blog

Til hamingju, Oddný

blog

Oddný Harðardóttir hlaut góða kosningu sem formaður Samfylkingarinnar í dag. Ég óska henni innilega til hamingju með kjörið og alls velfarnaðar í verkefninu. Öllum þeim sem studdu mig í framboðinu með ráðum og dáð í stóru og smáu þakka ég af öllu hjarta.

Verðtryggingarvitleysan

blog

Það er skrýtið að sumir einlægir Evrópusinnar taki að sér málsvörn fyrir hina séríslensku verðtryggingu og verða fyrir vikið eins og talsmenn þess vaxtaokurs sem hún er hluti af og einkennir íslensku krónuna. Þó erum það einmitt við Evrópusinnarnir sem berjumst fyrir raunverulegri framtíðarlausn til að lækka hér vexti verulega. Skilaboð mín til Samfylkingarfólks í þessu efni eru skýr. Við verðum að hætta að halda því fram að allt verði áfram og óhjákvæmilega dýrt og ósanngjarnt þangað til við fáum evruna. Við verðum að breyta stefnu okkar afdráttarlaust, ráðast að vaxtaokri og hafa svör við því hvað við ætlum að gera í peningamálum þangað til evran kemur. Við eigum að skilja sundur fjárfestingar- og viðskiptabanka, brjóta upp fákeppni, draga úr kostnaði og greiða fyrir samkeppni, auka aðhald með því að minnka vægi verðtryggingar, setja skorður við þjónustugjöldum o.fl. o.fl. Því þó við höfum eygt von um hraða inngöngu í annað myntsvæði í neyðarástandinu 2008 þá er nú ljóst að það mun taka tíma að komast í evruna. Þangað til þurfum við að hafa pólitík í stað þeirrar nauðhyggju að ekkert verði að gert þangað til.

(meira…)

Eru erlend epli eitruð?

blog

Það á að vera okkur öllum verulegt umhugsunarefni að leiðandi alþjóðafyrirtæki á borð við Apple telji Ísland ekki meðal helstu valkosta til byggingar og reksturs gagnavers. Á síðasta kjörtímabili rákumst við á miklar hindranir við uppbyggingu gagnavera sem selja þjónustu sína öðrum fyrirtækjum, sem fyrst og fremst má rekja til þess að Ísland er ekki í Evrópusambandinu. Sú staða landsins gerir það að verkum að fyrirtæki innan Evrópusambandsins  geta ekki dregið virðisaukaskatt frá skattgreiðslum sínum vegna þjónustukaupa hér á landi, enda erum við utan hins sameiginlega virðisaukaskattkerfis ESB. Til að reyna að gera fyrirtækjum engu að síður kleift að stunda þessa starfsemi við svipuð skilyrði og í Evrópusambandinu voru sett íslensk sérlög sem ESA úrskurðaði síðar ógild þar sem í þeim fælist ólögmæt ríkisaðstoð. Enn hefur því ekki tekist að skapa gagnaverum sem selja þriðja aðila þjónustu sambærilega stöðu og samkeppnisfyrirtækjum sem vaxið hafa hratt á undanförnum árum, t.d. í Svíþjóð og Finnlandi. Í tilfelli Apple er hins vegar um eigin rekstur að ræða og því hefði staða okkar utan Evrópusambandsins ekki átt að hindra að við værum samkeppnishæf um verkefnið.

Til þessa hafa þrír þættir þótt skipta miklu um staðarval slíkra verkefna. Í fyrsta lagi ívilnanir og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi, í öðru lagi aðgangur að hagkvæmri grænni orku og í þriðja lagi náttúruleg kæling. Danmörk er sem kunnugt er fátæk af þeim fjöllum sem helst skapa auðlindir í fallvötnum og jarðhita, þar er engum ívilnunum til að dreifa fyrir fjárfestingar af þessu tagi og ekki er náttúruleg kæling meiri þar en hér. Það hljóta því að vakna áleitnar spurningar sem lúta að stöðu Íslands að öðru leyti; svo sem smæð efnahagskerfisins, staða gjaldmiðilsins og stjórnmálaástandið. Þegar litið er til þess hve illa hefur gengið að fá erlenda fjárfestingu inn í landið og hina erfiðu stöðu sem gjaldeyrishöftin skapa skyldi maður ætla að stjórnvöld væru tilbúin til þess að greiða sem mest fyrir verkefnum af þessu tagi. Það gera forystumenn stærri þjóða með sterkari samkeppnisstöðu en við með markvissum hætti. Þess vegna sætir það furðu að forsætisráðherra skuli ekki hafa verið tilbúinn að leggja nokkuð á sig til að skýra og undirstrika jákvæða afstöðu Íslendinga og íslenskra stjórnvalda til svona stórs og mikilvægs verkefnis eins og gagnavers á vegum Apple, eða annarra sambærilegra. Eins og við vitum snýst ákvörðun ekki bara um viðkomandi fyrirtæki því ljóst er ef markaðsráðandi aðili velur ákveðna staðsetningu munu fjölmörg önnur fyrirtæki fylgja í kjölfar þess.

En kannski er það viðhorfið til erlendrar fjárfestingar sem er vandamálið en sem kunnugt er hefur forsætisráðherra líkt erlendri fjárfestingu við skuldsetningu og sagt að best sé að innlend fjárfesting fjármagni nýsköpunarverkefni. Það eru liðin sjö ár frá hruni og eina raunhæfa leiðin til að stuðla að pólitískum og efnahagslegum stöðugleika og tryggara rekstrarumhverfi er aðildarumsóknin að ESB. Með því að draga umsóknina til baka býður ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks því miður aðeins upp á hinn kostinn; atvinnustefnu og framtíðarsýn sem snýst fyrst og fremst um fisk, hráefnavinnslu í stóriðjuverum og áburðarverksmiðjur, er með öðrum orðum föst í 20. öldinni en horfir lítt til tækifæra ungra Íslendinga á hinni tuttugustu og fyrstu. Þess vegna þarf nýja forystu fyrir landið.

Flokksvalið stendur yfir – takið þátt

blog

Netkosning í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík stendur nú yfir og lýkur á morgun, laugardag, klukkan 18.

Á morgun geta þeir sem þurfa aðstoð við kosninguna, hafa ekki aðgang að tölvu og heimabanka eða vilja ekki kjósa rafrænt farið í Laugardalshöllina og kosið þar. Opið verður frá 10-18.

Leiðbeiningar um hvernig á að bera sig að við að kjósa á netinu er að finna hér á heimasíðu Samfylkingarinnar.

Fyrsta skref er að fara inn á samfylking.is

Þar er smellt á hnappinn/hlekkinn Flokksval 2012

Þá flyst kjósandinn á síðu þar sem hann á að slá inn kennitölu sína.

Að því loknu er lykilorð sent sem rafrænt skjal í heimabanka kjósandans. Næsta skref er því að skrá sig inn á heimabankann sinn og sækja lykilorðið. Nokkur tími getur liðið þar til lykilorðið birtist í heimabankanum. Það finnur maður í yfirliti yfir rafræn skjöl eða netyfirliti.  Á Flokksvalssíðunni á vef Samfylkingarinnar geta kjósendur nálgast leiðbeiningar um hvar lykilorðið er að finna en það er nokkuð mismunandi eftir bankastofnunum hvernig uppsetningunni í heimabönkunum er háttað.

Þegar lykilorðið hefur birst er heimabankanum er það afritað eða slegið inn í gluggann á Flokksvalssíðunni. Þá er hægt að opna kjörseðil.

Þar eru  nöfn frambjóðenda í þeirri röð sem dregið hefur verið um. Þarna á kjósandi að raða frambjóðendum í sæti 1-8. Ég bið um stuðning í 2. sætið.

 

 

Íslensk tungutækni

blog

Á degi íslenskrar tungu er fagnaðarefni að íslensk málnefnd hefur veitt viðurkenningar fyrir tungutækniverkefni. Þær hlutu Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins, og Jón Guðnason og Trausti Kristjánsson, kennarar og vísindamenn við Háskólann í Reykjavík.

Allir hafa þeir unnið mikilvægt starf í tungutækni, sem breytir stöðu íslenskrar tungutækni og íslenskrar tungu. Íslenskan hefur fram að þessu verið eftirbátur annarra tungumála á þessu sviði.

Verðlaunahafarnir hafa einnig unnið starf sem kemur blindum og sjónskertum Íslendingum að miklu gagni og veitir okkur svipaða möguleika til að nota nýjustu tölvutækni og aðrar þjóðir búa við.

Blindrafélagið kynnti fyrr í ár nýjan íslenskan talgervil. Það er hugbúnaður sem breytir texta í tal. Hann gjörbreytir möguleikum til að nota símtæki, tölvur og tölvustýrðan búnað eins og hraðbanka.

Talgervillinn byggist á stórum íslenskum málgagnasöfnum og vandaðri greiningu á framburði íslenskrar tungu. Íslensk málnefnd veitir Kristni Halldóri viðurkenningu fyrir hans ötula starf að þessu verkefni.

Í Háskólanum í Reykjavík voru Jón og Trausti lykilmenn í því að nýr talgreinir fyrir íslensku, sem hægt er að nota í farsímum með Android-stýrikerfinu, varð að veruleika í lok sumars.

Talgreinir er hugbúnaður sem skilur talað mál og getur framkvæmt skipanir sem eru settar fram í töluðu máli. Hann gerir m.a. mögulegt að tala við símann sem þá breytir töluðu máli í texta fyrir leit eða sms-skilaboð. Þetta er búnaður sem hefur lengi verið til fyrir ensku og ýmis önnur tungumál. Nú er hann einnig til á íslensku.

Talgervillinn og talgreinirinn eru auðvitað mjög mikilvæg tækni fyrir okkur blinda og sjónskerta. Til þessa höfum við notað frumstæðar, íslenskar tölvuraddir sem ekki ganga með nýjustu farsímum og fleiri tækjum sem nú eru hluti daglegs lífs. En fyrst og fremst er þetta starf Blindrafélagsins og Háskólans í Reykjavík mikilvægt fyrir vöxt og viðgang íslenskrar tungu.

Til þess að rækta íslenskuna sem okkar samskiptamál í framtíðinni verðum við að fylgja þróun tækninnar á þessu sviði þannig að bíllinn, síminn, tölvan og tækin öll tali og skilji íslensku eins og önnur tungumál.

 

(Birtist í Fréttablaðinu 16. nóvember)

Flokksvalið hefst á miðnætti, utankjörstaðakosning í dag

blog

Rafræn kosning í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík hefst á miðnætti í kvöld og hún stendur yfir til klukkan 18. laugardaginn 17. nóvember. Ég óska eftir stuðningi í 2. sætið og þar með efsta sætið í öðru hvoru kjördæminu.

Leiðbeiningar um hvernig á að bera sig að við að kjósa á netinu er að finna hér á heimasíðu Samfylkingarinnar.

Þeir sem þurfa aðstoð við kosninguna og eins þeir sem ekki nota heimabanka eða hafa ekki aðgang að tölvu geta kosið í Laugardalshöll á laugardeginum. Þar verður opið frá klukkan 10-18.

Síðasti dagur utankjörfundaratkvæðagreiðslunnar er í dag; þá er hægt að kjósa á skrifstofum Samfylkingarinnar á Hallveigarstíg 1 frá klukkan 16-19.

Hér er hægt að kynna sér frambjóðendur í flokksvalinu á heimasíðu Samfylkingarinnar og lesa kynningarblað sem dreift var með Fréttablaðinu á dögunum.

60 ára afmælisþing Norðurlandaráðs

blog

Í dag hefst Norðurlandaráðsþing í Helsinki, helsti viðburður norrænnar samvinnu ár hvert. Norðurlandaráð á 60 ára afmæli í ár og því ber að fagna þar sem ráðið er í lykilhlutverki við að bæta hag almennings á Norðurlöndum með frumkvæði um norrænt samstarf. Verkefnin eru á ýmsum sviðum, á sviði efnahagsmála, menningar- og menntamála, borgara- og neytendamála, umhverfismála, og í síauknum mæli á sviði alþjóðamála.

Norðurlandaráðsþingið er einstakt að því leyti að þar eiga sér stað umræður milli ráðherra allra Norðurlandanna við þingmenn frá öllum löndunum. Í ár verða sérstakar umræður ríkisstjórnaleiðtoga landanna og stjórna Færeyja, Grænlands og Álandseyja um efnahagslegar og aðrar áskoranir norrænna velferðarkerfa. Þá verða umræður með þátttöku norrænu utanríkisráðherranna um alþjóðamál og öryggis- og varnarmál, og ráðherrar norrænna samstarfsmála svara óundirbúnum munnlegum fyrirspurnum þingmanna.

Landamærahindranir, þ.e. reglur og venjur innan stjórnsýslunnar sem hindra för og starf einstaklinga og fyrirtækja milli Norðurlanda skv. norrænum samningum, hafa verið í brennidepli í starfi Norðurlandaráðs á árinu og verða það einnig á Norðurlandaráðsþinginu. Í apríl fóru fram samtímis í norrænu þjóðþingunum umræður um landamærahindranir þar sem rauði þráðurinn í umræðunum var hvernig koma mætti í veg fyrir myndun hindrana við lagasetningu og innleiðingu ESB-gerða. Fyrir Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki liggur tillaga um að styrkja lagalega stöðu norræns almennings samkvæmt norrænum samningum með norrænum umboðsmanni. Ætlast er til að norrænir borgarar sem telja sig rekast á landamærahindranir milli Norðurlanda geti leitað til umboðsmanns, auk þess sem hann ráðlegði Norrænu ráðherranefndinni, norrænum ríkisstjórnum og norrænum þjóðþingum um hvernig komast megi hjá myndun nýrra stjórnsýsluhindrana við lagasetningu og innleiðingu ESB-gerða.

Í tengslum við Norðurlandaráðsþingið verða einnig afhent verðlaun Norðurlandaráðs en þess má geta að tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2012 hlýtur íslenska tónskáldið Anna Þorvaldsdóttir fyrir verk sitt Dreymi.

(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu þann 30. október 2012.)

Til stjórnenda fjármálafyrirtækja

blog

Eftirfarandi bréf sendi ég í dag til stjórnenda fjármálafyrirtækja:

Í tilefni af dómi Hæstaréttar Íslands fimmtudaginn 18. október sl. í máli Arion banka gegn Borgarbyggð og að höfðu samráði við sérfræðinga tel ég rétt að koma á framfæri nokkrum sjónarmiðum. Það geri ég vegna þess að um afstöðu mína hefur verið spurt og í ljósi þeirrar eftirlitsskyldu sem þingmönnum ber
að hafa í huga í sínum störfum:

 Ekkert er því til fyrirstöðu að hefja endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu, sbr. þorra lána í F flokki gengislána skv. skilgreiningum FME, sem voru í íslenskum krónum að öllu leyti.

 Einboðið er að endurreikna skuli öll lán sem voru með ólögmætri gengistryggingu, greitt var af og festa var komin á í framkvæmd. Hvort „festa í framkvæmd“ er þrjár greiddar afborganir eða fleiri verða fjármálafyrirtæki sjálf að leggja mat á, en ljóst má vera að ekki þurfi 17 greiddar afborganir til að festa komist á framkvæmd. Við þetta mat hljóta fjármálafyrirtæki að hafa í huga hve óheppilegt það væri ef réttur viðskiptavina þeirra yrði í slíku mati enn vanmetinn.

 Þá er óhjákvæmilegt að staðið verði við yfirlýsingar um að viðskiptavinir glötuðu ekki réttindum með samningum þannig að þeir njóti sambærilegra endurútreikninga og ef greitt hefði verið.

 Ég hvet til þess að fyrri eigendum eigna sem fjármálafyrirtæki eða félög þeim tengd hafa enn umráð yfir og hafa verið teknar af eigendum sínum á uppboðum eða í skiptameðferð sem orsakast hefur að hluta eða í heild af ólögmætri gengistryggingu verði boðið að slíkir gjörningar gangi til baka að uppfylltum skilyrðum.

 Ekki eru gerðar athugasemdir við að reyna þurfi á fyrir dómstólum stöðu fyrirtækja með sérþekkingu á fjármálasviði, eða einstaka skammtíma fyrirgreiðslu sem varðað getur mikla hagsmuni. Þá er og ljóst að enn á eftir að fá dómsniðurstöðu um þá sem hvorki greiddu né sömdu. Þá eru ekki öll gengislán með ólögmætri gengistryggingu og enn á eftir að reyna á ýmis ákvæði neytendaréttar. En þetta á ekki að varna endurútreikningum hjá þorra almennings og venjulegum fyrirtækjum. Mikil undirbúningsvinna var unnin við síðustu endurútreikninga með flokkun lána og tölvuskráningu. Er eindregið hvatt til þess að endurútreikningum verði lokið um áramót svo gera megi upp skattárið og ársreikninga fyrirtækja á réttum grunni, sé þess nokkur kostur.

Ólögmæt gengistrygging lána er ein samfelld hörmungasaga sem skaðað hefur fólk, fyrirtæki og fjármálakerfið varanlega. Ítrekað hefur verið gengið of langt gagnvart fólki og fyrirtækjum í kröfugerð og aðförum. Í því ljósi verður nú að krefjast þess af fjármálafyrirtækjum að þau fari fram af hófsemi gagnvart viðskiptavinum sínum, hraði endurútreikningum og gæti ítrustu varúðar við innheimtu lána sem réttaróvissa ríkir um og leggi sig fram við að flýta úrlausn þeirra álitaefna sem út af standa.

Landamærahindranir ræddar í norrænu þjóðþingunum

blog

Í gær fór fram á Alþingi umræða um landamærahindranir á Norðurlöndum en slíkar umræður hafa þegar farið fram eða munu á næstunni fara fram í öllum þjóðþingum Norðurlanda. Sem formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs þekki ég vel hversu miklum vandræðum slíkar hindranir geta valdið fólki sem flyst milli Norðurlandanna og fyrirtækjum sem starfa þvert á landamæri þeirra. Oft er um að ræða óvissu um flutning ýmissa réttinda yfir landamæri og margir lenda á milli kerfa og þurfa með töluverðri fyrirhöfn að leita réttar síns. Það er ekki aðeins mikilvægt að við norrænir þingmenn fjarlægjum þær landamærahindranir sem eru til staðar í dag, heldur þarf við alla löggjöf og kannski sérstaklega við innleiðingu Evrópugerða, að gæta samræmis milli Norðurlandanna svo við séum ekki sífellt að skapa nýjar hindranir.

Ég læt hér ræðu mína úr umræðunum fylgja með:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir skýrslur þeirra og fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Talsverð umræða hefur verið um það, bæði meðal norrænna þingmanna og norrænna ráðherra, að á Norðurlöndunum séu sífellt að skapast nýjar landamærahindranir og það sé nauðsynlegt að herða vinnuna við að fækka þeim og afnema þær, það mál þurfi að setja í forgang. Það er reglulegur liður á málaskrá forsætisráðherra allra norrænu landanna og í kjölfar umræðu á hinum norræna vettvangi fóru forseti Norðurlandaráðs, formaður norrænu ráðherranefndarinnar og formaður þeirrar nefndar sem fer með landamærahindranamálin fram á það við forseta norrænu þjóðþinganna að gefinn yrði sérstakur tími í öllum þjóðþingunum til að ræða þessi málefni og hvernig megi vinna að þeim með markvissari hætti. Ég þakka forsetunum fyrir að hafa orðið góðfúslega við því. Það er sannarlega ekki einfalt mál að skipuleggja sams konar umræður í þjóðþingum í átta löndum á sama tíma eins og tekist hefur og er full ástæða til að þakka fyrir það.

Ástæðan fyrir því að þessi mikla áhersla er lögð hér á er sú að þingmenn og forustur þjóðþinganna og ríkisstjórnanna þekkja það og vita að þó að landamærahindranir séu út af fyrir sig oft býsna tæknilegs eðlis og snúist að miklu leyti um skrifræði og lausnir á reglugerðum eða tæknihindrunum einhverjum, er hin hliðin á því að þær bitna á fólki. Það er fólk sem verður fyrir landamærahindrununum og það getur haft býsna alvarlegar afleiðingar fyrir það vegna þess að ef ekki er vel að gætt getur fólk einfaldlega misst mikilvæg réttindi sem skipta grundvallarmáli í daglegu lífi þess, m.a. rétt til félagslegrar aðstoðar, óljóst getur orðið um hvar framfærsluskyldan er og fólk jafnvel orðið fyrir því að vera vísað úr landi.
Þess vegna skiptir það gríðarlega miklu máli fyrir íbúa Norðurlandanna og auðvitað fyrst og fremst þá sem sækja nám og vinnu á milli landanna, að unnið sé hratt og markvisst í þessu máli þannig að þau vandamál sem skapast séu leyst jafnóðum. Þar hefur löggjafinn talsverðu hlutverki að gegna og við þurfum að huga að því með hvaða hætti við getum starfað að lagasetningu á Norðurlöndunum þannig að ekki skapist í sífellu nýjar landamærahindranir, því að það er til lítils að leysa þær sem fyrir eru ef við erum alltaf að skapa nýjar og nýjar hindranir í störfum okkar.

Þess vegna er það álit mitt og margra annarra að við lagasetningu á Norðurlöndunum þurfum við sérstaklega að huga að því í hvert og eitt sinn hvort ný löggjöf leiði af sér nýjar landamærahindranir á því svæði.

Við höfum fengið tiltölulega nýlega rýni á vegum forsætisráðuneytisins og lagaskrifstofunnar þar á þau stjórnarfrumvörp sem hér eru lögð fram og er eðlilegt að það sé fastur liður í rýni frumvarpa að kanna það áður en stjórnarfrumvörp eru lögð fram hvort af þeim leiði nýjar landamærahindranir.
Við höfum starfsmenn í Stjórnarráðinu sem sinna sérstaklega norrænum málefnum og hafa þekkingu þar á sem gætu lagt gjörva hönd á plóg hér. Auðvitað er það ekki síst mikilvægt við meðferð mála sem koma frá utanríkisráðuneytinu, því að það er jú innleiðing á tilskipunum á Evrópska efnahagssvæðinu sem hefur ekki síst skapað nýjar landamærahindranir þegar Norðurlöndin fara ólíkar leiðir við að innleiða slíkar reglugerðir. Auk þess að rýna okkar eigin frumvörp betur og kanna í hvert og eitt sinn hvort við séum að skapa nýjar hindranir á milli Norðurlandanna, þurfum við að auka samvinnu á milli Norðurlandanna um það með hvaða hætti Evróputilskipanir eru innleiddar og gæta þess í undirbúningi lagasetningar að menn tali saman yfir landamæri norrænu landanna. Og þótt menn hafi ákveðið svigrúm við innleiðingu Evróputilskipana þurfa þeir að gæta þess af fremsta megni að skapa ekki nýjar landamærahindranir á Norðurlöndum við innleiðinguna.

Það er ekki bara mikilvægt að vinna á heimavelli og í aukinni samvinnu á milli norrænu þjóðþinganna, heldur er ekki síður mikilvægt að við undirbúning Evrópulöggjafarinnar séu norrænir þingmenn vakandi og fylgist með því sem verið er að gera í Evrópuþinginu. Við í þinghópi jafnaðarmanna í Norðurlandaráði, sem ég veiti forustu, höfum lagt áherslu á að reglulega sé samráð á milli þingmanna frá Norðurlöndunum, af norrænu þjóðþingunum, við norrænu þingmennina í Evrópuþinginu til að ganga úr skugga um hvaða löggjöf og reglur verið er að undirbúa á Evrópuvettvangi sem haft geta áhrif á næstu árum á lagaumhverfi okkar, og kanna með hvaða hætti við getum reynt að hafa mótandi áhrif á þá löggjöf meðan hún er á undirbúningsstigi. Það getur verið mikilvægt að koma að sjónarmiðum sínum áður en hinn evrópski réttur er orðinn til. Til þess að gera það er beinskeyttast að beita áhrifum norrænu þingmannanna, og eftir atvikum þingmanna Eystrasaltsríkjanna í Evrópuþinginu, með nánu samstarfi við þá.

Hvaða máli skiptir það? Það getur til að mynda skipt gríðarlega miklu máli um frjálsa verslun og viðskipti á milli landanna og það skiptir verulega máli um að skapa vinnu og hagvöxt í öllum norrænum löndum. Tökum byggingariðnað sem afmarkað þar dæmi þar um. Það er því miður svo og verður að játa að reglur í norrænu löndunum um byggingar og byggingarefni eru með ýmsum og ólíkum hætti. Það gerir það að verkum að fyrirtæki sem framleiða vörur fyrir þennan markað geta oft og tíðum ekki beint þeim vörum inn á allan hinn norræna markað heldur aðeins hluta hans eða þær þurfa að uppfylla sérkröfur til að komast inn á aðra hluta hans. Það er augljóst að af því er gríðarlegt óhagræði. Það dregur úr samkeppni og möguleikum á því að efla framleiðslu og fyrirtæki á þessu sviði á öllum Norðurlöndunum og er því sameiginlegt hagsmunamál fyrir svæðið allt að farið sé yfir þetta regluverk og leitast við að fella niður tæknihindranir sem eru á því að flytja húshluta eða byggingarefni, hvort sem það eru gluggar, hurðir, einangrunarefni eða hvað það nú kann að vera, á milli Norðurlandanna til þess að lækka kostnað í þeim geira til hagsbóta fyrir fyrirtæki og heimili á öllum Norðurlöndunum. Það verður til þess að auka samkeppni en auðvitað líka til þess að skapa fyrirtækjunum stærri heimamarkað og þar af leiðandi meiri möguleika á að vaxa í þá stærð þannig að þeir geti látið að sér kveða á alþjóðlegum mörkuðum.

Varðandi landamærahindranir fjöllum við býsna mikið um þá einstaklinga sem til okkar leita og verða fyrir því að fá ekki framfærslu eða stuðning í fæðingarorlofi eða fá ekki inngöngu í háskóla eins og þeir eiga rétt á eða annað slíkt. Það er niðurstaða mín eftir nokkurra ára setu í Norðurlandaráði að það sé mjög mikilvægt að borgararnir hafi einhvern skýran farveg fyrir umkvartanir sínar í þessum efnum af mörgum ástæðum. Ein er sú að það getur verið kostnaðarsamt að reka mál og oft og tíðum á hér í hlut fólk sem er um skamman tíma í tilteknu landi og er ekki mikilli aðstöðu til þess að sækja rétt sinn.

Ég hef því flutt tillögu á vettvangi forsætisnefndar Norðurlandaráðs um að við komum á fót embætti norræns umboðsmanns, svipað og embætti umboðsmanns Alþingis, þar sem Íslendingar geta sent inn erindi sín ef þeir eru óánægðir með hvernig brotið hefur verið á þeim í stjórnsýslunni. Þá getum við á norrænum vettvangi beint slíkum erindum til norræns umboðsmanns sem kannar málin og gengur í þau fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga.

Vorþing Norðurlandaráðs í Alþingi

blog

Það er viðeigandi að í dag, á degi Norðurlandanna, er vorþing Norðurlandaráðs haldið í Reykjavík. Verður það í fyrsta sinn sem þingfundur ráðsins er haldinn í Alþingishúsi Íslendinga, en hjá hinum norrænu ríkjunum hefur það jafnan þingað í þjóðþingum. Það er sérstakt fagnaðarefni, bæði fyrir Alþingi og þjóðina alla og samstarf hennar við aðrar norrænar þjóðir.

Þess má geta að í dag eru liðin nákvæmlega fimmtíu ár frá því að Helsingfors -samningurinn var samþykktur, sem er grundvallarsamningur norrænnar samvinnu.

Norrænir þingmenn hafa áður fundað í Alþingi, árið 1947, þegar Norræna þingmannasambandið hélt þar fund. Helstu málin sem rædd voru á þeim fundi voru fiskveiðimál og alþjóðlegt samstarf þingmanna, tvö mál mikilvæg Íslendingum.

Á dagskrá þingfundar Norðurlandaráðs í dag eru velferðarmál, jafnréttismál og norðurslóðir, sem jafnframt eru mikilvæg mál fyrir okkur Íslendinga. Fagnefndir Norðurlandaráðs afgreiddu í gær í Reykjavík nýjar tillögur um norðurslóðir í takt við norrænar áherslur. Verði tillögurnar samþykktar verða þær að tilmælum til allra norrænu ríkisstjórnanna og Norrænu ráðherranefndarinnar um samstilltar aðgerðir, tilmælum sem ríkisstjórnirnar og ráðherranefndin leitast við að uppfylla.

Af tillögum Norðurlandaráðs um norðurslóðir vil ég sérstaklega nefna hér tillögu um sameiginlega stefnu Norðurlanda í málefnum norðurslóða. Norrænu ríkin hafa öll sett fram stefnu um norðurslóðir þar sem er að finna sameiginlega sýn á mörgum sviðum en einnig ólíka sýn á öðrum. Norðurlandaráð vill beina þeim tilmælum til norrænu ríkisstjórnanna að þær sameinist um sameiginlega stefnu í málefnum norðurslóða svo vinna megi að sameiginlegum markmiðum. Með þeim hætti telur Norðurlandaráð að Norðurlöndin geti aukið áhrifamátt sinn á alþjóðavettvangi í málefnum norðurslóða.

Markmið tillögunnar er ekki að mynda nýjan alþjóðavettvang heldur að sameinast um pólitíska framtíðarsýn og styrkja samstarf norrænu ríkjanna í Norðurskautsráðinu, þar sem þau gegna mikilvægu hlutverki, en eiga jafnframt í góðu samstarfi við önnur aðildarríki ráðsins. Í þessu sambandi má nefna sameiginlega norræna framtíðarsýn um umhverfismál og um lífskjör íbúa norðurslóða, þar á meðal frumbyggja. Mikilvægt er að framþróunin á svæðinu, sem er hröð, verði á þann hátt að þar haldist í hendur mikilvægir hagsmunir íbúa, náttúru og nýtingar auðlinda norðurslóða.

(Grein sem birtist í Fréttablaðinu 23. mars 2012)