Með eftirfarandi bréfi kynnti ég Samfylkingarfólki í síðustu viku formannsframboð mitt:
Kæri félagi,
Samfylkingin þarfnast breytinga. Samfylkingarfólk hefur krafist landsfundar og formannskjörs sem framkvæmdastjórn hefur ákveðið að flýta til vors. Formaðurinn sendi flokksmönnum bréf þar sem hann segir að þessi alvarlega staða hafi skapast á löngum tíma og sé á sameiginlega ábyrgð okkar. Þar er tæpt á mistökum sem við getum verið sammála eða ósammála um í einstökum atriðum en ég fagna því tækifæri sem skapast hefur til opinnar umræðu í flokknum um þessi mál og mörg fleiri.
Mistök eru til þess að læra af. Kreppa stjórnmála og ekki síst okkar jafnaðarmanna er ekki séríslensk þótt hún djúp sé hér. Hún er sprottin af þeirri tilfinningu fólks að peningaöflin ráði, stjórnmálamenn séu í stjórnmálum bara sjálfs sín vegna og flokkarnir svíki gefin loforð.