janúar, 2008

Harður leikur

blog

Stundum verða stjórnmálin okkur öllum sem við þau störfum til minnkunar. Þá er eins og síðri hvatir okkar verði alsráðandi, s.s. hégómleiki, hefnigirni, sviksemi og græðgi. Rógsherferðir og persónuníð skreyta svo drullukökuna.

Það var annarskonar og betri kaka í boði þegar Davíð Oddsson hélt hátíð sína í Tjarnarsal ráðhússins á fimmtudag í síðustu viku. Þar á hann að hafa þakkað þáverandi forseta borgarstjórnar, Ólafi F. Magnússyni, fyrir að veita sér og sínum afnot af ráðhúsinu á afmælinu, enda gott að eiga góða að. Bankastjórinn hefur nokkrum dögum síðar orðið jafn hissa og aðrir þegar í ljós kom hver áhrínsorð þetta voru. Dramatískur fyrirboði í anda Íslendingasagnanna eins og annað þessa dagana. 

Það þarf ástæðu

Viku síðar gekk reiðialda yfir ráðhúsið og um kvöldið komst ég að því að dóttir mín hafði með menntaskólafélögum sínum farið þangað að mótmæla. Hún vildi að ég setti lög um það að menn þyrftu að hafa ástæðu til að rjúfa stjórnarsamstarf. Hún er föðurbetrungur, því sjálfur hafði ég verið upptekinn af ýmsum aukaatriðum málsins. Því þó á slíkri lagasetningu séu augljós vandkvæði er mergurinn málsins sá að Ólafur F. Magnússon, læknir og borgarstjóri, hefur ekki með sannfærandi hætti fært fram neinar gildar ástæður fyrir því að svíkja samstarfsmenn sína. Fyrirvaralaust og án þess að gera grein fyrir alvarlegum málefnaágreiningi eða úrbótum sem hann krefðist, sveik hann sitt heit. Það verður ekki réttlætt með því að kannski hafi aðrir ætlað að svíkja.  Og samábyrgir þessu urðu sjálfstæðismenn með því að launa honum brest sinn með æðsta og mikilvægasta embætti Reykjavíkurborgar, óverðskuldað.

Það var gott að eiga Dag að oddvita þegar óheilindin voru afhjúpuð, svo saklaus sem hann augljóslega var af þeim. Það gaf ungu fólki einhver ærlegheit að trúa á mitt í ruglinu og það er mikilvægt. Alvarleiki málsins er nefnilega trúnaðarbrestur stjórnmála við almenning sem enn rýrir tiltrú á stjórnmálum og var ekki á bætandi.

Við þurfum að hafa í huga að í löndum þar sem traust á stjórnmálin hverfur fylgir almennt siðferði og traust manna á meðal fljótt á eftir. Mestu forréttindin við að vera Íslendingur er einmitt það traust, gagnkvæm virðing, umburðarlyndi og samkennd sem þetta litla samfélag á og um það þurfum við að standa vörð.

Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var mynduð bundu margir vonir við að nýtt skeið væri runnið upp í íslenskum stjórnmálum. Breiður og sterkur meirihluti styrkti miðjuna í stjórnmálunum og starfað að hagsmunum venjulegs fólks. En víkjandi yrðu gömlu átakastjórnmálin og sérhagsmunabröltið.

Bingi

Á hinum sögulega borgarstjórnarfundi axlaði Björn Ingi Hrafnsson, Framsóknarflokki, skinn sín og hætti í borgarstjórn. Í stuttri viðdvöl hans þar hefur ítrekað verið rætt um óheilindi, refskap, spillingu o.þ.h. þegar hann hefur verið annarsvegar. Það hefur þó farið nokkuð eftir því með hverjum hann hefur starfað hverju sinni, hvernig menn í öllum flokkum hafa um hann talað og oft ótrúlegur viðsnúningur hjá sama fólkinu í ummælum eftir því hvort hann var að vinna með þeim eða ekki. Ræður sjálfstæðismanna á fundinum voru þannig næsta ótrúlegt lof eftir lastið síðustu 100 daga. Kannski brottför Binga eigi að verða okkur stjórnmálamönnum nokkur lærdómur um að af meiri hófsemi og stillingu megum við stundum fjalla hver um annan. Það yrði kannski til að auka eitthvað tiltrú þá sem brýnast er að reisa.

Pistillinn birtist í 24 stundum 26. janúar

Vaxandi ójöfnuður

blog

Engum blöðum er um það að fletta að ein helsta ástæða þess að kjósendur höfnuðu áframhaldandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var óánægja með vaxandi ójöfnuð og kjör hinna verst settu. Um það vitnar pólitísk umræða undanfarinna ára og margháttaðar upplýsingar sem staðfest hafa það.

Það var þess vegna mjög mikilvægt fyrir nýja ríkisstjórn að leggja strax í stjórnarsáttmálanum áherslu á bætt kjör lífeyrishafa, sem sannarlega var ekki vanþörf á. Enn betra var að því skyldi fylgt eftir með jafn myndarlegum hætti og raun ber vitni strax í fyrstu fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar. Og það eru ekki aðeins fjármunirnir sem þar skipta máli heldur líka brýn mannréttindamál, eins og afnám tenginga við tekjur maka og aukið frelsi til sjálfsbjargar. Báðir stjórnarflokkarnir lögðu áherslu á kjör lífeyrisþega í kosningabaráttunni og því mikilvægt fyrir trúverðugleika þeirra að láta verkin sýna merkin, þó þetta séu auðvitað bara fyrstu skrefin.

Kjarasamningar

En það er miklu fleira fólk en lífeyrishafar sem býr við kröpp kjör og þarf að rétta sinn hlut. Það kemur auðvitað glöggt fram þessa daga í tengslum við kjarasamninga. Bæði lágtekju- og meðaltekjufólk hefur þurft að horfa uppá vaxandi tekjumun og breytingar á skattkerfi hafa miðað að því að létta sköttum af hátekjufólki og eignamönnum. Skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun sem leitt hefur til þess að fólk með mjög lágar tekjur greiðir talsvert í skatta. Þá dró bæði úr vaxta- og barnabótum á síðustu kjörtímabilum. Á þetta höfum við í Samfylkingunni  lagt áherslu í okkar málflutningi.

Í stjórnarsáttmálanum hafa flokkarnir náð saman um að stefnt skuli að skattalækkunum á kjörtímabilinu, en það mun auðvitað að miklu leyti ráðast af því svigrúmi sem verður í ríkisfjármálum til þess. Sérstaklega er þar vísað m.a. til hækkunar persónuafsláttar og aukinna barnabóta til hinna tekjulægstu, o.fl. Það verður spennandi að sjá hve mikið svigrúm við munum hafa til að fylgja þessum viljayfirlýsingum eftir og hvernig til tekst almennt.

Barnabæturnar eru hér ekki síst mikilvægar því í skýrslu sem ég kallaði eftir frá forsætisráðherra árið 2006, kom fram að um fimm þúsund börn ælust upp á heimilum sem væru undir fátæktarmörkum. Þetta kom okkur mörgum á óvart og ég held að það sé þverpólitísk samstaða um að huga þurfi sérstaklega að þessum hópi. Það athyglisverða í skýrslu forsætisráðherra var að á hinum Norðurlöndunum var ekki mikill munur á stöðu fátækra barnafjölskylda fyrir skatta. En þegar skattar og bætur voru teknar með tókst hinum Norðurlöndunum að draga mun meira úr fátækt barna en okkur, svo munaði allt að helmingi. þannig eigum við augljóslega sóknarfæri í skatta- og bótakerfinu að þessu leyti.

Tillögur ASÍ

Eins og kunnugt er hefur ASÍ sett fram tillögur um skattalækkanir fyrir meðal- og lágtekjufólk. Þær miða að því að mæta einmitt þeim hópum sem við í Samfylkingunni höfum lagt áherslu á og eru allrar athygli verðar. Tillagan er um barnabætur og auka persónuafslátt fyrir lágtekjufólk uppá 20 þúsund á mánuði, sem muna myndi verulega um. Slík tillaga hefur þann kost að vegna þess að hún nær ekki til allra eins og almenni persónuafslátturinn, þá verður hún ekki eins dýr. Gallinn er hins vegar sá að það flækir skattkerfið, sem er umdeilt og því geta fylgt talsverð jaðaráhrif. Þó ekki hafi verið fallist á tillögurnar eins og þær voru fram settar, er það eftir sem áður brýnasta verkefnið næstu vikur að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Því þurfa að nást samningar um kjarabætur hinna lægst launuðu og auðvitað mun ríkisstjórnin vilja greiða fyrir því eins og kostur er.

Ár Samfylkingarinnar

blog

Fyrir rúmum áratug fór ný kynslóð að knýja á um sameiningu jafnaðarmanna. Margir höfðu reynt það á undan henni og alla síðustu öld beið draumurinn á rauðu ljósi en brast hvað eftir annað. Birtar voru auglýsingar í blöðunum undir yfirskriftinni „Ungt fólk krefst árangurs“. Í borginni var fyrirstaðan lítil. Eftir áratuga áhrifaleysi var vilji almennings ljós og knúði loks fram stofnun Reykjavíkurlistans. Um aldamótin var Samfylkingin svo stofnuð úr fjórum flokkum, ekki síst á þeirri röksemd að sundrung jafnaðarmanna hefði leitt til viðvarandi áhrifaleysis þeirra.

Nú, sjö árum síðar, er flokkurinn kominn í ríkisstjórn, leiðir höfuðborgina, hefur hreinan meirihluta í Hafnarfirði, á aðild að meirihluta á Akureyri, o.s.frv. Samfylkingin er ekki aðeins orðin burðarflokkur í ríkisstjórn, eins og formaðurinn hét, heldur í íslenskum stjórnmálum. Það var einmitt á þessu ári sem Samfylkingin naut ávaxtanna af starfi undanfarinna ára með myndun ríkisstjórnar og yfirtöku borgarinnar. Eftir að hafa átt á brattan að sækja snéri flokkurinn vörn í sókn með nýrri umhverfisstefnu, fagra Íslandi. Í kjölfarið fylgdi þung áhersla á jöfnuð, málefni barna og lífeyrishafa og jafnrétti kynjanna, sem saman gerðu Samfylkinguna að trúverðugri breiðfylkingu jafnaðarmanna. Þó að á móti blési stóðu flokksmenn og forysta saman og gengu jafnvel hús úr húsi til að sannfæra kjósendur um erindi sitt.

Nýr Sjálfstæðisflokkur

Með myndun Þingvallastjórnarinnar á vordögum sýndi nýr formaður Sjálfstæðisflokksins sterka forystu og pólitískan kjark. Hinn frjálslyndi armur flokksins réði nú ferð en ekki afturhaldsöflin. Sú stjórn sem var mynduð er fyrst og fremst miðjustjórn um hagsmuni venjulegs fólks og fyrirtækja. Ósætti gömlu afturhaldsaflanna við þróunina braust svo út með sérkennilegum hætti í innri uppreisn þeirra í eigin borgarstjórnarflokki og bræðravígum í beinni útsendingu. En tilveran er gædd ríkri kímnigáfu og þeir uppskáru ekki annað en að leiða Samfylkinguna til forystu í borginni.

Hin nýja miðjustjórn nýtur víðtæks stuðnings og hefur gríðarstóran meirihluta á þingi. Áhyggjuefni er hve stjórnarandstaðan er veikburða, bæði sögulega og þá sérstaklega nú. Þrátt fyrir að vera fáliðaðri en nokkru sinni fyrr, finnur hún sér ekkert betra að gera en berjast innbyrðis. Þannig skamma framsóknarmenn Frjálsynda flokkinn, Frjálslyndir skamma VG sem svo aftur skamma Framsókn þegar þeir eru ekki að skamma Frjálslynda flokkinn. Á meðan skortir ríkisstjórnina eðlilegt aðhald.

Nóg að gera

En þó allt gangi ljómandi vel eru verkefnin næg. Mikilvægar kjara- og mannréttindabætur hafa náðst fyrir lífeyrishafa en mikilvægt er að fleiri skref verði stigin í átt til aukins jöfnuðar. Og þá ekki síst fyrir lág- og meðaltekjufólk og barnafjölskyldur. Það geysar 6% verðbólga í landinu, auk hæstu raunvaxta í heimi, og því er mikilvægt að ríkisstjórnin sé enn betur á verði, m.a. í komandi kjarasamningum. Óvissuástand á mörkuðum kallar á að allir sýni aðhald og vekur áhyggjur um stöðu ungs fólks sem ráðist hefur í íbúðakaup á yfirspenntum markaði, í háum vöxtum og verðbólgu. Mest væri auðvitað um vert ef framsækin öfl í stjórnarflokkunum gætu stigið einhver skref í átt til Evrópu og þá einkanlega evrunnar. Í viðsjám á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er erfitt að finna trúverðugleika þess að ætla að halda áfram úti minnstu flotmynt í heimi, sem hoppar og skoppar sem kunnugt er. Almenningur og fyrirtæki þurfa stöðugra umhverfi og vaxtastig líkt og í samkeppnislöndunum. Við þurfum að lækka vöruverð, auka framboð og samkeppni innanlands og efla útflutning. Upptaka evrunnar myndi auðvelda það, þó að hún leysi ekki skammtíma vanda okkar. Og þó nýtt ár verði ekki ár evrunnar er óskandi að við hefjum raunverulega umræðu um þá brýnu almannahagsmuni sem í þeim leiðangri felast.

Pistillinn birtist í 24 stundum 29.12.2007