Talsmenn aðhaldsleysis

blog

Það hefur tekið sig upp gamall söngur í efnahagsmálum. Fellum gengið og leyfum verðbólgunni að ganga yfir, en hverfum frá háum vöxtum. Og þó það hljómi vel að gagnrýna háa vexti Seðlabankans er í því fólgið að senda eigi almenningi reikninginn í formi verðbólgu.

Enn einn grátkórinn

Á síðum blaðanna hafa sumir framámenn í stjórnmálum og viðskiptum þannig verið að segja okkur að vegna alþjóðlegrar lausafjárkreppu eigi Seðlabankinn að endurskoða vaxtastefnu sína, m.ö.o. að lækka stýrivexti. Þó blasir það við hverjum manni að ef lausafjárskortur er vandamálið þá er vaxtalækkun ekki svarið.

Á viðsjártímum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er trúverðugleiki mikilvægur. Hringlandaháttur með peningamálastefnu er við þær aðstæður fráleitur. Talsmenn aðhaldsleysis hafa því þurft hugmyndaauðgi til að renna rökum undir mál sitt. Þannig kom í vikunni fram hagfræðingur sem taldi að Seðlabankinn ætti að byggja ákvarðanir sínar um vaxtalækkanir á sömu sjónarmiðum og sá bandaríski. Brosleg hugmynd í besta falli, því þó við Íslendingar séum mestu snillingar veraldar í viðskiptum þá telur þjóðin enn aðeins 0,3 milljónir manna. Vaxtaákvarðanir bandaríska bankans taka auðvitað mið af því að þær hafa áhrif á aflvél heimsviðskiptanna, bandarískt atvinnulíf, en 0,75% vaxtalækkun Seðlabanka Íslands mun seint verða talið svar við fjármálavanda þeim sem heimurinn glímir við. Auk þess var yfirlýst forsenda lækkunar vestra trúverðugleiki sem agalausir Íslendingar hafa ekki.

Hin ósýnilega hönd

Það er út af fyrir sig eðlilegt að nú þegar þrengir að brjótist menn um og biðji um öðruvísi veruleika. Hér varð gríðarleg auðmyndun þegar fjármálafyrirtækin fengu lán á lágum vöxtum til fjárfestinga í áhættu- og ábatasömum verkefnum, en nú eru lágu vextirnir ekki lengur í boði, hvorki á heimsmarkaði né í Seðlabankanum. Af þessu breiðstræti brostinna vona hrópa sumir að Seðlabankinn sé í öngstræti. En hann gerir ekki annað en það sem hann boðaði og allir vissu að yrði og er bráðum að fara að bíta. Og það er mikilvægt að við hægjum á.

Við þurfum að draga úr neyslu okkar og fyrirtækin þurfa að leyfa hinni ósýnilegu hönd markaðarins að taka til áður en hlaupið er undir pilsfald ríksins. Því við vitum öll að það er allskonar rugl í gangi í neyslu og stöku fjárfestingum og því þarf að vinda ofan af með aðhaldi til þess að við getum svo aftur hafið uppgangstímabil. Suðaustur-Asía var ágætt dæmi um hvernig fer ef það er ekki gert.

Hvernig sem menn berja höfðinu við Arnarhólinn komast þeir ekki framhjá því að í áratugi hafa sveiflur, mikil verðbólga og háir vextir einkennt íslensku krónuna. Á því er engin skyndilausn til og síst sú að hækka skuldir heimilanna með verðbólgu. Verðtryggingin hefur líka gert krónuna að lélegu hagstjórnartæki. Ef við viljum breytingar til framtíðar er augljóslega líklegra að við náum stöðugleika og lágum vöxtum í Evrópusamvinnu og með þeim aga sem þarf að fylgja upptöku evru, fremur en með aðferðum og aðhaldsleysi gærdagsins. Bara yfirlýsingin um að við ætluðum í evrópska myntbandalagið myndi strax auka trúverðugleika okkar á alþjóðamörkuðum.

Sterkar stoðir

Í öllu krepputalinu eigum við að hafa í huga að Ísland er ótrúlega auðugt samfélag og sterkt. Mannauður okkar, auðlindir og sterkt atvinnulíf eru stoðir undir lífskjörum okkar sem ekki á að örvænta um. Þeir erfiðleikar sem við fáumst við eru tímabundnir og sagan sýnir að við erum fljót að ná okkur aftur á strik. Og þegar samdráttur verður munu ríki og Seðlabanki  auðvitað með aðgerðum milda lendinguna svo sem kostur er. En allt hefur sinn tíma.