Flestir ættu að geta tekið undir það markmið ríkisstjórnarinnar að ná fram hallalausum fjárlögum á næsta ári, enda verið stefnt að því frá hruni. Hins vegar eru ekki allir sammála um hvernig því markmiði skuli náð. Í kjölfar niðurskurðar og skattahækkana síðustu ára hefur nú loksins skapast svigrúm til sóknar og uppbyggingar á þeim sviðum samfélagsins sem látið hafa undan. Staðan er vissulega enn erfið, en þess vegna skiptir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar líka miklu máli.
Umræðan í þjóðfélaginu og fréttaflutningur undanfarið benda eindregið til þess að heilbrigðiskerfið verði að njóta sérstaks forgangs þegar kemur að því nota svigrúmið sem skapast hefur. Það varð einnig niðurstaða síðustu ríkisstjórnar, sem ákvað að hætta niðurskurði í heilbrigðiskerfinu fyrir einu og hálfu ári síðan og hefja uppbyggingarferlið. Slíku er því miður ekki fyrir að fara í fjárlagafrumvarpinu, heldur þvert á móti. Áfram er gerð hagræðingarkrafa á Landspítalann og hvergi sjást áætlanir um uppbyggingu nýs spítala.
Lækkun sjúklingaskatta
Ekki er látið staðar numið við niðurskurð. Að auki er kynntur til sögunnar nýr sjúklingaskattur og vonast til að veikustu einstaklingar þessa samfélags skili ríkissjóði um 200 milljónum króna á næsta ári. Fátt lýsir betur undarlegri forgangsröðun ríkisstjórnar, sem gaf kosningaloforð um stóraukin fjárframlög til heilbrigðismála.
Í kjölfar hrunsins var staðan þannig að ekki voru aðstæður til að minnka gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Nú þegar svigrúm skapast væri eðlilegra að horfa til þess að lækka sjúklingaskatta en að hækka þá.
Samræmd gjaldtaka
Mikil sóknarfæri eru jafnframt í því að samræma alla gjaldtöku á heilbrigðiskerfinu. Skref voru stigin í þau átt með nýjum lyfjalögum. Það verður að segjast eins og er að augljósir ágallar voru í framkvæmd þeirra laga, en markmið þeirra stenst um aukinn jöfnuð meðal sjúklinga. Ekki er nóg að líta eingöngu til lyfjakostnaðar, heldur verður að líta heildrænt til kostnaðar á lyfjum og annarri heilbrigðisþjónustu. Setja á markmið um að kostnaður sjúklinga fari aldrei yfir tiltekin mörk þannig að fólk í sambærilegri stöðu hafi sömu réttindi.
Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur boðist til að setjast niður í fjárlagavinnunni, þvert á flokka, og leita allra leiða til að byggja upp á Landspítalanum og létta álögum á sjúklingum. Þegar nú virðist hægt að lækka skatta á útgerðina, efnafólk, og tekjuskatt er eðlilegt að spyrja hvort sjúklingaskattalækkun sé ekki tímabær.
Pistillinn birtist í DV 9. október sl.