Síðastliðinn þriðjudag var ég gestur í Kastljósinu, þar sem ég ræddi málefni Landsvirkjunar Power ásamt Álfheiði Ingadóttur. Þessar umræður er hægt að sjá hér.
Til upprifjunar og fróðleiks varðandi orkumálin, fylgir hér grein sem ég birti í Fréttablaðinu þann 10. október sl. Næsta dag var nýr meirihluti myndaður í borgarstjórn Reykjavíkur.
Hraðsala á almannaeign
Samfylkingin ræðir í kvöld á opnum fundi orkumálin, enda sýna atburðir síðustu mánaða að boðskapur okkar jafnaðarmanna um opinbera eign veitukerfa og almannaeign auðlinda var framsýnn og er réttur. Hættuástand hefur nú skapast þegar borgarstjórnarmeirihlutinn reynir í örvæntingu að klóra yfir klúður sitt í Reykjavík Energy Invest með því að efna til hraðsölu á hlut almennings í fyrirtækinu.
Þó rétt sé að selja hlutinn og hætta að koma óorði á útrásina er ekki sama hvernig og hvenær. Í fyrsta lagi er fráleitt að selja einkaaðilum meira en orðið er fyrr en Alþingi hefur afgreitt lög sem tryggja almannahagsmuni varðandi veitustarfsemi og eignarhald orkuauðlinda en þess er að vænta í vetur. Í öðru lagi er rangt að veita litlum hópi fjárfesta forkaupsrétt að þekkingu OR og viðskiptatækifærum erlendis. Í þriðja lagi er hætt við að í hraðsölu fái almenningur ekki sannvirði fyrir eignir sínar eins og varð við sölu bankanna, enda ekkert óháð verðmat farið fram.
Ef sátt á að takast um málið er nauðsynlegt að bíða lagasetningar og þess að forkaupsréttur falli úr gildi. Þegar því er náð þarf svo að tryggja aðkomu eigendanna, almennings, að sölunni. Það mætti gera með því að tryggja forkaupsrétt almennings. Eða einfaldlega með því að senda íbúum Reykjavíkur, Akraness og Borgarbyggðar sín hlutabréf sem fólk getur þá sjálft selt eða haldið. Eða efna mætti til atkvæðagreiðslu meðfram kosningum um ráðstöfun sölutekna til góðra verkefna. Með svipuðum hætti mætti einnig fara með gagnaveituna, ef vilji er til að selja hana.
Það hefur verið eftirtektarvert að í umróti síðustu daga hefur það verið minnihlutinn í borgarstjórn sem haldið hefur ró sinni, meðan meirihlutinn hefur hoppað um af hræðslu við eigin mistök. Vonandi tekst minnihlutanum með festu sinni að varna því að meirihlutinn fórni frekar en orðið er almannahagsmunum í angist sinni og innbyrðis átökum.
(Birtist í Fréttablaðinu 10. október sl.)