apríl, 2014

Vel heppnuðu vorþingi Norðurlandaráðs lokið

Uncategorized

Norðurlandaráð kom saman á Akureyri nú í byrjun vikunnar til árlegs vorþings. Þema þingsins að þessu sinni var sjálfbær nýting náttúruauðlinda. Málefni Rússlands og Úkraínu voru einnig rædd sérstaklega og yfirlýsing þar sem höfuðáherslan var lögð á þjóðarétt, lýðræði og mannréttindi var samþykkt samhljóða. Yfirlýsinguna má lesa hér.

Ég skrifaði í aðdraganda þingsins grein ásamt Karin Åström, forseta Norðurlandaráðs, sem birtist í Fréttablaðinu:

Friður, jöfnuður og auðlindir

Akureyri verður vettvangur samráðs og pólitískrar umræðu 87 þingmanna þegar Norðurlandaráð kemur þar saman til vorþings á morgun. Á dagskrá þingsins eru bæði átakamál þar sem mismunandi áherslur stjórnmálaflokkanna koma skýrt fram en einnig samstöðumál, þar sem stjórnmálamenn allra flokka vinna saman að mikilvægum hagsmunamálum. Jafnaðarmenn munu taka virkan þátt í þinginu enda er þingflokkur jafnaðarmanna stærstur í Norðurlandaráði með 26 þingmenn frá öllum Norðurlöndunum.

Afdráttarlaus afstaða Norðurlandaráðs í deilunni um Krímskagann er gott dæmi um það hvernig Norðurlöndin geta á vettvangi rá

ðsins tekið sameiginlega afstöðu í alþjóðlegum álitamálum. Á þinginu er áríðandi að Norðurlandaráð árétti skýra afstöðu sína í deilunni og leggi með þeim hætti mikilvægt lóð sitt á vogarskál friðar í Evrópu.

Á þinginu munu jafnaðarmenn leggja ríka áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, bæði með tilliti til umgengni okkar við lífríkið en ekki síður samfélagsins sem auðlindirnar fóstrar. Við verðum að tryggja að auðlindirnar nýtist komandi kynslóðum ekki síður en okkur sem nú lifum og við verðum að tryggja að arði af sameiginlegum auðlindum verði réttlátlega skipt og hann nýtist til uppbyggingar og samfélagslegra verkefna. Um þessi grundvallarsjónarmið standa norrænir jafnaðarmenn saman hvort sem rætt er um fisk, námugröft, skógarhögg, orku eða aðrar auðlindir Norðurlandanna.

Á Akureyri munu jafnaðarmenn einnig halda áfram sameiginlegri baráttu sinni fyrir uppbyggingu og þróun norræna velferðarkerfisins en í stjórnartíð hægrimanna hefur víða verið að því sótt á undanförnum árum. Ekki síst á þetta við um réttindi og stöðu launþega gagnvart félagslegum undirboð

um og langtímaatvinnuleysi ungs fólks. Afleiðingin er aukin lagskipting vinnumarkaðarins og aukinn ójöfnuður. Þessari þróun vilja jafnaðarmenn snúa við, m.a. með sameiginlegum aðgerðum Norðurlandanna gegn félagslegum undirboðum á vinnumarkaði, aðgerðum gegn atvinnuleysi ungs fólks og með því að styrkja stöðu stéttarfélaga.

Á þingi Norðurlandaráðs leggja jafnaðarmenn því áherslu á frið, jöfnuð, réttlæti og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda – hér eftir sem hingað til.

Dæmi hver fyrir sig

Blaðagreinar

Sigmundur Davíð neitar að hafa gefið fyrirheit um 300 milljarða leiðréttingu frá hrægömmum til skuldara fyrir síðustu kosningar. Sem betur fer búum við núorðið í þannig heimi að einfalt er fyrir flesta að fara bara á netið og hlusta t.d. á viðtal RÚV við hann fyrir kosningar.

Hitt er þó óumdeilt að Framsóknarflokkurinn lofaði að leiðrétta forsendubrestinn. Sá hluti íslenskra heimila sem fær leiðréttingu mun fá að meðaltali um 1,1 milljón. Hver og einn getur metið það hvort það sé sá forsendubrestur sem skuldsettu heimilin í landinu urðu að meðaltali fyrir. Leiðréttingin nemur 72 milljörðum eða 5,7% af verðtryggðum skuldum heimilanna og 3,75% af heildarskuldum heimilanna. Lesendur muna best sjálfir hvort þetta eru prósentutölurnar sem talað var um. Þá þræta menn varla um að þessi fyrirheit hafi verið kölluð af Sigmundi Davíð upprisa millistéttarinnar. 1,1 milljóna króna lækkun á verðtryggðu láni Íbúðalánasjóðs mun leiða til allt að 7.000 kr. lægri greiðsubyrði á mánuði fyrir þau heimili sem aðgerðirnar ná til. Hvort það jafngildir upprisu metur fólk best sjálft.

Þá var ótvírætt lofað heimsmeti en umfang aðgerðanna er skv. hagdeild ASÍ svipað og aðgerða síðustu ríkisstjórnar. Útfærslan núna hefur hins vegar meiri þensluáhrif og vegna þess að ekkert hefur verið gert í verðtryggingunni er hætt við að á móti komi ýmiss kostnaður fyrir heimilin í hækkun verðtryggðra lána, vaxta og verðlags almennt. Þar sem þetta er hvorki forsenduleiðrétting né nýting á svigrúmi hrægamma, heldur framlag af skattfé, er líka ástæða til að hafa efasemdir að sanngjarnt sé að undanskilja í aðgerðunum efnaminnstu heimilin og þau skuldsettustu en greiða hluta fjármunanna til hátekju- og stóreignafólks í staðinn.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 31. mars sl.