febrúar, 2008

Jafnaðarstjórn og mannréttindasigrar

blog

Sá trúnaður sem kjósendur sýndu okkur í Samfylkingunni sl. vor var af ýmsum ástæðum og væntingar jafn fjölbreytilegar og stuðningsfólkið var margt. Þar réði þó miklu hjá stórum hópi sú stefnubreyting flokksins í umhverfismálum sem varð við útgáfu hins „Fagra Íslands“ Samfylkingarinnar. Þó var það langsamlega stærsti hópurinn sem lagði höfuðáherslu á mikilvægi þess að fá að landsstjórninni flokk sem legði höfuðáherslu á að auka jöfnuð í samfélaginu. Lykillinn að velgengni okkar í farsælu stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn verður því augljóslega að vel takist að uppfylla væntingar um aukinn jöfnuð.

Stórt skref

Nú ræðst jöfnuður ekki af ríkisstjórninni einni en hún þarf sannarlega ekki að kvarta undan framlagi atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar í þeim kjarasamningum sem nú hafa náðst. Þar á bæ hafa menn líka skynjað þá þungu kröfu frá fólkinu í landinu að eftir launaskrið og kaupréttarsamninga síðustu ára þurfi að rétta hlut venjulegs fólks. Og forysta SA og ASÍ hefur með eftirtektarverðum hætti gert það að aðalatriði samninga, þó auðvitað megi alltaf um það deila hvort nógu langt sé gengið.

Í upphafi viðræðna kynnti verkalýðshreyfingin áherslur sínar í skattamálum. Þær voru ótvírætt hugsaðar með hag lág- og meðaltekjufólks að leiðarljósi en sættu nokkurri gagnrýni á þeim forsendum að þær flæktu skattkerfið og ykju svokölluð jaðaráhrif. Auðvitað olli það ákveðnum vonbrigðum að ríkisstjórnin var ekki tilbúin til viðræðna þá en lýsti sig reiðubúna til að gera það síðar í ferlinu. Allt hefur sinn tíma.

Það samkomulag um skattalækkanir sem náðist í lok kjarasamninganna milli ríkisstjórnar, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar er til fyrirmyndar og áherslurnar mjög ánægjulegar þó auðvitað megi alltaf gera betur. Þar er í fyrsta lagi verið að verja lang mestu fé til að hækka persónuafslátt sérstaklega á næstu þremur árum. Persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun lengi og því hafa tekjulægstu hóparnir í vaxandi mæli verið að greiða skatta. Þetta á ekki bara við um launafólk heldur líka aldraða og öryrkja. Með því að hækka persónuafsláttinn er verið að tryggja venjulegu fólki sömu krónutölu í skattalækkunum og öðrum, án þess þó að flækja skattkerfið og því ber að fagna.

Þá er ekki síður ánægjulegt að verið er að hækka umtalsvert skerðingarmörk bæði í barnabótakerfinu og í vaxtabótakerfinu, þannig að fleiri njóti þeirra. Í skýrslu sem við kölluðum eftir fyrir tveimur árum kom fram að á Íslandi eru umtalsvert fleiri börn sem alast upp við fátækt en á hinum Norðurlöndunum, þó við stöndum sem betur fer vel gagnvart öðrum þjóðum. Af henni sést að frændur okkar á Norðurlöndunum skiptu tekjum ekki jafnar milli barnafjölskyldna, en skatta- og bótakerfi þeirra hjálpuðu fleiri barnafjölskyldum yfir lágtekjumörkin. Með því að leggja áherslu á barna-, húsaleigu- og vaxtabætur eigum við að geta gert svipaða hluti, þó við samningana nú sé bara stigið lítið skref í þessu. Þá eru fleiri jákvæðir þættir í skattalækkununum, m.a. lækkun til fyrirtækja, afnám stimpilgjalda að hluta og hvatning til ungs fólks um sparnað.

Kjaramál eru mannréttindamál

Fyrr í vetur voru kynnt mikilvæg skref í kjaramálum aldraðra og öryrkja sem Jóhanna Sigurðardóttir, félags og tryggingamálaráðherra, hefur verið að útfæra. Þar er að finna kjarabætur sem eru hrein og klár mannréttindamál eins og afnám tenginga við tekjur maka. Þar með lýkur mannréttindabaráttu um að hver manneskja sé sjálfstæður einstaklingur sem staðið hefur í á annan áratug. Þar eru líka stigin veigamikil skref í að hvetja lífeyrisþega til atvinnuþátttöku og hætta að refsa fólki fyrir að bjarga sér.

Þegar allt þetta er lagt saman held ég að óhætt sé að fullyrða að á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar hafi náðst mikilvægir áfangar í átt til þess að auka jöfnuð. En kjörtímabil er fjögur ár og betur má ef duga skal.

Örlítið meira lýðræði, takk

blog

Stjórnarkreppan í Reykjavíkurborg er engan endi að taka. Hægri
glundroðinn er svo gagnger að í kjölfar klofnings F-listans gefa
borgarfulltúar Sjálfstæðisflokksins út skýrslu með minnihlutanum um
framgöngu eigin oddvita og um að borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins í
Reykjavík hafi skort pólitískt, siðferðilegt og lagalegt umboð til
stórra og óvenjulegra ákvarðanna!

Sú veika borgarstjórn sem þetta afhjúpar er afleiðing af umboðsskorti
og skorti á lýðræði. Frá því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hætti sem
borgarstjóri í Reykjavík hefur enginn borgarstjóri haft atkvæði
meirihluta borgarbúa og með svo takmarkað umboð hafa þeir komið og
farið hver á fætur öðrum. Því forsendan fyrir sterkum borgarstjóra í
Reykjavík er beint umboð frá borgarbúum. Við þetta bætist að meirihluti
Framsóknar og Sjálfstæðisflokks var byggður á minnihluta atkvæða
borgarbúa og völd Framsóknar í því samstarfi langt umfram það sem
þeirra lýðræðislega umboð fól í sér.

Nú er svo kominn borgarstjóri sem enginn myndi kjósa og meirihluti sem
lítill hluti borgarbúa styður. Og þessi meirihluti er myndaður um tvö
mál sem kjósendur höfðu ekki hugmynd um að stærsti stjórnmálaflokkurinn
í Reykjavík myndi setja á oddinn eftir kosningar, þ.e. friðun Laugavegar 4 og 6 og votlendisins í Vatnsmýri.

Þó Reykjavíkurlistinn hafi gengið sér til húðar var það rétt sem lagt
var upp með. Nauðsyn þess að Reykvíkingar hefðu skýra valkosti og kysu
meirihluta og borgarstjóra beint í kosningum en þyrftu ekki að sitja
uppi með niðurstöður úr vafasömu baktjaldamakki eftir kosningar. Á
þarsíðasta kjörtímabili settum við líka ákvæði um að íbúar gætu krafist
atkvæðagreiðslu um stórframkvæmdir og gerðum ýmsar tilraunir með beint
lýðræði. Þeirri þróun er mikilvægt að halda áfram og augljóslega
nauðsynlegt að borgarbúar geti knúið fram kosningar ef meirihlutinn
bregst algjörlega trausti.

Íhaldssamari en Norðmenn

Sumir segja að lýðræði okkar sé enn að slíta barnsskónum, enda Ísland
ungt lýðveldi og við til þessa ekki véfengt umboð sterka borgarstjórans
fremur en kóngsins áður, heldur bara hlýtt hans ráðstöfunum. Það er
ekki bundið við borgarmálin heldur á það ekki síður við í landsmálum.
Það er ótrúlegt að í sextíu ára sögu lýðveldisins hafi þjóðin aldrei
nokkru sinni knúið fram eða fengið að taka sjálf ákvörðun um eitt
einasta atriði er máli skipti. Aldrei. Og hvaða rugl er það? Hefur á
heilum mannsaldri ekkert það álitamál verið uppi á Íslandi að
almenningur ætti að taka afstöðu til þess fremur en ríkisstjórnin?

Í vikunni fengum við sem fyrr fréttir af því að árið 2006 hefði
matvöruverð enn verið tveimur þriðjuhlutum hærra á Íslandi en að
meðaltali í Evrópu. Við vitum að svipað á við um marga aðra vöru s.s.
lyf, barnavörur og ýmsar nauðsynjar fyrir alþýðu manna. Þetta er
auðvitað sérstaklega íþyngjandi fyrir venjulegt fólk með lágar og
meðaltekjur og þá ekki síst barnafjölskyldur. Miklu alvarlegri eru þó
þau erfiðu skilyrði sem hið séríslenska vaxtaokur skapar almenningi og
venjulegum fyrirtækjum. En stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 10% hærri
en evrópska bankans.

Af þessum ástæðum og ýmsum öðrum, ekki síst menningarlegum, hafa æ
fleiri hallast að því að við eigum að bindast bandalagi við aðrar
evrópskar þjóðir og sækjast eftir þeim vöru- og vaxtakjörum sem þar
tíðkast og efla evrópsk menningaráhrif á Íslandi um leið.

Aldrei hefur þjóðin staðið frammi fyrir stærri ákvörðun en þessari.
Alþingi hefur enga burði til að taka á málinu. Umræðan sem þarf að fara
fram verður ekki fyrr en við tökum afstöðu til aðildar. En ennþá árið
2008 bíðum við og frestum ákvörðunum og ólíkt nær öllum þjóðum í Evrópu
höfum við ekki tekið afstöðu til Evrópusamvinnunar. Jafnvel Norðmenn
hafa ekki sjaldnar en tvívegis gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu um
stefnu sína í málinu. Við aldrei. Ekki fyrr en við neyðumst til þess og
höfum glatað allri samningsstöðu. Svolítið eins og sveitamaðurinn sem
aldrei skal flytja á mölina nema nauðbeygður.

Pistillinn birtist í 24 Stundum 9. febrúar