Tvíokun

blog

Ó, dýra Ísland, kvað við í fréttum liðinnar viku. Í ljós er komið að matur er ekki aðeins helmingi dýrari hér en í Evrópusambandinu eins og við héldum, heldur er munurinn orðinn 62%.  Enn eitt dæmið um að hagsmunir almennings hafa ekki verið í öndvegi hjá ríkisstjórninni.

Við vitum hvað þarf til þess að breyta þessu en ríkisstjórnin er ekki tilbúin í þær aðgerðir því hjá henni eru þröngir sérhagsmunir flokksgæðinga mikilvægari. Þó er ánægjulegt að stjórnin lét undan miklum þrýstingi og lækkar nokkuð gjöld á matvöru 1. mars nk. Því miður duga þær aðgerðir aðeins til að lækka matarverð um 10% þannig að eftir verður matvara hér áfram tæplega helmingi dýrari en í ESB og umtalsvert dýrari en t.d. í Svíþjóð og Finnlandi.

Stækkum markaðinn

Fákeppni ræður hér auðvitað einhverju um matvöruverðið, en hún hefur þó mun meiri áhrif á hátt vöruverð í öðrum greinum. Í stað einokunarverslunarinnar sem við eitt sinn bjuggum við þekkjum við nú best tvíokun, sem einkennist af því að tvö fyrirtæki skipta með sér markaðnum og ganga ekki lengra í samkeppni sinni en svo að gróði sé nægur af rekstri beggja. Þetta sjáum við í lyfjaverslun, byggingarvörum, tryggingum, bensíni, símaþjónustu, o.s.frv.           

Ísland er lítið land og oft ber markaðurinn hér einfaldlega ekki mörg fyrirtæki. Þess vegna er ein skilvirkasta leiðin til að vinna gegn tvíokun sú að verða virkur hluti af stærri markaði. Það munum við gera með því að verða hluti af evrunni og evrópska myntbandalaginu. Þannig gerum við hvoru tveggja í senn að auðvelda erlendum fyrirtækjum að veita samkeppni á Íslandi í vöru og þjónustu, því hin erlendu fyrirtæki geta gert það í þeirri mynt sem þau starfa þegar í og við sama lagaumhverfi og þau þekkja á heimamarkaði sínum. Og um leið auðveldum við okkur sjálfum að kaupa vörur og þjónustu erlendis frá, því nú getum við átt viðskiptin í sömu mynt og launin okkar eru og án tollahindrana. Íslenska krónan er nefnilega viðskiptahindrun rétt eins og tollar. Og besta leiðin til að auka samkeppni eru frjáls viðskipti og afnám viðskiptahindrana því það skilar okkur neytendum ódýrara Íslandi.

Kjánaleg umræða

Stærsta ávinninginn munum við neytendur þó sækja í samkeppni á fjármálamarkaði og aðgangi að lánsfé á boðlegum kjörum. Hjá venjulegu nútímafólki er vaxtakostnaður orðinn svo snar þáttur útgjalda að almenningur, eins og atvinnulífið, mun í vaxandi mæli krefja um mynt í landinu sem ekki er sú dýrasta í heimi. Þeirri breytingu mun fylgja það óhagræði að ekki verður hægt að keyra upp og niður íslensku hagsveifluna eins og við þekkjum undanfarna áratugi, sem er kannski bara eins gott þegar heimilin og fyrirtækin eru orðin eins skuldsett og raun ber vitni.        

Atvinnulífið sækir svo í vaxandi mæli fjármögnun sína á alþjóðavettvang og þó það hafi aðgang að erlendu lánsfé er erfiðara að laða hingað erlenda fjárfestingu með þessa skrítilegu mynt.

           

Í sjálfu sér er hér bara heimurinn að minnka, myntsvæðunum að fækka, afköst að batna og samkeppni aukast. Það er oft kallað alþjóðavæðing og á sér líka neikvæðar hliðar. Heimurinn mun ekki skiptast í dollarann, evruna, jenið og krónuna og því augljóst að hér verður evran lögeyrir í fyrirsjáanlegri framtíð. Spurningin er bara hvort við ætlum að móta þá stefnu sjálf og velja hvenær og hvernig, eins og Samfylkingin hefur löngu lagt til, eða hvort við ætlum að hrekjast undan veðri og vindum eins og í hermálinu og sitja loks uppi með það sem aðrir ákveða fyrir okkur.

(Þessi grein birtist í Blaðinu 16.01.2006)