júní, 2008

Að njósna um heiðarlegt fólk

blog

„Það er grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi, að heiðarlegt fólk þurfi ekki að sæta símhlerunum vegna stjórnmálaskoðana sinna“. Með þessum orðum hóf ég utandagskrárumræðu við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á Alþingi í síðustu viku. Tilefnið var, að þá hafði verið birtur ýtarlegur listi yfir þau 32 heimili sem staðfest er að hleruð hafi verið af stjórnmálaástæðum á árunum fram til 1968. Eftirtektarvert var að fylgjast með umræðunni á þinginu og í fjölmiðlum undanfarna daga.

Sex sinnum er staðfest að hlerað hafi verið hjá hópi fólks í hvert sinn. Aðeins einu sinni er vísað til beiðni lögreglu og ekki nema tvisvar til lagaákvæða. Enginn rökstuddur grunur er færður fram um saknæmt athæfi og engar ákærur hafa nokkru sinni verið gefnar út vegna einhvers sem fram kom við hleranirnar. Engin skjöl eru til um hleranirnar sjálfar, en þau að líkindum verið brennd í bensíntunnu 1976, eða látin hverfa við stofnun embættis ríkislögreglustjóra.

Stjórnarskráin, æðsta löggjöf okkar, kveður á um helg mannréttindi, m.a. friðhelgi einkalífsins. Ljóst er að freklega var brotið á þeim hleruðu, en nú of langt um liðið til að leita megi uppi einstaka sökudólga. Það þurfti líka marga til og hið alvarlega og varanlega er að íslenska ríkið braut á mannréttindum þegna sinna. Eðlilega hefur verið kallað eftir afsökunarbeiðni, eins og dæmi eru um, t.d. í Noregi eftir Lund skýrsluna.

Uppvakningar

Nú þykir langflestum auðvitað miður að ríkisvaldinu skuli hafa verið misbeitt og skilja að hinum hleruðu sé misboðið. Þó eru stöku uppvakningar frá dögum kalda stríðsins sem gripnir eru gamalkunnu ofstæki við að verja það sem óverjandi er. Þetta var þjóðhættulegt fólk og sagan hefur fellt sinn dóm, segja þeir. Þetta speglar hættulega hugsun, þá að heimilt sé að brjóta mannréttindi á fólki hafi það rangar skoðanir að mati yfirvalda. Réttarríkið var beinlínis grundvallað til að verja fólk gegn slíkum yfirvöldum.

Fyrir nú utan það, að það fólk sem barðist fyrir þjóðfrelsi og félagslegum réttindum hafði ekki rangt fyrir sér, en hinir rétt. Það er einmitt svo dæmigerð afstaða fyrir ofstæki og hroka kalda stríðsins sem á svo illa við öllu málefnalegri umræðu samtímans. Svo er þetta lítill bær og við vitum að þessi listi er yfir heiðarlegt fólk, margir friðar- og þjóðfrelsissinnar, sumir ákveðnir andkommúnistar og margir trúlega hleraðir fyrir að leggja lið sitt baráttunni gegn herforingjastjórninni í Grikklandi. Það er þess vegna hjákátlegt að reyna að snúa þessu upp í baráttu lýðræðis og einræðis, enda snýst málið um friðhelgi einkalífsins og ósköp venjubundna misbeitingu valds.

Framtíðin

Þótt sumir kjósi sér hlutskipti eftirlegurottunnar á ruslahaug sögunnar skulum við taka þessi mál með okkur inn í framtíðina. Við þurfum að ljúka þessari söguskoðun, kanna hvað gert var eftir 1991, hvort létta eigi þagnarskyldu af þeim sem störfuðu að þessu o.s.frv. Ekki til að vekja upp kalda stríðið, heldur til að læra af reynslunni. Þannig ákváðu Norðmenn í kjölfar sinnar skoðunar að stofna sérstaka þingnefnd til eftirlits með svona starfsemi. Sum nágrannalönd okkar hafa skipað réttargæslumenn fyrir þá sem hlera á hjá, lögum samkvæmt. Álíka aðgerða mætti e.t.v. grípa til hér til að tryggja sjálfsögðustu mannréttindi.

Því miður eru nýleg dæmi um að dómsmálayfirvöld fari offari í heitum pólitískum málum. Falun Gong var eitt skýrasta dæmið um það en samkvæmt áliti umboðsmanns Alþingis var þar farið út fyrir valdmörk við að verja kínverskan ráðamann fyrir lýðræðislegum mótmælum. Hleranir fyrri ára eiga þannig m.a. að verða okkur tilefni til að skýra og skerpa framkvæmd löggæslu og eftirlit með henni og senda skýr skilaboð til stjórnvalda morgundagsins um að aldrei megi stunda pólitískar njósnir.

Pistillinn birtist í 24 stundum 7. júní sl.

Símhleranir íslenskra stjórnvalda á tímum kalda stríðsins

blog

Símhleranir íslenskra stjórnvalda á tímum kalda stríðsins eru nú aftur
komnar inn í umræðuna. Tilefnið er grein sem Kjartan Ólafsson,
fyrrverandi alþingismaður og ritstjóri Þjóðviljans, skrifaði í
Morgunblaðið á dögunum. Í greininni eru nafngreindir 32 einstaklingar
sem þola máttu að sími heimilis þeirra væri hleraður. Af þessu tilefni
óskaði ég eftir utandagskrárumræðum um málið á Alþingi. Við þeirri
beiðni var orðið og var Björn Bjarnason dómsmálaráðherra til andsvara.
Hér fylgja ræðurnar sem ég flutti við umræðurnar á þinginu í gær.

Fyrri ræðan: 

Virðulegur forseti. Það er grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi að
heiðarlegt fólk þurfi ekki að sæta símhlerunum yfirvalda vegna
stjórnmálaskoðana sinna. Það gerðist þó ítrekað á Íslandi í kalda
stríðinu og er nú fullupplýst. Það er því mikilvægt að hæstv.
dómsmálaráðherra ítreki að viðhorf dómsmálayfirvalda til símhlerana séu
breytt frá því sem þá var. Mikilvægt vegna þess að við sem sitjum í
þessum sal höfum undirritað drengskaparheit að stjórnarskránni og
ákvæðum hennar um friðhelgi einkalífsins. Stjórnarskrá lýðveldisins
Íslands er æðsta stofnun okkar og það er skylda okkar að standa vörð um
mannréttindaákvæði hennar.

Á miðopnu Morgunblaðsins í vikunni rekur Kjartan Ólafsson þær hleranir
sem sneru að 32 heimilum á árum kalda stríðsins. Þar var aðeins einu
sinni vitnað til beiðni lögreglunnar, aðeins tvisvar sinnum vitnað til
lagaheimilda. Enginn rökstuddur grunur um saknæmt athæfi þeirra sem í
hlut áttu var fram færður. Engin gögn eru til um hleranirnar.

Enn alvarlegra verður málið fyrir það að 12 alþingismenn og ráðherrar
sættu þessu sem þó eiga að njóta sérstakrar friðhelgi af hálfu
yfirvalda og hafa sérstakt svigrúm til stjórnmálalegra athafna. Kallað
er eftir afsökunarbeiðni. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur sagt að hann
sjái ekki efni til þess og við hljótum að spyrja hvort hann sjái aðra
leið til að ljúka þessu máli gagnvart þeim sem í hlut áttu?

Kalda stríðinu er lokið og hér er ekki verið að leita að sökudólgum. En
það þarf að ljúka þessum málum gagnvart þeim sem á var brotið.
Dómsmálaráðherra segir að þetta fólk hafi átt góð samskipti á eftir. Nú
auðvitað, þeir sem hleraðir voru vissu ekki af því. Hann vísar til þess
að menn geti leitað réttar síns. En hvernig mega þeir gera það þegar
þeir eru fyrst upplýstir um málið þegar þau eru fyrnd?

Hann segir að sagan hafi fellt sinn dóm. Já. Að heiðarlegt fólk sem
barðist fyrir þjóðfrelsi og jöfnuði í samfélagi sínu sætti því að
friðhelgi einkalífs þess var rofin án þess að rökstuddur grunur væri um
saknæmt athæfi af þess hálfu. Dómsmálayfirvöld hljóta því með
einhverjum hætti að þurfa að jafna þá reikninga.

En við hljótum líka að spyrja hvort hleranir hafi farið fram eftir 1991
því að þá lauk rannsókninni. Hvort þeim hafi verið beitt í svipuðum
tilfellum eins og í Falun Gong málinu, vegna náttúruverndarmótmæla og
annarra slíkra hluta. Líka hvort vísbendingar séu um að hleranir hafi
farið fram án dómsúrskurðar. Kastljós Ríkissjónvarpsins upplýsti t.a.m.
að ólögmætum eftirfararbúnaði hafi verið beitt af hálfu lögreglu
nýverið og það gefur auðvitað tilefni til þess að spyrja hvort
ólögmætum aðferðum hafi verið beitt án dómsúrskurðar. Við hljótum að
inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig aðhald og eftirlit með þessari
starfsemi sé tryggt. Hvernig lögum sé nú skipað. Þar sem ráðherrann
hefur iðulega lýst því yfir að hann telji efni til að standa betur að
löggjöf um þessa þætti í starfsemi lögreglunnar vil ég inna hann eftir
því hvað líði hugmyndum hans um slíka löggjöf.

Um allt þetta hljótum við að spyrja vegna þess að það er ekki bara á
tímum kalda stríðsins nauðsynlegt að standa vörð um friðhelgi
einkalífsins. Okkur er það líka mikilvægt og nauðsynlegt í dag. Það er
mikilvægt að við sendum skýr skilaboð, þó að þetta mál varði fortíðina,
inn í framtíðina um að við tökum það grafalvarlega, Íslendingar, ef
friðhelgi einkalífs heiðarlegs fólks er rofin af stjórnvöldum. Það eru
þau skilaboð sem stjórnvöld morgundagsins þurfa að hafa alveg klár frá
okkur sem erum uppi nú á dögum.

Seinni ræðan: 

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. dómsmálaráðherra vekur mig til
umhugsunar og veldur mér vonbrigðum og áhyggjum í senn. Ég hélt að
kalda stríðinu væri lokið þar til ég heyrði ræðu hæstv.
dómsmálaráðherra.

Ég hóf þessa umræðu á því að segja að við hefðum ekki þörf fyrir að
leita uppi sökudólga frá liðinni tíð. En að ráðherrann vegi hér að
nafngreindu látnu fólki og fjarstöddu, fyrrverandi alþingismönnum og
ráðherrum, sem þingmenn úr öllum flokkum hafa risið úr sætum fyrir, til
að þakka þeim störf hér á þessum vettvangi – ja, um það verður að segja
að ráðherrann verður að ráða sóma sínum sjálfur.

Þetta er lítill bær, við erum öll frændur og vinir. Að draga upp þá
mynd af þessu fólki að þar hafi farið glæpa- og ofbeldissamtök er
fjarri öllu lagi. Hér fóru heiðarlegir Íslendingar sem á hverjum tíma
reyndu að berjast fyrir betri heimi eftir sannfæringu sinni eins og hún
var, rétt eins og við öll í þessum sal og hæstv. dómsmálaráðherra
meðtalinn. Ráðherrann vísar til þess að þetta hafi verið gert að ósk
lögreglu. Þess sér ekki stað í gögnum málsins og þeim orðum sínum
verður hann að finna stað því aðeins í einu tilviki er vísað til óska
lögreglunnar. Ég held að þessi umræða kalli því miður á það að við
vinnum málið áfram. Ég held að rannsóknin og nefndarskipunin hafi verið
farsæl skref en eftir á að hyggja er það kannski rangt og ósanngjarnt
að ætlast til þess að hæstv. dómsmálaráðherra hafi fyrirsvar fyrir
þessum gögnum.