Í næstu viku [þessari viku] verður Alþingi framhaldið frá því í sumar. Það hefst að vonum á umræðum um efnahagsmál. Þar mun Geir Haarde gera grein fyrir stöðu og horfum og þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til og stjórn og stjórnarandstaða skiptast á skoðunum.
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur ekki getað beðið heldur snýst nú kringum sjálfan sig og landið í fundaferð um efnahagsmál. Það er auðvitað býsna vogað þegar haft er í huga að það var einmitt framsóknartraktorinn sem dró okkur út í þá mýri sem efnahagurinn sekkur nú í. Hitt er þó verra að Guðni þykist hafa lausn þeirra erfiðleika sem hann leiddi yfir þjóðina, en boðar þó ekkert nema innihaldslausar klisjur og ábyrgðarleysi, líkt því sem leiddi okkur í þessar ógöngur.
Vaxtahræsni
Ofþenslustefna síðustu ríkisstjórnar leiddi algerlega fyrirsjáanlega til ofhitnunar hagkerfisins og við þau eftirköst erum við nú að fást. Stóriðjugleðin, lánaausturinn, skattalækkanirnar, agaleysið í ríkisfjármálum, fyrirhyggjuleysið með gjaldeyrisvarasjóðinn og of hröð og spillt einkavæðing fjármálastofnana verða nú saman til þess að skapa mestu tvísýnu í efnahagsmálum á lýðveldistímanum. Við þessar aðstæður, 15% verðbólgu og alþjóðlega lausafjárkreppu, fer formaður Framsóknar um og hrópar á lægri vexti. Hafa skal það sem best hljómar því auðvitað er allur almenningur langþreyttur á vaxtaokri og efnahagssveiflum.
Eina vandamálið í þessu er veruleikinn. Þegar vandinn er lausafjárskortur er svarið ekki lækkun vaxta. Það þarf ekki verulega heilastarfsemi til að átta sig á því. Í 15% verðbólgu og með bullandi þenslu fram eftir þessu ári í innflutningi á vörum og vinnuafli eru engar forsendur til tafarlausra vaxtalækkana. Sjálfstæðir seðlabankar voru settir á fót og þeim falin vaxtaákvörðunin til þess að forða því að stjórnmálamenn eins og Guðni Ágústsson haldi áfram að hella olíu á eldinn með því að gera allt fyrir alla.
Nú má efast um að rétt stefna hafi verið mótuð 2001 og gagnrýna ýmislegt í framkvæmdinni. En að formaður þess flokks sem mótaði stefnuna og hafði veruleg áhrif á framkvæmd hennar ráðist á Seðlabankann er ótrúlegt. Bankinn gerir jú ekki annað en reyna að leysa úr þeim vanda sem Framsókn skóp eftir þeim reglum sem Framsókn setti. Það er ekki stórmannlegt að reyna að gera fyrrum samverkamenn sína úr Sjálfstæðisflokki og Seðlabanka að blórabögglum.
Stóriðjuklisjan
Aðrar klisjur Framsóknar eru kunnuglegar. Hið eilífa svar „fleiri álver“ glymur enn. Þó veit Guðni fullvel að unnið er að a.m.k. tveimur stóriðjuverkefnum og þó er staðan þessi. Fleiri slík verkefni yrðu ekki að framkvæmdum fyrr en um miðjan næsta áratug og hefðu því engan vegin þau áhrif sem látið er til að leysa lausafjárvanda næstu missera.
Alkunna er að í samdrættinum sem framundan er þarf að beita ríkissjóði í opinberum framkvæmdum, en það dugar framsókn ekki. Guðni vill ekki bara auka útgjöld heldur líka lækka skatta. Það hefði auðvitað verið gott að gera ef Framsókn hefði ekki verið búin að eyða því svigrúmi sem til var með útgjaldaaustri og skattalækkunum þegar enginn þurfti á því að halda. Það gerir auðvitað að verkum nú að það er beinlínis galið að tala um frekari skattalækkanir. Svo vill Guðni að bætt verði við gjaldeyrisvarasjóðinn sem gleymdist á vakt Framsóknar og þykir bankalögin ómöguleg, enda Valgerður flokkssystir hans sem setti þau.
Það verður spennandi að heyra forsætisráðherra fara yfir aðgerðirnar sem framundan eru og þar á stjórnarandstaðan að veita sterkt aðhald. Guðna færi þó best að hlusta, því jafn mikil ástæða og er til að ræða efnahagsmál, hefur sjaldan verið jafn lítil ástæða til að hlusta á Framsókn.
Pistillinn birtits í 24 stundum 30. ágúst sl.