Merki: ‘húsnæðismál’

Húsnæðismál ungs fólks í forgang

Myndbönd


 

Unga fólkið núna er fyrsta kynslóðin sem býr við lakari kjör en kynslóðirnar á undan.

Ástandið á húsnæðismarkaðnum og kjör þeirra á vinnumarkaði eru að skapa þeim erfiðari skilyrði heldur en við sem á undan vorum höfðum.

Sem jafnaðarmenn þá þurfum við að taka á þessu og ekki síst húsnæðismál unga fólksins verða að vera í algjörum forgangi á nýju kjörtímabili.

Sýnum í verki

Blaðagreinar

Þegar þrír af fjórum kjósendum flokks hætta að styðja hann snýst það ekki um umbúðir heldur innihald, um stefnu og trúverðugleika. Til að snúa vörn í sókn dugar ekki að tala. Samfylkingin þarf að gera.

Við þurfum að skapa traust með því að segja afdráttarlaust að við munum ekki mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum bak kosningum. Hann er ósamstarfshæfur vegna spillingarmála og hefur heitið því að standa gegn öllum kerfisbreytingum. Það er þess vegna sjálfsagt að eyða efasemdunum sem urðu til 2007 með því að ákveða strax að kjósi fólk okkur fær það ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Stjórnarskrármálið er líka stórt trúverðugleikamál. Við eigum strax að semja við aðra stjórnarandstöðuflokka um hvernig það verði klárað að kosningum loknum. Svo við getum með sanni sagt að við höfum fylgt þessu lykilmáli í baráttunni gegn spillingu og fyrir lýðræði alla leið. Það sé þegar umsamið og lýst því með hvaða hætti því verði lokið.

Þá eigum við að ná stjórnarandstöðunni saman um fá en skýr sameiginleg loforð sem verði að veruleika fáum við til þess meirihluta. Fá en skýr – til að skapa traust á því að þeim megi ná.

Við þurfum líka að henda ýmsum áherslum sem urðu til í bólunni. Sækja nýjan kraft í grunngildi jafnaðarstefnunnar. Almennt opinbert heilsugæslukerfi og opinber spítali sem ekki sligar fólk með gjöldum. Félagslegar lausnir í húsnæðismálum eins og við byggðum upp á síðustu öld, svo sem verkamannabústaðir, kaupleiga og húsnæðissamvinnufélög. Evran er besta langtímalausnin en við verðum að horfast í augu við að hún er ekki jafn nærtæk og áður var. Þess vegna þurfum við að kynna miklu eindregnari stefnu gegn óhóflegum bankakostnaði og okurvöxtum þangað til evran fæst.

(meira…)

Leigjendur og kaupendur fái sömu bætur

Uncategorized

Fréttir segja okkur að nú sé enn verra að leigja sér íbúð en áður. Hefur það samt oftast verið dýrt, erfitt og óöruggt. Þetta ástand varð til þess að við í Samfylkingunni lögðum fram á Alþingi í síðustu viku  tillögur um aðgerðir fyrir leigjendur. Það vekur bjartsýni að margir flokkar vilja gera eitthvað í málum leigjenda.

Sanngirnismál

Eitt það skrýtnasta í okkar íbúðamálum er að oft fá þeir meiri bætur frá kerfinu sem kaupa sér íbúð, en hinir sem leigja fá minna. Samt eru þeir sem kaupa oft með meiri peninga milli handa en hinir sem leigja. Réttlátara væri auðvitað að fólk fái jafn miklar bætur hvort sem það kaupir eða leigir og bætur miðist við laun og eignir hvers og eins. Við viljum að fólk fái sömu bætur, hvort sem það velur að kaupa eða leigja. Við lögðum það til á síðasta kjörtímabili og nú á þessu.

Það væri líka skrýtið í íbúðamálunum ef þeim sem borga af íbúðalánum verður hjálpað vegna verðbólgunnar í hruninu, en ekki þeim sem borga leigu. Mikið af hækkun húsaleigu er vegna verðbólgu í hruninu. Ef það á að lækka afborganir þeirra sem urðu fyrir verðbólguskotinu væri jafn rétt og sanngjarnt að leiðrétta líka húsaleigu þeirra sem urðu fyrir sama verðbólguskoti.

Öryggi fjölskyldunnar

Óöryggi þeirra sem leigja hefur oft á tíðum verið jafn mikill galli og há leiga.  Allt of algengt er að fólk hafi þurft að flytja aftur og aftur úr einni leiguíbúð í aðra. Ekki hefur það síst verið vont fyrir börnin sem hafa jafnvel þurft að skipta oft um skóla. Sterk leigufélög eins og hjá borginni, Öryrkjabandalaginu og nú síðast í gegnum Íbúðalánasjóð auka framboð af öruggum leiguíbúðum til lengri tíma. Þess vegna er rétt að fjölga slíkum félögum og efla þau sem fyrir eru.

Framboð og fjölbreytni

Með því að fjölga leiguíbúðum gerum við bæði að lækka leigu og fjölga öruggum langtíma leiguíbúðum. Við leggjum til átak þar sem bæði sveitarfélög og ríki veita styrki til þeirra sem vilja koma upp langtíma leiguíbúðum. Þá er gert ráð fyrir að ráðstafa lóðum í eigu ríkisins til leiguíbúða. Með því síðan að leigjendur fái sömu bætur og kaupendur íbúða verður staða leigjenda mun betri og jafnari en hún er nú.

Fleiri en áður vilja nú leigja íbúð en kaupa og eðlilegt að kerfið komi til móts við fólk með svipuðum hætti hvort sem það velur. Hér á landi hefur því miður verið minna af leiguíbúðum en í nágrannalöndunum og sérstaklega íbúðum sem ætlaðar eru til öruggrar langtímaleigu. Hrunið sýndi mörgum að það getur komið sér illa að eiga íbúð ef maður skuldar mikið í henni og sveiflur eru miklar eins og á Íslandi. Langtímaleiga getur verið fyrir marga jafn góður eða betri valkostur og íbúðakaup.

Þegar aukin réttindi leigjenda hafa verið tryggð eigum við í framhaldinu að huga að fleiri möguleikum eins og búseturéttaríbúðum, kaupleigu og öðrum leiðum sem aukið geta fjölbreytni og valkosti okkar í íbúðamálum.

 

Pistillinn birtist í DV 16. september sl.