Merki: ‘menntamál’

Framtíðarstjórnin

Blaðagreinar

Samfylkingin var stofnuð til þess að hugsjónin um jöfnuð, frelsi og samábyrgð yrði sterkt afl í íslensku samfélagi. Hvort sem flokkurinn hefur mælst stór eða lítill hef ég talað fyrir samstarfi við önnur félagshyggjuöfl. Því að það þarf meirihluta til að stjórna.

Til að kjósendur hafi skýran valkost er samstaða stjórnarandstöðuflokkanna mikilvæg fyrir komandi kosningar. Það á ekki að bjóða kjósendum upp á baktjaldamakk eftir kjördag. Samfylkingin á að segja skýrt að atkvæði greitt flokknum sé atkvæði með samstarfi við félagshyggjuflokka en ekki við Sjálfstæðisflokkinn sem er ósamstarfshæfur vegna spillingarmála. Þá þurfum við að ná saman við aðra fyrir kosningar um hvernig stjórnarskrármálinu verði komið í heila höfn, svo að því megi treysta að ný ríkisstjórn ljúki því lykilverkefni.

(meira…)

Íslensk tungutækni

blog

Á degi íslenskrar tungu er fagnaðarefni að íslensk málnefnd hefur veitt viðurkenningar fyrir tungutækniverkefni. Þær hlutu Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins, og Jón Guðnason og Trausti Kristjánsson, kennarar og vísindamenn við Háskólann í Reykjavík.

Allir hafa þeir unnið mikilvægt starf í tungutækni, sem breytir stöðu íslenskrar tungutækni og íslenskrar tungu. Íslenskan hefur fram að þessu verið eftirbátur annarra tungumála á þessu sviði.

Verðlaunahafarnir hafa einnig unnið starf sem kemur blindum og sjónskertum Íslendingum að miklu gagni og veitir okkur svipaða möguleika til að nota nýjustu tölvutækni og aðrar þjóðir búa við.

Blindrafélagið kynnti fyrr í ár nýjan íslenskan talgervil. Það er hugbúnaður sem breytir texta í tal. Hann gjörbreytir möguleikum til að nota símtæki, tölvur og tölvustýrðan búnað eins og hraðbanka.

Talgervillinn byggist á stórum íslenskum málgagnasöfnum og vandaðri greiningu á framburði íslenskrar tungu. Íslensk málnefnd veitir Kristni Halldóri viðurkenningu fyrir hans ötula starf að þessu verkefni.

Í Háskólanum í Reykjavík voru Jón og Trausti lykilmenn í því að nýr talgreinir fyrir íslensku, sem hægt er að nota í farsímum með Android-stýrikerfinu, varð að veruleika í lok sumars.

Talgreinir er hugbúnaður sem skilur talað mál og getur framkvæmt skipanir sem eru settar fram í töluðu máli. Hann gerir m.a. mögulegt að tala við símann sem þá breytir töluðu máli í texta fyrir leit eða sms-skilaboð. Þetta er búnaður sem hefur lengi verið til fyrir ensku og ýmis önnur tungumál. Nú er hann einnig til á íslensku.

Talgervillinn og talgreinirinn eru auðvitað mjög mikilvæg tækni fyrir okkur blinda og sjónskerta. Til þessa höfum við notað frumstæðar, íslenskar tölvuraddir sem ekki ganga með nýjustu farsímum og fleiri tækjum sem nú eru hluti daglegs lífs. En fyrst og fremst er þetta starf Blindrafélagsins og Háskólans í Reykjavík mikilvægt fyrir vöxt og viðgang íslenskrar tungu.

Til þess að rækta íslenskuna sem okkar samskiptamál í framtíðinni verðum við að fylgja þróun tækninnar á þessu sviði þannig að bíllinn, síminn, tölvan og tækin öll tali og skilji íslensku eins og önnur tungumál.

 

(Birtist í Fréttablaðinu 16. nóvember)

60 ára afmælisþing Norðurlandaráðs

blog

Í dag hefst Norðurlandaráðsþing í Helsinki, helsti viðburður norrænnar samvinnu ár hvert. Norðurlandaráð á 60 ára afmæli í ár og því ber að fagna þar sem ráðið er í lykilhlutverki við að bæta hag almennings á Norðurlöndum með frumkvæði um norrænt samstarf. Verkefnin eru á ýmsum sviðum, á sviði efnahagsmála, menningar- og menntamála, borgara- og neytendamála, umhverfismála, og í síauknum mæli á sviði alþjóðamála.

Norðurlandaráðsþingið er einstakt að því leyti að þar eiga sér stað umræður milli ráðherra allra Norðurlandanna við þingmenn frá öllum löndunum. Í ár verða sérstakar umræður ríkisstjórnaleiðtoga landanna og stjórna Færeyja, Grænlands og Álandseyja um efnahagslegar og aðrar áskoranir norrænna velferðarkerfa. Þá verða umræður með þátttöku norrænu utanríkisráðherranna um alþjóðamál og öryggis- og varnarmál, og ráðherrar norrænna samstarfsmála svara óundirbúnum munnlegum fyrirspurnum þingmanna.

Landamærahindranir, þ.e. reglur og venjur innan stjórnsýslunnar sem hindra för og starf einstaklinga og fyrirtækja milli Norðurlanda skv. norrænum samningum, hafa verið í brennidepli í starfi Norðurlandaráðs á árinu og verða það einnig á Norðurlandaráðsþinginu. Í apríl fóru fram samtímis í norrænu þjóðþingunum umræður um landamærahindranir þar sem rauði þráðurinn í umræðunum var hvernig koma mætti í veg fyrir myndun hindrana við lagasetningu og innleiðingu ESB-gerða. Fyrir Norðurlandaráðsþinginu í Helsinki liggur tillaga um að styrkja lagalega stöðu norræns almennings samkvæmt norrænum samningum með norrænum umboðsmanni. Ætlast er til að norrænir borgarar sem telja sig rekast á landamærahindranir milli Norðurlanda geti leitað til umboðsmanns, auk þess sem hann ráðlegði Norrænu ráðherranefndinni, norrænum ríkisstjórnum og norrænum þjóðþingum um hvernig komast megi hjá myndun nýrra stjórnsýsluhindrana við lagasetningu og innleiðingu ESB-gerða.

Í tengslum við Norðurlandaráðsþingið verða einnig afhent verðlaun Norðurlandaráðs en þess má geta að tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2012 hlýtur íslenska tónskáldið Anna Þorvaldsdóttir fyrir verk sitt Dreymi.

(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu þann 30. október 2012.)