stuðning hún hefur af flokksformanni sínum, Geir Harde, og hve sterk stjórnarandstaðan er.

Það er ekki bara að stjórnin nái ekki fram vondum málum einsog RÚV ár eftir ár heldur var það auðvitað á þessu tímabili sem málefnaleg gagnrýni á fjölmiðlafrumvarpið varð, með öðru, til að stjórnin þorði ekki með málið fyrir þjóðina eftir synjun forseta á staðfestingu. En mikilvægari hafa þó verið jákvæð áhrif á mál svo sem mikilvægar breytingar á vatnalögum o.fl. Forysta Guðrúnar Ögmundsdóttur um þverpólitíska vinnu í réttindamálum samkynhneigðra var glæsilegur sigur fyrir lýðræði í landinu og til fyrirmyndar í framtíðinni.

Af mýmörgum dæmum um sterk áhrif stjórnarandstöðu eru minni tekjutengingar hjá öldruðum og öryrkjum og lækkun á sköttum og gjöldum á matvöru nú nýjasta og fallegasta dæmið. Við höfum í Samfylkingunni flutt tillögu um þetta árlega í fjárlögunum og Rannveig Guðmundsdóttir hefur sýnt óíslenskt þolgæði í því að halda uppi umræðu um matarverð á Íslandi með fyrirspurnum, skýrslubeiðnum og margvíslegri umfjöllun. Tillaga okkar var alltaf felld en átti þó stuðning í Sjáflstæðisflokknum og þó að í Framsóknarflokknum hafi verið mikil andstaða treystu þeir sér ekki til annars en fara að tillögum Samfylkingarinnar um matarskatt kortéri fyrir kosningar. Fyrir vikið lækkar matarverð og dregur úr verðbólgu í mars og held ég að þegar saman er lagt sé leitun að stjórnarandstöðu sem haft hefur jafn mikil áhrif á stjórnarstefnu og á þessu kjörtíambili. Vonandi er það til vitnis um að lýrðæði okkar sé almennt að þroskast frá hinu frumstæða alærði hins einfalda meirihluta.

(Blaðið, 9. desember, 2006.