Forsætisráðherra reynir nú að láta landsmenn ræða hvar Landspítalahúsið eigi að vera, svo þeir hætti að ræða lélegan aðbúnað á spítalanum, biðlista eftir heilbrigðisþjónustu, fjárskort og óhóflegan kostnað sjúklinga. Því elsta smjörklíputrix í heimi er að láta Íslendinga rífast um staðsetningu á húsi, svo það sem máli skiptir gleymist sem er innihaldið.
Þegar byggja átti þinghús 1879 vildu menn reisa það á Arnarhóli. Landshöfðingi hafði sérhagsmuni af beit kúa á Arnarhólstúninu og hafnaði. Þá tóku þeir grunn í Bankastrætisbrekkunni, en var svo sagt sem var að það væri ómöguleg staðsetning. Þrátt fyrir aðvaranir var þá tekinn grunnur þar sem bílastæði er nú við Vonarstræti. Sá fylltist af vatni eins og spáð hafði verið. Byggðu menn því það Alþingi sem nú stendur beint fyrir framan hitt húsið í bænum, Dómkirkjuna. Þá höfðu glatast svo miklir fjármunir í rifrildinu öllu að neðsta hæðin var skorin af Alþingishúsinu í sparnaðarskyni.
Látum það ekki líka henda Landspítalann.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars