Ég mælti í dag fyrir frumvarpi um upptöku eigna án þess að sakfellingar sé krafist. Um er að ræða alþjóðlega viðurkennt úrræði sem er ætlað að auðvelda yfirvöldum að gera upptækar eignir sem eru til komnar vegna glæpsamlegrar starfsemi. Málum er oft þannig háttað að erfitt getur reynst að færa fullar sönnur á sekt einstaklinga, þ.e.a.s. að sekt sé hafin yfir allan vafa. Hér er hins vegar lagt til að sönnunarbyrði einkamála nægi ákæruvaldinu til þess að sýna fram á að verðmætin eða eignin séu tilkomin vegna glæpsamlegrar starfsemi. Það þýðir í raun að meti dómstóll það svo að meiri líkur en minni séu á að ávinningur sé ólögmætur, er ákæruvaldinu færð heimild til þess að gera ávinninginn upptækan. Lagt er til að þetta gildi aðeins í þeim tilvikum þar sem um verulegan ávinning er að ræða, eða þar sem brot varða a.m.k. sex ára fangelsi.
Þetta mál er lagt fram í þeim tilgangi að auka líkurnar á því að það takist að endurheimta verðmæti úr hendi þeirra sem í aðdraganda og kjölfar íslenska fjármálahrunsins hafa auðgast með óréttmætum hætti. Einnig er því ætlað að draga úr hvata til brotastarfsemi sem haft getur verulegan fjárhagslegan ávinning í för með sér. Allsherjarnefnd fær nú málið til umfjöllunar og verður það svo í framhaldinu sent til umsagnar. Vera má að nefndin eða umsagnaraðilar telji að skýra þurfi ákvæði frumvarpsins betur og tilgreina nánar í hvaða tilfellum úrræðinu skuli beitt. Það mikilvægasta er að umfjöllunin eigi sér stað og verði fagleg, því hér er sannarlega um mikla hagsmuni að ræða.