september, 2014

Umhverfisvænni ferðaþjónusta á Norðurlöndum

Uncategorized

Umhverfisvitund er óvíða í heiminum, meiri en hjá Norðurlandabúum. Mörg veltum því daglega fyrir okkur hvernig við getum minnkað álagið á náttúruna og unnið gegn loftslagsbreytingunum.  En þrátt fyrir þessa jákvæðu staðreynd höfum við enn mikið verk að vinna áður en samfélag okkar getur talist sjálfbært og það á sannarlega við um hina ört vaxandi ferðamannaþjónustu. Vegna þessa hafa  jafnaðarmenn í Norðurlandaráði lagt til að komið verði á fót sérstakri norrænni umhverfisvottun, til að auðvelda og efla  umhverfisvæn ferðalög um Norðurlöndin.

Einfaldar og skýrar merkingar er mikilvæg forsenda þess að neytendur geti með auðveldum hætti tekið umhverfisvænar ákvarðanir í erli dagsins. Það má ekki vera flókið og tímafrekt að velja þann kost sem hefur minnst áhrif á umhverfið og viðskiptavinirnir eiga ekki að þurfa að rannsaka sjálfir hvaða áhrif varan eða þjónustan hefur. Ábyrgðin í þessum efnum liggur ekki síst hjá okkur stjórnmálamönnum enda er það er okkar hlutverk að tryggja hagsmuni neytenda og auðvelda þeim hversdaginn.

Við jafnaðarmenn sjáum það einnig fyrir okkur, að græna hagkerfið skapi sífelt stærri hluta af framtíðarstörfum okkar og með sérstakri umhverfisvottun fyrir norræna ferðaþjónustu getum við tekið mikilvægt skref í þá átt að norræn ferðaþjónusta verði leiðandi í þessum efnum, í stað þess að dragast afturúr.

Norðurlandaráð hefur áður beitt sér fyrir norrænu umhverfismerki með góðum árangri, en norræna umhverfismerkið Svanurinn er í dag þekktasta umhverfismerkið í heiminum. Með auknum áhuga almennings á að nýta sér umhverfisvænar vörur og þjónustu sjáum við síðan hvernig vaxandi fjöldi fyrirtækja á sífelt fleiri sviðum viðskiptalífsins vilja nú bæta umgengni sína við náttúruna með því að óska eftir Svansmerkingu.

Jafnaðarmenn í Norðurlandaráði vilja koma á fót sambærilegu umhverfismerki fyrir ferðaþjónustuna. Með sama hætti og við getum í dag valið að kaupa Svansmerkt þvottaefni til að vernda umhverfið viljum við að í náinni framtíð getum við  sem ferðamenn valið áfangastað eða upplifun sem er umhverfisvænsti kosturinn. Tilraunaverkefni hafa sýnt, að þeir ferðaþjónustuaðilar sem vinna samhvæmt skýrum umhverfisstöðlum sem slíku merki myndu fylgja, geta með umtalsverðum hætti dregið úr neikvæðum áhrifum sínum á umhverfið.

Auk þess að auðvelda almenningi að ferðast með umhverfisvænum hætti, myndi merkið því stórauka umhverfisvitun hjá fyrirtækjunum sjálfum og stuðla að jákvæðri þróun ferðaþjónustunnar í átt til umhverfivænni starfshátta. Umhverfisvernd og sjálfbærni yrði sett skörinni hærra innann ferðaþjónustunnar og slíkt starf gæti skapað umhverfisvottuðum fyrirtækjum mikilvægt viðskiptaforskot.

Norræn umhverfisvottun fyrir áfangastaði og upplifanir ferðaþjónustunnar gæti enn fremur stuðlað að auknum ferðamannastraum til Norðurlandanna. Sameiginlegt umhverfismerki gæfi okkur t.d. kost á  að markaðssetja Norðurlöndin sem umhverfisvænasta svæðið í Evrópu. Með því að undirstrika áherslu Norðurlandanna á umhverfismálin gætum við því fjölgað heimsóknum ferðamanna og fjölgað störfunum, ekki síst á svæðum sem á undanförnum árum hafa þurft að þola fólksfækkun.

Norræn umhverfisvottun fyrir ferðaþjónustana og stóraukin áhersla hennar á sjálfbærni skapar því fleiri störf, grænni störf og gerir hversdaginn fyrir ferðamenn og samfélagið í heild, umhverfisvænni og grænni.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. september sl.  Höfundar eru auk mín þau Per Rune Henriksen, Sjúrður Skaale, Ann-Kristine Johansson og Per Berthelsen en öll erum við fulltrúar í þingflokki Jafnaðarmanna í Norðurlandaráði.