mars, 2014

Verðtryggingarstjórn Sigmundar

Uncategorized

Senn fer fyrsta ári þessa kjörtímabils að ljúka. Það væri mikil synd að segja að ríkisstjórnin hafi nýtt þennan tíma vel til góðra verka. Í stað þess að einblína á það að efna hin stóru kosningaloforð sín er nú til umræðu í þinginu tillaga um slit aðildarviðræðna við Evrópusambandið sem gengur þvert gegn kosningaloforðum stjórnarflokkanna og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Betur færi á því að tími þingsins væri nýttur í að ræða frumvörp um afnám verðtryggingar. Ekkert bólar hins vegar á slíkum frumvörpum og virðist sem Framsóknarflokkurinn ætli ekki að efna þetta stærsta kosningaloforð sitt. Það eina sem gerst hefur í málinu er að nefnd skipuð þeirra eigin fólki komst að þeirri niðurstöðu að öll tormerki væru á því að afnema verðtrygginguna, það væri mjög flókið og eiginlega ómögulegt. Það lá svo sem í augum uppi að framsóknarmenn myndu aldrei leggja til afturvirkt afnám en þeir hafa ekki einu sinni lagt fram þingmál um að draga úr vægi verðtryggingar eða um afnám til framtíðar.

Döpur framtíðarsýn

Með fyrrnefndri tillögu um slit aðildarviðræðna fjarlægist eini raunhæfi möguleikinn á því að minnka fjármagnskostnað heimila í landinu. Framlagning tillögunnar lýsir miklu ábyrgðarleysi þar sem stjórnvöld hafa engan veginn getað bent á raunverulegan valkost við núverandi ástand. Framtíðarsýnin virðist því vera sú að Íslendingar búi áfram við krónuna með þeim okurvöxtum, verðbótum og verðtryggingu sem henni fylgja, enda eru framsóknarmenn hættir öllu tali um norska krónu og kanadadollar. Skýr skilaboð atvinnulífsins sem birtust nýlega á Viðskiptaþingi og Iðnþingi undirstrika ennfremur hversu einangruð ríkisstjórnin er orðin í málflutningi sínum í gjaldmiðilsmálum.

Þetta er einfalt

„Þetta er einfalt,“ sagði formaður Framsóknarflokksins fyrir kosningar og átti þar við afnám verðtryggingar og leiðréttingu húsnæðislána. Afnám verðtryggingar átti að framkvæma þannig að fólki með verðtryggð lán yrði gert kleift að skipta yfir í óverðtryggð lán á stöðugum vöxtum. Það átti að tryggja íslenskum heimilum eðlileg lánakjör og skipta áhættunni milli lánveitenda og lántakenda. Allt hljómar þetta vissulega einfalt og því vaknar upp sú spurning hvað tefji fyrir framlagningu þingmála þess efnis. Í huga formannsins var val kjósenda síðastliðið vor mjög skýrt, annað hvort yrði hér mynduð framsóknarstjórn eða verðtryggingarstjórn. Það skyldi þó ekki vera að fólk hafi kosið síðari kostinn eftir allt saman? Í nærri hundrað ár höfum við reynt að skapa stöðugleika og lága vexti með íslensku krónunni. Það hefur aldrei tekist og er fullreynt. Öllum má vera ljóst að til að skapa stöðugleika og lága vexti fyrir fólk og fyrirtæki þurfum við gjörbreytta stefnu, ekki síst nú þegar við erum komin með gjaldeyrishöft sem kosta okkur 80 þúsund milljónir á ári. Með því að slíta aðildarviðræðum er Framsókn að koma í veg fyrir breytingar án þess að leggja fram neina aðra stefnu en þá sem felst í áframhaldandi óstöðugleika og okurvöxtum krónunnar. Í því felst ekki afnám verðtryggingar heldur en hún þvert á móti fest í sessi til framtíðar.

 

Greinin birtist í DV 14. mars sl.

Snautleg framtíðarsýn utanríkisráðherra

Uncategorized

Framganga utanríkisráðherra í Evrópumálunum verður æ undarlegri svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þegar skýrsla Hagfræðistofnunar um stöðu aðildarviðræðna Íslands við ESB kom loksins fram beið ráðherra ekki boðanna og lagði fram tillögu um að slíta viðræðunum. Það gerði hann áður en umræðum um skýrsluna lauk á Alþingi og án þess að umsagna eða álits nokkurs aðila hafi verið leitað.

Í gær bætti hann svo um betur þegar Evrópustefna ríkisstjórnarinnar var kynnt á sama tíma og þingmenn ræða hina misráðnu tillögu um slit á aðildarviðræðunum. Samkvæmt Evrópustefnunni verður áherslan lögð á EES-samninginn og á grundvelli hans á að sækja rétt okkar og reyna að hafa áhrif. Norðmenn kynntu fyrir rúmum tveimur árum mjög viðamikla skýrslu um kosti og galla EES samningsins. Meginniðurstaða þeirrar úttektar var sú að EES samningurinn fæli í sér meira framsal á fullveldi en innganga í Evrópusambandið og að Norðmenn hafi í gegnum samninginn engin áhrif á ákvarðanatökuferlið í Brussel. Þar að auki er einkennileg sú áhersla ríkisstjórnarinnar að ætla að byggja á samningi sem Ísland gerist brotlegt við á hverjum degi.

Við uppfyllum ekki grundvallarkröfur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þar eru mikilvægustu stoðirnar um frjálst flæði, m.a. frjálst flæði fjármagns milli landa. Þann þátt samningsins uppfyllum við einfaldlega ekki vegna þess að við höfum neyðst til þess í vandræðum okkar að setja hér lög um gjaldeyrishöft. Við eigum stöðu okkar innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið algerlega undir viðsemjanda okkar vegna þess að við erum brotleg við samninginn og aðeins vegna þess að það er litið fram hjá því um sinn að sá er veruleikinn höldum við enn þeim réttindum sem samningurinn felur í sér. Það að ætla að byggja hagsmuni Íslands á samningi sem við uppfyllum ekki, höfum ekki uppfyllt í rúmlega fimm ár og höfum engar trúverðugar áætlanir um að geta efnt í fyrirsjáanlegri framtíð er þess vegna býsna kindarleg stefna svo ekki sé meira sagt, fyrir utan hversu lítil sýn það er um stöðu Íslands til framtíðar að ætla að láta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið taka æ meiri völd af Íslandi, fullveldi okkar og sjálfstæði.