nóvember, 2013

Gott fordæmi

Uncategorized

Reykjavíkurborg hefur sýnt gott fordæmi með því að afturkalla fyrirhugaðar gjaldskrárhækkanir. Þessi ákvörðun þýðir raunlækkun á gjöldum því meðan laun hækka standa gjöldin í stað. Það er ekki síst mikilvægt fyrir barnafjölskyldur í borginni því þjónustugjöld borgarinnar snúa mest að þeim.

Öðruvísi pólitík

Það sem er líka gott er að borgin þori að breyta því sem búið var að ákveða. Oft hafa stjórnmálamenn talið sér trú um að það megi ekki. Sá sem hætti við ákvörðun sýni veikleika og missi traust. Enn frekar ef hann væri með því að láta að kröfum minnihlutans. En í raun er þessu alveg öfugt farið. Sá sem hefur þor til að breyta ákvörðun sinni sýnir styrkleika og flest treystum við betur þeim sem hlusta á aðra.

Búmmerang Bjarna Ben

Þegar borgin ákvað að hætta við hafði formaður Sjálfstæðisflokksins Bjarni Benediktsson nýlega sagt um hækkanir borgarinnar að halda yrði hækkunum niðri til að eyðileggja ekki fyrir kjarasamningum. Bjarni átti greinilega ekki von á því að borgin tæki tillit til athugasemda foreldra og ASÍ því þegar nú borgin hefur fallið frá sínum hækkunum eru það hækkanir Bjarna sjálfs sem blasa við. Hækkanir, sem munu auka verðbólgu á nýju ári og þar með skuldir heimilanna. Og þegar hann er nú spurður hvort hann ætli ekki að fara eftir sinni eigin hvatningu, gera eins og borgin og hætta við hækkanir þá svarar hann: Nei, hækkanirnar standa.

Hækkar umfram vinstri stjórnina

Nú hafa allir flokkar hækkað gjöld, ekki síst árin eftir hrun þegar hallareksturinn var botnlaus. En það er auðvitað hægt að hækka gjöld svo mikið að tekjurnar hætti að skila sér og sannarlega hafa hækkanir lagst þungt á verðtryggðar skuldir fólks. Þess vegna var það okkar niðurstaða um síðustu áramót að nota bættan hag ríkisins til að hækka ekki bensín, olíu, útvarpsgjald, bifreiðagjöld,   o.fl. gjöld bæði vegna þess að þau væru komin að þolmörkum og vegna áhrifa á skuldir heimila. En Framsóknar og Sjálfstæðisflokkur láta það svo verða sitt fyrsta verk eftir lækkun veiðigjalda að hækka bensín og olíugjöld, útvarpsgjald, bifreiðagjöld, áfengi og tóbak, skólagjöld og leggja ný gjöld á sjúklinga. Og þó bæði borgin og verkalýðshreyfingin hvetji þá til að hverfa frá hækkunum þá ætla þeir samt að hækka.

Gamaldags pólitík

Þetta verður enn pínlegra af því að einmitt þessir flokkar hafa verið að segja fólki að hækkanir gjalda skili ekki auknum tekjum. Þeir geta þess vegna ekki trúað því að hækkanirnar séu nauðsynlegar fyrir tekjur ríkisins. Eða hvað? Og enn sorglegra verður þetta þegar haft er í huga að Sjálfstæðisflokkurinn og Bjarni Benediktsson fluttu sérstakt þingmál þegar staða ríkisins var miklu verri, ekki um að hætta við hækkanir á bensíni, heldur beinlínis að lækka það verulega. Hækkanirnar nú sýna að það var bara ómerkilegur áróður. Það er gott fyrir kjósendur í Reykjavík að muna í kosningabaráttunni í vor þegar ríkisstjórnarflokkarnir lofa þeim lækkunum gjalda, hverjir það eru sem í raun eru að hækka gjöld og hverjir ekki.

 

Pistillinn birtist í DV 18. nóvember