nóvember, 2012

Flokksvalið stendur yfir – takið þátt

blog

Netkosning í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík stendur nú yfir og lýkur á morgun, laugardag, klukkan 18.

Á morgun geta þeir sem þurfa aðstoð við kosninguna, hafa ekki aðgang að tölvu og heimabanka eða vilja ekki kjósa rafrænt farið í Laugardalshöllina og kosið þar. Opið verður frá 10-18.

Leiðbeiningar um hvernig á að bera sig að við að kjósa á netinu er að finna hér á heimasíðu Samfylkingarinnar.

Fyrsta skref er að fara inn á samfylking.is

Þar er smellt á hnappinn/hlekkinn Flokksval 2012

Þá flyst kjósandinn á síðu þar sem hann á að slá inn kennitölu sína.

Að því loknu er lykilorð sent sem rafrænt skjal í heimabanka kjósandans. Næsta skref er því að skrá sig inn á heimabankann sinn og sækja lykilorðið. Nokkur tími getur liðið þar til lykilorðið birtist í heimabankanum. Það finnur maður í yfirliti yfir rafræn skjöl eða netyfirliti.  Á Flokksvalssíðunni á vef Samfylkingarinnar geta kjósendur nálgast leiðbeiningar um hvar lykilorðið er að finna en það er nokkuð mismunandi eftir bankastofnunum hvernig uppsetningunni í heimabönkunum er háttað.

Þegar lykilorðið hefur birst er heimabankanum er það afritað eða slegið inn í gluggann á Flokksvalssíðunni. Þá er hægt að opna kjörseðil.

Þar eru  nöfn frambjóðenda í þeirri röð sem dregið hefur verið um. Þarna á kjósandi að raða frambjóðendum í sæti 1-8. Ég bið um stuðning í 2. sætið.

 

 

Íslensk tungutækni

blog

Á degi íslenskrar tungu er fagnaðarefni að íslensk málnefnd hefur veitt viðurkenningar fyrir tungutækniverkefni. Þær hlutu Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins, og Jón Guðnason og Trausti Kristjánsson, kennarar og vísindamenn við Háskólann í Reykjavík.

Allir hafa þeir unnið mikilvægt starf í tungutækni, sem breytir stöðu íslenskrar tungutækni og íslenskrar tungu. Íslenskan hefur fram að þessu verið eftirbátur annarra tungumála á þessu sviði.

Verðlaunahafarnir hafa einnig unnið starf sem kemur blindum og sjónskertum Íslendingum að miklu gagni og veitir okkur svipaða möguleika til að nota nýjustu tölvutækni og aðrar þjóðir búa við.

Blindrafélagið kynnti fyrr í ár nýjan íslenskan talgervil. Það er hugbúnaður sem breytir texta í tal. Hann gjörbreytir möguleikum til að nota símtæki, tölvur og tölvustýrðan búnað eins og hraðbanka.

Talgervillinn byggist á stórum íslenskum málgagnasöfnum og vandaðri greiningu á framburði íslenskrar tungu. Íslensk málnefnd veitir Kristni Halldóri viðurkenningu fyrir hans ötula starf að þessu verkefni.

Í Háskólanum í Reykjavík voru Jón og Trausti lykilmenn í því að nýr talgreinir fyrir íslensku, sem hægt er að nota í farsímum með Android-stýrikerfinu, varð að veruleika í lok sumars.

Talgreinir er hugbúnaður sem skilur talað mál og getur framkvæmt skipanir sem eru settar fram í töluðu máli. Hann gerir m.a. mögulegt að tala við símann sem þá breytir töluðu máli í texta fyrir leit eða sms-skilaboð. Þetta er búnaður sem hefur lengi verið til fyrir ensku og ýmis önnur tungumál. Nú er hann einnig til á íslensku.

Talgervillinn og talgreinirinn eru auðvitað mjög mikilvæg tækni fyrir okkur blinda og sjónskerta. Til þessa höfum við notað frumstæðar, íslenskar tölvuraddir sem ekki ganga með nýjustu farsímum og fleiri tækjum sem nú eru hluti daglegs lífs. En fyrst og fremst er þetta starf Blindrafélagsins og Háskólans í Reykjavík mikilvægt fyrir vöxt og viðgang íslenskrar tungu.

Til þess að rækta íslenskuna sem okkar samskiptamál í framtíðinni verðum við að fylgja þróun tækninnar á þessu sviði þannig að bíllinn, síminn, tölvan og tækin öll tali og skilji íslensku eins og önnur tungumál.

 

(Birtist í Fréttablaðinu 16. nóvember)

Flokksvalið hefst á miðnætti, utankjörstaðakosning í dag

blog

Rafræn kosning í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík hefst á miðnætti í kvöld og hún stendur yfir til klukkan 18. laugardaginn 17. nóvember. Ég óska eftir stuðningi í 2. sætið og þar með efsta sætið í öðru hvoru kjördæminu.

Leiðbeiningar um hvernig á að bera sig að við að kjósa á netinu er að finna hér á heimasíðu Samfylkingarinnar.

Þeir sem þurfa aðstoð við kosninguna og eins þeir sem ekki nota heimabanka eða hafa ekki aðgang að tölvu geta kosið í Laugardalshöll á laugardeginum. Þar verður opið frá klukkan 10-18.

Síðasti dagur utankjörfundaratkvæðagreiðslunnar er í dag; þá er hægt að kjósa á skrifstofum Samfylkingarinnar á Hallveigarstíg 1 frá klukkan 16-19.

Hér er hægt að kynna sér frambjóðendur í flokksvalinu á heimasíðu Samfylkingarinnar og lesa kynningarblað sem dreift var með Fréttablaðinu á dögunum.