Í dag hefst Norðurlandaráðsþing í Helsinki, helsti viðburður norrænnar samvinnu ár hvert. Norðurlandaráð á 60 ára afmæli í ár og því ber að fagna þar sem ráðið er í lykilhlutverki við að bæta hag almennings á Norðurlöndum með frumkvæði um norrænt samstarf. Verkefnin eru á ýmsum sviðum, á sviði efnahagsmála, menningar- og menntamála, borgara- og neytendamála, umhverfismála, og í síauknum mæli á sviði alþjóðamála.
Norðurlandaráðsþingið er einstakt að því leyti að þar eiga sér stað umræður milli ráðherra allra Norðurlandanna við þingmenn frá öllum löndunum. Í ár verða sérstakar umræður ríkisstjórnaleiðtoga landanna og stjórna Færeyja, Grænlands og Álandseyja um efnahagslegar og aðrar áskoranir norrænna velferðarkerfa. Þá verða umræður með þátttöku norrænu utanríkisráðherranna um alþjóðamál og öryggis- og varnarmál, og ráðherrar norrænna samstarfsmála svara óundirbúnum munnlegum fyrirspurnum þingmanna.
Landamærahindranir, þ.e. reglur og venjur innan stjórnsýslunnar sem hindra för og starf einstaklinga og fyrirtækja milli Norðurlanda skv. norrænum samningum, hafa verið í brennidepli í starfi Norðurlandaráðs á árinu og verða það einnig á Norðurlandaráðsþinginu. Í apríl fóru fram samtímis í norrænu þjóðþingunum umræður um landamærahindranir þar sem rauði þráðurinn í umræðunum var hvernig koma mætti í veg fyrir myndun hindrana við lagasetningu og innleiðingu ESB-gerða. Fyrir Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki liggur tillaga um að styrkja lagalega stöðu norræns almennings samkvæmt norrænum samningum með norrænum umboðsmanni. Ætlast er til að norrænir borgarar sem telja sig rekast á landamærahindranir milli Norðurlanda geti leitað til umboðsmanns, auk þess sem hann ráðlegði Norrænu ráðherranefndinni, norrænum ríkisstjórnum og norrænum þjóðþingum um hvernig komast megi hjá myndun nýrra stjórnsýsluhindrana við lagasetningu og innleiðingu ESB-gerða.
Í tengslum við Norðurlandaráðsþingið verða einnig afhent verðlaun Norðurlandaráðs en þess má geta að tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2012 hlýtur íslenska tónskáldið Anna Þorvaldsdóttir fyrir verk sitt Dreymi.
(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu þann 30. október 2012.)