Nýlega náðist mikilvægur áfangi í mannréttindabaráttu fatlaðra, þegar tenging við tekjur maka var afnumin. Síðar á kjörtímabilinu gæti annar áfangi náðst því nú vinna íslensk stjórnvöld að fullgildingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Tuttugasta ríkið hefur þegar fullgilt samninginn sem hefur þar með tekið gildi. Um er að ræða lagalega bindandi samning sem tryggir mannréttindi og mannfrelsi fatlaðra einstaklinga til jafns við aðra. Einhverjir kynnu að spyrja sem svo, hvort virkilega sé þörf á slíku á Íslandi. Svarið við slíkri spurningu er já, því þótt margt sé vel gert í málefnum fatlaðra getum við alltaf gert betur. Við Íslendingar erum rík þjóð og eigum að setja markið hátt.
Í stjórnarskrá lýðveldisins eru mannréttindi vissulega tryggð en fötlun er ekki tilgreind sérstaklega í upptalningu yfir þætti sem ekki megi mismuna vegna. Það er því full ástæða til þess að festa réttindi fatlaðra frekar í sessi. Einstaklingar sem búa við fötlun eiga að geta tekið fullan þátt í samfélaginu án hindrana og aðgreiningar. Slíkar hindranir eru því miður til staðar. Það er enn verið að reisa mannvirki þar sem aðgengi fatlaðra er ábótavant. Aðgengismál eru eitt stærsta baráttumál fatlaðra, því þau snúast líka um aðgengi að upplýsingum. Þar má t.d. nefna skort á táknmálstúlkun, slæmt aðgengi blindra og sjónskertra að heimasíðum o.s.fr.
Í orði og á borði
Fullgilding samningsins ein og sér og hugsanlegar lagabreytingar sem hún hefði í för með sér duga þó ekki til að tryggja framkvæmdina í reynd. Þótt ólíklegt sé að einhver ákvæði íslenskra laga gangi beinlínis gegn markmiðum samningsins, þarf líklega að fara fram ítarleg skoðun á því. Einnig væri hægt að nýta tækifærið og setja fram áætlun um úrbætur í málefnum fatlaðra í tengslum við fullgildinguna. Sérstakri eftirlitsstofnun með samningnum verður komið á laggirnar og þannig opnast kæruleið fyrir einstaklinga sem telja á rétti sínum brotið. Það ætti að tryggja virkt eftirlit með framkvæmd samningsins og að orðum fylgi athafnir.
Samningurinn tekur einnig á þáttum eins og viðhorfi til fólks með fötlun. Brýnt er að auka fræðslu og vekja almenning til umhugsunar um stöðu fatlaðra einstaklinga. Hafa verður í huga að fatlaðir eru eins ólíkir og þeir eru margir og þarfir þeirra mismunandi. Hér er því um að ræða einstakt tækifæri til þess að tryggja með heildstæðum hætti réttindi allra þeirra sem búa við fötlun.
Ekkert um okkur án okkar
Samráð við hagsmunaaðila er nauðsynlegt við hvers konar stefnumótun. Það á sérstaklega við um vinnu eins og fullgildingu þessa samnings. Það eru engir betur til þess fallnir en fatlaðir og hagsmunasamtök þeirra, að benda á hvað betur mætti fara í þjónustu og hvar aðgerða sé þörf. Fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðra eiga sæti í nefnd Jóhönnu Sigurðardóttur félags- og tryggingamálaráðherra, sem vinnur að undirbúningi vegna samningsins. Þar að auki er nú unnið að frekari kynningu á samningnum meðal einstakra félaga og almennings.
Það er löngu orðið tímabært að fólk með fötlun fái viðurkenningu sem fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Þessi samningur er vissulega skref í rétta átt en um leið þurfum við að passa okkur á að sofna ekki á verðinum. Tækniframfarir eru sífellt að auðvelda daglegt lífi okkar og það þarf að tryggja að fatlaðir sitji ekki eftir í þeirri þróun. Það má ekki einblína um of á kostnaðinn þegar kemur að bættri þjónustu við fatlaða. Umræða undanfarinna missera hefur m.a. snúist um að auka þátttöku okkar á vinnumarkaði. Þar eru mikil sóknarfæri, bæði fyrir fatlaða og ófatlaða. Með því að tryggja fötluðum nauðsynleg hjálpartæki og endurhæfingu gerum við þeim kleift að leggja jafnvel enn meira af mörkum til samfélagsins.
Pistillinn birtist í 24 stundum 5. júlí sl.