Opin og gagnsæ vinnubrögð eru ein forsenda þess að það takist að endurskapa traust í samfélaginu. Ríkisvaldið verður að taka forystu með breyttum vinnubrögðum og opnari stjórnsýslu. Ég hef því lagt fram á Alþingi, ásamt tveimur öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar, frumvarp sem skyldar fyrirtæki, félög og stofnanir sem eru að helmingi eða meira í eigu íslenska ríkisins til að upplýsa um allar afskriftir skuldunauta viðkomandi aðila. Frumvarpinu er ekki ætlað að ná til afskrifta sem leiða af almennum ákvörðunum um niðurfærslu á skuldum heimila, heldur er fyrst og fremst verið að tryggja að engar óeðlilegar eða óvenjulegar afskriftir séu gerðar í skjóli leyndar.
Frumvarpið í heild:
Frumvarp til laga
um upplýsingaskyldu fyrirtækja, félaga og stofnana í eigu íslenska ríkisins.
Flm.: Helgi Hjörvar,
Katrín Júlíusdóttir, Ellert B. Schram
1. gr.
Öll fyrirtæki, félög og stofnanir sem eru að helmingi eða meira í eigu íslenska ríkisins, þ.m.t. fjármálafyrirtæki, skulu upplýsa um allar afskriftir skuldunauta viðkomandi aðila. Viðskiptaráðherra getur í reglugerð ákveðið lágmarksfjárhæð þeirra afskrifta sem upplýsa skal um.
Ráðherra er jafnframt heimilt að undanskilja afskriftir skv. 1. mgr. sem leiða af almennum ákvörðunum um niðurfærslu á skuldum heimila.
Upplýsingar um afskriftir skulu birtar mánaðarlega á vefsíðu viðkomandi fyrirtækis, félags eða stofnunar. Einnig má birta upplýsingarnar á vefsíðu fjármálaráðuneytis.
2. gr.
Brot gegn lögum þessum varða sektum.
3. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Greinargerð.
Í framhaldi af fjármálahruninu á Íslandi hefur kröfu um gagnsæi í rekstri verið haldið á lofti í æ ríkara mæli. Gagnsæi er grundvallaratriði opinnar stjórnsýslu og við þær óvenjulegu aðstæður sem íslenskur almenningur býr nú við er nauðsynlegt að engu verði leynt til að unnt verði að skapa á nýjan leik traust í samfélaginu.
Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eru stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi. Þessi þagnarskylda, svokölluð bankaleynd, á við rík rök að styðjast. Með hliðsjón af þeirri ólgu sem nú ríkir í íslensku samfélagi er það mat flutningsmanna að ekki verði hjá því komist að víkja henni til hliðar hvað afskriftir ríkisbankanna varðar um stundarsakir meðan öldurnar lægir. Bankaleynd ríki eftir sem áður um öll hefðbundin viðskipti og rétt að hafa í huga að afskriftir leiða yfirleitt af aðgerðum gegn skuldunautum sem hvort eð er hafa verið opinberar. Með lögunum er því fyrst og fremst verið að tryggja að engar óeðlilegar eða óvenjulegar afskriftir séu gerðar í skjóli leyndar.
Í frumvarpinu er því lagt til að öllum fyrirtækjum, félögum og stofnunum sem eru að minnsta kosti að helmingi í eigu íslenska ríkisins verði gert skylt að upplýsa um allar afskriftir skulda lántakenda sinna. Þannig nær frumvarpið m.a. til allra fjármálafyrirtækja í eigu íslenska ríkisins, hvert svo sem rekstrarform þeirra er. Gert er ráð fyrir því að viðskiptaráðherra hafi heimild til að ákveða í reglugerð lágmarksfjárhæð þeirra afskrifta sem upplýst skal um. Ráðherra hefur jafnframt heimild til að undanskilja upplýsingaskyldunni afskriftir sem leiða af almennum ákvörðunum um niðurfærslu á skuldum heimila, t.d. ef ríkisstjórn ákveður að afskrifa ákveðið hlutfall skulda sem til eru komnar vegna húsnæðislána, festa gengisvísitölu eða setja þak á verðbætur. Slíkar afskriftir færu eftir opinberum reglum, þar sem jafnræðis er gætt og almannahagsmunir því tryggðir. Upplýsingarnar skulu birtar mánaðarlega með tryggum og sannanlegum hætti og í frumvarpinu er lagt til að það verði gert einu sinni í mánuði með birtingu á vefsíðu. Viðkomandi fyrirtæki, félag eða stofnun getur þá birt upplýsingarnar á vefsíðu sinni. Jafnframt er mögulegt að birta upplýsingarnar á vefsíðu fjármálaráðuneytisins. Í þessu sambandi er jafnframt bent á að ýmsar upplýsingar um málefni jafnt einstaklinga sem fyrirtækja sem kunna að falla undir ákvæði frumvarpsins eru nú þegar opinberar, s.s. varðandi nauðungarsölu á eignum, innkallanir vegna þrotabúa og skiptafundi. Þeim reglum sem kveðið er á um í frumvarpinu er beint í sama farveg og þær til þess fallnar að byggja á ný upp traust á grunnstoðum samfélagsins.
Lagt er til að viðurlög við brotum gegn ákvæðum frumvarpsins varði sektum.
Lagt er til að breytingarnar öðlist þegar gildi. Þótt eðlilegt sé að lögin verði tímabundið í gildi er ekki tilgreindur afmarkaður gildistími þeirra. Eðlilegt er þó að þau verði ekki numin úr gildi fyrr en endanlega hefur verið gengið frá öllum eftirstöðvum fjármálahrunsins. Gert er ráð fyrir að í ljósi reynslunnar verði metið hvort upplýsingagjöf sem þessi geti orðið hluti af upplýsingaskyldu ársreikningslaga.