júní, 2014

Fleiri leiguíbúðir

Uncategorized

Það er gaman að sjá  áherslur nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar eru barnafjölskyldur, lýðræðisþróun og ekki síst húsnæðismál í forgangi. Meðal þess gleðilega eru áform nýja meirihlutans um byggingu þúsunda leiguíbúða og búseturéttaríbúða á næstu árum. Það er einfaldlega mjög brýnt að auka framboð á leiguíbúðum sem bjóðast á sanngjörnum kjörum til langs tíma og líka að fjölga valkostum okkar í húsnæðismálum. Búseturéttaríbúðir hafa reynst góður valkostur fyrir marga og sameina að ýmsu leyti kosti þess að eiga og leigja. Áform um fjölgun félagslegra íbúða eru einnig sérstaklega ánægjuleg enda biðlistar eftir slíkum íbúðum enn allt of langir. Ástandið í húsnæðismálum hefur ekki farið framhjá neinum og mikilvægt að stjórnmálamenn setji framfarir þar í forgang því húsnæðismálin skipta svo miklu fyrir velferð fólks.

Það er ekki bara skortur á leiguíbúðum sem hefur skapað leigjendum erfiða stöðu. Því miður ákváðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur á Alþingi í vor að sleppa því sérstaklega að leiðrétta lán á leiguíbúðum og búseturéttaríbúðum þannig að hækkanirnar á leigu og lánum hjá þessum hópum eru óleiðréttar meðan þeir sem eiga húsnæði hafa fengið loforð um leiðréttingu úr ríkissjóði. Við þetta bætist að ríkið hefur lengi veitt meiri peningum í vaxtabætur til þeirra sem kaupa en í húsaleigubætur til þeirra sem leigja. Á síðasta kjörtímabili kynntum við tillögur um að sameina vaxta- og húsaleigubætur þannig að þeir sem eiga húsnæði og leigja sitji við sama borð. Það er mikilvægt að sú breyting verði gerð nú í kjölfar skuldaaðgerða því það er einfaldlega ósanngjarnt að þeir sem leigja fái minni stuðning en hinir sem kaupa.

Heimilin í forgang

Fyrsta þingmál okkar í Samfylkingunni á Alþingi á þessu kjörtímabili var um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi. Erfið staða margra í húsnæðismálum kallaði á það en líka sú staðreynd að við þurfum að fjölga möguleikum fólks til að vera í öruggu húsnæði. Slæm reynsla af stökkbreytingu lána og því hvað mikil skuldsetning  íbúðarhúsnæðis er viðkvæm fyrir sveiflum á fasteignamarkaði, kaupmáttarbreytingum og vaxtahækkunum veldur því að mun fleiri vilja aðra valkosti í húsnæðismálum en 100% lán með tilheyrandi skuldsetningu.

Það er sameiginlegt framtíðarverkefni okkar allra að stuðla að uppbyggingu heilbrigðs og réttláts húsnæðiskerfis með fjölbreyttum valmöguleikum sem koma til móts við þarfir ólíkra hópa. Þau skref sem nýr meirihluti í Reykjavík stígur í samstarfssáttmála sínum eru í þá átt. Ríkisstjórnin hefur enn tækifæri til að koma með í þennan leiðangur og sýna í verki að hún setji heimilin í forgang eins og lofað var fyrir síðustu þingkosningar. Hvort heimilin á leigumarkaði eru með í þeim forgangi fáum við að sjá í fjárlagatillögum ríkisstjórnarinnar í haust.

 

Greinin birtist í DV 13. júní sl.