Auðlindasjóður

blog

þau gleðitíðindi bárust nýlega úr íslenskum orkuiðnaði að goldman sachs
hefði hug á að fjárfesta í geysi green, íslensku orkufyrirtæki sem á
hlut í hitaveitu suðurnesja og hefur stórhuga áform um útrás. athygli
vakti að í umræðum um hina erlendu fjárfestingu kom fram andstaða við
hana og þá ekki síst hjá formanni framsóknarflokksins sem brá sér að
venju í hlutverk nátttröllsins.

í hinni hörðu alþjóðlegu samkeppni um lífskjör er erlend fjárfesting
í íslensku atvinnulífi afar mikilvæg. ekki á það síst við í
þekkingariðnaði eins og orkuiðnaðinum þar sem skapast áhugaverð störf,
vel launuð fyrir menntað fólk sem skilar miklum tekjum enda gríðarlegar
fjárfestingar á bak við hvert starf. en í stað þess að gleðjast elur
stjórnarandstaðan, með leiðtoga sinn guðna ágústsson í broddi
fylkingar, á fordómum í garð útlendinga og hræðsluáróðri um
einkavæðingu auðlinda og almenningsveitna. og þó var það einmitt
framsóknarflokkurinn sem færði landeigendum auðlindir í jörðu á
silfurfati. sami flokkur heimilaði hömlulaus viðskipti með þessar
jarðir og enn var það sami flokkurinn sem seldi hlut ríkisins í
almenningsveitum til einkafyrirtækis. en nú eru þeir ekki lengur í
ríkisstjórn heldur stjórnarandstöðu og eru því á móti öllu, líka eigin
ákvörðunum!

framsóknarklúður

auðvitað eru hinir erlendu aðilar ekki að falast eftir hlut í geysi
vegna áhuga á pípulögnum á reykjanesi. við íslendingar búum svo vel að
vera í fremstu röð í heiminum í nýtingu jarðhita og nú á tímum
hnattrænnar hlýnunar er það gríðarlega mikils virði. við eigum líka hóp
öflugra alþjóðlegra fjárfesta sem hafa sýnt hvað eftir annað færni sína
í uppbyggingu og útrás. á þessu samspili byggist hinn erlendi áhugi og
eftirtektarvert að nú fyrst sé að færast líf í útrásina í íslenskum
orkuiðnaði.

það er umhugsunarefni hvers vegna við höfum fram að þessu einkum
verið í útrás í tiltölulega nýjum atvinnugreinum og á sviðum þar sem
við höfum ekki áður haft mikið forskot og það á meðan sá iðnaður sem
við erum hvað best í hefur að mestu setið eftir – fyrir utan eina og
eina virkjunarframkvæmd. ástæða þess er fyrst og fremst það vonda
skipulag sem við höfum haft í orkuiðnaði og rangar pólitískar áherslur,
einkum vegna afskipta framsóknar. það er fagnaðarefni að vera komin með
nýjan iðnaðarráðherra sem lætur að sér kveða og vekur það vonir um nýtt
skipulag sem skilar okkur betri árangri.

þau fyrirtæki sem hafa verið ráðandi á orkumarkaði eru opinber
fyrirtæki. ástæða þess er sú að við teljum flest mikilvægt að ákveðnir
þættir á orkumarkaði séu í opinberri eigu. en opinber fyrirtæki eiga
ekki að vera áhættusækin, eiga hægt með að laða að sér fjármagn og eiga
að leggja höfuðáherslu á þarfir íslendinga en ekki útrás. fyrir vikið
höfum við ekki virkjað nema brot þeirrar þekkingar og tækifæra sem við
eigum á þessu sviði, líkt og var um viðskiptabankana fyrir
einkavæðingu.

verkefni stjórnvalda

það sem við þurfum að gera er eins og iðnaðarráðherra hefur bent á,
að tryggja meirihlutaeign hins opinbera á dreifiveitum sem eru í eðli
sínu einokunarstarfsemi. jafnvel á að koma til greina að þær séu
alfarið í opinberri eigu. þá þarf að skilja á milli auðlindanna og
orkufyrirtækjanna og tryggja almannaeign þeirra auðlinda sem
framsóknarflokkurinn var ekki búinn að láta af hendi en það er sem
betur fer stærstur hluti auðlindanna. að þessu fengnu er ekkert því til
fyrirstöðu að hleypa atvinnulífinu í ríkari mæli inn í orkuvinnslu og
sölu og virkja þannig einkaframtakið og afl þess, en tryggja um leið
almenningi eðlilegt endurgjald fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum.

við jafnaðarmenn höfum ítrekað bent á svipaða aðferðafræði, t.d. um
sameiginlegar auðlindir okkar í hafinu umhverfis landið. olíusjóður
norðmanna er auðvitað kennslubókardæmi um hvernig farsællega má á
félagslegan hátt tryggja að allur almenningur njóti góðs af auðlindum
landsins. slíkar aðferðir má auðvitað nota í orkuvinnslu, ef hér hefst
einhverntíma olíuvinnsla, við leigu á fjarskiptarásum í lofti, úthlutun
á óveiddum fiski í sjó o.s.frv. slíkt fyrirkomulag gæti að mörgu leyti
falið í sér sögulegar sættir sjónarmiða um einkarekstur annars vegar og
almannahagsmuni hins vegar.

(pistill þessi birtist í blaðinu 22.09.07)