Það er skrýtið að sumir einlægir Evrópusinnar taki að sér málsvörn fyrir hina séríslensku verðtryggingu og verða fyrir vikið eins og talsmenn þess vaxtaokurs sem hún er hluti af og einkennir íslensku krónuna. Þó erum það einmitt við Evrópusinnarnir sem berjumst fyrir raunverulegri framtíðarlausn til að lækka hér vexti verulega. Skilaboð mín til Samfylkingarfólks í þessu efni eru skýr. Við verðum að hætta að halda því fram að allt verði áfram og óhjákvæmilega dýrt og ósanngjarnt þangað til við fáum evruna. Við verðum að breyta stefnu okkar afdráttarlaust, ráðast að vaxtaokri og hafa svör við því hvað við ætlum að gera í peningamálum þangað til evran kemur. Við eigum að skilja sundur fjárfestingar- og viðskiptabanka, brjóta upp fákeppni, draga úr kostnaði og greiða fyrir samkeppni, auka aðhald með því að minnka vægi verðtryggingar, setja skorður við þjónustugjöldum o.fl. o.fl. Því þó við höfum eygt von um hraða inngöngu í annað myntsvæði í neyðarástandinu 2008 þá er nú ljóst að það mun taka tíma að komast í evruna. Þangað til þurfum við að hafa pólitík í stað þeirrar nauðhyggju að ekkert verði að gert þangað til.