október, 2013

Sjúklingaskattalækkun

Uncategorized

Flestir ættu að geta tekið undir það markmið ríkisstjórnarinnar að ná fram hallalausum fjárlögum á næsta ári, enda verið stefnt að því frá hruni. Hins vegar eru ekki allir sammála um hvernig því markmiði skuli náð. Í kjölfar niðurskurðar og skattahækkana síðustu ára hefur nú loksins skapast svigrúm til sóknar og uppbyggingar á þeim sviðum samfélagsins sem látið hafa undan. Staðan er vissulega enn erfið, en þess vegna skiptir forgangsröðun ríkisstjórnarinnar líka miklu máli.

Umræðan í þjóðfélaginu og fréttaflutningur undanfarið benda eindregið til þess að heilbrigðiskerfið verði að njóta sérstaks forgangs þegar kemur að því nota svigrúmið sem skapast hefur. Það varð einnig niðurstaða síðustu ríkisstjórnar, sem ákvað að hætta niðurskurði í heilbrigðiskerfinu fyrir einu og hálfu ári síðan og hefja uppbyggingarferlið. Slíku er því miður ekki fyrir að fara í fjárlagafrumvarpinu, heldur þvert á móti. Áfram er gerð hagræðingarkrafa á Landspítalann og hvergi sjást áætlanir um uppbyggingu nýs spítala.

Lækkun sjúklingaskatta

Ekki er látið staðar numið við niðurskurð. Að auki er kynntur til sögunnar nýr sjúklingaskattur og vonast til að veikustu einstaklingar þessa samfélags skili ríkissjóði um 200 milljónum króna á næsta ári. Fátt lýsir betur undarlegri forgangsröðun ríkisstjórnar, sem gaf kosningaloforð um stóraukin fjárframlög til heilbrigðismála.

Í kjölfar hrunsins var staðan þannig að ekki voru aðstæður til að minnka gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Nú þegar svigrúm skapast væri eðlilegra að horfa til þess að lækka sjúklingaskatta en að hækka þá.

Samræmd gjaldtaka

Mikil sóknarfæri eru jafnframt í því að samræma alla gjaldtöku á heilbrigðiskerfinu. Skref voru stigin í þau átt með nýjum lyfjalögum. Það verður að segjast eins og er að augljósir ágallar voru í framkvæmd þeirra laga, en markmið þeirra stenst um aukinn jöfnuð meðal sjúklinga. Ekki er nóg að líta eingöngu til lyfjakostnaðar, heldur verður að líta heildrænt til kostnaðar á lyfjum og annarri heilbrigðisþjónustu. Setja á markmið um að kostnaður sjúklinga fari aldrei yfir tiltekin mörk þannig að fólk í sambærilegri stöðu hafi sömu réttindi.

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur boðist til að setjast niður í fjárlagavinnunni, þvert á flokka, og leita allra leiða til að byggja upp á Landspítalanum og létta álögum á sjúklingum. Þegar nú virðist hægt að lækka skatta á útgerðina, efnafólk, og tekjuskatt er eðlilegt að spyrja hvort sjúklingaskattalækkun sé ekki tímabær.

Pistillinn birtist í DV 9. október sl.

Stefnuræða forsætisráðherra

Uncategorized

Forsætisráðherra flutti í gær stefnuræðu sína við upphaf 143. löggjafarþings. Ég tók þátt í umræðunum og læt ræðu mína fylgja hér:

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. „Til hamingju Ísland“, gæti stefnuræða hæstv. forsætisráðherra heitið þetta árið eins og framlag annars fulltrúa sem við kusum hér um árið á öðru sviði þjóðlífsins. Um ræðuna má segja að það er ekkert nema gott og fallegt að hafa trú á landinu sínu en við Íslendingar þurfum að gæta þess að hrópa ekki Ísland best í heimi, því að við höfum svo nýlega lært að ofmetnaður er falli næst.

Þegar hæstv. forsætisráðherra segir það beinlínis ákjósanlegt að búa langt frá öðrum löndum með skýr landamæri, ein þjóð með sambærileg gildi, þá minnir alþjóðasinnaður jafnaðarmaður á að enginn maður er eyland, einhlítur sjálfum sér, að sérhver maður er brot af meginlandinu og hluti veraldarinnar. Einangrunarstefnan mun aldrei skila okkur Íslendingum öðru en höftum, fábreytni og fákeppni. En um það erum við forsætisráðherra sannarlega sammála að gríðarlegur árangur hefur náðst á síðustu árum þó að ég ætti ekki von á því að þurfa að segja um aukinn kaupmátt, atvinnusókn og hagvöxt: Hægan, hægan, hæstv. forsætisráðherra, við skiluðum ekki alveg svona góðu búi.

Við höfum ekki náð svona langt. Það er enn þá mikið verk að vinna. Við þurfum innspýtingar við. Við megum ekki við því að afþakka erlenda fjárfestingu. Við megum ekki við því að skapa óvissu um stóra þætti í efnahag okkar, fá lækkun á lánshæfismati okkar sem dregur úr líkum á nýjum fjárfestingum í landinu því að við þurfum innspýtingar við.

Virðulegur forseti. Sannarlega átti ég aldrei von á því að horfa á formann Framsóknarflokksins skera niður hægri vinstri hvert framkvæmda- og atvinnuskapandi verkefnið af öðru sem fráfarandi ríkisstjórn kom á. Eins og honum þyki að hún hafi verið allt of framkvæmdasinnuð og atvinnuskapandi. Nei, en það er tilefni til að vera bjartsýn. Eftir fjögur ár í þrotlausum skattahækkunum og niðurskurði er núllinu loksins náð. Svigrúm í ríkisfjármálum hefur fólkið í landinu skapað með fórnum sínum og nú er í fyrsta skipti kosta völ. Við gátum valið að halda veiðigjaldinu áfram og þá hefði engan niðurskurð þurft í velferðarþjónustu. Það sárgrætilega er að þegar við höfum náð þessum mikilvæga áfanga í ríkisfjármálunum er valið vitlaust.

Það er ekki bara hörð hægri pólitík. Það er líka vond efnahagspólitík. Einhvern tíma sagði formaður Framsóknarflokksins að maður sparaði sig ekki út úr kreppu, en Framsóknarflokkurinn verður að ráða sínum næturstað.

Hvað sem kann að líða deilum okkar í þinginu hvet ég þó til þess að við á Alþingi tökum saman höndum, þvert á flokka, og leiðréttum þau augljósu mistök sem ríkisstjórnin hefur gert í málefnum Landspítalans. Við skulum bara kalla það misskilning, við skulum ekki hafa uppi neinn umkenningaleik. Nú þegar svigrúm hefur loksins skapast í ríkisfjármálum skulum við saman setjast niður og leita tekna til að efla spítalann án þess að það leiði til halla á fjárlögum. Það er til þess ætlast, nú þegar svigrúm hefur skapast í ríkisfjármálum, að við lyftum saman Landspítalanum því að hann er dauðans alvara.

Ég bið líka um stuðning við þingmál sem hv. þm. Kristján Möller mun fara fyrir af okkar hálfu í Samfylkingunni um byggingu nýs Landspítala.

Virðulegur forseti. Það er sannast sagna algjörlega ófært að forsætisráðherra standi í veginum fyrir því að ráðist sé í þær skynsamlegu framkvæmdir sem geta aukið atvinnustigið, sem eru mikilvægt innlegg í að auka framkvæmdir, sem bæta starfsaðstöðu heilbrigðisstétta og aðstöðu sjúklinga og auka hagkvæmni í rekstri spítalans og framleiðni í landinu.

Ég bið um að hér fái skynsemin að ráða, að í þessum sal, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi ekkert samráð haft, átti stjórnarmeirihlutinn sig á því að það er samstarf og samvinna okkar hér sem er líklegust til að skila okkur árangri, auka eindrægni í samfélaginu og traust á Alþingi.