Á þriðjudaginn (20. maí) fengum við fulltrúa Skipulagsstofnunar á fund umhverfisnefndar þingsins til að segja frá álitsgerð þeirra um Bitruvirkjun. Sú álitsgerð markar tímamót í umhverfismálum og sama dag samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að falla frá áformum um virkjunina og borgarstjórnin fagnaði ákvörðuninni í framhaldinu.
Þetta er sérstaklega athyglisvert fyrir okkur í Samfylkingunni. Fyrir tveimur árum síðan lögðum við nýjar áherslur í umhverfismálum undir fyrirsögninni: „Fagra Ísland“. Sú stefnubreyting varð til þess að við snérum vörn í sókn og í kjölfarið náðum við góðum árangri í kosningum og mynduðum ríkisstjórn. Eftir myndun hennar hafa pólitískir andstæðingar okkar reynt af veikum mætti að draga upp þá mynd að við höfum brugðist „Fagra Íslandi“.
Þetta var ekki síst áberandi eftir úrskurð umhverfisráðherra um álver í Helguvík. Þá töldu sumir að ráðherrann hefði átt að setja þá framkvæmd í nýtt umhverfismat, sem Þórunn Sveinbjarnardóttir taldi að væri ekki í samræmi við lög. Því fylgdu furðulegar upphrópanir um að hér væru að rísa á vegum Samfylkingarinnar ný álver við hvern fjörð.
Staðreyndin er hins vegar sú að á þessu kjörtímabili er ekki að rísa neitt álver nema hugsanlega í Helguvík. Stjórnarflokakarnir höfðu sem kunnugt er ólíka stefnu í umhverfismálum og því var í stjórnarsáttmálanum samið um að ráðast í „Fagra Ísland“ en að þau leyfi sem búið var að gefa út af fyrri ríkisstjórn yrðu ekki afturkölluð. Það þýðir að ríkisstjórnin mun gera áætlun fyrir landið allt um það hvaða svæði við viljum vernda í náttúrunni en hugsanlega getur risið álver í Helguvík ef það nær samningum um orku, raflínur, losunarheimildir o.s.fr.
Vaxandi mikilvægi náttúrunnar
Álit Skipulagsstofnunar á Bitruvirkjun mun hafa veruleg áhrif á áætlun okkar um vernd náttúru Íslands. Í fyrsta áfanga rammaáætlunar sem kynntur var fyrir nokkrum árum komu jarðvarmavirkjanir vel út. Tíðarandinn þá var sumpart sá að vatnsaflsvirkjanir væru ómögulegar en jarðvarmavirkjanir mjög jákvæðar. Náttúruvendarfólk gagnrýndi hins vegar niðurstöðurnar og taldi þær ekki taka nægjanlegt tillit til náttúru og landslags. Eins sættu þær gagnrýni útivistar- og ferðaþjónustufólks.
Álitið um Bitruvirkjun bendir til þess að sú gagnrýni hafi átt við rök að styðjast því þar er einmitt meiri áhersla en áður lögð á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Kannski Hellisheiðarvirkjun hafi átt þátt í þessari viðhorfsbreytingu, enda er hún í alfaraleið og afhjúpar að jarðvarmavirkjanir eru ekki litlar og krúttlegar heldur verulegt lýti á náttúrunni. Auðvitað hefur líka áhrif að eftir því sem við tæknivæðumst meira þess mikilvægara verður að standa vörð um náttúruna.
Óþolandi umhverfi
Áætlun okkar um verndun náttúru landsins snýst ekki bara um náttúruna. Um leið og við verndum hana tökum við afstöðu til þess hvað ekki á að vernda og þar með nýta til orkuvinnslu. Það er óþolandi umhverfi fyrir orkufyrirtækin að fá ekki skýr skilaboð um það hvar má virkja og hvar ekki.
Orkuiðnaður er ein mikilvægasta atvinnugrein okkar Íslendinga og nú þegar kreppir að í efnahags- og atvinnumálum er brýnt að honum séu búin skilyrði til að nýta sóknarfæri sín. Það er auðvitað enn mikilvægara nú þegar við erum að fást við hrikalegar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar að þessi fyrirtæki okkar geti virkjað endurnýjanlegar auðlindir.
Pólitíkin hefur brugðist orkuiðnaðinum. Ef undan er skilinn iðnaðarráðherrann hafa pólitíkusarnir klúðrað útrásinni með staðfestuleysi og stefnuleysi í náttúruverndarmálum um árabil sem bitnar nú á virkjunum hér heima. Það eru nefnilega sameiginlegir hagsmunir náttúruverndar og orkuiðnaðar að við drögum skýrar línur um „Fagra Ísland“ og sú áætlun verður lögð fram á næsta ári. Umhverfismatið vegna Bitruvirkjunar mun sem betur fer stuðla að því að þar njóti náttúran vafans.
Pistillinn birtist í 24 stundum 24. maí sl.