Merki: ‘velferð’

Húsnæðismál ungs fólks í forgang

Myndbönd


 

Unga fólkið núna er fyrsta kynslóðin sem býr við lakari kjör en kynslóðirnar á undan.

Ástandið á húsnæðismarkaðnum og kjör þeirra á vinnumarkaði eru að skapa þeim erfiðari skilyrði heldur en við sem á undan vorum höfðum.

Sem jafnaðarmenn þá þurfum við að taka á þessu og ekki síst húsnæðismál unga fólksins verða að vera í algjörum forgangi á nýju kjörtímabili.

Ríkisstjórn góða fólksins

Blaðagreinar

Merkileg tímamót hafa orðið í stjórnmálum í sumar. Stór þingmeirihluti hægri manna hefur sjálfur gefist upp, stytt eigið kjörtímabil og boðað til kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur klofnað því kjósendur hans og þungavigtarfólk unir ekki afturhaldssemi og einangrunarhyggju sem þar hefur orðið ofan á og kallar á Viðreisn. Forystukonur þriggja flokka, Samfylkingar, Pírata og VG, hafa útilokað samstarf við Sjálfstæðis­flokkinn að loknum kosningum. VG hefur tekið vel í uppboðsleið í kvótamálum, sem verið hefur stefna Samfylkingarinnar og nú einnig Pírata.

Tækifæri
Í þessu felast gríðarleg tækifæri til málefnalegra framfara í landinu. Fyrst og fremst felast þau í kosningunum sjálfum og þeim skýru valkostum sem þar verða. Annars vegar framhald núverandi stjórnarstefnu með ríkisstjórnarflokkunum, hins vegar öfl sem eiga sameiginleg fjölmörg hugsjónamál um gjörbreyttar áherslur. Þó flokkar í framboði geti orðið margir og stjórn fjölflokka skrifar málefnaskráin sig nánast sjálf.

Stóru málin
Efling Landspítala og annarrar opinberrar heilbrigðisþjónustu, ásamt takmörkunum á kostnaði sjúklinga, verður stærsta málið. Stóraukið framboð af góðu húsnæði á sanngjörnum kjörum fyrir ungt fólk kemur þar næst og knýjandi þörf er á ný fyrir félagslegar lausnir í húsnæðismálum. Þriðja stóra velferðarverkefnið verður einföldun almannatrygginga og trygging fyrir því að öryrkjar og aldraðir njóti sömu kjarabóta og aðrir á sama tíma.

Þetta eru fjárfrek verkefni og þess vegna sérstakt fagnaðarefni ef samstaða er að takast milli stjórnarandstöðuflokka um að ríkið fái eðlilegar tekjur af auðlindum landsins með uppboðum, því auknar tekjur þar geta staðið undir miklu. Auk þess er augljós tekjuöflun af ferðamönnum og allra ríkasta fólkinu í landinu svo misskipting hætti að aukast.

Góðu málin
Fleiri mál eru hins vegar mikilvæg en þau fjárfreku. Stjórnarskráin, friðlýsing miðhálendisins, bætt samkeppnisstaða skapandi greina, græna hagkerfisins og annarra vaxtarsprota atvinnulífs, þjóðar­atkvæðagreiðslur, fullgilding mannréttindasáttmála, afnám málþófs á Alþingi, o.s.frv. o.s.frv. Hér verður listin sú að takmarka sig því það er grundvallaratriði ef við náum saman meirihluta að hann ætli sér ekki um of.

Til þess að fullkomna trúverðugan valkost við núverandi stjórn væri brýnt að segja fólki sem fyrst hvaða verkefni önnur en stóru velferðarmálin verða í forgangi. Að önnur mál séu ekki í forgangi þýðir ekki að þeim verði ekki hreyft. Fjölmörg mál eru einfaldlega þannig að ekkert veitir af heilu kjörtímabili til að undirbúa þau. Enda löngu tímabært að við hugsum til lengri tíma en eins kjörtímabils í senn.

Skýrir valkostir
Þó ég vilji sameina flokka þarf það ekkert að vera verra að hafa þriggja eða fjögurra flokka stjórn en tveggja. Undanfarin kjörtímabil hefur sýnt sig að stórir þingflokkar eru margklofnir, húsbóndavald lítið og ráðherrar valdaminni en var. Tal um einingu tveggja flokka stjórna er í besta falli lélegur brandari eftir tvö síðustu kjörtímabil. Hitt væri eftirsóknarvert ef Píratar, Samfylking, VG og jafnvel fleiri framboð gætu haft sameiginlegar áherslur fyrir kosningar um verkefnaskrá næsta kjörtímabils. Því kjósendur eiga skilið skýrari valkosti.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu 1. september 2016.

Sýnum í verki

Blaðagreinar

Þegar þrír af fjórum kjósendum flokks hætta að styðja hann snýst það ekki um umbúðir heldur innihald, um stefnu og trúverðugleika. Til að snúa vörn í sókn dugar ekki að tala. Samfylkingin þarf að gera.

Við þurfum að skapa traust með því að segja afdráttarlaust að við munum ekki mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum bak kosningum. Hann er ósamstarfshæfur vegna spillingarmála og hefur heitið því að standa gegn öllum kerfisbreytingum. Það er þess vegna sjálfsagt að eyða efasemdunum sem urðu til 2007 með því að ákveða strax að kjósi fólk okkur fær það ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Stjórnarskrármálið er líka stórt trúverðugleikamál. Við eigum strax að semja við aðra stjórnarandstöðuflokka um hvernig það verði klárað að kosningum loknum. Svo við getum með sanni sagt að við höfum fylgt þessu lykilmáli í baráttunni gegn spillingu og fyrir lýðræði alla leið. Það sé þegar umsamið og lýst því með hvaða hætti því verði lokið.

Þá eigum við að ná stjórnarandstöðunni saman um fá en skýr sameiginleg loforð sem verði að veruleika fáum við til þess meirihluta. Fá en skýr – til að skapa traust á því að þeim megi ná.

Við þurfum líka að henda ýmsum áherslum sem urðu til í bólunni. Sækja nýjan kraft í grunngildi jafnaðarstefnunnar. Almennt opinbert heilsugæslukerfi og opinber spítali sem ekki sligar fólk með gjöldum. Félagslegar lausnir í húsnæðismálum eins og við byggðum upp á síðustu öld, svo sem verkamannabústaðir, kaupleiga og húsnæðissamvinnufélög. Evran er besta langtímalausnin en við verðum að horfast í augu við að hún er ekki jafn nærtæk og áður var. Þess vegna þurfum við að kynna miklu eindregnari stefnu gegn óhóflegum bankakostnaði og okurvöxtum þangað til evran fæst.

(meira…)

Framtíðarstjórnin

Blaðagreinar

Samfylkingin var stofnuð til þess að hugsjónin um jöfnuð, frelsi og samábyrgð yrði sterkt afl í íslensku samfélagi. Hvort sem flokkurinn hefur mælst stór eða lítill hef ég talað fyrir samstarfi við önnur félagshyggjuöfl. Því að það þarf meirihluta til að stjórna.

Til að kjósendur hafi skýran valkost er samstaða stjórnarandstöðuflokkanna mikilvæg fyrir komandi kosningar. Það á ekki að bjóða kjósendum upp á baktjaldamakk eftir kjördag. Samfylkingin á að segja skýrt að atkvæði greitt flokknum sé atkvæði með samstarfi við félagshyggjuflokka en ekki við Sjálfstæðisflokkinn sem er ósamstarfshæfur vegna spillingarmála. Þá þurfum við að ná saman við aðra fyrir kosningar um hvernig stjórnarskrármálinu verði komið í heila höfn, svo að því megi treysta að ný ríkisstjórn ljúki því lykilverkefni.

(meira…)

Þingræða: Hvers vegna þetta fálæti um málefni fatlaðra?

Þingræða

Virðulegur forseti. Fatlað fólk er ekki í forgangi hjá ríkisstjórninni. Hún hefur núna skilað forgangslista sínum og þar er hvorki að finna fullgildingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks né innleiðingu á tilskipunum Evrópusambandsins um bann við mismunun. Eiga þau mál þó að vera til.

Tilskipun um bann við mismunun tók gildi í Evrópusambandinu árið 2000. Nú eru liðin 16 ár án þess að þau réttindi fatlaðs fólks hafi verið lögfest á Íslandi. 153 ríki veraldarinnar hafa fullgilt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem aftast standa í þessu efni. Við erum eitt af fjórum ríkjum í Evrópu sem ekki hafa tryggt réttindi fatlaðs fólks samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Hverju sætir þetta fálæti? Hvers vegna eru málefni fatlaðs fólks ekki á forgangslista ríkisstjórnarinnar? Þau liggja fyrir, þau eru til, það þarf ekkert að gera nema koma með þau hingað inn og samþykkja þau. En við finnum forgangsmál um timbur og timburvörur, virðulegur forseti. Já, og við finnum evrópskar tilskipanir frá árinu 2013 þegar málefni atvinnulífsins eru annars vegar af því að þau eru í forgangi.

Ég skora á þingmenn úr öllum flokkum sem vilja vinna að réttindum fatlaðs fólks að mótmæla forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og gera það að kröfu úr öllum þingflokkum að sjálfsögð mannréttindi fatlaðs fólks, sem lögfest hafa verið um alla Evrópu og sem þrír fjórðu hlutar (Forseti hringir.) af öllum ríkjum veraldarinnar hafa þegar fullgilt, verði líka látin taka gildi á Íslandi.


Ræða flutt í umræðum um störf þingsins 29. apríl 2016.

Þegar skorið var undan Alþingi

Blaðagreinar

Forsætisráðherra reynir nú að láta landsmenn ræða hvar Landspítalahúsið eigi að vera, svo þeir hætti að ræða lélegan aðbúnað á spítalanum, biðlista eftir heilbrigðisþjónustu, fjárskort og óhóflegan kostnað sjúklinga. Því elsta smjörklíputrix í heimi er að láta Íslendinga rífast um staðsetningu á húsi, svo það sem máli skiptir gleymist sem er innihaldið.

Þegar byggja átti þinghús 1879 vildu menn reisa það á Arnarhóli. Landshöfðingi hafði sérhagsmuni af beit kúa á Arnarhólstúninu og hafnaði. Þá tóku þeir grunn í Bankastrætisbrekkunni, en var svo sagt sem var að það væri ómöguleg staðsetning. Þrátt fyrir aðvaranir var þá tekinn grunnur þar sem bílastæði er nú við Vonarstræti. Sá fylltist af vatni eins og spáð hafði verið. Byggðu menn því það Alþingi sem nú stendur beint fyrir framan hitt húsið í bænum, Dómkirkjuna. Þá höfðu glatast svo miklir fjármunir í rifrildinu öllu að neðsta hæðin var skorin af Alþingishúsinu í sparnaðarskyni.

Látum það ekki líka henda Landspítalann.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars

Tilkynning um formannsframboð

Samfylkingin

Með eftirfarandi bréfi kynnti ég Samfylkingarfólki í síðustu viku formannsframboð mitt:

Kæri félagi,

Samfylkingin þarfnast breytinga. Samfylkingarfólk hefur krafist landsfundar og formannskjörs sem framkvæmdastjórn hefur ákveðið að flýta til vors. Formaðurinn sendi flokksmönnum bréf þar sem hann segir að þessi alvarlega staða hafi skapast á löngum tíma og sé á sameiginlega ábyrgð okkar. Þar er tæpt á mistökum sem við getum verið sammála eða ósammála um í einstökum atriðum en ég fagna því tækifæri sem skapast hefur til opinnar umræðu í flokknum um þessi mál og mörg fleiri.

Mistök eru til þess að læra af. Kreppa stjórnmála og ekki síst okkar jafnaðarmanna er ekki séríslensk þótt hún djúp sé hér. Hún er sprottin af þeirri tilfinningu fólks að peningaöflin ráði, stjórnmálamenn séu í stjórnmálum bara sjálfs sín vegna og flokkarnir svíki gefin loforð.

(meira…)