Merki: ‘fyrirspurn’

Umræður á þingi: Verða kosningar í haust?

Þingræða

Í tíma fyrir óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi 23. maí 2016 tók ég umræðu við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, um hvort ætlunin væri að efna fyrirheit um þingkosningar í haust. Tilefni fyrirspurnarinnar voru óvæntar yfirlýsingar formanns Framsóknarflokksins. Öll umræðan er hér en texti með mínu framlagi til hennar er hér að neðan:

Fyrri ræðan:

Virðulegur forseti. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa ítrekað gefið út um það yfirlýsingar að gengið verði til kosninga í haust. Síðari hluti októbermánaðar hefur þar verið nefndur, en nú spyr ég: Má treysta því að þær yfirlýsingar standi? Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að formaður Framsóknarflokksins, sem nýkominn er úr leyfi, gaf út opinberar yfirlýsingar um það í gær að ekki væri nauðsynlegt að ganga til kosninga í haust. Nú hafa þær yfirlýsingar bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra verið nokkuð afdráttarlausar. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að þetta kjörtímabil verði stytt um eitt þing og meðan formaður Framsóknarflokksins var í leyfi hefur hér verið afgreitt stærsta húsnæðismálið, sem var mál sem brann mjög á Framsóknarflokknum að þyrfti að ljúka. Í gær lukum við aflandskrónumálinu sem fjármálaráðherra hafði lagt ríka áherslu á.

Ég spyr þess vegna hvort við megum ekki treysta því að sú starfsáætlun sem lögð hefur verið og þau áform að efna til kosninga í haust standist. Það er mikilvægt fyrir starfið í þinginu en það er líka mikilvægt fyrir lýðræðislegt starf utan þingsins og undirbúning flokka, bæði sem eru á þingi og eru utan þings, um framboð og aðra slíka hluti og nauðsynlegt er að hæstv. fjármálaráðherra taki af öll tvímæli um hvaða fyrirætlanir eru uppi.

(meira…)