mars, 2009

Bann við mismunun gegn fötluðum verði sérstaklega tryggt í stjórnarskrá

blog

Þegar mannréttindaákvæðum var bætt inn í stjórnarskrána 1995, náðist því miður ekki samstaða um að tilgreina fötlun sérstaklega sem þátt sem óheimilt væri að byggja mismunun á. Í 65. grein stjórnarskrárinnar kemur fram að allir skuli „vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti“. Upptalningin í 65. greininni tekur að miklu leyti mið af orðalagi í alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland er aðili að. Má þar nefna alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og mannréttindasáttmála Evrópu.

Frá því að mannréttindaákvæðunum var bætt inn í stjórnarskrána hefur komið fram samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland undirritaði samninginn í mars 2007 og er nú unnið að fullgildingu hans. Markmið samningsins er að útfæra jafnræðisregluna með ítarlegri hætti en áður hefur verið gert í tengslum við fatlað fólk en það er hópur sem sérstök hætta þykir á að geti sætt mismunun. Af þessum sökum er það sjálfsagt og eðlilegt að fötlun verði bætt við upptalninguna í 65. greininni. Ég hef því ásamt þingmönnunum Atla Gíslasyni, Birki Jóni Jónssyni, Ármanni Kr. Ólafssyni og Grétari Mar Jónssyni lagt fram breytingartillögu þess efnis við stjórnarskrárfrumvarpið sem nú er til meðferðar hjá stjórnarskrárnefnd. Það er von mín að þetta hagsmunamál nái fram að ganga, nú við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Sex ár liðin frá innrásinni í Írak

blog

Í dag, 20. mars, eru liðin sex ár frá innrásinni í Írak. Stuðningur Íslands við innrásina, sem var ákvörðun tveggja manna, var veittur í algjörri óþökk yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar. Slíkt má aldrei henda aftur og því miður er ekki enn að finna ákvæði í stjórnarskránni sem hindrar slíkan gjörning. Ég lagði fram frumvarp þess efnis á síðasta kjörtímabili ásamt samflokksmönnum mínum í Samfylkingunni.

Þetta ákvæði mun ekki ná inn í þær stjórnarskrárbreytingar sem nú eru til umræðu í þinginu en mikilvægt er að það verði hluti endurskoðaðar stjórnarskrár. Höfundar stjórnarskrárinnar hafa ekki haft hugmyndaflug til að setja sérstök ákvæði um hvernig taka ætti ákvörðun um aðild Íslands að stríði. Ákvörðun tveggja manna fyrir sex árum, fyrir hönd heillar þjóðar, staðfestir því miður þörfina á slíku ákvæði. Aldrei aftur Írak.

Tölurnar úr prófkjörinu birtar

blog
    1. 1.-2. 1.-.3. 1.-4. 1.-5. 1.-6. 1.-7. 1.-8.
1 Jóhanna Sigurðardóttir 2.766 3.024 3.089 3.134 3.154 3.175 3.194 3.217
2 Össur Skarphéðinsson 132 1.182 1.453 1.605 1.715 1.813 1.883 1.962
3 Helgi Hjörvar 51 322 822 1.367 1.655 1.903 2.095 2.267
4 Sigríður Ingibjörg Ingadóttir 40 282 766 1.104 1.384 1.609 1.786 1.923
5 Skúli Helgason 21 170 540 980 1.277 1.533 1.778 1.964
6 Valgerður Bjarnadóttir 61 405 705 977 1.229 1.448 1.689 1.876
7 Steinunn Valdís Óskarsdóttir 54 402 682 920 1.135 1.386 1.602 1.753
8 Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir 40 262 621 883 1.078 1.281 1.455 1.605
9 Mörður Árnason 14 131 341 616 832 1.065 1.284 1.474
10 Anna Pála Sverrisdóttir 19 69 172 328 745 957 1.159 1.352
11 Dofri Hermannsson 19 64 178 408 644 896 1.071 1.268
12 Sigríður Arnardóttir 4 25 97 211 399 606 788 964
13 Jón Baldvin Hannibalsson 163 332 432 519 596 689 766 956
14 Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir 7 35 99 184 329 495 733 869
15 Pétur Tyrfingsson 17 83 156 249 331 456 624 785
16 Jón Daníelsson 4 18 43 76 101 136 175 247
17 Björgvin Valur Guðmundsson 2 12 31 48 76 119 147 208
18 Hörður J. Oddfríðarson 8 17 36 64 89 117 142 201
19 Sverrir Jensson 2 5 14 38 47 58 67 91
                   
3.543 greiddu atkvæði. Á kjörskrá voru 7.743. Kjörsókn var 45,8%.        

Lífeyrissjóðum verði heimilt að eiga og reka íbúðarhúsnæði

blog

Ég hef ásamt fjórum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um starfsemi lífeyrissjóða. Með breytingunum sem lagðar er til í frumvarpinu er lífeyrissjóðum heimilað að eiga og reka íbúðarhúsnæði. Einnig er lagt til að lífeyrissjóðir geti stofnað félag um rekstur húsnæðisins eða gert samning við einkaaðila um hann.

Þessum sjónarmiðum hefur verið haldið á lofti undanfarið enda ekki hægt að sjá hvað mælir gegn því að lífeyrissjóðunum yrði veitt þessi heimild, því það er ekki verið að skylda þá til neins.

Verði frumvarpið að lögum gæti það orðið einn þáttur þess að koma aftur hreyfingu á fasteignamarkaðinn. Þar að auki gæti fyrirkomulag sem þetta stuðlað að auknum stöðugleika á fasteignamarkaði og skapað grundvöll fyrir öflugri leigumarkaði.

Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum.

Flm.: Helgi Hjörvar, Lúðvík Bergvinsson, Mörður Árnason, Ellert B. Schram, Einar Már Sigurðarson.

1. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
a. Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Með kaupum og rekstri íbúðarhúsnæðis, þar á meðal útleigu.
b. Við bætist ný málsgrein, 10. mgr., svohljóðandi:
Lífeyrissjóði er heimilt að stofna félag um rekstur íbúðarhúsnæðis skv. 11. tölul. 1. mgr. eða gera samning við einkaaðila um slíkan rekstur.

2. gr.
Við 38. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. er lífeyrissjóði heimilt að fjárfesta í íbúðarhúsnæði í samræmi við 11. tölul. 1. mgr. 36. gr. Lífeyrissjóði er jafnframt heimilt að halda því íbúðarhúsnæði sem hann hefur eignast við yfirtöku skv. 2. mgr. og skal líta á slíkt sem fjárfestingu skv. 11. tölul. 1. mgr. 36. gr.

3. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.

G r e i n a r g e r ð .

Með frumvarpi þessu er lagt til að lífeyrissjóðir fái heimild til að eiga og reka íbúðarhúsnæði. Með rekstri er m.a. átt við útleigu húsnæðisins. Í lögunum nú er blátt bann lagt við því að lífeyrissjóður fjárfesti í fasteignum nema það sé nauðsynlegt vegna starfsemi sjóðsins en frumvarpið leggur til undanþágu frá því þegar um íbúðarhúsnæði er að ræða. Þá er lagt til að lífeyrissjóðirnir geti stofnað félag um rekstur húsnæðisins eða gert samning við einkaaðila um hann. Með þessu er lífeyrissjóðum m.a. gert kleift að gera samning við leigumiðlanir um útleigu íbúða eða stofna leigumiðlun og/eða -félag. Um slíka starfsemi gilda þá lög þar um.

Fordæmi eru fyrir heimild af þessu tagi í öðrum löndum, m.a. á Norðurlöndum og í Þýskalandi. Aukið hlutfall fasteigna í félagslegri eigu er til þess fallið að stuðla að stöðugleika á fasteignamarkaði. Þar með er dregið úr þeim neikvæðum áhrifum sem verðsveiflur á fasteignamarkaði hafa á efnahagslífið.

Heimild til handa lífeyrissjóðunum að fjárfesta í íbúðarhúsnæði getur verið einn þáttur í því að koma hreyfingu á fasteignamarkaðinn ásamt því sem heimildin gæti orðið grundvöllur fyrir því að á Íslandi skapist traustur og góður leigumarkaður eins og má víða sjá í nágrannalöndum okkar. Þá verður ekki séð að íbúðarhúsnæði til handa fólkinu í landinu sé síðri fjárfesting en erlend hlutabréf sem sjóðirnir hafa lögfesta heimild til að fjárfesta í. Fjárfesting í fasteignum er kannski ekki til þess fallin að skila skammtímahagnaði en er góð langtímafjárfesting og ætti því að samrýmast vel fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna.

Athyglisverðar upplýsingar um markað fyrir hvalkjöt

blog

Ég fékk í dag svar frá utanríkisráðherra við fyrirspurn minni um markað fyrir hvalkjöt. Það er athyglisvert að skoða verðþróunina síðustu ár en í ljós kemur að verð á hvalkjöti hefur verið að lækka. Það er mikilvægt að skoða allar staðreyndir vel þegar hagsmunirnir sem um ræðir eru vegnir og metnir.

Hér er svar utanríkisráðherra:

Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar um markað fyrir hvalkjöt.

1. Hversu stór hefur markaður fyrir hvalkjöt verið í Japan frá árinu 1999, mælt í tonnum og skipt eftir árum?
Samkvæmt opinberum upplýsingum er árlegt framboð á hvalkjöti um þessar mundir um 6.000 tonn, þar af koma 4.000 tonn vegna vísindaveiða og 2.000 tonn vegna strandveiða. Framboðið hefur aukist frá 1999 vegna aukinna vísindaveiða Japana. Árleg neysla er sveiflukennd milli ára. Ómögulegt er að segja nákvæmlega hversu stór markaðurinn er í raun þar sem honum er miðstýrt milli ára. Þess má þó geta að árið 1987, þegar veiðibanni IWC var komið á, var landað 14.500 tonnum af hvalkjöti í Japan.

2. Hvert hefur meðalverð á kílói af hvalkjöti verið í jenum, skipt eftir árum?

Ár Tonn Meðalverð í jenum
1999 2.141 2.236
2000 2.448 2.166
2001 2.618 1.944
2002 3.257 1.898
2003 3.380 1.926
2004 4.154 1.829
2005 5.559 1.309
2006 4.154 1.414
2007 4.050 1.485

Hafa verður í huga að verð ræðst einnig af því um hvaða hvalategund er um að ræða og af hvaða hluta hvalsins kjötið er. Sem dæmi getur verð á verðmætasta kjötinu verið 12.000 jen pr. kíló og allt niður í 600 jen pr. kíló fyrir ódýrustu bitana.

Um málþóf

blog

Nokkrar umræður urðu á þingi í gær um málþóf sjálfstæðismanna. Ég birti hér ræðu mína sem ég flutti í umræðum um störf þingsins:

Virðulegur forseti. Það fer best á því í ræðustóli Alþingis að tala um hlutina eins og þeir eru. Auðvitað var þetta málþóf í gærkvöldi og það vita allir. Og auðvitað hafa þingmenn ákveðinn rétt til málþófs. En ég held þó að við alþingismenn þurfum að hugsa um þá sérstöku tíma sem við lifum á, um þær sérstöku skyldur sem á okkar herðum eru. Hér liggur fyrir mikill fjöldi brýnna mála sem á okkur hvílir sú skylda að tryggja greiðan og góðan framgang.

Það er sjálfsögð og rétt ábending hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að mikilvægt er að ræða efnahagsmálin, enda var það gert í gær. Mörg góð efnahagsmál hafa komið fram hjá ríkisstjórninni og sem betur fer eru nú farnar að berast jákvæðar fréttir af íslenskum efnahagsmálum út í hinn stóra heim, m.a. vegna breytinga í Seðlabankanum, þótt við verðum enn fyrir áföllum eins og hruns Straums–Burðaráss.
Það er hins vegar sérkennileg afneitun Sjálfstæðisflokksins að hér megi ekki ræða stjórnskipunarmál eða stjórnlagaþing. Það er afneitun flokksins á því að hrunið í haust var ekki bara fjármálahrun. Það var hrun stjórnkerfisins. Það var hrun þess stjórnkerfis sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði byggt hér upp síðastliðin 17 ár og er þess vegna ekki nema von að þeir afneiti þeirri staðreynd að það er jafnmikilvægt að gera breytingar í stjórnkerfismálum og í efnahagsmálum og ekki síst að tryggja í stjórnarskrá eign þjóðarinnar á auðlindum. Nú er staða okkar sú að við erum skuldsett gríðarlega erlendis og erlendir aðilar eru farnir að líta til þeirra auðlinda sem við eigum, til auðlinda í orku og auðlinda í fiski. Það er því ekki síður brýnt að tryggja til allrar framtíðar að íslensk þjóð eigi þær auðlindir sem í landinu eru og í kringum landið finnast, að þær hverfi ekki í skuldahítina okkar í útlöndum.

Breytt staða eftir brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar

blog

Í kjölfar tíðinda gærdagsins að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sækist ekki lengur eftir sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar, hef ég ákveðið að sækjast eftir 3. sætinu í prófkjörinu. Ég legg eftir sem áður mesta áherslu á velferðarmál og atvinnusköpun, ekki síst tengt orku og umhverfismálum.

Engar óeðlilegar afskriftir í skjóli leyndar

blog

Opin og gagnsæ vinnubrögð eru ein forsenda þess að það takist að endurskapa traust í samfélaginu. Ríkisvaldið verður að taka forystu með breyttum vinnubrögðum og opnari stjórnsýslu. Ég hef því lagt fram á Alþingi, ásamt tveimur öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar, frumvarp sem skyldar fyrirtæki, félög og stofnanir sem eru að helmingi eða meira í eigu íslenska ríkisins til að upplýsa um allar afskriftir skuldunauta viðkomandi aðila. Frumvarpinu er ekki ætlað að ná til afskrifta sem leiða af almennum ákvörðunum um niðurfærslu á skuldum heimila, heldur er fyrst og fremst verið að tryggja að engar óeðlilegar eða óvenjulegar afskriftir séu gerðar í skjóli leyndar.

Frumvarpið í heild:

Frumvarp til laga

um upplýsingaskyldu fyrirtækja, félaga og stofnana í eigu íslenska ríkisins.

Flm.: Helgi Hjörvar,
Katrín Júlíusdóttir, Ellert B. Schram

1. gr.
Öll fyrirtæki, félög og stofnanir sem eru að helmingi eða meira í eigu íslenska ríkisins, þ.m.t. fjármálafyrirtæki, skulu upplýsa um allar afskriftir skuldunauta viðkomandi aðila. Viðskiptaráðherra getur í reglugerð ákveðið lágmarksfjárhæð þeirra afskrifta sem upplýsa skal um.
Ráðherra er jafnframt heimilt að undanskilja afskriftir skv. 1. mgr. sem leiða af almennum ákvörðunum um niðurfærslu á skuldum heimila.
Upplýsingar um afskriftir skulu birtar mánaðarlega á vefsíðu viðkomandi fyrirtækis, félags eða stofnunar. Einnig má birta upplýsingarnar á vefsíðu fjármálaráðuneytis.

2. gr.
Brot gegn lögum þessum varða sektum.

3. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

Í framhaldi af fjármálahruninu á Íslandi hefur kröfu um gagnsæi í rekstri verið haldið á lofti í æ ríkara mæli. Gagnsæi er grundvallaratriði opinnar stjórnsýslu og við þær óvenjulegu aðstæður sem íslenskur almenningur býr nú við er nauðsynlegt að engu verði leynt til að unnt verði að skapa á nýjan leik traust í samfélaginu.
Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eru stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. Þessi þagnarskylda, svokölluð bankaleynd, á við rík rök að styðjast. Með hliðsjón af þeirri ólgu sem nú ríkir í íslensku samfélagi er það mat flutningsmanna að ekki verði hjá því komist að víkja henni til hliðar hvað afskriftir ríkisbankanna varðar um stundarsakir meðan öldurnar lægir. Bankaleynd ríki eftir sem áður um öll hefðbundin viðskipti og rétt að hafa í huga að afskriftir leiða yfirleitt af aðgerðum gegn skuldunautum sem hvort eð er hafa verið opinberar. Með lögunum er því fyrst og fremst verið að tryggja að engar óeðlilegar eða óvenjulegar afskriftir séu gerðar í skjóli leyndar.
Í frumvarpinu er því lagt til að öllum fyrirtækjum, félögum og stofnunum sem eru að minnsta kosti að helmingi í eigu íslenska ríkisins verði gert skylt að upplýsa um allar afskriftir skulda lántakenda sinna. Þannig nær frumvarpið m.a. til allra fjármálafyrirtækja í eigu íslenska ríkisins, hvert svo sem rekstrarform þeirra er. Gert er ráð fyrir því að viðskiptaráðherra hafi heimild til að ákveða í reglugerð lágmarksfjárhæð þeirra afskrifta sem upplýst skal um. Ráðherra hefur jafnframt heimild til að undanskilja upplýsingaskyldunni afskriftir sem leiða af almennum ákvörðunum um niðurfærslu á skuldum heimila, t.d. ef ríkisstjórn ákveður að afskrifa ákveðið hlutfall skulda sem til eru komnar vegna húsnæðislána, festa gengisvísitölu eða setja þak á verðbætur. Slíkar afskriftir færu eftir opinberum reglum, þar sem jafnræðis er gætt og almannahagsmunir því tryggðir. Upplýsingarnar skulu birtar mánaðarlega með tryggum og sannanlegum hætti og í frumvarpinu er lagt til að það verði gert einu sinni í mánuði með birtingu á vefsíðu. Viðkomandi fyrirtæki, félag eða stofnun getur þá birt upplýsingarnar á vefsíðu sinni. Jafnframt er mögulegt að birta upplýsingarnar á vefsíðu fjármálaráðuneytisins. Í þessu sambandi er jafnframt bent á að ýmsar upplýsingar um málefni jafnt einstaklinga sem fyrirtækja sem kunna að falla undir ákvæði frumvarpsins eru nú þegar opinberar, s.s. varðandi nauðungarsölu á eignum, innkallanir vegna þrotabúa og skiptafundi. Þeim reglum sem kveðið er á um í frumvarpinu er beint í sama farveg og þær til þess fallnar að byggja á ný upp traust á grunnstoðum samfélagsins.
Lagt er til að viðurlög við brotum gegn ákvæðum frumvarpsins varði sektum.
Lagt er til að breytingarnar öðlist þegar gildi. Þótt eðlilegt sé að lögin verði tímabundið í gildi er ekki tilgreindur afmarkaður gildistími þeirra. Eðlilegt er þó að þau verði ekki numin úr gildi fyrr en endanlega hefur verið gengið frá öllum eftirstöðvum fjármálahrunsins. Gert er ráð fyrir að í ljósi reynslunnar verði metið hvort upplýsingagjöf sem þessi geti orðið hluti af upplýsingaskyldu ársreikningslaga.

Orðsending til jafnaðarmanna

blog

Kæri félagi!

Framundan eru krefjandi tímar við endurreisn íslensks samfélags eftir hrunið 6. október. Um leið og við í Samfylkingunni þurfum að biðjast afsökunar á okkar hlut í því og axla ábyrgð, verðum við að rækja skyldu okkar með því að taka forystu í uppbyggingunni. Við höfum nú tækifæri til að virkja þúsundir manna til þátttöku í henni, fólk sem vaknað hefur til vitundar um mikilvægi réttlátra leikreglna og siðferðis í samfélaginu.

Okkur gefst nú kostur á að leggja nýjan og traustan samfélagsgrunn, líkt og jafnaðarmönnum á Norðurlöndunum gafst á fyrri hluta síðustu aldar. Sá grunnur felst senn í gildum sígildrar jafnaðarstefnu og kröfu dagsins um sjálfbæra þróun. Það er búið að tala nóg um erfiðleikana framundan, nú þurfum við að vísa veginn og byggja upp.

Við eigum að jafna kjörin til að mæta samdrættinum, því það er gríðarlega mikilvægt til sátta í samfélaginu að byrðunum verði réttlátlega skipt. Markmiðum okkar um opið og lýðræðislegt þjóðfélag getum við náð því krafan nú er um aðgang að upplýsingum og áhrif fólks á ákvarðanir. Áherslur okkar á mikilvægi menntunar getum við sýnt í verki með því að galopna skólakerfið meðan við byggjum upp störf í stað þeirra sem glatast hafa. Nýr forseti Bandaríkjanna er meðal þeirra sem bent hafa á þau miklu atvinnutækifæri sem felast í umhverfismálum og endurnýjanlegri orku og þar búum við Íslendingar vel.

Á ögurstundu í lífi þjóðar er það skylda forystumanna hennar að kanna til þrautar þá kosti sem bjóðast. Þess vegna á Samfylkingin að sameina stjórnmálaflokkana um að lyfta aðildarumsókn að ESB yfir pólitískt argaþras, láta reyna á hvaða samningar nást og leggja þá í dóm þjóðarinnar.

Ég þakka fyrir þau forréttindi að vera kjörinn eins talsmanna jafnaðarmanna á Alþingi. Ég fagna því að Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið fengin til að leiða okkur og vona að framganga mín gefi þér tilefni til að fela mér að vinna að framtíðinni með henni. Þess vegna sækist ég eftir 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í öðru Reykjavíkurkjördæmanna og bið um stuðning þinn.